13.4.2012 | 22:36
Titanic til sölu
Titanic sjóslysið hefur greypt sig inn í hugi vesturlandabúa. Áhugi þeirra á þessu óhappi virðist óseðjandi, enda gera snjallir kaupahéðnar sér góðan mat úr þessari dellu. Um þessar mundir má græða á öllu sem á einhvern hátt tengist þessari sorgarsögu þegar hið ósökkvandi stálfley, Titanic, sökk í jómfrúarferð sinni yfir Atlantsála frá Bretlandi til USA árð 1912.
Fátt er vinsælla á uppboðum erlendis, þessa dagana, en skran sem tengja má einhvern veginn við skipið sem var tækniundur síns tíma og tákn framfara og tæknialdar sem bauð náttúruöflunum byrginn.
Þeir farþegar sem komust af eru nú allir látnir en það sem þeir höfðu meðferðis úr skipinu er nú flest í eigu safnara sem hafa heillast af marg-tugginni sögunni sem sögð hefur verið í fjölda bóka, kvikmynda og sjónvarpsþátta á siðastu öld. Og enn eru menn að.
Um Þessar mundir eru sýndir á BBC leiknir sjónvarpsþættir um Titanic slysið og sýnist sitt hverjum um hvaða tilgangi það á þjóna öðrum en að reyna eina ferðina enn að græða á slysinu með skáldskap og tilbúningi.
Miss Elizabeth Gladys Dean, sem er betur þekkt undir nafninu Millvina, var fædd 2. Febrúar árið 1912 í Lundúnaborg. Níu vikum síðar hélt Georgette Eva Light móðir hennar, með Millvinu í fanginu um borð í glæsilegasta farþegaskip heimsins, ásamt eiginmanni sínum Bertram Frank Dean og rúmalega tveggja ára syni þeirra sem einnig hét Bertram. Ætlun þeirra var að sigla til Bandaríkjanna og gerst innflytjendur til borgarinnar Wichita í Knasas þar sem faðir Millvinu ætlaði að setja upp tóbaksverslun.
Dean hjónin áttu reyndar að sigla með allt öðru skipi en verkfall kolanámumanna varð til þess að þau voru flutt yfir á þetta undraverða fley sem sagt var að ekki gæti sokkið og var að fara í sína fyrstu ferð yfir Atlantshafið.
Þau komu um borð í RMS Titanic í Southhampton og var vísað til þriðja rýmisins eins og farmiðar þeirra sögðu til um.
Aðfaranótt 14. Apríl fann faðir hennar að skipið kipptist við.
Hann fór út úr klefanum til að athuga hvað hefði gerst og snéri fljótlega til baka. Hann sagði konu sinni að klæðast og koma með börnin upp á þilfar. Þar var Georgette ásamt Millvinu sett í björgunarbát nr. 13.
Einhvern veginn hafði Georgette orðið viðskila við son sinn Bertram og hrópaði til eiginmanns síns um að finna hann og setja hann líka í bátinn.
Enginn veit nákvæmlega hvernig Bertram komst í bátinn en hann ásamt móður sinni og Millvinu var bjargað um borð í Adriatic sem flutti þau til baka til Englands. Til föðurins spurðist aldrei neitt framar eftir þessa afdrifaríku nótt.
Millvina komst þegar í uppáhald hjá öðrum farþegum Adriatic enda undruðust margir að þessi litla stúlka hefði lifað af vosbúðina í björgunarbátnum.
Sagan segir að hún hafi strax orðið allra uppáhald og að myndast hafi rígur á milli kvenna um hver fengi að halda á henni svo að skipherrann varð að setja þá reglu að að farþegar á fyrsta og öðru rými gætu haldið á henni til skiptis og ekki lengur en 10 mínútur hver.
Fjölmargar ljósmyndir voru teknar af henni og bróður hennar og sumar birtust í dagblöðum eftir komuna til Englands.
Millvina og bróðir hennar voru alin upp og menntuð á kostnað lífeyrissjóða sem stofnaðir voru fyrir eftirlifendur þessa frægasta sjóslyss sögunnar. Millvinu var alls ókunnugt um að hún hefði verið farþegi um borð í Titanic þangað til hún var átta ára og móðir hennar ákvað að gifta sig aftur.
Sjálf gifti Millvina sig aldrei. Hún vann fyrir ríkið í heimsstyrjöldinni síðari við kortauppdrátt og síðar hjá verkfræðistofu í Southhampton. Það var ekki fyrr en hún var komin á elliárin að hún varð þekkt fyrir að hafa siglt með Titanic. Hún kom fram í sjónvarps og útvarpsþáttum og var árið 1997 boðið að sigla yfir Atlantshafið á ný með QE2 og ljúka för sinni til Wichita, Kansas.
Elizabeth Gladys Dean var síðasti eftirlifandi farþeginn með Titanic. Hún bjó lengst af í Southampton en lést 97 ára að aldri árið 2009.
Stuttu áður setti hún síðustu gripina, ferðatösku og aðra smámuni sem foreldrar hennar höfðu meðferðis í hinni sögulegu ferð, á uppboð til að afla peninga fyrir góðgerðarstarsemi.
Þegar hún heyrði að verið væri að selja muni sem náðst hafa úr skipsflakinu, sendi hún frá sér stuttorða yfirlýsingu: "Faðir minn er þarna enn. Það er ekki rétt að taka hluti úr skipi sem svo margir fórust með. Ég reikna ekki með að þetta fólk hafi hugsað út í það - Það hugsar bara um peningana."
Á þessu ári þegar hundrað ár eru liðin frá ´því að Titanic sökk, fjölgar verulega skruddunum sem skrifaðar hafa verið um örlög skipsins.
Fáir muna eftir því að árið 1898 kom út skáldsagan "Futility" eftir Morgan Robertson. Bókin hefur reyndar verið endurútgefin og nafnbreytt og er nú kölluð "The wreck of the Titan".
Sagan fjallar um skemmtiferðaskipið Titan sem rekst á ísjaka í jómfrúarferð sinni yfir Atlantshafið.
Skipið sem í sögunni var talið ósökkvanlegt fórst og fjöldi manns drukknaði.
Í bókinni ferst Titan í Apríl mánuði eins og Titanic gerði.
Í bókinni farast 3000 farþegar en með Titanic silgdu alls 2007 en um 1500 þeirra fórust.
Í bókinni hefur Titan 24 björgunarbáta, Titanic hafði 20.
Úr framleidd úr stáli úr Titanic | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkar: Bækur, Ferðalög, Vísindi og fræði | Breytt 14.4.2012 kl. 20:39 | Facebook
Athugasemdir
Verð að leiðrétta þig að það fórust ekki 2207 með Titanic, heldur um 1500 :) Annars skemmtileg lesning, er sammála Millvinu að það að selja muni úr skipinu er ekki rétt.
Ragnheiður Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 14.4.2012 kl. 20:20
Takk Ragnheiður. Þetta leiðréttist hér með.
Svanur Gísli Þorkelsson, 14.4.2012 kl. 20:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.