Rífið Þorláksbúðarhúsið

skalholt_jpg_800x1200_sharpen_q95Það er fátt pínlegra fyrir leiðsögumenn á ferð um Suðurland en að þurfa gefa ferðafólki skýringu á hinu svo kallaða Þorláksbúðarhúsi sem stendur við hliðina á Skálholtskirkju. Margir veigra sér við því og kjósa að láta sem þeir sjái ekki  bastarðinn.

Hvað á þessi sambræðingur af steinsteypu og torfi eiginlega að vera? Hvernig stendur á að hann er yfirleitt til?

Biskupinn segir frá 

Fyrrverandi Biskup Karl Sigurbjörnsson lýsir tilurð þessa hróatildurs svona;

17. september 2011

Fram hafa komið sterkar gagnrýnisraddir á framkvæmdir við uppbyggingu svonefndrar Þorláksbúðar í Skálholti. Spurningum þar að lútandi hefur verið beint til mín sérstaklega, sem ég vil leitast við að svara.

Um aldir hefur rúst Þorláksbúðar staðið í kirkjugarðinum og minnt á forna sögu og minningar. Skemma dómkirkjunnar, skrúðhús sem iðulega í aldanna rás var notuð sem dómkirkja þegar unnið var að endurbyggingu kirkjunnar.

350px-Skalholt_Church_in_Oct_2007Hugmyndir um uppbyggingu rústarinnar hafa oft komið fram, þar á meðal í nefnd um uppbyggingu Skálholts sem skilaði áliti 1993. Þar segir: „Þorláksbúð er forn tóft norðan við kirkjuna. Hlutverk búðarinnar til forna er ekki þekkt með vissu. Til álita kemur að endurbyggja Þorláksbúð þannig að hún mætti hvort tveggja endurspegla forna byggingargerð og nýtast í tengslum við kirkjulegar athafnir.”

Séra Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup, sem var í nefndinni, hafði mikinn áhuga á þessu verkefni, enda var minning Þorláks biskups honum hugleikin. Beitti hann sér fyrir stofnun Þorláksbúðarfélags fyrir nokkrum árum, ásamt með Árna Johnsen, alþingismanni, og Kristni Ólasyni, rektor Skálholtsskóla.

skalholt_budÁ þessum tíma var starfandi sérstök stjórn fyrir Skálholt, skipuð af kirkjuráði, en formaður hennar var sr. Sigurður. Aðrir stjórnarmenn voru tveir þáverandi kirkjuráðsmenn sr. Kristján Björnsson og Jóhann E. Björnsson.

Stjórn Skálholts sannfærði kirkjuráð um að uppbygging Þorláksbúðar nyti almenns stuðnings og að tilskilin leyfi lægju fyrir, og að fjármögnun verkefnisins væri tryggð. Á þeim grundvelli veitti kirkjuráð samþykki sitt.
Ég vissi t.d. ekki betur en handhafar höfundarréttar Skálholtskirkju hefðu gefið leyfi sitt.

Þorláksbúðarfélagið hefur borið hitann og þungann af verkefninu. Kirkjuráð og biskup Íslands bera samt sem áður hina endanlegu ábyrgð á öllum framkvæmdum í Skálholti, og geta ekki vikist undan því. Kirkjuráð mun nú ræða þessi mál og bregðast við þeirri gagnrýni sem fram hefur komið.

Skálholt skipar dýrmætan sess í vitund þjóðarinnar. Mikilvægt er að sátt og friður ríki um uppbyggingu staðarins og það starf sem þar fer fram. Ég vil þakka alla velvild og hlýhug í garð Skálholts sem m.a. kemur fram í málflutningi þeirra sem láta sér ekki á sama standa um ásýnd og virðingu staðarins.

Hver átti hugmyndina

Eins og fram kemur í máli biskups er Þorláksbúð fyrst og fremst hugarfóstur þriggja manna,þeirra séra Sigurðar Sigurðarsonar, Kristins Ólasonar, rektor Skálholtsskóla og Árna Johnsen alþingismanns, einu meðlimir hins svo kallaða Þorláksbúðarfélags. Fyrir tilstilli séra Sigurðar tekst að sannfæra Kirkjuráð um að mikill stuðningur sé fyrir málinu og það gefur grænt ljós. En eins og kom í annað og skærara ljós nokkru síðar var sá stuðningur orðum aukin svo ekki sé meira sagt.

Hver var tilgangurinn

Þegar að fyrirhugaðar byggingaframkvæmdir voru kynntar almenningi í fyrsta sinn sagði Kristinn Ólason Skálholtsrektor kotroskinn í samtali við Sunnlenska fréttablaðið að Þorláksbúð mundi auka möguleika staðarins á að miðla fortíð Skálholts til gesta sinna. „Þar verði sett upp einfalt altari og jafnvel klukka. Þannig megi samræma sýningu á Þorláksbúð við nýtingu hennar fyrir litlar athafnir, s.s. samverustundir og kyrrðarsamveru.“

En hvernig stendur þá á því að bygging sem átti að "endurspegla forna byggingargerð og nýtast í tengslum við kirkjulegar athafnir” varð að tákni ósættis, ósanninda og eindæma smekkleysu?

Um leið og ljóst var að Þorláksbúðarfélaginu var full alvara að hefja framkvæmdir og hafði m.a. tryggt sér hluta framkvæmdafjárins frá íslenska ríkinu og verið á fjárlögum þess frá 2008 og með framlögum frá Þjóðkirkjunni, komu fram öflug andmæli.

Húsfriðunarnefnd

Húsfriðunarnefnd setti sig strax upp á móti byggingunni og reyndi að beita skyndifriðunarákvæðum til að stöðva framkvæmdirnar. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra ákvað hinsvegar að rifta friðuninni sem varð til þess að  Hjörleifur Stefánsson, formaður húsafriðunarnefndar, sagði af sér vegna óánægju með ákvörðun hennar.

skalholt01Rök Húsfriðunarnefndar voru m.a. „Við viljum ekki meina að þetta sé tilgátuhús, af því að þetta er stærri bygging og það hefur ekki farið fram rannsókn á því hvernig hús stóð á þessum stað. Að auki, þegar tilgátuhús eru reist, þá er það yfirleitt ekki byggt ofan á viðkomandi fornleifum heldur í einhverri fjarlægð, til að raska ekki rústunum,“

Árni Johnsen nú formaður Þorláksbúðarfélagsins svaraði þessu fullum hálsi;

Það er Fornleifanefnd Íslands sem hefur yfir rústum landsins að gera,“ segir Árni við mbl.is. “Fornleifanefnd Íslands hefur svigrúm innan ákveðinnar fjarlægðar frá hverri rúst. Þessi rúst er búin að vera í aldir en Skálholtskirkja er 50 eða 60 ára gömul. Ég tel að Fornleifavernd, byggingarnefnd og kirkjuráð ráði þessu varðandi Þorláksbúð. Við erum ekki neitt að fást við Skálholtskirkju eða Skálholtsskóla. Nánasta umhverfi er líka háð öðrum reglum. Þar býr fornleifaverndin við mjög ákveðnar reglur. Mig minnir að það séu 20 metrar frá hverri rúst, sem er þeirra valdsvið.“

Skipulagsstofnun 

Islav_von_Skalholt2Þessi  umdeilda bygging yfir rústir Þorláksbúðar í Skálholti varð einnig til að vekja deilur um gildandi deiliskipulag á staðnum og  hvort sveitarstjórn Bláskógabyggðar hafi verið heimilt samkvæmt gildandi deiliskipulagi að gefa út byggingarleyfi fyrir húsið sem reist var á rústunum.

