Að lifa í núinu

Margir vina minna hafa sagt við mig að það sé best að "LIFA Í NÚINU". Þeir eiga við að best sé að vera ekki að velta sér of mikið upp úr fortíðinni og hafa ekki of miklar áhyggjur af framtíðinni. Eða það held ég alla vega. Fyrst tók ég þá alvarlega og reyndi bókstaflega að lifa í núinu. Mér tókst það aldrei og ég efast stórlega um að það sé hægt því mín reynsla er að jafnskjótt og þú lifir núið er það orðið að fortíð. Og jafnvel þótt núin hrannist upp, nær vitund mín aldrei að skynja "núið" öðruvísi en fortíð. Þetta varanlega "nú" er ekki til í þessum heimi. Kannski í öðrum heimi eða heimum þar sem tíminn er ekki til. -

Nú, nú segja þá einhverjir, hvar er þá "best" að lifa?

nowVarla dugar að lifa í fortíðinni eða núinu sem, eins og ég sagði áðan er í raun hluti af fortíðinni. Þrátt fyrir það segja margir að einhverjir aðrir séu fastir í fortíðinni. Þetta er oft notað um allskonar afturhaldsseggi og rétttrúaða pólitíkusa og mannkynslausnara. Ég hef reyndar hitt fólk sem telur sig lifa á öðrum tímum en þeir í raun og veru gera, það er eins og við hin sjáum það, en það hefur aðallega verið fólk illa haldið af einhverjum hrörnunarsjúkdómum.

Það virðist segja sig sjálft að "best" sé að lifa í framtíðinni. Og ekki bara best, heldur eina mögulega lífið sé í henni. Dagurinn í dag er síðasti dagurinn í lífi þínu fram að þessu. Jafnskjótt og núið kemur er það orðið að fortíð. Þnnig má segja að best sé að lifa í framtíðinni, því það sem ég á eftir af lífi verður eitt þar um slóðir. Að auki býður framtíðin upp á miklu meiri möguleika en fortíðin, alla vega á persónulegu nótunum, sem eru jú einu nóturnar sem skipta máli. Ég get velt fyrir mér hvernig heimurinn verður eftir 4000 ár, gert áætlun um að skrifa lærðar bókmenntir á næstu 10 árum og hvað ég ætla að hafa í matinn annað kvöld. Möguleikarnir virðast endalausir og eru það alveg þangað til að þetta bölvað nú takmarkar þá og setur þá inn í fortíðina.

Framtíðin er sem sagt málið. Allt sem hér er skrifað tilheyrir núna fortíðinni, bæði þinni og minni lesandi góður og því fer vel á því að það sé skrifað í sand hinnar iðandi eyðimerkur sem internetið er. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Eins og talað úr mínu hjarta.

Theódór Gunnarsson, 17.7.2015 kl. 10:44

2 identicon

Ég veit ekki hverjir vinir þínir eru Svanur eða hvaða hugmyndir þeir hafa um núið, en eitthvað sýnist mér hugmyndin fleyta kellingar og túlkunin nær ekki kjarna málsins. Að lifa í núinu snýst um að vakna andlega og vera meðvitaður um það öllum stundum hver við erum í heildarsamhengi alheimsvitundarinnar. Að lifa till fulls hverja stund, í allri þeirri dýpt sem hvert augnablik hefur að bjóða og njóta þeirra leyndardóma sem í lífinu felast. Að lifa í núinu snýst um að upplifa tímaleysi eilífðarinnar og upplifa samhengi alls í augnablikinu. Að lifa í núinu snýst í raun um að lifa í djúpri andlegri vitund hverja stund, í hugleiðslu, bæn, beiðni og þakkargjörð og vera meðvitaður um það sem er og sleppa takinu á því sem villir sýn. Að lifa í núinu snýst um að þekkja Guð og ganga með Guði hvert augnablik lífsins. Eckhart Tolle lýsir þessu ágætlega hér: https://www.youtube.com/watch?v=PkgNIJLpBEI

Guggap (IP-tala skráð) 17.7.2015 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband