31.1.2011 | 18:10
Sérstaklega hannaður línpoki til að geyma í konur
Í Kóraninum er hvergi minnst á burqa. Múhameð bauð fylgjendum sínum að virða reglurnar um "hijab" sem átti upphaflega við tjaldvegg sem hengdur var umhverfis vinnusvæði og vistarverur kvenna í hálfköruðum búðum Spámannsins í Medínu eftir flótta hans frá Mekka. Reglurnar voru einfaldlega þær að karlmennirnir áttu að halda sig utan tjaldveggsins fyrir utan málsverðartíma nema þeir væru sérstaklega boðnir. -
"Ó þið sem trúið. Komið ekki í híbýli spámannsins til að matast fyrir utan viðeigandi tíma, nema að þið hafið fengið til þess leyfi. En ef ykkur hefur verið boðið, komið þá og þegar máltíðinni er lokið, hverfið þá á braut. Staldrið ekki við til samræðna, því það veldur spámanninum ama og að biðja ykkur um að fara er honum feimnismál; en Guð er ekki feiminn við sannleikann. Og þegar að þið biðjið konur spámannsins um eitthvað, gerið það handan tjalds. Þetta er hreinna fyrir ykkar hjörtu og þeirra."
Þessi einföldu tilmæli Múhameðs til fylgjenda sinna áttu eftir að hafa víðtæk áhrif. Um leið og hann dró eðlileg efnisleg mörk milli fjölskyldu sinnar og átrúendanna lagði hann félagslegan grundvöll að aðgreiningu stétta og aðgreiningu kynjanna. Tjaldið sem að greina átti vistarverur kvenna spámannsins frá almúganum var fljótlega fært að andliti þeirra og blæjan sem var í fyrstu vernd þeirra og skjól, varð að tákni stöðu þeirra í samfélaginu.
Í 33. Versi 35 súru er sú staða skírð. "
"Karlmenn eru verndarar og forsjáendur kvenna. Vegna þess að Guð hefur gefið öðru þeirra meira en hinu og vegna þess að þeir sjá fyrir fyrir þeim með getu sinni. Þess vegna eru réttsýnar konur innilega undirgefnar og gæta þess í fjarveru þess sem Guð ætlar þeim að gæta."
Á fyrstu öld Íslam gengu kvenmenn hvorki í burqa búningum né báru þær almennt andlitsslæður. Þær klæddust samt oft, eins og kynsystur þeirra af öðrum trúarbrögðum, (kristni og gyðingdómi) höfuðklútum (khimar) einkum til að skýla sér frá hita. Slíkir klútar þjóna líka til að uppfylla trúarlega skyldu í öllum þremur trúarbrögðunum sem boða að hylja beri höfuðkoll sinn fyrir Guði.
Í Íslam eru múslímar hvattir til að sýna hógværð í klæðnaði, bæði karlmenn og kvenmenn. Kvenmenn eru hvattir til að klæða "fegurð" sína af sér og er þar átt við brjóst, hár, axlir og handleggi. Smá saman var farið að beita ákvæðum "hijab" til að móta klæðnað kvenna á almannfæri. Tjaldið sem umlukti hýbýli þeirra var fært upp að andliti þeirra og líkamar þeirra umvafðir þeim. Ef þær þurftu að ferðast var þeim gert að hírast í "hovda". (tjaldhýsi á hesti eða úlfalda).
Í gegn um aldirnar hefur andlitsslæðan og burqa búningurinn tekið á sig mismunandi myndir. Konur múllanna (prestaanna) og virtra kennimanna Íslam gerðu sér far um að sýna guðrækni sína og bónda síns með því að klæðast eftir ströngustu túlkunum og við það varð klæðnaðurinn að einskonar hefðarkvennabúningi.
Þegar að íslamska heimsveldinu tók að hnigna, tóku Persar og Arabar upp afar einstrengingslega stefnu í öllum málum hvað varðaði rétt kvenna til menntunar og sjálfræðis. Misrétti varð að almennri reglu frekar en undantekningu. Samtímis varð andlistslæðan og burqa búningurinn að tákni um kúgun þeirra.
Í löndum Íslam í dag er samt mjög misjafnt hvernig konur og menn þeirra álíta að þessum reglum Kóransins sé fullnægt. Víst er að mestu öfgunum var náð í valdatíð talibana í Afganistan.
Sumar konur klæðast aðeins khimar höfuðklútnum, aðrar klæðast niqab sem er bæði höfuð, háls og andlitsslæða. Þá velja sumar að klæðast chador sem er létt útfærsla á burqa. Í sumum löndum múslíma eins og Pakistan eru engin lög í gildi um klæðnað kvenna.
Sá búningur sem varð seint á síðustu öld einskonar árétting rétttrúnaðar íslamskra kvenna, ekki hvað síst á Vesturlöndum þar sem þessi klæðaburður var í auknum mæli gagnrýndur, var hannaður í Afganistan.
Holland var fyrsta landið í Evrópu til að banna burqa-búninginn á opinberum vettvangi en til þess er hann einmitt ætlaður. Frakkland hefur nú fylgt í fótspor Hollendinga. Múslímar klæðast allt öðrum klæðnaði heima hjá sér.
Þetta er í þriðja sinn sem ég birti þessa grein á þessu bloggi. Fyrri færslurnar er að finna hér.Vill ekki banna búrkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér.
Oft má finna fróðlegar og góðar færslur frá þér, takk fyrir það.
Konur eiga að klæðast því sem þær vilja sjálfar, ekki af hræðslu eða duttlungum annarra.
Björn Jónsson, 31.1.2011 kl. 20:44
Sjaldan er góð vísa of oft kveðin. Þakkir. Konur eiga að klæða sig eftir veðrum og vindi líkt og karlmenn.
Mikið langar mig þó samt að sjá Ögmund í burku. Er ekki hægt að redda því?
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 31.1.2011 kl. 22:26
Sammála bæði fyrri og síðasta ræðumanni, flott hjá þér Svanur !
Mín pæling HÉR
MBKV
KH
Kristján Hilmarsson, 31.1.2011 kl. 22:52
Eitt sinn taldi Imba Solla sig eiga erindi til Afganistan Þar lét hún mynda sig með höfuðklút til að móðga nú ekki kallpungana sem hún taldi sig eiga erindi við þar.
Mér leikur forvitni á að vita hvort Imba Solla hefði sett upp kanínueyru ef hún hefði talið sig eiga erindi á Playboysetrið. Hún hefði nú varla viljað móðga Hugh og hina dólgana þar.
Nú á Imba Solla ekkert erindi.
Sem betur fer.
marco (IP-tala skráð) 1.2.2011 kl. 00:33
Þessi pistill kemur á óvart en hann er góður engu að síður :)
Ögmundur er að dilla kynjafræðisliði sem lifir í öðrum veruleika.
halkatla, 1.2.2011 kl. 09:37
Svanur, takk fyrir fróðlegan pistil. En ég fann hvergi útlitslýsingu um hvað er hvað; er það rétt skilið hjá mér að hijab séu svörtu búningarnir með rifu fyrir augum, en burkha þessir bláu með neti fyrir augum?
Fyrir rúmum 30 árum gisti ég á fínu hóteli í Kensington. Þá vildi svo til að ég var stödd í "lobbíinu" þegar nýir gestir mættu. Fremstur gekk flottur karl á miðjum aldri, eflaust í nýjustu Armani jakkafötunum en á eftir honum strollan, einar þrjátíu huldukonur í svörtu dulunum. Að sögn hótelstarfsmanna var þar mættur arabískur sjeik með kvennabúrið sitt. Svo vildi til að nær heil hæð hótelsins var tekin frá fyrir kvennabúrið að undanteknu einu herbergi; okkar íslensku hjónakornanna. Líklega höfum við ekki verið talin skapa nein vandræði...
Þetta er mér ógleymanleg minning - og það næsta sem ég hef komist að gista í austurlensku kvennabúri
Kolbrún Hilmars, 1.2.2011 kl. 14:44
"hijab" er eiginlega bara slæða, vafin um höfuð og háls og hylur hárið, allt andlitið sýnilegt er miklu útbreiddara en "burkha" hérlendis (Noregi) og annarsstaðar hafa komið upp umræður vegna krafna múslímskra lögreglukvenna um að fá að bera hijab viðeinkennisbæuninginn, svo þetta er ekki einusinni toppurinn á "ísjakanum" sem verið er að þrefa um á Íslandi.
KH
Kristján Hilmarsson, 1.2.2011 kl. 19:28
Er ekki niqab slæðubúningurinn sem Svanur nefnir svo en þú kallar hijab, Kristján?
Er chador þá (svarta útgáfan) léttari útgáfan af burkha?
Svanur ???
Kolbrún Hilmars, 1.2.2011 kl. 19:48
Sælt veri fólkið og takk fyrir innlitið og góðar athugasemdir.
Öll þessi nöfn vefjast fyrir manni eins og búningurinn sjálfur.
Hijab merkir upphaflega "tjald", en verður síðan heiti á höfuð og hálsklút. Hijab er einnig notað yfir hógværan klæðnað kvenna, þ.e. þær sem klæðast í samræmi við boð kóransins klæðast "hijab".
niqab er allt í senn, höfuð, háls og andlitsblæja en orðið á sérstaklega við andlitsblæjuna eða grímuna
chador er svört írönsk útgáfa af burqa án andlitsblæju.
Skýringarmyndir hér
Svanur Gísli Þorkelsson, 1.2.2011 kl. 20:41
Hijab er ekki notað um hógværan klæðnað kvenna. Kona sem framfylgir öllum lögum sharia um klæðnað, eins og "frjálslyndir" (en eru þeir það?) múslimar skilja þau; síðar ermar, láta ekki öklann sjást, hálsmálið hátt, víður fatnaður etc, en notar ekki höfuðklút, sem verður samkvæmt lögum líka að hylja eyrum og hálsinn, er undir stanslausri gagnrýnni múslima fyrir að nota ekki Hijab, og jafnvel hótað helvítisvist fyrir vikið. Þú verður líka að átta þig á því þegar þú lest um Islam sem utanaðkomandi, að það eru tvær útgáfur af þessari trú....."Auglýsinga-útgáfan" til að laða fólk að og heilaþvo það til að ganga í hópinn, trúin mjög "Westernized" og "normalized" í öllum líkingum. Slíkir bæklingar búa jafnvel til bullskilgreiningar á hugtökum eins og hijab, og líka jihad, sem er sagt þýða bara "heilagt innra stríð", þegar sannleikurinn er sá að moska samkvæmt skilgreiningunni er ekki bara bænahús heldur stríðs bækistöð, í upprunalegri merkingu þess orðs, Muhammad var jú hershöfðingi...Þetta er auðvitað bara til að fá fólk til að ganga í hópinn. Síðan er raunverulega Islam sem þú færð ekkert að vita um ef þú lest bara svona auglýsingabæklinga. Það er meira skrifað um það á arabísku en ensku, eðlilega, og það stendur enginn á götuhorni og dreifir út bæklingum til ljóshærðs fólks og boðar það. Þú lærir heldur ekki um það á fyrirlestrum í PC háskólum. En það er ekki til einn einasta múslimi, nema örfáir nýgræðingar sem fá að vita betur innan tíðar, sama hvaða tegund Islam hann aðhyllist, sem þekkir það ekki.....En þeir sem nenna að hafa fyrir því geta vel kynnt sér það sem dylst bak við Islömsku grímuna án þess að ganga í hópinn. Til þess þarf þó bæði mikla dómgreind og mikla þolinmæði.
Ekki láta plata þig. (IP-tala skráð) 3.2.2011 kl. 08:21
Það er óþarfi að ýkja hlutina. Þessi skrif þín eru full af fordómum og ýkjum. Ekki láta plata þig í þá átt.
Svanur Gísli Þorkelsson, 3.2.2011 kl. 08:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.