Forstjóri Skipulagsstofnunar, hefur látið hafa það eftir sér að sú ákvörðun stofnunarinnar að deiliskipulagið í Skálholt sé ekki gilt, standi. Byggingaleyfi fyrir Þorláksbúð sé því byggt á röngum forsendum því byggingarreitur fyrir Þorláksbúð hafi ekki verið til staðar.

Peningarnir og bókhaldið 

Þorláksbúðarfélagið hefur fengið níu og hálfa milljón króna frá ríkinu og eina og hálfa milljón frá þjóðkirkjunni. Þá hefur kirkjan nú samþykkt fjárveitingu upp á þrjár milljónir til viðbótar. Fyrr í sumar (2012) var haft eftir Árna að enn væri leitað eftir peningum til verksins því kostnaður við það hefði farið nokkuð fram úr áætlun. - Það er kunnuglegur hljómur í máli Árna.

Þegar kallað var eftir upplýsingum úr bókhaldi Þorláksbúðarfélagsins fyrr á þessu ári  sagði formaðurinn Árni Johnsen í samtali við Mbl.is að að fjármálahlið verkefnisins væri í höndum Skálholtsskóla og Skálholtsstaðar þrátt fyrir að hafa lýst því yfir áður að þeir væru "ekki neitt að fást við Skálholtskirkju eða Skálholtsskóla."

Í frétt um málið segir m.a.

Kirkjuráð fer með málefni Skálholts og Skálholtsskóla og framkvæmdastjóri Kirkjuráðs, Guðmundur Þór Guðmundsson, kannaðist í samtali við fréttastofu Rúv um helgina ekki við að bókhaldið væri í þeirra höndum. Í samtali við Mbl.is í dag sagði Guðmundur að stofnunin Skálholt hefði aldrei tekið bókhald Þorláksbúðarfélagsins formlega að sér, þótt starfsmaður hennar fari með prókúruna, og að málið virðist á misskilningi byggt.

Prókúran var upphaflega á nafni sr. Sigurðar Sigurðarsonar heitins í Skálholti, sem var formaður Þorláksbúðarfélagsins til skamms tíma við stofnun en lést í nóvember 2010. Þegar sr. Sigurður veiktist bað hann Hólmfríði Ingólfsdóttur, framkvæmdastjóra Skálholtsskóla, að taka við prókúrunni. Hólmfríður ítrekar hins vegar að stofnunin tengist málinu ekki. „Ég er þarna prókúruhafi í minni eigin persónu, þetta kemur Skálholtsstað ekkert við.“ Aðspurð segir Hólmfríður að fjárframlög ríkisins hafi verið lögð inn á bankareikning á kennitölu Þorláksbúðarfélagsins og þótt hún sé prókúruhafi sé bókhaldið alfarið hjá stjórn félagsins.

 

Hvað segja arkitektarnir 

Þetta var hvorki í fyrsta eða síðasta sinn sem ósannindi voru höfð eftir Árna í tengslum við þessa byggingu. Í fjölmiðlum áttu eftir að birtast yfirlýsingar þar sem rangfærslum og ósannindum sem höfð voru eftir Árna Johnsen var mótmælt. Á heimasíðu Arkitektafélags Íslands rekur Ormar Þór Guðmundsson arkitekt nokkrar rangfærslur sem réttlæta áttu smíði hinnar nýju Þorláksbúðar.

Sagan.

Fullyrt er:

Mbl.10. september 2011. Úr viðtal við Sr. Kristján Björnsson.

„…það var ekki talið þjóna tilgangi sínum að reisa húsið einhvers staðar annars staðar. Þorláksbúð tengist kirkjunni allt til 12. aldar og hefur mikið sögulegt gildi fyrir Skálholtsstað,“

 

Mbl. 19. september 2011. Úr grein eftir Árna Johnsen.

„…endurgerð Þorláksbúð verði lítill gullmoli í ranni Skálholts og eina byggingin sem tengist um 800 ára sögu frá því að Þorlákur helgi Skálholtsbiskup reisti búðina á 12. öld, hús sem í gegn um tíðina hefur ýmist verið skrúðhús, geymsla, kirkja og dómkirkja þegar þær stóru voru úr leik.“

 

Mbl. 23. september 2011. Úr grein eftir Árna Johnsen.

„Þorláksbúð er væntanlega byggð 120-130 árum eftir að fyrsti Skálholtsbiskupinn var vígður 1056.“

Mbl. 19. ágúst 2012. Úr grein eftir Árna Johnsen.

„…Þorláksbúðar er fyrst getið á 13. öld og hún kemur og fer á víxl eins og sagt er,…“

„…Elstu heimildir um hana eru frá 13. öld…“

Ofangreindar staðhæfingar eru rangar.

Hvorki ritaðar heimildir né fornleifarannsóknir gefa minnstu vísbendingu um að saga Þorláksbúðar sé eldri en frá þeim tíma er hún var byggð eftir bruna Árnakirkju árið 1527 eða 1532 skv. öðrum heimildum.

En hvaða heimildir geta um Þorláksbúð á 12. og 13. öld?  Getur hugsast að Kristján og Árni hafi aðgang að upplýsingum, sem sagnfræðingum og fornleifafræðingum hafa verið ókunnar. Ef svo er þá væri augljóslega fengur að því að fræðaheimurinn fengi líka aðgang að þeim.

Í bók Harðar Ágústssonar, Skálholt Kirkjur, segir: „Jón Egilsson lýsir því í stórum dráttum hvernig staðið var að uppbyggingu dómkirkjunnar eftir brunann.  Fyrsta verk Ögmundar biskups Pálssonar var að láta reisa bráðabirgðaskýli yfir messuhald, búðina eða kapelluna eins og húsið heitir í heimildum, seinna kallað Þorláksbúð. … Rústir hennar voru grafnar upp sumarið 1954. Hún hefur verið torfhús með timburstafni, snúið eilítið í norður frá vestri, um 14 m löng að utanmáli og um 8 m á breidd, en að innanmáli um 10,5 x 3,2 m. Frá því kirkjan var komin upp var búðin notuð sem skemma til loka 18. aldar…“  Jón þessi Egilsson ritaði biskupaannála og ritar Hörður á öðrum stað í bókinni: „Vitnisburður Jóns verður að teljast traustur.“

Sem fyrr segir voru rústir búðarinnar grafnar upp árið 1954 en árið 2009 varð aftur gerð könnun á búðinni á vegum Fornleifastofnunar Íslands.  Helstu niðurstöður þeirrar rannsóknar eru: „Könnunarskurðir 2009 staðfesta að grafið hefur verið innan úr tóftinni, eins og helst varð ráðið af dagbókarfærslum Hákon Christie (innskot: þátttakandi í rannsókninni 1954).  Þeir sýna einnig að leifar eru af eldri veggjum innan þeirra veggja sem nú má sjá á yfirborði, en þeir hafa að einhverju leyti verið lagaðir til eftir rannsóknina 1954.  Hafi Þorláksbúð verið í notkun í u.þ.b. 250 ár (frá ca 1530-1784) er ekki óeðlilegt að búast við fleiri en einni endurbyggingu.  Grafir eru um 0,4-0,6 m undir yfirborði, bæði inni í búðinni og utan hennar.  Einnig má gera ráð fyrir að grafir séu undir veggjum, slíkt kemur fram af dagbókarfærslum Christies og vitnar um notkun kirkjugarðsins áður en búðin var reist.  Við allar hugsanlegar framkvæmdir á þessum stað má því búast við fornleifum mjög nærri yfirborði.“

Allt tal um að Þorláksbúð „tengist kirkjunni allt aftur til 12. aldar“ eða að hennar sé „fyrst getið á 13. öld“ eða að Þorlákur helgi hafi „ reist búðina á 12. öld“, er einfaldlega ekki rétt.

Það eina sem tengir húsið við Þorlák biskup helga, sem var á dögum meira en 300 árum fyrr, er að það var nefnt eftir honum, Þorláksbúð.  Höfundi þessarar greinar er hins vegar ekki kunnugt um heimildir fyrir því hvernig þessi nafngift kom til.

Að halda því fram að vegna þessarar nafngiftar „tengist Þorláksbúð kirkjunni allt aftur til 12. aldar“ er hliðstætt því að segja að Gunnarsbraut í Reykjavík eigi tengsl aftur á söguöld af því að hún er nefnd eftir Gunnari á Hlíðarenda.

Húsið.

Fullyrt er:

Mbl. 23. september 2011. Úr grein eftir Árna Johnsen.

„Það hús sem búið er að byggja er algjörlega teiknað upp á sentímetra miðað við gömlu rústina, bæði hleðslan og timburbyggingin.“

Engar leifar af timbri fundust í rúst Þorláksbúðar né nokkur ummerki um legu þess.  Engar lýsingar né teikningar eru til af uppbyggingu hússins er dygðu til að endurgera það á trúverðugan hátt.  Það nægir ekki til þó sjá megi Þorláksbúð á vatnslitamyndum af Skálholti úr enskum Íslandsleiðöngrum frá 18. Öld. Athygli vekur reyndar að útlit nýrrar Þorláksbúðar er áberandi frábrugðið því útliti, sem þó má greina á þessum myndum. Miðað við þessar forsendur væri mikið afrek að teikna nýbygginguna á þann hátt, sem að ofan er getið, „…upp á sentimetra…“ enda fer það svo, að stærðarmunur rústarinnar og nýbyggingarnar hleypur á metrum en ekki sentímetrum.

Breidd nýju Þorláksbúðar er rúmlega 30% meiri en þeirrar gömlu.  Það er um 4,3 m í stað um 3,2 m.  Við þetta raskast stærðarhlutföll rýmisins verulega. Meðal byggingarefna, sem notuð voru í nýja Þorláksbúð eru bárujárn og steinsteypa. Húsið getur því ekki nýst sem tilgátuhús um gerð íslenska torfbæjarins.

Fram hefur komið að fyrirmynd nýju Þorláksbúðar sé sótt í skálann á Keldum á Rangárvöllum.  Sá skáli er talinn vera frá því um 1200, sem er um 300 árum áður en gamla Þorláksbúð var reist.

Að framansögðu er ljóst að um tómt mál er að tala um nýja Þorláksbúð sem endurgerð eða endurreisn þeirrar gömlu.

Frá sögulegu sjónarmiði eða sem tilgátuhús er gildi nýrrar Þorláksbúðar ekkert.  En húsið er að ýmsu leiti snoturt og vel gert.  Með því að flytja það á stað þar sem það spillti ekki útliti Skálholtskirkju og yfirbragði staðarins, mætti því vel nýta það sem einhvers konar „gamalt íslenskt hús“ til að gleðja ferðamenn, ekki síst útlenda.

Reykjavík 25.ágúst 2012

Ormar Þór Guðmundsson arkitekt

 

Höfundarrétturinn

Önnur mótmæli birtust í Morgunblaðinu frá Herði H. Bjarnasyni sendiherra vegna ummæla í fréttum í Morgunblaðinu um byggingu Þorláksbúðar við Skálholtskirkju:

Undirritaður sér sig knúinn til að leiðrétta ummæli talsmanna Þorláksbúðarfélagsins, sem birtust í Morgunblaðinu 9. og 10. september sl. Er þar fjallað um nýjar byggingaframkvæmdir á Skálholtsstað.

Í blaðinu þann 9. september er haft eftir Árna Johnsen vegna byggingar svonefndrar Þorláksbúðar á byggingarreit Skálholtskirkju að „sr. Sigurður heitinn hafi haft samband við Garðar Halldórsson, sem gætir höfundarréttar erfingja Harðar Bjarnasonar, arkitekts Skálholtskirkju“.

Þann 10. september er haft eftir sr. Kristjáni Björnssyni að framkvæmdin hafi verið kynnt öllum réttbærum aðilum og að „einnig var leitað samþykkis þeirra sem fara með höfundarrétt arkitekts kirkjunnar“.

Hvort tveggja er alrangt. Garðar Halldórsson gætir ekki höfundaréttar erfingja Harðar Bjarnasonar, undirritaðs og systur hans Áslaugar Guðrúnar. Aldrei var leitað samþykkis handhafa höfundarréttar og koma byggingaframkvæmdir á staðnum þeim eins og mörgum öðrum algerlega á óvart. Ekki verður annað séð en að nýbyggingin sé alvarlegt stílbrot og skaði ásýnd kirkjunnar verulega. Þetta hefði verið svar handhafa höfundarréttar ef eftir því hefði verið leitað.

Hörður H. Bjarnason

sendiherra

Árni Johnsen hefur mótmælt því að hægt sé að færa húsið á fyrirhafnarlítinn hátt og segir að það muni kosta stórfé í viðbót við það sem þegar hefur farið í bygginguna.

Kirkjuþingið 2012 

Á kirkjuþingi í ár var eftirfarandi tillaga borin fram af Baldri Kristjánssyni en henni var hafnað: 

Kirkjuþing 2012 lýsir þeim vilja að Þorláksbúð verði flutt vestur fyrir og niður fyrir Skálholtsdómkirkju. Þorláksbúðarfélaginu skal verkið falið jafnframt því að leita fjármögnunar á því.

Greinargerð.
Þorláksbúð er þeim sem höfðu forgöngu um byggingu hennar til mikils sóma og þá ekki síður smiðunum sem sáu um handverkið. Það er bara einn galli á gjöf Njarðar: Hún er reist á röngum stað og þar er væntanlega fyrst og fremst við skipulagsyfirvöld að sakast. Jafnmikið lýti og hún er á ásýnd Skálholtsstaðar nú yrði hún staðarprýði vestan við og neðan við kirkjuna. Vitaskuld kostar flutningurinn en þetta er betri kostur en að rífa Þorláksbúð. Annað hvort þarf að gera ella verður Þorláksbúð fyrst og síðast dæmi um skipulagsmistök og þeir sem að henni stóðu Þorláksbúðarfélagið og kirkjuyfirvöld eiga annað og betra skilið. Þorláksbúðarfélagið hefur sýnt sig í því að vera öflugt félag og er engin goðgá að fela því flutninginn.

Á kirkjuþingi í ár var eftirfarandi tillaga borin fram af Baldri Kristjánssyni en henni var hafnað:

Bjarna þáttur Harðarsonar 

Einkennileg er aðkoma Bjarna Harðarsonar bóksala á Selfossi að þessu máli. Hann reit á dögunum grein í Morgunblaðið þar sem hann tekur upp hanskann fyrir bygginguna og hvernig að henni var staðið.  Hann segir m.a.  að Árni Johnsen megi fullvel njóta sannmælis fyrir gott framtak í Skálholti og uppbygging staðarins á ekki að líða fyrir pólitískan pirring.
Áður hafði Bjarni lýst hug sínum til þessa framtaks með þessum orðum, enda er hann þjóðkunnur fyrir trúleysi.

Á þeim tíma sem bændur greiddu afgjald af jörðum sínum í búðinni, oftar en ekki í smjöri, þá bjuggu um 200 manns í Skálholti. Það þurfti því mikla útsjónarsemi, bæði í jarðyrkju og skattheimtu til að brauðfæða allt þetta fólk. Bændur voru nánast í ánauð, þetta var einskonar miðaldalén og talið er að sjálfstæði leiguliða frá Skálholti hafi verið minna en annarra leiguliða, enda þurfti bæði að hafa af þeim fé, yrkja jarðir þeirra og nýta vinnuaflið ef Skálholt átti að geta dafnað. En það er umhugsunarefni af hverju þessi tollheimtuskáli eða peningatankur síns tíma var hafður svona nærri kirkjunni sjálfri, þegar veraldlegt hlutverk hans er skoðað. Það er hægt að ímynda sér að það hafi verið einskonar þjófavörn, menn hafi síður lagt til til atlögu svona nærri guðshúsinu.

En sé það meining Bjarna að fólk sé pirrað út í Árna Johnsen vegna aðkomu hans að þessari byggingu á pólitískum forsendum, þá er Bjarna heldur betur farið að förlast. Ef horft er í aðkomu Árna að þessu máli er MUN LÍKLEGRA að pirringurinn í fólki sé tilkominn af öðrum ástæðum.

Lausnin
Það er því aðeins ein lausn á þessu máli í sjónmáli. Rífið húsið sem annars verður aðeins  minnisvarði um öll leiðindin sem þegar hafa orðið í tengslum við það og er í engu samhengi við það sem lagt var upp með.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Þú gleymir Svanur, að Fornleifavernd Ríkisins gerði þetta mögulegt og braut þau lög sem Fornleifaverndin á að vinna eftir.

Fólk getur lesið fjölmargar greinar mínar um þátt fornleifaverndar á Fornleifi um það. Leitið að orðinu Þorláksbúð á síðunni:

www.fornleifur.blog.is

Vitanlega á að rífa þessa sögufölsun og misskilning. Þorlák bastarð.

FORNLEIFUR, 22.11.2012 kl. 08:11

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Aðkoma Árna Johnsen að málinu, ein og sér, var nægjanleg til að valda tortryggni um verkið. Það sem upp hefur komið um undirbúning og vinnslu verkefnisins, eins og þú rekur Svanur, sýnir að tortryggni og efasemdir voru ekki úr lofti gripnar og síst orðum auknar.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 22.11.2012 kl. 10:02

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Rumpulýður í 101 R.Vík. heldur að hann geti með frekju og yfirgangi ráðið því, sem honum kemur ekkert við.Það er fólk í því sveitarfélagi sem Skálholt er í, sem á að ráða því sem þar er gert.Niður með afæturnar,frekjurnar og ókristinn rumpulýð á Höfuðborgarsvæðinu.

Sigurgeir Jónsson, 22.11.2012 kl. 20:13

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

"Skálholt skipar dýrmætan sess í vitund þjóðarinnar. Mikilvægt er að sátt og friður ríki um uppbyggingu staðarins og það starf sem þar fer fram."

Karl Sigurbjörnsson fv. biskub.

Svanur Gísli Þorkelsson, 22.11.2012 kl. 21:01

5 identicon

Stemming: - Staddur á aðalbílastæði Skálholtskirkju fyrir nokkrum árum. Kirkjan og allt umhverfi hennar baðað síðdegissól, ekki skýskaf á lofti. Bakgrunnur heiðblár himininn. Dáðist einlæglega að því hve vel hafði tekist til að samræma alla hluti,- þ.e.fella saman byggingu og umhverfi kirkjunnar sem eina heild,- svona í áranna rás. Tel mig raunar hafa orðið fyrir trúarlegri upplifun staðarins , þarna á bílastæðinu.- Núna, er ég kem á sama stað verð ég óskaplega dapur yfir sama útsýni, en nú með "æxli"norðan kirkjunnar,-og því hvernig svona stílbrot getur gerst fyrir allra augum. - En gert er gert og við græðum lítið á að jagast út í orðna hluti. Sameinumst frekar um að færa þettað, vonandi blessaða hús, frá kirkjunni á stað sem sátt næst um. Þá gæti það e.t.v.orðið einhverjum til gagns og ánæju til lengri tíma litið.

Erlingur Loftsson (IP-tala skráð) 23.11.2012 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband