Færsluflokkur: Fjármál
7.5.2009 | 15:38
Wall Street nornin
Árið 1998 safnaði bandaríska tímaritið American Heritage Magazine saman nöfnum 40 auðugustu Bandaríkjamanna fyrr og síðar miðað við gengi dollarans það sama ár. 39 karlmenn voru á þeim lista og aðeins ein kona. Enn í dag er hún talin auðugasta konan sem Bandaríkin hafa alið. Hún hét Hetty Green og þegar hún lést árið 1916 voru auðævi hennar metin á rúmar 100 milljónir dala. (17 billjónir á núvirði bandaríkjadollara)
Hetty Green var mjög fræg á sínum tíma, ekki fyrir auðævi sín, heldur fádæma nísku.
Hetty varð auðug á afar hefðbundin hátt, þ.e. hún erfiði mikið fé. Faðir hennar sem bjó í New Bedford í Massachusetts varð ríkur á hvalveiðum og þegar Hetty Howland Robinson fæddist árið 1834 var hann þegar orðin þekktur kaupsýslummaður. Hetty fékk snemma áhuga á fjrámálum og lærði að stauta á læri föður síns sex ára að aldri, þegar hann las kaupsýslutíðindin. 13 ára hóf hún að færa bókhald föður síns og fjárfesti laun sín á verbréfamarkaðinum. Í öllum fjárfestingum sínum fór hún afar varlega og kom sér í því efni upp vinnureglum sem hún fylgdi allt til dauðadags.
Í "villta vestrinu" varð til málsháttur sem sagði; "Þegar að staðreyndir verða að goðsögn, prentaðu þá goðsögnina". Sögurnar af nísku Hetty voru frægar um öll Bandaríkin á sínum tíma. Sagt var að þegar hún varð 21. árs hafi hún neitað að tendra kertin á afmæliskökunni sinni. Daginn eftir afmælisdaginn tók hún kertin og skilaði þeim aftur í verslunina þar sem þau höfðu verið keypt og fékk þau endurgreidd.
Þegar að faðir hennar dó, erfði Hetty eina milljón dollar eftir hann og aðrar fjórar sem bundnar voru í sérstökum sjóði. Tveimur vikum eftir dauða föður hennar, lést auðug frænka hennar sem lofað hafði Hetty að hún mundi arfleiða hana að tveimur milljónum dollara. Þegar á daginn kom að frænkan hafði aðeins ánafnað Hetty 65.000 dollurum í erfðarskrá sinni, reiddi Hetty fram aðra erfðaskrá sem var handrituð af henni sjálfri. Hetty uppástóð að gamla konan hefði fengið hana til að rita nýja erfðaskrá skömmu áður en hún lést og þá ánafnað Hetty allan auð sinn. Það tók Hetty fimm ára baráttu fyrir dómstólum landsins að fá þessa nýju erfðarskrá viðurkennda en það gekk að lokum.
Hetty grunaði alla þá sem sóttust eftir að giftast henni að ágirnast auð hennar meira en hana sjálfa og því festi hún ekki ráð sitt fyrr en hún var orðin 33 ára. Hún giftist Edward Henry Green sem einnig var kaupsýslumaður. Hetty var öllu glúrnari í viðskiptum en Edward og þegar að hún neyddist til að borga fyrir hann skuld, losaði hún sig við skuldina og eiginmanninn í leiðinni.
Þegar að Ned sonur hennar var 14 ára, lenti hann í slysi á snjósleða. Annar fótleggur hans hrökk úr liðnum en móðir hans neitaði að leggja drenginn inn á sjúkrahús. Í staðinn reyndi hún að lækna hann sjálf og leita til læknisstofa sem veittu frýja þjónustu. Að lokum fór svo að drep hljóp í fótinn og taka varð hann af við hné.
Dóttir hennar Sylvía, bjó með móður sinni fram að þrítugu. Öllum vonbiðlum var hafnað þar sem Hetty þótti engin nógu góður fyrir dóttur sína.
Þegar hún loks leyfði ráðhag dóttur sinnar og Matthew Astor Wilks sem giftu sig 1909, lét Hetty Matthew skrifa undir kaupmála þar sem hann afsalaði sér öllu tilkalli til auðæva Sylvíu, þótt hann væri sjálfur ekki beint bláfátækur þar sem eignir hans voru metna á meira en 2. milljónir dala.
Hetty var skuldseig með eindæmum og greiddi aldrei reikninga án þess að röfla yfir þeim. Oftast enduðu ógreiddir reikningar á hendur henni í lögfræðiinnheimtu.
Sagt er að eitt sinn hafi hún eytt hálfri nóttu í að leita að tveggja senta frímerki.
Eftir að fyrrum eiginmaður hennar lést árið 1902, flutti hún frá heimabæ hans í Belloes Falls í Vermont til Hoboken í New Jersey, til að ver nær kauphöllinni í New York borg. Hún klæddist alltaf svörtu og fór á fund við kaupsýslumenn og bankastjóra á hverjum degi. Klæðnaður hennar og sérviska urðu til ess að hún var uppnefnd Wall Street nornin.
Allt sem Hetty tók sér fyrir hendur virtist enn auka á munmælasögurnar sem af henni fóru. Hún bjó í herbergiskytru sem hún leigði og eyddi aðeins um 5 dollurum á viku til lífsviðurværis.
Hún gerði oft langan hlykk á leið sína til að kaupa brotið kex í heildsölu. Hún klæddist sama kjólnum dag eftir dag uns hann lak í sundur á saumunum. Þegar hún komst ekki lengur hjá að þvo flíkina, skipaði hún svo fyrir að hún skyldi aðeins þvegin að neðan þar sem hún skítugust.
Hádegisverður hennar var hafragrautur sem hitaður var á ofninum í skrifstofu hennar í Seaboard National Bank þar sem hún vildi ekki greiða leigu fyrir sér húsnæði. Eini munaðurinn sem hún leyfði sér tengdist hundinum hennar, sem borðaði miklu betri mat en Hetty sjálf.
Oft leituðu borgaryfirvöld í New York til Hetty til að fá lán svo borgin gæti staðið í skilum. Í þrengingunum 1907 lánaði hún borginni 1.1 milljón dollara og fékk greitt í skammtímavíxlum.
Í elli þjáðist Hetty af slæmu kviðsliti en neitaði sér um læknisaðgerð sem kostaði hefði hana 150 dollara. Hún fékk slag oftar en einu sinni og var bundin við hjólastól síðustu ár ævi sinnar.
Hún óttaðist að henni yrði rænt og lét rúlla sér krókaleiðir til að forðast þá sem hún hélt að væru á eftir sér. Hún hélt því fram á gamalsaldri að eitrað hefði verið fyrir föður hennar og frænku.
Þegar að Hetty dó árið 1916, þá 81 árs, rann allur hennar auður til tveggja barna hennar, Ned og Sylvíu sem ekki tileinkuðu sér sama lífsmáta og móðir þeirra og eyddu fé sínu frjálslega og af gjafmildi.
Fjármál | Breytt 10.5.2009 kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
24.3.2009 | 14:47
Íslensku glæpagengin enn í góðum málum
Helsta vandamál allra stórtækra glæpamanna er hvernig þeir eigi að koma peningunum sem þeir svindla, stela eða fá fyrir ólöglega starfsemi sína, aftur í umferð og geti eytt þeim aftur í það sem þá lystir, án þess að yfirvöld geti hankað þá. Aðferðirnar sem þeir beita gengur undir samheitinu peningaþvætti. Besta aðferðin, lengst af, þótti að kaupa banka, helst í landi þar sem stjórnvöld eru ekkert að fetta fingur út í starfsemi bankanna og láta þá óáreitta.
Þetta gerði t.d. Mafíósinn frægi, Meyer Lansky á Kúbu á fjórða og fimmta ártug síðustu aldar og naut til þess stuðnings herhöfðingjans Batista sem svo varð forseti landsins 1952. Flestum er kunnugt um þá sögu og inn á hana kemur m.a. Mario Puzo í öðru bindi um Guðföðurinn en þar er Meyer látin fara með dálitla ræðu um hversu möguleikarnir fyrir glæpagengin séu miklir þar sem ríkisstjórnin og löggjöfin sé vinveitt þeim. Hann kallar Kúbu "paradís" hvað það snerti.
Helstu tekjur þessara glæpagengja á Kúbu voru af eiturlyfjasölu, spilavíta-rekstri og vændi. Þau fluttu illa fengna peninga sína frá Bandaríkjunum og fjárfestu í bönkunum í Havana, lúxushótelum, bílum og flugvélum og afganginn sendu þeir til Sviss.
Á Íslandi hefur svindl og ákveðin gerð peningaþvættis verið hafinn upp til hærri hæða enn nokkru sinni gerðist á Kúpu. Glæpahyskinu þar þótti mikilvægt að Bankar þeirra héldu "löglegu" yfirbragði og forðaðist að nota þá beint til ólöglegrar starfsemi.
En eftir að bankarnir voru einkavæddir á Íslandi, hófst umfangsmikil fjárplógsstarfsemi sem fólst í því að gera bankana sjálfa að aðal tekjulindinni. Aðferðin fólst m.a. í því að bjóða útlendingum himinháa vexti fyrir innlánsfé sem síðan var komið undan inn á bankareikninga á hinum ýmsu aflöndum. Bankarnir fölsuðu skýrslur sem sýndu að eignir bankanna væru miklu meiri en þær voru í raun og veru og fengu peninga lánaða út á það hjá öðrum bönkum sem síðan var komið fyrir í lúxuseignum og skúffufyrirtækjum víða um heim. Að auki var sparifé Íslendinga, opinberum sjóðum landsins, hlutabréfum og öðru vörslufé bankanna, komið undan á svipaðan hátt. Segja má að græðgi glæponanna sjálfra hafi að lokum slátrað mjólkurkúnni, enda hún orðin mögur og mergsogin.
Að koma öllu þessu í kring tók nokkurn tíma en á meðan þessi iðja stóð sem hæst voru þjófarnir hilltir á Íslandi og þeim færðar orður fyrir framgöngu sína í þágu þjóðarinnar. Stjórnvöld studdu við bakið á þeim með því að láta þá algjörlega óáreitta enda störfuðu þeir í anda stefnu þeirra, þ.e. óheftrar frjálshyggju sem kveður á um að efnahagslögmálin sjái sjálf um að allt gangi eðlilega fyrir sig.
Það sem er undarlegast samt, núna þegar upp hefur komist um svindlið og þjófnaðina sem voru svo stórfelldir að við jaðrar að landið sé gjaldþrota, þá þorir enginn enn að sækja skálkana til ábyrgðar. Fólk hamast í pólitíkusunum sem létu þetta viðgangast og krefjast þess að þeir fái ekki að koma lengur að stjórn landsins, en sjálfir glæponarnir fara frjálsir ferða sinna, njóta enn illa fenginna auðæfanna og að því er virðist hafa algjörra friðhelgi.
Þegar að smá-þjófar eru handteknir af lögreglu, er þeim haldið í gæslu ef hætta þykir á því að þeir geti spillt sönnunargögnum í málinu eða komið þýfinu undan. En um landræningjana, íslensku nývíkinganna, gilda önnur lög.
Að auki ætlast stjórnvöld til þess að almenningur í landinu, greiði nú af litlum efnum, það sem svindlararnir höfðu af erlendum aðilum af fé.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 15:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.3.2009 | 02:41
Eftirlegukindin Ísland
Hún er heit umræðan þessa dagana um hvort Íslandi sé betur sett innan eða utan Evrópubandalagsins. Ein er hlið á því máli sem sjaldan sést rædd, enda hagsmunapólitíkin í forsæti eins og vanalega. -
Þegar við lítum yfir farin veg mannkynsins síðast liðin 10 þúsund ár má greinilega sjá að menningarleg þróun okkar krefst stöðugt stærri samfélagsheilda. Ef stiklað er á stóru í þessari söguskoðun sjáum við að fjölskyldan óx af hirðingastiginu og varð að ættbálki sem gat með samvinnu ræktað landið. Ættbálkarnir mynduðu með sér borgríki þar sem iðnaður og verslun varð til. Borgríkin mynduðu með sér bandlög sem urðu að lokum að þjóðum. Nú streitast þjóðirnar til við að mynda með sér þjóðabandalög sem að lokum munu sameinast í einu alþjóðlegu ríkjasambandi. Hinar umfangsmiklu breytingar á högum og háttum manna þegar að þeir hættu að reiða sig á veiði og því sem þeir gátu safnað og fóru að rækta jörðina marka svo mikil tímamót að áhrifamestu rit heimsins eins og Biblían, hefjast á frásögninni af þeim.
Lífsafkoma fólks heimsins og lífsgæði þess á hverju stigi, valt og veltur ætíð á að hvaða marki það var tilbúið til að tileinka sér þau sjónarmið sem gerðu þeim kleift að taka þátt í þessari framvindu menningarlegrar og samfélagslegrar þróunar. Eftirlegukindurnar og þeir sem heltust úr lestinni, stöðnuðu og tíndust.
Það kann vel að vera að Ísland geti streist á móti þessari, að því er virðist, ómótstæðilegu tilhneigingu sögu-framvindunnar í einhver ár í viðbót, en þeir geta ekki vonast til að stöðva þróunina. Fyrr eða seinna verða þeir að semja sig inn í þjóðabandalagið eins og aðrar þjóðir eða gerast ein af eftirlegukindunum og lúta þá örlögum þeirra.
Sú heimskreppa sem læsir nú klónum um mannkynið á eftir að herða takið til muna enda er hún aðeins byrjunin á miklum samfélagslegum hamförum á borð við þær sem áttu sér stað þegar að mannkynið sagði skilið við hirðingjalífs-stíl sinn og tók upp fasta búsetu og jarðrækt. Að auki er hún uppgjör við helstefnu blindrar efnishyggju sem einhverjir gáfu réttnefnið "frjálshyggja" því undir henni er öllum allt leyfilegt. Hugmyndafræðilega er hún ímynd fjárhagslegs Darwinisma.
Næstu skref í samfélagsþróun mannkynsins verða tekin þrátt fyrir tregðu þess til að stíga þau. Í því sambandi er sannarlega um líf eða dauða að tefla. Það er t.d. fyrirsjáanlegt að á næstu áratugum verður tekin upp alheimsleg minnt og staðlað efnahagskerfi sem tryggir fólki sömu laun fyrir sömu vinni hvar sem það er í heiminum. Samtímis verða auðlindir heimsins álitnar tilheyra mannkyninu öllu frekar en einstaka þjóðum enda er vistkerfi hans svo samfléttuð að ómögulegt er þegar að réttlæta tilkall einnar þjóðar til nýtingu þeirra umfram aðrar.
Ísland sem er svo ríkt af varningi sem í framtíðinni munu skipta mesta máli fyrir afkomu mannkynsins, vatni og orku, ætti að vera í fararoddi þeirra þjóða sem vilja deila með heiminum auðlindum sínum, í stað þess að draga á eftir fæturna eins og staðan er í dag.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 02:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.3.2009 | 22:03
Fljúgandi mörgæsir, spennandi kostur
Stundum heyrir maður um hluti sem eru einfaldlega of ótrúlegir til að þeir geti verið sannir. En svo kemur í ljós að sannleikurinn er miklu ótrúlegri en skáldskapur getur nokkru sinni orðið. Íslendingar hafa sannreynt þetta aftur og aftur á síðast liðnum mánuðum.
Grænmetissalar og búðarstrákar sem afgreiddu mig um kartöflupoka á góðum degi fyrir nokkrum árum, urðu einhvern veginn að ofur-krimmum eins og þeir gerast verstir í ofurhetju-teiknimynda-sögunum, sem við vitum öll að eru ótrúlegastar af öllum ótrúlegum skáldsögum. Þeir sátu með puttann á hnappinum, tilbúnir til að brjóta fjöregg þjóðarinnar ef þeim yrði ógnað. Og svo, alveg eins og í teiknimyndablöðunum gerðist eitthvað og allt fór í há loft en þeir voru snöggir til og ýttu á hnappinn og tókst að flýja með allt sitt og komu sér fyrir í fylgsnum sínum út á eyðieyjum. Munurinn er sá að Þjóðin á enga súperhetju (Captain Ísland) til að leita réttar síns á þeim. Þess vegna brosa þeir í kampinn í dag og láta taka við sig vitöl þar sem þeir segja drýgindalega hafa tapað miklu sjálfir og e.t.v. hefði það verið farsælast hefðu þeir haldið áfram að selja bara kartöflur út í búð.
Upphæðirnar sem þessir drengir náðu að svindla út úr Íslendingum eru svo háar að það þarf sérstök útskýringa-myndbönd til að fólk fatti hversu miklir peningar þetta voru. - En satt að segja finnst mér upphæðirnar hættar að skipta máli. Þær hafa enga merkingu lengur fyrir mig og fá mig bara til að gapa eins og bjáni eina ferðina enn.
Þess vegna er líklega best að fá bara einhverjar ofurkonur með sæt nöfn og mikla reynslu utanúr heimi til að eltast við þessa bófa. Þá lendir heldur ekki einhver í því að þurfa handtaka og kæra besta vin sinn eða jafnvel bróður sinn.
En það sem kannski er verra er að fullt af frómu fólki reynir að sannfæra mig um að nú sé allt á leiðinni til betri vegar. Nýtt fólk sé að komast í valdastöðurnar, ný framboð séu í uppsiglingu og ný andlit séu að taka við af þeim gömlu í eldri framboðunum. Allt á að breytast nema, kerfið. Við því má ekki raska og mér líður eins og ég sé dottinn inn í kvikmyndina The Wall.
Mér finnst yfirstandandi breytingar álíka trúverðugar og meðfylgjandi myndband. Myndbandið hefur það fram yfir framboðs-framagosa-hjalið að það er skemmtilegt.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)