Vinsældir Vígtannasmella

Vígtannasmellir hafa tekið við sem megin lestrar og áhorfsefni unga fólksins. Ljósaskiptasögurnar (Twilight) eru þeirra frægastar. Þær eru sannarlega arftakar Harry Potter bókanna, en fjalla mest um blóðsugu-stráka, varúlfa og venjulegar mennskar skríkjustelpur.

Spennan byggir öll á kunnuglegum söguþræði; tveir strákar úr sitthvorri klíkunni reyna að ná ástum sömu stúlkunnar. Ástin er forboðin því hvert bit veldur smiti og tyggjókúlukynlíf eða skýrlífi virðist vera eini möguleikinn í stöðunni. 

Útlitið á hinum dauðu, hálfdauðu og hinna vel hærðu á fullu tungli er þræl sexý og sannar að ekki er nauðsynlegt að vera löðrandi í brúnkukremi til að líta taka sig vel út í sló-mó slagsmálum á hvíta tjaldinu.

Stundum í skeggræðum manna um þessa þróun í afþreyingarefni fyrir ungviði heimsins, er hneykslast á því að blóð, mör og annar mennskur innmatur skuli vera svona vinsælt viðfangsefni. Yfirnáttúra hljóti að vera ónáttúra og dauðadýrkun öll frekar ólífvænleg fyrir unga huga.

Aðrir benda á að í fyrsta lagi sé hér ekkert nýtt á ferðinni, því þegar blóðsötri og spangóli sleppir, stendur eftir klassísk ástarsaga hins ófullnægða ástarþríhyrnings.

Þá beri að fagna því að unglingar nenni enn að lesa og boðskapurinn sé í sjálfu sér ekki neikvæður þótt hann sé kannski óraunhæfur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband