17.10.2020 | 15:44
STARBAKKI
Starbeck (Starbakki) heitir þorp eitt í Norður-Jórvíkurskíri, nú úthverfi af Harrogate. Nafn þorpsins er norrænt að uppruna og er dregið af stargresinu á sef-vöxnum bökkum lækjarins sem rennur um svæðið. Harrogate er líklega einnig norrænt og var upprunalega Hörgagata. Á Englandi sem annarsstaðar tíðkaðist löngum að kenna fólk við fæðingarstaði þess og til varð ættarnafnið Starbeck sem síðan með að breyta einum staf varð að Starbuck.
Um miðja 17 öld gerðist Starbuck fjölskyldan Kvekarar. Nafnið kvekari (dregið af orðinu quake, sem merkir að skjálfa) kom til þar sem meðlimir hreyfingarinnar þóttu oft skjálfa af geðshræringu þegar þeir vörðu skoðanir sínar og þar sem George Fox sagði eitt sinn þegar hann var kallaður fyrir dómara: Skjálfið fyrir Guðs dómi. Hreyfingin varð þó um margt illa séð í bresku samfélagi og margir þeirra fluttust búferlum til Ameríku, þar á meðal Starbakka-fjölskyldan. Hún settist á Nantucket eyju stutt frá Cape Cod og hóf að leggja stund á hvalveiðar, aðalatvinnugrein eyjarinnar. Fyrr en varði urðu Starbakkamenn stórtækir og frægir hvalveiðimenn.
Árið 1851 kom út bók eftir Herman Melville. Hún fjallaði um hvalveiðiskipið Pequod, sem gert var út frá Nantucet eyju. Herman sem sjálfur hafði verið hvalveiðimaður, þekkti vel til Starbakkamanna og til heiðurs þeim ákvað að nefna fyrsta stýrimann Pequod, Starbuck.
Til að byrja með varð bókin Moby-Dick ekki sérlega vinsæl. Flestir, einkum þó Bretar skildu hvorki upp né niður í bókinni, ef til vill vegna þess að í fyrstu bresku útgáfu hennar vantaði síðasta kaflann.
Í byrjun tuttugustu aldar komust bækur sem enginn botnað í, í tísku, sérstaklega í Ameríku. Allar götur sían hafa amerískir skólakennarar keppst við að troða þessari dreyra roðinni sögu í börn og unglinga. Enskukennari einn að nafni Jerry Baldwin var sérlega hrifinn af bókinni.
Þegar Jerry og tveir félagar hans ákváðu að setja á laggirnar kaffihús, vissi hann nákvæmlega hvað hann vildi nefna það.....Pequod!! - Félagar Jerry voru ekki eins hrifnir. Fyrstu stafirnir í orðinu minntu á vökva sem vart þótti drekkandi (Pe-pee-piss) og gæti því orðið þeim til trafala í markaðssetningunni. Hugmynd Jerry var því varpað fyrir róða og leit hófst að öðru kunnuglegra nafni. - Á korti af heimaslóðum þeirra fundu þeir gamalt námuþorp sem nefnt var Camp Starbo. Þeim leist vel á þetta nafn, en Jerry var ekki af baki dottinn og lagði til að þeir kölluðu kaffisöluna Starbuck eftir stýrimanninum á Pequod.
Þannig varð hversdagslegt staðarheiti, nefnt af þreyttum víkingi sem lagði sig niður á lækjabakka á Englandi til að hvíla sig, að einu þekktasta vörumerki í heimi.
Ef til vill hefðu Jerry og félagar hans ekki orðið eins hrifnir af nafninu, ef þeir hefðu munað eftir því að sagan af Moby-Dick er byggð á raunverulegum atburðum sem áttu sér stað þegar að fjöldi hvalveiðiskipa á Kyrrahafi, reyndu að granda hvítum hval sem nefndur var Mocha-Dick.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Dregur það ekki úr viðskiptum, að kenna fyrirtæki við hvalveiðimenn sem tóku þátt í að útrýma hvalategundum? Kannski er það möguleiki í Cóviðinu að kenna kaffikeðju á Íslandi við Kristján Loftsson? Ekki er hægt að kalla keðjuna Stjána bláa - þá verður öskrað um "blámenn". En alveg er ég handviss um að caffe sperma í stað caffe latte myndi vekja lukku og auka ferðamennsku til Íslands. Typpasafnið hefur þénað betur en Þjóðminjasafnið, svo caffe sperma er eftir að rokseljast.
FORNLEIFUR, 19.10.2020 kl. 05:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.