Er ekki allt gott að frétta?

Um þessar mundir berast fréttir svo til daglega af fólki sem hyggist í næstu kosningum gefa kost á sér til setu á hinu virðingarsnauða og trausti rúna alþingi Íslendinga. 

Í hönd fara hinnar venjulegu lágkúrulegu innanhúss-deilur flokkanna þegar atvinnuskrumararnir reyna að koma sér sem best fyrir í sem öruggustu sætunum. Framsóknarflokkurinn ríður að þessu sinni fyrstur á eðjuvaðið og landsmenn fylgjast forviða með aurslettunum í fjölmiðlum.

Þeir sem ekki fá viðunandi sæti í fjórflokknum geta ætíð leitað á náðir einverra af hinum mikla fjölda smáframboða sem eru í deiglunni.

Og enginn hörgull virðist vera á fólki sem enn lifir í matrixinu og þyrstir í vegsemd og völd sjónhverfinganna og tilkynnir hátíðlega að það ætli að gefa kost á sér í þetta eða hitt sætið á listum flokkanna. Fjölmiðlunum finnst þetta svo merkilegt að þeir keppast við að færa okkur líka fregnir af þeim sem ekki ætla að láta ginnast og ætla ekki í framboð til alþingis.

En það er hætt við að sumir af þeim sem völdin þrá, verði fyrir vonbrigðum.

Þrátt fyrir óvinsældir alþingis, hefur verið haldið til þessa að það hafi haft ákveðin völd. Nú er þeim völdum einnig ógnað. Forseti vor á Bessastöðum segist ætla að hafa góðar gætur á þinginu og til að kenna því að haga sér skikkanlega muni hann ekki hika við að virkja málskotsréttinn. Forsetaræðið er á næsta leiti og það sem meira er að margir sem sjá það sem lausn á glundroðanum sem ríkir í stjórnmálum þjóðarinnar.

Kröfur almennings í eftirskjálftum hrunsins um aukið lýðræði, persónuval í kosningum og gagnsærri stjórnsýslu heyrast nú aðeins sem hjáróma raddir fáeinna "sveimhuga" sem láta sig enn dreyma um skarkala í olíutunnum og búsáhöldum niður við Austurvöll.

Stærsta stjórnmálflokki landsins, hinum sama og eignuð var mesta ábyrgðin á hruninu, hefur vaxið slík ásmegin að hann hikar ekki við að vísa á bug helstu viðleitni stjórnvalda til að koma á móts við kröfur "búsáhaldabyltingarsinna" um nýja stjórnarskrá sem fæli í sér það lýðræðislegar umbætur að það tækist að losa það kverkatak sem stjórnmálaflokkseigendurnir hafa á þjóðinni.

Í skjóli þessarar ringulreiðar nota hýenur fjármálalífsins tækifærið og hrifsa til sín milljónir úr þrotabúum bankanna og þeir sem komust undan og úr landi með féð sem þrotabúunum tilheyrðu réttilega, snúa nú aftur hróðugir með fullar hendur fjár og vilja fjárfesta í eignum sem verðhrun hefur orðið á.

Á Íslandi hefur ekkert ekkert breyst. HFF!!

 

 

 

 

 


mbl.is Björgvin gefur áfram kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband