27.1.2012 | 14:00
Svöng og vanfær, dansar hún fyrir ferðamenn
Andamaneyjar heitir eyjaklasi í Bengalflóa og tilheyra flestar eyjarnar Indlandi en nokkrar þeirra Burma. Heiti eyjanna er fornt, komið úr sanskrít og talið tengt indverska guðinum Hanuman sem í goðafræði hindúa er m.a. sagður herforingi frumskógarbúanna vanara. Í trúarritum hindúa eru Vanar eins og Hanuman sjálfur, oftast sýndir sem uppréttir mannapar.
Í ferðabók Marco Polo lýsir hann frumbyggjum eyjanna sem smáfólki sem hafi hundshöfuð. Talið er víst að Polo hafi lýsingu sína frá Indverjum þar sem hann sjálfur kom aldrei til Andamaneyja.
Vel er mögulegt að tengsl séu á milli nafngiftarinnar og útlits og hátta frumbyggja eyjanna, sem allt frá því að eyjarnar byggðust, (sem kann að hafa verið fyrir allt að 70.000 árum) og fram á okkar dag, hafa haldist á menningarlegu frumstigi veiðimennsku og safnara. Því ástandi viðhéldu eyjaskeggjar sjálfir, með að forðuðust eins og þeir mögulega gátu öll samskipti við umheiminn.
Innfæddir eru af ætt smáblökkumanna (nogrito) sem ekki eru skyldir stærstum hluta Asíubúa, heldur taldir afkomendur fólks sem hélt í burtu frá upphaflegu heimkynnum sínum Arabíuskaganum, fyrir 100.000 árum.
Íbúafjöldi eyjanna er í dag um 360.000 og hefur sjöfaldast frá því áið 1960. Stöðugur straumur innflytjenda frá Indlandi hefur þrengt mjög að frumbyggjunum sem fækkað hefur mjög undanfarna áratugi.
Fimm ættbálkar byggðu eyjarnar þegar að Bretar gerðu þær að nýlendu sinni og settust þar að seint á 18 öld og starfræktu þar fanganýlendu um hríð. Einn þeirra; Jangil ættbálkurinn, er nú talinn útdauður en enn má finna fólk af ætt Stór-Andamanía, Jarava, Onge og Sentinelese, alls rétt um 1000 einstaklinga.
Af Stór-Andamaníum eru aðeins 52 einstaklingar eftir en þeir töldu áður fyrr 5000 manns og skiptust í 10 ættbálka. Flestir voru drepnir af innflytjendum eða dóu af sjúkdómum sem bárust með innflytjendum til eyjanna, þrátt fyrir þann sið innfæddra, einkum Jarava ættflokksins sem nú telur 250-400 manns, að mæta öllum utanaðkomandi með örvardrífu.
Þannig réðust Jaravar gegn vegavinnumönnum sem byggðu veginn sem sker í sundur skóglendið á eyju þeirra og drápu nokkra þeirra snemma árs 1996. Seinna það sama ár fundu landnemar fótbrotinn Jarava dreng, Emmei að nafni, í nágrenni við borgina Kadamtala. Á sjúkrahúsinu þar sem Emmei hlaut aðhlynningu og gréri fljótt sára sinna, lærði hann nokkur orð í hindí. Eftir nokkra vikna dvöl meðal "siðmenntaðra" manna, snéri Emmei aftur til heimkynna sinna í frumskóginum.
Ári seinna sást meira til Jarava en nokkru sinni fyrr. Bæði einstaklingar og smáir hópar þeirra sáust við veginn sem skar í sundur veiðilendur þeirra. Þeir hættu sér meira að segja inn í bæi í þeim tilgangi einum að stela sér mat. Talið er að lagning vegarins hafi haft afgerandi áhrif á hefðbundna fæðuöflun þeirra og veiðilendur.
Eftir að kvikmynd var gerð um brimi við eyjarnar árið 1998 af amerískum brimbretta-áhugamanni vaknaði mikill áhugi á eyjunum sem áfangastað ferðamanna. Þangað streyma nú ferðamenn í gegnum Indland og Burma. Ferðaskipuleggjendur gera m.a. beint út á Javara fólkið sem gengur um að mestu nakið og syngur og dansar fyrir ferðamenn sem henda til þess brauðmolum að launum. -
Myndband á borð við það sem er hér að neðan, þar sem svöng og vanfær Javara kona er eggjuð af leiðsögumanni til að halda áfram að dansa fyrir jeppalest af ferðamönnum, hefur vakið mikla og verðskuldaða reiði mannréttindasamtaka víða um heim.
Myndbandið þykir sýna vel hversu lítil virðing er borin fyrir menningu innfæddra Andmaneyinga og hvernig stolt fólk sem gerði sitt besta til að vernda líf sitt og afkomu, varð að lúta í gras fyrir vestrænni neyslumenningu og vestrænum gildum.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Ferðalög, Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 14:33 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.