3.8.2013 | 21:22
"Og hvað gefið þið lundunum að borða"?
Þeir sem starfa við ferðaþjónustu skemmta sér stundum við að segja sögur af viðskiptavinunum. Það er t.d. sagt um rútubílstjóra að þeir tali aldrei saman, heldur segi bara hverjum öðrum sögur. Reyndar held ég að þetta eigi við um leiðsögumenn líka. Rútubílstjórar geta þó alla vega talað endalaust um ákveðið efni; rútur og aðra bíla. Þá er eins gott fyrir menn að hafa vit á málunum og þá sem ekki hafa það, að halda sig til hlés. - Það geri ég alla vega.
Sögurnar spinnast oft um ákveðið þema og verða að einskonar pissukeppni um svæsnustu frásögnina. Fáfræði útlendinga um land og þjóð og kjánalegar spurningar þeirra, eru eitt vinsælasta söguefnið.
Á nokkuð löngum starfsferli sem leiðsögumaður hef ég fengið minn skammt af kjánalegum spurningum, jafnvel þótt tekið sé með í reikninginn að viðkomandi viti nánast ekkert um landið.
"Hvaða haf er þetta"? (Spurði farþegi á ferð um Reykjanesskaga um leið og hann benti út á sjóinn. Viðkomandi hafði komið til landsins á skemmtiferðaskipi)
"Og hvað gefið þið lundanum að borða"? (Spurði bandarísk kona um leið og hún horfði upp í lundabyggðina í Heimakletti í Vestmannaeyjum)
"Þessi norðurljós eru ekki eins og ég hef séð á myndum. Geturðu gert þau skærari"? (Spurt í fullri alvöru af ítölskum farþega í norðurljósaferð)
"Eru Íslendingar ekki allir hlynntir hlýnun jarðar, að þurfa að lifa ætíð við þetta veður."? (Spurt í roki og rigningu á Þingvöllum)
"Það hlýtur að hafa verið rosalega kalt í nótt fyrst það er snjór á veginum. Mér var sagt að allir vegir landsins séu upphitaðir" (Fullorðin Bandaríkjamaður að leggja upp í Gullna hringinn frá Reykjavík)
"Hvað gerir fólk eiginlega af sér í skammdeginu þegar engin er dagsbirtan"? (Spurt af bandarískum unglingi á ferð um landið að sumarlagi)
"Trúa allir Íslendingar að allir í hljómsveitinni Sigur Rós séu álfar"? (Breskur strákur í skólaferð um Suðurlandið)
"Er það satt að meira en 40% af íslensku þjóðinni sé samkynhneigður"? (Hollensk stúlka sem var að hugsa um að fá sér vinnu á bóndabæ á Íslandi)
"Hvar er Gullni hringurinn"? (Spurði ungur maður staddur á bílastæðinu hjá Geysi í Haukadal)
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkur: Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 23:47 | Facebook
Athugasemdir
Haha þessir eru góðir, en umhugsunarverðir líka.
Eyjólfur Jónsson, 4.8.2013 kl. 11:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.