Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Sterki leiðtoginn

 Jón Gnarr er að reyna að hætta að reykja. Andstæðingar hans gera mikið úr því að hann viðurkennir, af þeim sökum, að vera pirraður út í sjálfstæðismenn. Þeir eiga bágt með að skilja hvernig maður í pólitískri ábyrgðarstöðu getur leyft sér að tjá sig á heiðarlegan hátt um sjálfan sig. Þeir segja það merki um veikleika og vanhæfni. Þeir eru vanir því að pólitíkusar afneiti statt og stöðugt breyskleikum sínum og kenni öðrum um ef eitthvað bjátar á. Þeir eru vanir hinum sterka leiðtoga, sem aldrei viðurkennir mistök. 

Persónulega finnst mér Jón Gnarr maður meiri fyrir að viðurkenna að nikótínleysið hafi áhrif á hann. Styrkleiki hans sem leiðtogi felst í heiðarleika hans, ekki hversu góður hann er í að hylma yfir galla sína.


mbl.is Pirringur vegna nikóktínfíknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heyrði hann enginn hrópa á hjálp?

Ungur maður hefur verið handtekinn, grunaður um morðið á Hannesi Þór Helgasyni. Þessi ungi maður valdi að tjá hugrenningar sínar á myndböndum og birta þau á youtube. Þegar þetta er skrifað eru þau enn þar að finna.

Að horfa á myndböndin er vægast satt átakanlegt. Hugarástand hans endurspeglast í titlum myndskeiðanna; Játning til Hildar, Hvernig þetta endaði, Ringulreið, Nýtt upphaf.

Ég horfði á öll myndböndin og get ekki betur heyrt og séð að síðasta myndbandið "Nýtt upphaf" hafi verið angistarfullt hróp á hjálp. Heyrði það einhver?

Myndböndin tala sínu máli fyrir utan það sem drengurinn er að segja. Svo til berir veggirnir á bak við hann, myndirnar á bolnum hans og í síðasta myndbandinu "Nýtt upphaf", eru allir litir horfnir úr herberginu hans.

Með þessu er ég ekki að fella neinn dóm á það hvort þessi ungi maður er sekur eða saklaus, en Það er búið að birta nafn þessa drengs opinberlega svo framhaldið verður erfitt hvernig sem fer.  Alla vega á hann og fjölskylda hans alla mína samúð, hver sem útkoman úr þessu hörmungarmáli verður.


mbl.is Neitar sök í morðmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasta detoxið

Þær eru margar enskumælandi kvikmyndirnar sem sýna jarðarfarir. Þegar presturinn kastar rekunum segir hann gjarnan "Ashes from to ashes, dust from, to dust".

Þar er lagt út frá þessu í GT; "Í sveita andlits þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!"

Íslenskir prestar vitna reyndar orðrétt í  tilvitnunar.

Fréttin hér að neðan greinir frá uppfinningu sem gerir fólki kleift að verða að dufti svo til strax en skilur eftir málma og eyturefni. Sýnist þetta vera einskonar detox aðferð eftir dauðann.


mbl.is Umhverfisvænna að þurrfrysta lík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískt hatur

120px-Inferior_frontal_gyrus_animation_smallPólitík er skrýtin tík og þeir sem kjósa að eiga samræði við hana smitast oft af einhveri óáran. Ein alvarlegasta sýkin sem pólitík-gusar eiga á hættu að smitast af er viðvarandi óbeit (oftast á öðru fólki) blönduð hræðslu og vanmáttarkennd. Í daglegu tali er þessi pest kölluð hatur.

Pólitískt hatur lýsir sér á seinni stigum ekki ósvipað og kynsjúkdómurinn sáraveiki. (Sýfilis). Sóttin leggst á heilan og getur framkallað ofstækisbrjálæði og ofskynjanir. 

Þegar einhver hatar má líka greina áhirf þeirra geðhrifa í ákveðnum stöðvum í heilanum og áhrifin eru svipuð, þeir sjá óvini í hverju horni, samkeppnisaðila meðal flokksfélaga og erkióvini meðal þeirra sem ekki tilheyra flokkinum.

Pólitík-gusar sem hata þykir sjálfsagt að ráðast að fólki beint og brigsla þeim um lygar og hvers kyns óheiðarleika eins og það sé ekkert tiltökumál. Þetta eru varnaviðbrögð sem heilinn kallar á þegar hann heldur að sér sé ógnað og veit jafnframt að hann er í veikri stöðu.

Hatrið er svo sterkt að ef viðkomandi er leitt fyrir sjónir með góðum rökum að þeir hafa rangt fyrir sér, eiga þeir til að herða enn róðurinn og fabúlera áfram þangað til þeir hafa málað sig algjörlega út í horn. Þegar þeim verður það ljóst, skella þeir venjulega skuldinni á pólitíkina sjálfa og segja sem svo; ja allt er leyfilegt í ástum og stríði og svona er pólitíkin.


Sjálfsmorðaalda vegna mikillar vinnu

Sjálfsmorðaaldan sem gekk yfir fyrirtækið Foxconn á meðan verið var að koma Ipad á markaðinn var með eindæmum. Fólk kastaði sér út um glugga verksmiðjunnar á fjórðu og fimmtu hæð til að binda endi á langvarandi vinnuþreytu sem tilkomin var vegna bágra kjara.  Foxconn er svo stórtækt í framleiðslu rafmagnstækja að líklegt er að heima hjá þér sé að finna eitt eða tvö tæki úr verksmiðjum þeirra.

Efnahagsleg velgengni Kína byggir á gífurlegri framleiðslugetu þeirra og framleiðslan er ódýr.  Sumstaðar eru daglaunin svo lág að fólk nær ekki að framfleyta sér eða fjölskyldu sinni á þeim. Yfirvinna er svarið. Dæmi eru um að verkamenn hjá Foxconn hafi unnið að meðaltali 80 stundir á viku í marga mánuði.


mbl.is Vona að launahækkun komi í veg fyrir sjálfsvíg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litningar úr Neanderdals-manninum finnast í nútíma-manninum

Þá þarf ekki að velkjast lengur í vafa um hver urðu örlög Neanderdals fólksins (Homo neanderthalensis). Það blöndaðist nútíma manninum (Homo sapiens sapiens). Vísindamenn skýrðu frá því í dag að þeir hefðu fundið að 1%- 4% af litningum nútíma mannsins, einkum þeirra sem búa í Evrópu og Asíu, eru fengin frá Neanderdals manninum.

Sjá nánar um þessa merkilegu frétt hér.


Mótsagnir hamingjunnar

success_and_happinessSumir hafa mjög þróað með sér mjög öfluga óhamingjuhvöt. Þeir líkjast mjög "gáfufólkinu" sem heldur að það eitt að vera neikvætt og gagnrýnið sé það sama og að vera rosalega klárt.

Því  finnst jafnframt að jákvætt fólk hljóti að vera heimskt. Það eina sem veitir slíku fólki hamingju eru sorg og vandræði.

Ég á auðvitað ekki við að lífið eigi að vera uppfullt af óendanlegri hamingu. Slíkt mundi gera hverja manneskju brjálaða.

Í raun er aðeins tvennt sem gerir fólk óhamingjusamt. Að fá allt það sem hjarta þeirra girnist og að fá það ekki.

En hvað er raunveruleg hamingja? Sumir segja langlífi og góð heilsa.

Allt sem mér þykir virkilega skemmtilegt er annað hvort ólöglegt, ósiðlegt eða fitandi. Og ég spyr mig, er það þess virði að gefa allar nautnir upp á bátinn í staðinn fyrir tvö ár í viðbót á einhverju elliheimili?


Feitismi - Fordómar sem beinast gegn feitu fólki

fat-people-celebÞað er sjálfsagt ekkert nýtt að grín sé gert af feitu fólki. En nú hafa verið svo mikil brögð af þessu í Bretlandi að fordómunum á feitum hefur verið gefið nafn þ.e. feitismi. (Fattism)

Algengt er að ráðist sé að feitu fólki á almannafæri, gerð að því hróp, því hrint og það hætt. Mikill áróður gegn offitu síðustu misseri hefur haft þau áhrif að feitt fólk er minna á stjái og þess vegna meira áberandi þegar það sést.

Áróðurinn er tengdur þeirri staðreynd að talið er að í Bretlandi sé 60% fullorðinna séu of þungir og 26% þeirra eigi við offitu að glíma. 28% barna eru talin of þung og 15% þeira eigi við offituvandamál að etja.

Þá eru sterkar líkur á að feitt fólk eigi erfiðara með að fá atvinnu, sé oftar beitt einelti á vinnustöðum og eigi erfiðara með að stofna til vinasambanda almennt og eigi þar með á hættu að einangrast samfélagslega.

Kynnt er undir þessum fordómum með ýmsu móti.  Oft sjást í blöðum og sjónvarpi myndir af stjörnum og selbitum sem sögð eru hafa bætt á sig kílóum og á því hneykslast í textum við myndirnar.

Fordómar gegn feitu fólki þykja orðnir sjálfsagðir  vegna þess að gert ráð fyrir því að feitt fólk hafi litla sjálfsstjórn sem virkar ógnandi á samfélag þar sem öll áherslan er á að vera magur. 

Oft er rót vandans ekki tengt fólkinu sem er of feitt, heldur hjá þeim sem viðleitnin til að halda sér grönnum hefur snúist upp í þráhyggju.  Ótti og óhamingja þeirra brýst út í andúð og hræðslu við fólk sem er feitt. 

Ágæta frétt um þetta mál er að finna hér á fréttavef BBC.


Ofbeldi með orðum

Ofeldi orðaÞað er löngu viðurkennt að orð, hvort sem þau eru sögð eða skrifuð, geta flokkast undir virkt ofbeldi.

Viðvarandi obeldi í orðum er mjög skaðlegt og getur valdið alvarlegum truflunum á tilfinningalífi þeirra sem því er beint gegn, skaðað sjálfsmynd þeirra og haft áhrif á andlegt og líkamlegt heilsufar þeirra. 

Sífelldar skammir og svívirðingar teljast andlegt ofbeldi. Slíkt á sér ekki aðeins innan veggja heimilanna, heldur einnig á vinnustöðum og á opinberum vettvangi. Þá er algengt að því sé beint gegn hópum eða pólitískum andstæðingum.

Að baki þess að beita einhvern ofbeldi af þessu tagi liggur einatt mjög lágt sjálfsmat gerandans:

Honum finnst hann ekki nógu góður og líklegt er að honum finnist hann valda öðrum stöðugum vonbrigðum. Þess vegna sækist hann eftir að setja fórnarlömb sín í sömu stöðu og hann er sjálfur.

Þá hefur það sannast að vaxandi ofeldi í orðum, leiðir til líkamslegs ofbeldis.

Helstu einkenni ofbeldis með orðum eru m.a. þessi:

  • Skeytingarleysi, hæðni, vanvirðing, og stöðug gagnrýni á aðra.
  • Lymskulegt orðaval.
  • Að niðurlægja aðra með ásetningi. 
  • Að ásaka aðra ranglega til að stjórna umræðunni  
  • Láta öðrum finnast þeir minnimáttar og undirmáls.
  • Láta sem orsakir ofbeldisins sé hegðun annarra.
  • Reyna að einangra fórnalamb sitt frá stuðningi annarra.

Tvíkynjungar

hermaphfullÁrið 1843 óskaði Levi Suydam, 23 ára íbúi í  Salisbury, Connecticut, eftir því að fá að kjósa í bæjarstjórnarkosningum sem voru á næsta leiti þar sem afar tvísýnt var um útkomuna. Ósk Levi olli miklu fjaðrafoki í bænum þar sem margir sögðu að Levi væri meira kona en karl og aðeins karlmenn hefðu kosningarétt. Bent var á að hann væri afar kvenlegur í útliti, hefði gaman að bútasaumi og væri hrifinn af skærum litum. Að auki færust honum karlmannleg verk illa úr hendi.

Kjörnefndin kallaði til Dr. William Barry lækni til að fá úr þessu skorið. Eftir að hafa gengið úr skugga um að Levi var búinn bæði limi og eistum, lýsti læknirinn góði yfir því að Levi væri karlmaður. Kosningarnar fóru síðan fram og báru þeir sigur úr býtum sem Levi hafði stutt, með einu atkvæði.

Nokkrum dögum seinna uppgötvaði Barry að "herra" Levi Suydam hafði reglulegar tíðir og kvenmanns-sköp. En hvernig gat þetta hafa gerst. Jóna Ingibjörg Kynfræðingur lýsir því á eftirfarandi hátt:

 Við vitum að grunnkynið er kvenkyns, þ.e.a.s. fram að sjöttu viku meðgöngu eru öll fóstur með útlit kvenkynskynfæra.  En ef fóstrið hefur Y-litning þá er byggt ofan á grunninn (sumir kysu að segja: þá verður frávik), þ.e.a.s. innri og ytri kynfærin sem eru með kvenkyns útlit breytast þá í karlkynskynfæri. Þannig verða t.d. ytri skapabarmar að pung, innri skapabarmar eiginlega hverfa en sjá má leifar af þeim sem röndina eða “sauminn” á limbolnum. Og geirvörturnar - hvað með þær hjá körlum? Þær verða bara þessir tveir blettir sem karlar skarta á brjóstkassanum, hálf tilgangslausir sem slíkir eða hvað?? Jæja, alla vega kemur Adam úr Evu en ekki öfugt! Þar hafið þið það!

Engin veit hvort Levi missti kosningaréttinn við þessa uppgötvun læknisins en sagan sýnir að vandamál sem stafa af óvissu um kyn einstaklinga eru ekki ný af nálinni.

Louvre%20Hermaphrodite%2002Tvíkynja einstaklingar hafa gjarnan verið nefndir  "Hermaphrodite"  eftir hinum gríska Hermaphroditusi sem var sonur Hermesar og Afródítu og er heiti hans samsett í nöfnum foreldranna. Samkvæmt arfsögninni var Hermaphroditus alin upp af skógargyðjum á hinu helga fjalli Phrygja (Freyja) í Tyrklandi. Þegar hann varð fimmtán ára var hann orðinn leiður á vistinni á fjallinu og lagði því land undir fót. Hann heimsótti borgirnar Lysíu og Karíu og þar hitti hann vatnagyðjuna Salmakíu sem hafist við í stöðuvatni í skóginum fyrir utan Karíu.

Lysía varð svo hrifinn af drengnum að hún reyndi að draga hann á tálar. Hermaphroditus færðist undan ástleitni Lysíu og þegar hann hélt að hún væri farin óð hann út í vatnið til að baða sig. Lysía sem hafði falið sig á bak við tré, stökk á bakið á Hermaphroditusi og vafði fótunum um lendar hans. Á meðan þau flugust þannig á, ákallaði Lysía guðina og bað þá um að gera þau óaðskiljanleg. Guðirnir urðu við ósk hennar og hún sameinaðist líkama Hermaphroditusar sem varð við það tvíkynja.

HermaphroditesGríski sagnritarinn Herodotus (484 f.K. –  425 f.K.) segir frá tvíkynja ættbálkinum Makhlya sem hafðist við í norð-vestur Líbýu við strendur Triton vatns. Hann segir meðlimi ættbálksins vera konur örðu megin en karlmenn á hina hliðina. - Líklegt þykir að stríðstilburðir kvenna ættbálksins og sá siður karlmanna hans að láta hár sitt vaxa niður á mitti hafi verið megin orsök þessarar sögusagnar.

article-0-061D19E9000005DC-924_306x423Segja má að athygli almennings nú til dags beinist mest að tvíkynjungum í tengslum við íþróttir. Fyrir skömmu gerðist það einmitt, svo um munaði þegar Caster Semenya, 18 ára stúlka frá suður Afríku vann óvænt 800 metra hlaupið (1:55.45.) á heimsmeistaramótinu í frjálsum í Berlín fyrir nokkrum mánuðum. Í ljós kom eftir mikið umstang og rannsóknir, að Caster er líffræðilega tvíkynja en þrefið hafði mjög alvarlegar sálfræðilegar afleiðingar fyrir Caster sem ekki hefur teyst sér til að taka þátt í keppnum eftir þetta.

Þá er fræg sagan af hinni pólsk fæddu Stanisłöwu Walasiewicz eða Stellu Walsh sem var nafnið sem henni var gefið eftir að foreldrar hennar fluttu til Bandaríkjanna. Þar sem hún fékk ekki að keppa fyrir Bandaríkin hóf hún að æfa hlaup í Póllandi og varð fljótlega að alþjóðlegri hlaupastjörnu. Á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1932 vann hún gullið í 100 metra hlaupinu. Á leikunum í Berlín árið 1936 fékk hún silfur þar sem hún kom önnur í mark á eftir Helen Stephens. Andrúmsloftið á Nasistaleikunum 1936 var lævi blandið og m.a var Helen sökuð um að vera karlmaður og þá ásökun studdi Walasiewicz. Helen var neydd til að gangast undir kynpróf og stóðst það með glans; hún var kona.

stella4. desember árið 1980 varð Walasiewicz (Stella Walsh) þá 69 ára gömul,  óvart fyrir byssukúlu í misheppnaðri vopnaðri ránstilraun í  Cleveland í USA. Hún lést á sjúkrahúsinu þar í borg og krufning leiddi í ljós að hún var með karlmanns kynfæri. Við frekari rannsókn varð ljóst að hún hafði karlmannslitningin XY og hefði því, samkvæmt reglum Ólympíuleikana, ekki verið leyft að keppa sem kvenmaður.

Kynjapróf urðu skylda á Ólympíuleikum upp úr 1968 þegar það uppgötvaðist á Evrópuleikunum 1967 að önnur pólsk hlaupadrottning, Ewa Klobukowska var með karllitninginn. Klobukowska varð að skila aftur gull og brons verðlaununum sem hún hafði unnið á Tokyo leikunum 1964.

Ewa KlobukowskaSá gjörningur var reyndar mjög óréttlátur því seinna kom í ljós að hún var ekki með karllitninginn XY heldur stökkbreyttan XXXY litning sem hafði engin áhrif á kynfæri hennar eða kynferði.

Tamra PressÖrðu máli gegnir hins vegar um Úkraínsku systurnar Tömru og Irinu Press sem unnu samtals fimm gull í frjálsum Íþróttum á Ólympíuleikunum 1960 en hurfu síðan af sjónarsviðinu eftir að kynjaprófið var gert að skyldu. Margir eru þeirrar skoðunar að þær hafi báðar verið tvíkynjungar þótt Rússar hafi ætíð neitað því.

Frá árinu 2000 hefur ekki verið kafist að keppendur á Ólympíuleikum gangist undir kynjapróf en nefndin áskilur sér rétt til að krefjast slíks ef ástæða þykir til.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband