8.5.2011 | 12:11
Salisbury, Silbury og Solsbury
Á Englandi eru þrír sögufrægir staðir sem bera svo svipuð nöfn að það er ekki óalgengt að Bretar sjálfir rugli þeim saman hvað þá útlendungar sem til landsins koma til að berja þá augum. Þessir staðir eru bærinn Salisbury í Wiltshire, Silbury hóll sem einnig er í Wiltshire og Solsbury hæð í nálægt Batheaston í Somerset. - Það eykur enn á ruglinginn hversu nálægt hver öðrum staðirnir eru í sveit settir. Fyrir utan að bera áþekk nöfn sem fólk gjarnan heldur að séu mismunandi útgáfur af sama orðinu, (svo er ekki) eiga staðirnir þrír ýmislegt sameiginlegt.
Bærinn sem í dag er kallaður Salisbury (eða Nýja Sarum) var ekki reistur fyrr en um 1220 en á svæðinu hafa fundist menjar sem benda til að byggð hafi verið þar frá örófi. Á nærliggjandi hæð er að finna vísbendingar um virki sem fyrst var reist á steinöld.
Þegar Rómverjar hernumdu landið kölluðu þeir hæðina "Sorviodunum" en "dunum" merkir virki eða vígi á latínu og er algeng ending á enskum bæjum og borgum í dag. Í fyrndinni voru virki á Englandi gjarnan byggð á hæðum eða hólum sem veittu gott útsýni yfir næsta nágrenni. Á keltnesku þýðir orðið "dun" einnig hóll eða borg. Oðrið "sorvio" er ekki til í latínu en "sorfio" á keltnesku þýðir þurr. Sorviodunum er því rómverka útfærslan á keltneska orðinu Sorfidun sem einfaldlega merkir "Þurra borg".
Þá er vitað að Saxar byggðu sér einnig virki á hæðinni og kölluðu það á sinni tungu Særesbyrig. Þeir reynd sem sagt að halda orðinu "sorfio" til haga en nota engilsaxneska orðið "bær" í staðinn fyrir hið rómverska "dunum".
Normannar tóku við virkinu eftir innrásina 1066 og og byggðu á hæðinni kastala. Í Dómsdagsbókinni (1086) þar sem Vilhjálmur l lét skrásetja öll byggðarlög í ríki sínu, er byggðin kölluð "Saresberi", skrifað að hætti normanna Salesberi.
Af þessum fræga virkishóli dregur því bærinn Salisbury sem er í rúmalega tveggja kílómetra fjarlægð frá henni, nafn sitt. Einnig Salisbury sléttan en Stonehenge er frægasta mannvirkið sem upp af henni rís.
Silbury Hóll heitir manngerð hæð úr kalksteini sem stendur ekki langt frá hinum fornfrægu Avebury steinhringjum. Hóllinn er rétt um 40 metra hár og tveir hektarar að flatarmáli. Hann gerður í nokkrum áföngum og er innsti og elsti hluti hans um 5000 ára gamall en sá ysti og yngsti um 4300 ára.
Hóllinn er sögð stærsta manngerða hæðin í Evrópu og er stundum kölluð "enski píramídinn". Forðum hefur hvítur kalksteinninn eflaust gert hólinn tignarlegan á að líta þar sem hann reis upp úr annars flatri sléttunni en í dag er Silbury hóll grasi vaxinn og lítur út eins líkt og hundruð hæða og gróinna holta sem prýða enskt landsslag og gera það svo sérstakt.
Nokkuð hefur verið til reynt til að uppgötva til hvers hólnum var hrúgað upp á sínum tíma. Nokkrum sinnum hefur verið grafið í hann, bæði ofaní og undir hann, en ekkert komið í ljós sem gefið gæti vísbendinu um hversvegna forfeður Englendinga lögðu á sig þessa miklu jarðvinnu. Það hefur samt ekki staðið í vegi fyrir því að fjöldi tilgáta hefur verið settar fram um tilgang Silbury, án þess þó að nokkur þeirra sé talin sennilegri en aðrar.
Nafnið Silbury er talið samsett úr keltneska orðinu zilsem þýðir auga. Það er skylt orðinu sil í grísku saman ber Silvía mánagyðja og er einnig rótin að orðinu silfur. Nafn hæðarinnar getur því hæglega útlagst á íslensku "Mánaborg".
Silbury er eins og áður er getið í Wiltshire. Í búar þess skýris eru oft nefndir "Mánarakarar". Sagan segir að að þeir bændur hafi forðum verið nokkuð stórtækir smyglarar, einkum á vín frá Frakklandi. Tollmenn konungs voru á hverju strái og þurfti oft að leika á þá. Eitt sinn földu smyglararnir víntunnur sínar í tjörn einni. Tollmenn komu að tjörninni og sáu hvar bændur stóðu og rökuðu tjörnina í óða önn. Tollararnir furðuðu sig á athæfinu sem von var og spurðu hvað um væri að vera. Þeim var svarað því til að verið væri að raka saman ostinum sem í tjörninni væri og bent á hvernig fullt tungl endurspeglaðist í tjörninni. Tollararnir hlógu að einfeldni bænda og hröðuðu sé á braut. Eftir þetta festist uppnefnið "Moonraker" við íbúa svæðisins sem þeir láta sér það vel líka.
Solsbury Hæð er nafn allstórrar hæðar skammt frá borginni Bath í Somerset. Nafn hæðarinnar er dregið af keltnesku gyðjunni Sulis sem var dýrkuð af Keltum á þessu svæði í fyrndinni og hæðin sjálf helguð henni. Leiðin til hinna hlegu véa gyðjunnar við heitu uppspretturnar í Bath, lágu meðfram hæðarrótunum.
Suil á gamalli írsku merkir "auga" eða "gap" sem var inngangurinn í undirheima. En talið er að Gyðjan Sulis hafi fengið nafn sitt frá upphaflegri merkingu Indóevrópska orðsins orðsins "sawl" (á latínu sol) og á íslensku Sól. Upphaflega heiti hæðarinnar var því "Sólborg".
Efst á hæðinni eru ummerki eftir virki sem fyrst var byggt fyrir 2300 árum.
Peter Gabriel samdi á sínum tíma ansi gott lag um hæðina , en hljómver hans og reyndar heimili líka er staðsett þar um slóðir. Hér er það lag fyrir áhugasama.
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Bloggar, Vísindi og fræði, Tónlist | Breytt s.d. kl. 13:28 | Facebook
Athugasemdir
http://www.youtube.com/watch?v=Ah3vTq2ZxYk
hilmar jónsson, 8.5.2011 kl. 12:20
Takk fyrir þetta. En svo er það Salzburg í Austurríki sem mun þýða saltborg.
Emil Hannes Valgeirsson, 8.5.2011 kl. 18:59
Er Salisbury og Silbury-hóllinn ekki í námunda við Stonhenge? Er ekki eintak af Magna Carta geymt í kirkju einni í Salisbury? Sé svo, þá hef ég komið þarna. Ef ekki, þá dauðsé ég eftir að hafa ekki rannsakað málið áður en ég skrifaði þesa athugasemd.
Óli minn, 9.5.2011 kl. 02:27
Þú þaft ekkert að sjá eftir athugasemdinni því þetta er rétt hjá þér Óli.
Svanur Gísli Þorkelsson, 9.5.2011 kl. 07:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.