Sérréttindi kristindómsins

Það er með ólíkindum að heyra fólk tala um árás á mannréttindi í tengslum við tillögurnar um að afnema það sem ekki getur talist annað en virkt trúboð í skólum landsins. Það er réttlætismál að allar lífskoðannir fólksins í landinu, sitji við sama borð þegar kemur að opinberum stofnunum og afskiptum þeirra af trúarlífi fólks. Aðskilnaður ríkis og kirkju er löngu tímabær og það óréttlæti að ein trúarbrögð njóti forréttinda fram yfir aðrar góðar og gildar lífsskoðanir, er mikil tímaskekkja.

Þjóðkirkjan hefur um langt skeið, eins og allir vita, notið ýmissa forréttinda í skólum landsins á sama tíma og trúfrelsi er sagt ríkja í landinu. Hvers konar frelsi er það í reynd sem ekki tekur tillit til sjálfsagðra jafnréttisreglna?

Önnur vörn þeirra sem vilja óbreyttan aðgang til að móta lífsskoðanir barna eins og þeir hafa gert frá því að skólaganga varð almenn í landinu, er að spila á þá slæmu ímynd sem íslamískir öfgamenn hafa komið á trú sína. Það sjónarmiðið að best sé að halda kristni til streytu í skólum landsins til mótvægis við einstrengingslega afstöðu stjórnvalda í löndum Íslam, er ekki sannfærandi og er meira í ætt við vænisýki en heilbrigða hugsun. Að halda sig við slæma siði, af því að einhver annar gerir það, hefur aldrei þótt góður boðskapur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Svanur, nú er ég ekki sammála þér, en það er auðvitað vegna þess að ég er alin upp í þjóðkirkjuhugsuninni sem boðar umburðarlyndi og hófsemi í  trúariðkun.  Ég veit líka að þín trúarbrögð eru á líkum nótum

Ég held ekki að slíkt uppeldi, a.m.k. um einhvern tíma, myndi stofna til neinna vandræða.   En ef það yrði aflagt  gætum við setið uppi með þá öfgatrúarþróun sem nú þegar er orðin til vandræða víða um lönd.  Og þá á ég ekki bara við múslima!

Kolbrún Hilmars, 20.10.2010 kl. 18:27

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þú segir nokkuð Kolbrún mín... og þakka þér þessa athugasemd :)

Kristilegt uppeldi er ekki til vandræða og í flestum tilfellum er það eins og þú segir.

Það sem er til vandræða er að börn sem tilheyra örðum trúarbrögðum, eða ekki neinum,  sitja ekki við sama borð og þau kristnu þegar kemur að helgidagahaldi, tilbeiðslu, og þeim hefðum og venjum innan skólanna sem stýrist af kristnum sjónarmiðum. - Sem dæmi má taka að í hvert sinn sem einhver prestur blessar börnin verða þau sem ekki eru kristin að sætta sig við að það sem þau álíta ósköp venjulegan mann, þykist hafa valdsumboð frá Guði til að veita öðrum blessun hans. N.B. Þetta gerir hann ekki sem foreldri og jafnvel ekki sem góður maður, heldur í krafti embættis síns. -

Þau finna það í skólanum að þau eru utangarðs og þurfa sterk bein til að standa það af sér. Að því hef ég margsinnis orðið vitni.-

Fjölmenningarlegt samfélag hefur við ýmsan vanda að glíma. En þar sem best hefur upp tekist, hafa stjórnvöld og stofnanir á vegum þeirra, forðast að skipta sér á nokkurn hátt að trú manna og látið trúarlegt uppeldi algjörlega í hendur foreldra og forsjáraðila barna.

Að auki finnst mér hvers konar kerfisbundin mismunun vera er gróf áarás á sjálfsmynd barna.

Og hvaða merkingu hefur "trúfrelsi" fyrir börn sem ekki tilheyra hinum ríkisreknum trúarbrögðum?

Bestu kveðjur,

Svanur Gísli Þorkelsson, 20.10.2010 kl. 23:24

3 Smámynd: Valdimar Hreiðarsson

Er það svar fjölmenningarsamfélagsins að reka á dyr alla þá sem hafa einhverja skoðun á lífi og trú?  Í einum skóla sem ég þekkti til kom þjóðkirkjupresturinn einu sinni í viku og fræddi fermingarbörnin og kaþólski presturinn kom líka einu sinni í viku og fræddi sín börn.  Engum þótti það fyrirkomulag neitt tiltökumál.  Þessi skóli kom til móts við þarfir nemenda sinna og fjölskyldna þeirra.

Erfitt er að sjá hvar það endar ef byrjað er á því að úthýsa.

Valdimar Hreiðarsson, 21.10.2010 kl. 00:00

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Valdimar.

Sé gætt jafnræðis og komið á móts við alla nemendur, er ekkert að því að prestar, klerkar, múllar, munkar og forstöðumenn komi einu sinni í viku til að uppfræða börnin um fermingar, manndómsvígslur, skírnir og umskurði. -

Spurningin er hversu raunhæft það er að ætla sér að sinna öllum jafn og hvort foreldrar séu ekki réttu aðilarnir til að sjá alfarið um lífsstefnu innrætingu barna sinna.

Skólar geta fullvel kennt börnum um dyggðir og stutt þannig við innrætingu foreldrana án þess að benda þær beint við ákveðin trúarbrögð. Öll trúarbrögð, og jafnvel flestar stefnur trúleysis, kenna að dyggðaræktun sé nauðsynleg andlegum þroska mannsins.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.10.2010 kl. 00:58

5 identicon

Bara ef það væri erinhver bygging þar sem kristnir gætu farið ásamt börnum sínum og hlustað þar á draugasögur, undirbúið þau undir galdraathafnir.
Þegar slíkar byggingar koma til sögunnar, þá geta prestar hætt að ráðast inn í skóla með sínar sjálfsblekkingar, og bara boðað foreldra í heimsókn í draugakastalann ásamt börnum sínum.




doctore (IP-tala skráð) 21.10.2010 kl. 08:58

6 Smámynd: Valdimar Hreiðarsson

Sæll Svanur: 

Þú dramatiserar hlutina allvel þegar þú dregur upp mynd af stöðugum straum presta, klerka, múlla, munka og forstöðumanna inn í skólana.  Auðvitað yrði aldrei um slíkt að ræða.  Heimsóknir í skólann eru að sjálfsögðu ævinlega undir styrkri stjórn hans og í samráði við heiðraða og velkomna gesti sem eru þangað komnir til að auðga þá reynslu sem er að vera nemandi í íslenskum skóla. 

Í alvöru talað fæ ég ekki séð hvernig það megi vera að tónlistarskólar, íþróttafélög og tómstundafélög og fleiri aðilar hafi greiðan aðgang að skólanum og tíma nemenda en ekki trúfélög.   Er ekki fólgin í því alvarleg mismunun? Hvað segja alvöru mannréttindanefndir um þetta?

Undarlegt væri það að í stað þess að fagna fjölmenningunni gengi  fjölmenningarsamfélagið út á að hafna völdum sumum myndum fjölemnningarinnar  og loka á fulltrúa fjölbreytilegra menningarstrauma. 

Hluti af því er þá væntanlega að banna íslenskum skólabörnum að læra um menningarlegar og trúarlegar rætur íslensks samfélags. Við hvað er fólk svona hrætt?

Er fjölmenningarsamfélagið að verða hinn nýi rétttrúnaður sem er  keyrður í gegn með offorsi af mannréttindaráðum og nefndum sveitarfélaga sem virðast ætla að verða hin nýja hugsanalögregla?

Valdimar Hreiðarsson, 21.10.2010 kl. 09:25

7 Smámynd: Valdimar Hreiðarsson

- Biðst afsökunar á innsláttarvillum í fyrri færslu.  Ætti að styðjast meira við Púkann :)

Valdimar Hreiðarsson, 21.10.2010 kl. 09:27

8 identicon

Hvað er það sem þjóðkirkjufólk er hrætt við að gerist ef prestum er ekki hleypt inn í skólanna?

Ég er til dæmis alls ekki hlyntur því að trúfélög. lískoðunar félög eða íþróttafélög fái aðgang að skólum til að kynna starfsemi sína. Ég sem foreldri er alveg full fær um að spyrja börnin mín og ræða við þau hvað þau vilja gera.

Ég er mjög á móti því að verið sé að innrætta barnið mitt af fótbolta bullum í skólanum mér finnst fótbolti ljótur og elur börn upp á ljótri siðfræði. Þess vegna á ekki að kynna neina starfsemi sem snýr að þessu í skólunum.

Ingó (IP-tala skráð) 21.10.2010 kl. 10:25

9 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Valdimar, þú  skrifar;

Þú dramatiserar hlutina allvel þegar þú dregur upp mynd af stöðugum straum presta, klerka, múlla, munka og forstöðumanna inn í skólana.  Auðvitað yrði aldrei um slíkt að ræða. 

Spurning mín til þín Valdimar er; Hvernig viltu gæta jafnréttis í þessu sambandi, þar sem börn af mismunandi trúarbrögðum og trúleysingjar eru þegar staðreynd í íslenskum skólum og  engin "dramatisering".

En svo skrifar þú líka;

Undarlegt væri það að í stað þess að fagna fjölmenningunni gengi  fjölmenningarsamfélagið út á að hafna völdum sumum myndum fjölemnningarinnar  og loka á fulltrúa fjölbreytilegra menningarstrauma. 

Það er einmitt þetta sem er gert og ég er að benda á að sé ófært. Jafnt á yfir alla að ganga. Svo virðist sem þú sért í raun sammála þessu.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.10.2010 kl. 10:58

10 identicon

Prestarnir vita jafnvel og þeir sem búa til trúarbrögð, að trúin getur ekki lifað ef henni er ekki innprentað í huga ungra barna.
Prestarnir vita að ef þeir fá ekki að forrita börnin í að koma í fyrirtækið sitt alla ævi, að þá mun prestastéttin lognast út af og kirkjan hrynja.

Vilt þú að galdraumboðsmenn ýmisskonar fái aðgengi að þínu barni, viltu að þessir meintu umboðsmenn forriti þín börn í að borga þessum mönnum laun til dauðadags.

18 ára aldurstakmart er það sem þarf

doctore (IP-tala skráð) 21.10.2010 kl. 12:59

11 identicon

P.S. Takið eftir hvað Valdimar er búinn að gera rosalega Grýlu út úr þessu... Grýla,Leppalúði og bara skrattinn..

Hvað ert þú með í laun á mánuði Valdimar, hversu marga verkamenn þarf til að borga undir þig og þitt áhugamál á hverju ári.

doctore (IP-tala skráð) 21.10.2010 kl. 13:02

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ekki ferðu hér með rétt mál, Svanur Gísli, í grein þinni. Hér er ekki um trúboð að ræða, heldur er það einfaldlega umborið, að börn fái að iðka trú sína í teikni- og föndurtímum fyrir stórhátíðir og syngja lög sem þeim eru kær, bæði í söngtímum með kennara og á litu jólum. Heimsóknir presta í skóla og leikskóla eru ekki af ágenga taginu. Trúariðkun er ekki trúboð.

Séra Valdimar gerir rétt í því að benda á, að trúararfurinn, sem náð hefur að örva og fegra ýmsar greinar listar og bókmennta gegnum aldirnar, er vitaskuld þáttur í menningu okkar.* Það er stórmerkileg "fjölmenningarhyggja" sen vill útrýma þeim sérstaka arfi umfram margt annað, þ. á m. hluti sem hingað til hafa komið þjóðarsálinni lítið við.

Dóttir mín er að læra á saxófón. Hún fær frí úr síðasta skólatímanum tvisvar í viku til að fara í sinn saxófóntíma. Ég fæ ekki séð, að heimsókn einu sinni á vetri í kirkju (sem meintir öfgamenn kalla ranglega "messuferð") sé af lakara taginu.

Svo er stjórnskipan lands okkar EKKI HLUTLAUS gagnvart kristinni trú og siðferði. Lesið um það hér í grein minni Trúar- og siðferðisáhrif í skólum – og gildisafstaða stjórnarskrár. Þar segir meðal annars í kaflanum Lýðveldisstjórnarskráin boðar ekki afstöðuleysi:

"Sú villa er of oft endurtekin í ýmsum myndum á síðari árum, að íslenzka lýðveldið sé siðferðislega hlutlaust. En alveg eins og við höfum ekki verið hlutlaus í ágreiningsmálum stórveldanna frá og með inngöngu okkar í Atlantshafsbandalagið 1949, þannig hefur lýðveldið heldur ekki verið hlutlaust um siðferðis- og lífsviðhorf allt frá upphafi sínu 17. júní 1944 (og þjóðin raunar lengi áður).

Með stjórnskipan okkar og réttindaákvæðum stjórnarskrár sórumst við greinilega og eindregið í hóp lýðræðisríkja, þótt nóg væri þá af einræðisríkjum hér í álfunni. Við vildum telja okkur meðal þjóða sem meta mikils mannlega virðingu, mannréttindi, eignarétt, tjáningar- og athafnafrelsi og jafnrétti borgaranna. Og með ákvæði 62. gr. stjórnarskrárinnar um, að evangelísk-lútherska kirkjan sé þjóðkirkja Íslands -- "og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda" -- þá er einnig verið að viðurkenna gildi kristindómsins sem eitthvað dýrmætt: þar eru siðaboð biblíulegrar, kristinnar trúar forfeðra okkar og formæðra í raun meðtekin sem grunnur eða rót að siðgæði þjóðarinnar.

Á meðan það ástand varir, er beinlínis rangt að ætlast til þess, að engir skólar né leikskólar leyfi bænir og kristna fræðslu. Sáralítill minnihluti, sem agnúast út í kristna trú [2], á ekki -- þvert gegn bókstaf stjórnarskrárinnar -- að fá að þvinga hinn afgerandi meirihluta með því að rýma burt öllu sem minnir á kristindóm, úr skólastarfi eða opinberu lífi, en þar má m.a. nefna okkar kristna þjóðfána, kristinn þjóðsöng, krossmarkið sjálft, trúarlegar myndir og kristinfræðikennslu í skólum almennt, sem og guðsþjónustu fyrir setningu Alþingis.

Engin börn ókristinna foreldra má þó neyða til trúar- og siðferðisfræðslu með kristnu inntaki, sbr. 63. grein sömu stjórnarskrár. Það má heldur ekki gleymast."

* Sbr. orð Kolbrúnar Bergþórsdóttur í frábærum pistli hennar í Mbl. í dag:

"Nú vill svo til að vestræn siðmenning er grundvölluð á kristinni trú. Listasagan, bókmenntasagan og tónlistarsagan er undirlögð af kristnum gildum. Það er ekki hægt að skilja vestræna menningu nema þekkja sögur Biblíunnar. Öfgamönnunum í Vantrú kann að gremjast að listamenn skuli hafa verið svo uppteknir af Guði og Kristi að þeir hafi skapað ódauðleg listaverk kristinni trú til dýrðar. En þannig er það nú samt. Vantrúin fær því í engu breytt. Er það ekki einmitt eitt af hlutverkum skólans að mennta börn með því að kynna þeim þá merku menningar- og listasögu sem hvílir á kristnum grunni? Þeir sem þekkja þá menningu alls ekki teljast ekki sérlega vel menntaðir."

Jón Valur Jensson, 21.10.2010 kl. 16:01

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þau "sérréttindi kristindómsins", sem Svanur Gísli kann að telja sig greina hér, verða alls ekki borin saman við sérréttindi islams í múslimskum löndum. Í Saudi-Arabíu eru Biblíur t.d. teknar af mönnum við komu til landsins og þeim eytt. Ekki meinum við múslimum að koma hingað með sinn Kóran og jafnvel að standa í trúboði fyrir islam í Kolaportinu.

Jón Valur Jensson, 21.10.2010 kl. 16:13

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Við meinum þeim ekki heldur að dreifa sínum Kórönum hér!

PS. Tek það fram, að ég á Kóran, stóra bók á arabísku og ensku.

Jón Valur Jensson, 21.10.2010 kl. 16:19

15 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þá spyr ég þig Jón Valur sömu spurningar og ég spurði Valdimar og hann gat ekki svarað; Hvernig viltu gæta jafnréttis þegar að kemur að fræðslu og aðgengi barna að trúarlegu efni? -

Hvers eiga börn þeirra sem tilheyra öðrum trúarbrögðum en kristni, eða standa utan trúfélaga, að gjalda?

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.10.2010 kl. 17:33

16 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Jón Valur reit:

Það er stórmerkileg "fjölmenningarhyggja" sen vill útrýma þeim sérstaka arfi umfram margt annað, þ. á m. hluti sem hingað til hafa komið þjóðarsálinni lítið við.

Það er einmitt afstaðan sem kemur þarna fram í máli þínu Jón Valur, sem er beinlínis villandi fyrir þessa umræðu. - Að allir nemendur sitji við sama borð þegar kemur að trúarlegum efnum í skólum, er sjálsögð krafa um jafnrétti.

Að verið sé að tala um að útrýma þjóðararfi er mikil skrumskæling.

Þú skrifar einnig;

Þau "sérréttindi kristindómsins", sem Svanur Gísli kann að telja sig greina hér, verða alls ekki borin saman við sérréttindi islams í múslimskum löndum. Í Saudi-Arabíu eru Biblíur t.d. teknar af mönnum við komu til landsins og þeim eytt.

Þarna á er ekki eðlismunur heldur stigsmunur. Sérréttindin eru mismunandi mikil og hjá hvorugum er jafnréttisreglunnar ekki gætt..

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.10.2010 kl. 17:50

17 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Fræðslustefna Þjóðkirkjunnar er mótuð af því sem þegar er viðtekið í íslensku þjóðfélagi. - Hún endurspeglar m.a. yfirburðastöðu og sérréttindi kristni umfram aðrar lífsskoðanir í skólum landsins og hvernig sú staða er nýtt.

Fræðslustefna Þjóðkirkjunnar

Markmið: 

  • Koma skal til móts við kennara í kristnum fræðum svo þeir geti betur sinnt því starfi sem skólinn hefur falið þeim, að miðla þekkingu á kristnum trúar- og menningararfi.
  • Styðja þarf kennara við að temja börnum og ungmennum umburðarlyndi gagnvart þeim sem hafa önnur lífsviðhorf. Koma að umræðu um mótun menntastefnu þjóðarinnar með skýrum hætti. 

Verkefni:

  • Sóknir og stofnanir Þjóðkirkjunnar eigi samstarf við leikskóla/skóla um heimsóknir og fræðslu, sálgæslu, áfallahjálp og kærleiksþjónustu.
  • Þjónusta í kringum hátíðir kirkjuársins
  • Fræðsla og námskeið fyrir kennara í kristinfræði
  • Gerð ítarefnis um kristinfræði og trúarbragðafræði, t.d. um kirkjulegar athafnir
  • Fræðsla og fyrirlestrar hjá foreldrafélögum, m.a. um áföll og gildismat
  • Sjálfstyrking fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskóla
  • Lífsleikni fyrir framhaldsskóla þar sem áhersla er á tilvistarspurningar.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.10.2010 kl. 18:13

18 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er verið að vísa mikilvægum hluta menningar okkar, þjóðararfi, út í yztu myrkur með þessum frökku tillögum "mannréttindaráðsins", Svanur Gísli. Hvernig heldur þú að það verði fyrir kristin börn að upplifa það, að ekki megi minnast á trú þeirra með neinum jákvæðum hætti í skólum, hvað þá að leyfa þeim að syngja aðventulög í söngtímum?

Ég kalla það ekki "jafnrétti", að sáralítill minnihluti kúgi meirihlutann í málum. Þessar hugmyndir koma ekki frá Búddhistum eða múslimum, og þeim er ósárt um, að talað er um trúarlegt siðferði, en örfélagið Vantrú og samtökin Siðmennt standa að þessu með fáheyrðum atgangi, þetta eru félög sem haga sér eins og óbilgjarnir þrýstihópar og horfa kannski til "vel heppnaðs" áhlaups trúlausra baráttujálka (gagnkynhneigðra sem samkynhneigðra) á Þjóðkirkjuna á hennar innra kenningar- og helgisiðasviði. Þar létu lingeðja menn, líberalir, meðvirkir og Biblíufræða-snöggsoðnir undan áhlaupinu. Svo horfði einnig í þessu máli, og Bjarni Jónsson lét höggið falla með Margréti Sverrisdóttur hinni umboðslausu og Samfylkingarfólki sem er sama um kristindóminn.

En þá rísa foreldrar að sjálfsögðu upp, og gagnsóknin er bara rétt að hefjast. Þó tekur hins vegar afstöðu með þeim málstað hér sem sízt skyldi, Svanur Gísli, og ekki í fyrsta sinn. Er þér í alvöru illa við kristindóminn? Er það í anda Baháúllah?

Jón Valur Jensson, 21.10.2010 kl. 18:50

19 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Nei, Jón Valur, mér er ekki illa við kristindóminn og það veistu vel. En mér er illa við að meirihlutinn noti yfirburða-aðstöðu sína til að sniðganga rétt þeirra sem eru í minnihluta. -

En það er gott að þú gengst við því að grundvallarreglur jafnréttis eru sniðgengnar í skólum landsins þegar kemur að aðstöðu talsmanna lífsviðhorfa til að hafa áhrif á börnin.

"Sáralítill minnihluti" verður undir í þeim efnum eins og þú segir og Þessum minnihluta  tilheyra börn sem eiga samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum sem Ísland er aðili að, rétt á að sitja við sama borð og þau sem tilheyra meirihlutanum  

Um pólitíkina sem þú reifar hér stuttlega, kanntu vel að hafa rétt fyrir þér. En það breytir ekki réttmæti þessarar kröfu. Trúleysingjar eiga sinn rétt eins og aðrir minnihlutahópar.

Foreldri og börn í flestum trúfélögum sem standa fyrir utan þjóðkirkjuna, hafa í áratugi þurft að sætta sig við að þau standa ætíð utanvið stóran hluta skólahaldsins, þ.e. þeim sem snýr að trúarlegu hátíðarhaldi, siðum og venjum sem komin eru úr kristnum sið. Margt af því sem fram fer, er í sjálfu sér gróf móðgun við lífsskoðanir annarra.

Í umræðunni sem hefur átt sér stað um þetta mál hefur "málsmetandi" fólk, ákaft í að verja kristna menningu, opinberað algjöra vanþekkingu sína á trúar og lífsskoðunum þeirra sem ekki tilheyra "meirihlutanum".

Málið er að mikill meirihluti "minnihlutans" er fólk sem virkilega lætur það sig varða, hvað verið er að kenna börnum þess og hvernig komið er að því. Það hefur oftar en ekki valið sjálft að standa fyrir utan "meirihlutann", og er ekki fætt inn í hann eins og svo margir. Það sem engu máli virðist skipta fyrir "flesta" skiptir þetta fólk miklu máli og þar af leiðandi börn þess. - Að kenna börnum að signa sig er t.d. ekki tilhlýðilegt í þeirra augum. Fyrir múslíma er það algjör trúvilla. Að kenna börnum að syngja "Áfram Kristmenn krossmenn" er móðgandi fyrir aðra, o.s.f.r.

Það er ekkert að því að kristinn trú, eins og önnur trúfélög, stundi uppfræðslu og trúboð í sínum húsakynnum, en þegar kemur að skólum landsins verður að gæta að "minnihlutanum".

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.10.2010 kl. 19:50

20 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það geta ekki allir setið við "sama borð", Svanur Gísli, og vilja það ekki, það veizt þú vel. Það er ekki stafkrókur um "sama borð" í mannréttindasáttmálum. "Sömu réttindi" myndu þarna þýða að fá að sitja við sitt eigið borð, og ekkert hef ég á móti því, að t.d. múslimsk börn fái sér-stund með foreldrum og t.d. einum kennara, þegar önnur börn fá öðruvísi stund. Það er mikið um val í menntaskólum og víðar, en á þessu sviði er eðlilegt að krakkar fái val. Eins má leysa þetta með þvi að hafa t.d. litlu jólin undir lok skólatímans; þá geta hin fengið frí í staðinn. Þriðja lausnin væri sú, að skólar rísi fyrir utankirkjubörn.

Það var enginn að tala um það í þessari umræðu, að beðið væri um, að krökkum væri kennt að signa sg eða syngja "Áfram Kristmenn krossmenn" í skólunum -- svo hógværir erum við hinir kristnu (ólíkt hinum múslimsku), að okkur datt ekki einu sinni í hug að nefna þetta.

Þú átt eftir að svara ýmsu hér, sem ég hef sett fram í rökræðunni.

Jón Valur Jensson, 21.10.2010 kl. 20:21

21 identicon

Ég tek undir með þér Svanur, ágætur pistill og ég er þér sammála.

Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 22.10.2010 kl. 16:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband