Mótmæli og hugarfarsbreyting

Víða um heim hafast mótmælendur við í tjaldbúðum fyrir utan þinghús og ráðuneyti. Reykjavík bætist nú á lista annarra borga eins og London og New York þar sem mótmælin hafa staðið í vikur og mánuði. Mótmælin beinast einkum gegn stjórnmálamönnum og auðmönnum og þeirri misskiptingu veraldlegra gæða sem landið...og reyndar heimurinn allur býr við. -

Þessi misskipting hefur lengi verið við líði en hefur aukist verulega síðustu misseri í  kjölfar hins svokallað "efnahagslega hruns" þar sem mikil raunveruleg verðmæti í eigu almennings voru færð af stjórnmálmönnum í hendur auðmanna, sem kröfðust bóta fyrir að hafa tapað bókfærðum auði þegar loftbóla þeirrq sprakk, auði sem raunverulega var aldrei til. -

Og þrátt fyrir fögur fyrirheit þeirra sem tóku við ráðsmennsku þjóðarbúsins eftir "hrun" um að láta auðhyggjusjónarmiðin víkja fyrir mannlegum gildum, halda þeir áfram að leyfa vogunarsjóðum og auðmönnum að mergsjúga skuldsettan almenning. Auðmenn og brasksjóðir  keyptu kröfur gömlu bankanna á 5% af andvirði þeirra rétt eins og okurlánarar gera,  en innheimta höfuðstólinn með vöxtum af fullri hörku.

En það er eitt að mótmæla og benda á það sem miður hefur farið og annað að setja fram raunhæfar og haldgóðar lausnir. Mótmælendur eru nokkuð slyngir við hið fyrra, en arfa slakir við hið síðara, enda erfitt að sjá hvernig sá sem staðsettur er í miðjum umferðarhnút getur beitt sér til að leysa hann, öðruvísi en að bíða þolinmóður og vonast eftir að eitthvað þoki fremst í lestinni. - En einmitt þannig líður almenningi, eins og að vera staddur í umferðarhnút, vitandi að hann eru hluti af vandamálinu, en getur ekkert aðhafst til að leysa hann annað enn að liggja á flautunni.

Sýn mótmælenda á hver vandinn er, er nokkuð samræmd frá landi til lands, en lausnirnar ekki, enda litið á þær minnst. Flestum  veitist einnig erfitt að orða hugmyndir sínar um lausnir því þær taka ekki til hefðbundinna aðferða stjórnmálamanna sem eru að beygja vilja þeirra sem ekki eru þeim sammála, undir sinn vilja, í krafti embætta og fjármagns.  Valdníðsla er daglegt brauð í pólitík og  óumflyjanlegur hluti hennar eins og hún er stunduð á Íslandi og víðast hvar í heiminum.

Mótmælendur vita að þær aðferðir duga ekki lengur, enda útkoman úr þeim ætíð sú sama. Þeir ríkari verða ríkari og þeir fátækari fátækari.

Í þeim mótmælum sem eitthvað hefur kveðið að hér á landi, hefur krafan yfirleitt verið að ríkjandi stjórnvöld láti af stjórn. - Í dag er staðan þannig að flestir álíta að það dugi ekki lengur að skipta um ríkisstjórn enda sé ekkert betra til sem tekið getur við stjórnvölnum, víki sú sem nú ríkir.

Krafa mótmælenda í þetta sinn er talsvert róttækri og felur í sér  hugarfarsbreytingu, miklu frekar en uppstokkun á þingsætum eða ráðherrastólum. - Hluti af hugarfarsbreytingunni er upptaka gilda sem eru æðri auðhyggjunni og þeirra á meðal er réttur hvers mannsbarns til að hafa tækifæri til að lifa hamingusömu lifi.  Hugarfarsbreytingunni verður að fylgja viðurkenning á þeirri staðreynd að peningar einir  geta ekki fært þeim eða öðru fólki hamingju...aldrei, heldur aðeins óhamingju.  Allir verða einnig m.a. að viðurkenna þá góðu grundvallarreglu að nútíma þrælahald stundað af bönkum og auðhringjum verði að afnema og Þeir verði að gefa almenningi frelsi með því að afskrifa skuldir þeirra, hætta sömuleiðis töku okurvaxta.    


mbl.is Tjaldbúar á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill hjá þér, eins og oftast.

En svona okkar á milli í hvaða landi nefnist höfuðborgin New York?

Loki (IP-tala skráð) 31.10.2011 kl. 11:47

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk Loki. Þetta átti að vera "borga" ekki höfuðborga. breyti því.

Svanur Gísli Þorkelsson, 31.10.2011 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband