Færsluflokkur: Fjármál
10.9.2009 | 00:28
Þefurinn af þrotabúinu trekkir
Hinar alþjóðlegu auðhyggjugammar eru fljótir að renna á blóðlyktina. Ísland er í sárum og fréttir berast af fljótfærum og áköfum pólitíkusum suður með sjó sem gerst hafa sölumenn náttúru-auðlinda landsins og láta þær fyrir lítið. Þeir vilja sjálfsagt láta hylla sig sem bjargvætti en sagan mun bölva þeim.
Þar er ekki tjaldað til einnar nætur, heldur munu afkomendur kaupendana njóta þessara hagstæðu viðskipta í nokkrar kynslóðir. Vatn og jarðvarmi er til lengra tíma litið besta fjárfesting sem hægt er að hugsa sér hér i heimi. Betra en olía sem fyrr eða síðar mun þverra, betra en gullið sem glóir en gefur ekki frá sér hita.
Þessi "hópur Japana" sem segir frá í þessari frétt, verður ekki sá síðasti sem kemur til með að hafa áhuga á orkuútsölunni á Íslandi. Því fyrir utan að mega nýta orkuna í jörðinni, búa orkufyrirtækin yfir þekkingu sem hægt er að selja háu verði út um allan heim. - Þetta vita fullt af hópum frá Japan og Kanada og Noregi og jafnvel Rússlandi sem eru í þann mund að stökkva upp í flugvél til Íslands með milljarð af einhverju í tösku.
Og bráðum verður líka til stór sjóður á vegum snjallra íslenskra peningamanna frá íslensku lífeyrissjóðunum sem ætlar að "fjárfesta" í íslensku atvinnulífi. Þeir ætla að blása lifi í glæðurnar á útbrunnum eldum fyrirtækjanna sem fóru illa í hruninu.
Þeir hafa ekki nefnt neinar upphæðir enn, því þær skipta ekki máli vegna þess að lífeyrisgreiðslur til lífeyrisþeganna sem eiga sjóðina hafa þegar verið skertar. Þannig verður til áður ónýtt fjármagn sem þarf að nýta.
Lengi lifi "Nýja Ísland".
Vilja fjárfesta fyrir milljarð dala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 01:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.9.2009 | 17:08
Gvöð nei, ég vissi ekkert!!
Hún er eiginkona fyrrverandi Bankastjórans. Hún seldi bréf sem hún átti í bankanum fyrir 55 millur , rétt fyrir hrun. Það þarf ekki mikið ímyndunar afl til að geta sér til um hver vörn hennar verður.
Nei, þetta voru sko ekki innherjaviðskipti. Hún vissi ekkert um í hvert stefndi með SPRON. Þótt maðurinn hennar hafi verið bankastjóri þá var aldrei talað um mál bankans inn á heimilinu eða annarsstaðar í hennar áheyrn.
Nei bíðið nú aldeilis hæg. Hmm. Það var hann sem vissi ekkert. Sjálfur stjórinn hafði ekki hugmynd um hvernig bankinn var staddur. Allir aðrir stjórar voru ansi glúrnir við að koma sínu fé úr bönkunum í öruggt skjól. Ekki hann. Hann sat eftir með sárt ennið, nema hvað hann , eða hún fékk þessar skitnu 55 millur.
Ég veit ekki hvort er verra að játa á sig þau afglöp að hafa ekki fylgst með gangi mála og ekkert vitað að bankinn riðaði á barmi gjaldþrots, eða að hafa hvíslað að konu sinni; þetta er allt að far í kalda kol, seljum eins mikið og við getum. -
Já, það er líka komið í ljós að þótt hún hafi selt bréfin voru þau sameiginlegar eigur þeirra hjóna; "Ég vil líka taka fram að mjög lítill hluti af sameiginlegri eign okkar hjóna í SPRON var seldur á þessum tíma eða 7% enda höfðum við miklar væntingar um framtíð SPRON og héldum eftir 93% af stofnfjárbréfaeign okkar í sparisjóðnum." segir Guðmundur.
Svo er saksóknari efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra greinilega beintengdur inn í hausinn á Guðmundi, því hann hefur staðfest að hann viti að Guðmundur vissi ekkert.
Kemur nokkuð til greina að skila aftur peningunum til Davíðs Heiðars sem Guðmundur bar ábyrgð á að töpuðust? He he...Nééé.
Guðmundur: Bjó ekki yfir upplýsingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
9.9.2009 | 11:36
Þá hlógu allir í helvíti
Ísland og íslendingar er óðum að missa sakleysi sitt. Vígin falla eitt af öðru fyrir því sem hjörtun þrá, peningum.
Við höfum lengi óhreinkað sál og orðstý landsins með að nota hreina orku þess til að framleiða ál, m.a. fyrir hergögn, orðið rík þegar ófriður geisar og verðið hækka og snúið okkur undan í ólund þegar friðsamt var, því þá lækkaði álverðið aftur.
Bein þátttaka landsins í styrjöldum þótti eitt sinn fjarlægur möguleiki. Svo gerðist Ísland aðili að árásarstyrjöld í von um að geta mjólkað Bandaríkjaher dálítið lengur, en það reyndist á endanum vafurloginn einn. Samt tókum við þátt í flytja hergögnin, sendum Herdísi hermann til að herja og leyfðum flugvélum á leið að sprengja Íraka að millilenda hér.
Nú höldum við áfram að kanna þennan dimma veg sem stríð og átök heimsins eru og spreytum okkur á hergagnagerð. Þetta eru sérstakir bílar fyrir norska herinn til að nota í austurlöndum. Loksins fannst iðnaður sem er landi og þjóð sæmandi, og arðvænlegur líka. Miklar vonir bundnar við að fleiri vopnaskakarar bíti á krókinn. Enn er það náttúra Íslands sem er dreginn upp úr svaðinu með að nota hana til að prófa stríðs-djásnin. Nei, þetta eru ekki morðtól, kunna sumir að segja. Þá hlógu allir í helvíti.
Auglýsing frá Arctic Trucs sem birtist m.a. á þessari hergagnasölusíðu.
Arctic Trucks offer a range of modifications for 4x4 light wheeled vehicles for special missions as Medevac, patrolling, MP, law enforcement, liaison, escort, EOD services, dog transport and so forth. Arctic Trucks modifications enhance extreme off-road mobility for military organizations, humanitarian aid, rescue organizations and companies who must be able to operate in complex environments under the most rigorous conditions. One of the 4x4 modification is the High Mobility Multi Purpose G290 light wheeled vehicle. The G290 is one of the world's most sold vehicle for military purposes in its class. The rigid chassis and drive line allows large wheels to be fitted, thus improving the mobility greatly. The basic construction of the G-class, combined with accessibility of spare parts world wide, makes the G-class superb as a platform for military purposes. The High Mobility editions are combat proven in many operations and over many years with excellent results.
Íslendingar selja norska hernum sérútbúna jeppa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.9.2009 | 19:43
Til hamingju Jón Ólafsson
Það er fátt sem fær mig til að brjóta þá reglu mína að blogga ekki við fréttir. Hér verður gerð undantekning. Góðu fréttirnar frá Íslandi eru of fáar þessa dagana til að sleppa þessari.
Íslenska vatnið sem á eftir að verða helsta auðlind landsins er að gera það gott á erlendum mörkuðum og brautryðjandi i markaðssetningu þess er hinn umdeildi kaupsýslumaður Jón Ólafsson.
Jón Ólafsson skólabróðir minn og æskufélagi, var á sínum tíma nánast hrakinn úr landi, sakaður um skattsvik og fleira sem síðan reyndust tómir órar. Hann var borin þungum sökum af ýmsum fyrirmönnum í landinu og neyddist á endanum til að verja hendur sínar fyrir dómstólum. Þau mál féllu öll honum í hag.
Það er kaldhæðni örlaganna að svo til einu góðu fjármálfréttirnar frá Íslandi þessa dagana, skuli vera af fyrirtæki sem Jón veitir forystu , á meðan að þeir sem reyndu að koma hinum í koll á sínum tíma, leika nú hlutverk hirðfífla í fjölmiðlum landsins.
Íslenskt vatn á bandarískum flugvöllum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 19:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.8.2009 | 12:13
Saving Icesave
Þá er þessum þætti sýndar-veruleikasjónvarpsþáttarins frá Alþingi Íslendinga lokið. Saving Icesave hefur notið mikilla vinsælda upp á síðkastið en nú er ekki hægt að teygja lopann lengur, enda nóg komið að margra mati.
Samt var fullt af fólki hélt að þarna væri um alvöru alvöru að ræða, þ.e. raunverulegan raunveruleika. Það mætti jafnvel til að mótmæla niðrá Austurvöll. Ég er að velta fyrir mér hvað það fólk geri nú þegar það fattar að þetta var allt í plati.
Annars sýna fyrstu viðbrögð þess fyrst og fremst hvað leikurinn í þættinum var virkilega góður. Sérstaklega á endasprettinum, í kosningunni sjálfri, þegar Framsóknarflokkurinn sem greinilega er að reyna auka vinsældir sínar í þessu leikriti, sagði "nei, nei, nei". Vá..slíkan ofurleik hefur maður ekki séð lengi. - Sumir sem enn eru ekki búnir að fatta að þetta var og er bara sjónarspil ætla örugglega að kjósa þá næst.
Ég sá reyndar handritið að þessum farsa fyrir tæpu ári. Það var skrifað af fyrrverandi ríkisstjórn . Það var líka með; " við lofum að borga" sem endi á málinu og þeim endi hefur ekki verið breytt þrátt fyrir mikið stagl og streð. - En það var nú líka fyrirsjáanlegt. Þegar einu sinni er búið að taka ákvörðun um hvernig plottið gengur upp er ekki hægt að breyta því. En það var flott flétta að þykjast ætla að breyta því. Hélt manni við skjáinn ansi lengi.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.8.2009 | 14:08
Hugsar fólk í hringi þegar það villist af leið?
Því hefur lengi verið haldið fram að fólk gangi í hringi ef það villist. Nú hefur tekist að sanna með vísindalegum aðferðum að þetta er rétt. Sjá Hér.
Miðað við meðhöndlun stjórnmálamanna á erfiðum málefnum, eins og t.d. Icesave samningunum, sýnist mér allt benda til þess að sama eigi við þegar fólk tapar áttum vitsmunalega og tilfinningalega. Þá byrjar það að hugsa í hringi og kemst ekkert áfram.
Nú hafa stjórnmálamenn hringlað með Icesave samninginn í nokkrar vikur, án þess að gera á honum nokkrar teljandi breytingar. Eftir alla umfjöllunina í nefndum þingsins, stendur þingheimur í sömu sporum og þegar samningurinn var fyrst kynntur fyrir þinginu.
Ástæðan er vitaskuld að strax í upphafi villtust stjórnvöld af leið, þegar þau samþykktu að undirgangast þessar ábyrgðir. Af þeirri villuleið hefur aldrei verið horfið og þess vegna er niðurstaðan þetta hringsól.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.8.2009 | 18:09
Íslenska þjóðin er allra manna gagn
Ef eitthvað er að marka fréttaflutning blaða (og ég tek það fram að mér hefur fundist hann afar misvísandi upp á síðkastið, svo ekki sé meira sagt) fara starfsmenn Straums sem nú er í eigu og umsjá ríkisins fram á miklar (milljarða) bónus greiðslur fyrir að innheimta fyrir fyrirtækið það sem skuldunautar þess skulda því.
(Fjármálaeftirlitið beitti neyðarlögunum á Straum Burðarás þann 9.Mars 2009 til að bjarga tugmilljarða innistæðum sem Íbúðalánsjóður og lífeyrissjóðirnir áttu í bankanum og yfirtók rekstur hans, vegna þessa féllu hlutabréf í félaginu niður um 98,83% þann sama dag í Kauphöll Íslands)
Það verður aldrei sagt um okkur Íslendinga að við kunnum ekki að gera gott úr hlutunum. Þegar ríkið er búið að ausa út peningum til að halda fyrirtækinu á floti, reyna starfsmenn þess að kúga meiri peninga út úr eigendunum með bellibrögðum sem almenningur var að vona að heyrði fortíðinni til. -
Fyrst fólk hefur geð í sér til að setja fram slíkar kröfur eftir allt sem á undan er gengið, trúir maður því ekki lengur að einarður brotavilji hafi ekki verið til staðar hjá fólkinu sem fór og fer enn með fjárreiður þjóðarinnar.
Meðhöndlun Icesave samninganna sem var pólitísk refskák frá upphafi sem allir flokkar komu að, hrossakaups-tilraunir skilgetinna afkvæma búsáhaldabyltingarinnar og nú, fréttir af vina og ættingja fyrirgreiðslu skilanefnda bankanna í bland við vafasama meðhöndlun FME á því sem eftir er af eigum þjóðarinnar, sýnir svo ekki verður um villst að þeir sem tækifæri fá til, fara með þjóðina sem allra manna gagn.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Það verður stöðugt erfiðara fyrir almenning að bera virðingu fyrir fólkinu sem vermir sæti löggjafarsamkundu þjóðarinnar. Hið nýja Ísland sem það lofaði kjósendum fyrir kosningar, er eftir sem áður, gamla "góða" landið þar sem flest er með sama hætti og áður.
Meðhöndlun þeirra á Icesave málinu og ES aðildarumsókninni sýna svo ekki er hægt um að villast, að hrossakaup, eigin hagsmunahyggja og flokkspólitík ræður afstöðu þessa fólks,rétt eins og áður og miklu fremur en þjóðarheill.
Jafnvel þeir sem ætluðu að vera sérstakir málsvarar hins "nýja Íslands" á alþingi, kjósa þvert um hug sinn og gera nú tilraun til að stíga hér sín fyrstu spor í alvöru pólitískum hrossakaupum.
Enn og aftur er þjóðin sett í þvingu flokkspólitíkurinnar sem algjörlega er ófær um að leiða hugann út fyrir kassann sinn.
Mér finnst í sjálfu sér ekki skipta máli hvort fólk er með eða á móti umsókn í ES, eða með eða á móti ríkisábyrgð á Icesave. Það sem skiptir máli er að umfjöllun um þessi mál séu byggð á skynsemi, réttum upplýsingum og með þjóðarheill að leiðarljósi. - Yfirgangur meirihlutans og sá hroki sem hann og ríkistjórnin hafa sýnt, segja aðeins eitt; við höfum meirihlutann, það skiptir engu hvað þið hin segið, svona verður þetta.
Þras minni hlutans um tæknilega útfærslu og flokkspólitísk pissukeppni í stað málefnalegrar umræðu um ES, sýndi að hann hefur lítið sem ekkert fram að færa og réttlætir þannig með málefnafátækt sinni, að hluta til, hrokafulla framkomu meirihlutans.
Nú liggur það fyrir að ekki er hægt að vita hvort Ísland á eitthvað erindi í ES nema að sótt sé um aðild. Umsóknin er því ekki raunveruleg umsókn, heldur aðeins könnun á því hvað sé í boði. Það er því ótrúlegt að sjá fólk skipa sér í pólitískar fylkingar á forsendum þess sem það ekki veit, í stað þess sem það veit.
Að ekki skuli liggja fyrir óyggjandi lögfræðilegt mat á því hvort íslenska ríkinu beri yfirleitt að greiða Icesave skuldirnar, er vitaskuld fáránlegt. Eins og staðan er í dag er gengið út frá því sem vísu að loforð íslenskra stjórnmálamanna og pótintáta þeirra við kollega þeirra í Bretlandi og Hollandi, skuli standa. Það er í sjálfu sér virðingarverð afstaða að "orð skulu standa". En ef það þýðir langvarandi efnahagsörðugleika heillar þjóðar, er ástæða til að kanna málin frekar, ekki satt?
- Nei, pólitík er hlaupin í málið, meira segja margslungin og það sanna og það rétta, skiptir þess vegna ekki lengur máli.-
Fjármál | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Björgólfur Guðmundsson formaður og aðal-eigandi kattspyrnufélagsins West Ham á Englandi og varformaðurinn Ásgeir Friðriksson hafa sagt af sér. Rekstur klúbbsins verður framvegis í höndum CB Holding sem er að stærstum hluta í eigu Straums. Nýr stjórnarformaður verður Andrew Bernhardt, sem er einn af bankastjórunum hjá Straumi.
Straumur var eins og kunnugt er yfirtekin af ríkinu (Fjármálaeftirlitinu) og þess vegna er West Ham allt í einu orðin "eign" íslensku þjóðarinnar.
Björgólfur sem er sagður skulda persónulega um 300 millj. punda var hryggur mjög þegar hann skildi við og sagði; "Ég vil þakka öllum á Upton Park fyrir ógleymanleg ár. Þar sem auðna mín hefur breyst verð ég að segja af mér úr stjórn félagsins. Ég geri það með miklum söknuði en ég er sannfærður um að eigendaskiptin og ný stjórn West Ham mun verða félaginu til framdráttar. Ég mun ætíð verða West Ham aðdáandi og vonast til að koma hingað oft aftur"
Fjárfestingarfélagið Straumur var stofnað árið 2001 upp úr Hlutabréfasjóðnum og VÍB. Straumur keypti í framhaldi af því Brú fjárfestingar og fjárfestingabankann Framtak og fékk fjárfestingabankaleyfi árið 2004.
Í ágúst 2005 var ákveðið í framhaldi af stjórnarfundum Burðaráss, Straums, Eimskipafélags Íslands og Landsbanka Íslands að sameina Straum og Burðarás. Úr þessu varð stofnun Straums-Burðaráss í október 2005, stærsta fjárfestingarbanka á Íslandi.
Höfuðstöðvar Straums eru í Borgartúni 25, Reykjavík.
Fjármálaeftirlitið beitti neyðarlögunum á Straum Burðarás þann 9. Mars 2009 til að bjarga tugmilljarða innistæðum sem Íbúðalánsjóður og lífeyrissjóðirnir áttu í bankanum og yfirtók rekstur hans, vegna þessa féllu hlutabréf í félaginu niður um 98,83% þann sama dag í Kauphöll Íslands.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 03:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.6.2009 | 00:07
Arðsömustu viðskiptin í heiminum í dag
10 stærstu vopnaframleiðendur Boeing $30.5bn BAE Systems $29.9bn Lockheed Martin $29.4bn Northrop Grumman $24.6bn General Dynamics $21.5bn Raytheon $19.5bn EADS (Vestur Evrópu) $13.1bn L-3 Communications $11.2bn Finmeccanica $9.9bn Thales $9.4bn Skrá: Sipri. Allar tölur frá 2007. |
Stærsta og arðsamasta viðskiptagreinin í heiminum í dag er vopnaframleiðsla. Það sem drífur iðnaðinn áfram eru styrjaldir og óöryggi þjóða heimsins. Heimskreppan hefur ekki haft nein samdráttaráhrif á þá iðju mannkynsins, þvert ámóti.
Útgjöld þjóða heimssins til hernaðar óx 4% árið 2008 og hafa aldrei verið hærri eða sem nemur; $1,464bn (£914bn) - sem er 45% hækkun síðan 1999, samkvæmt nýrri skýrslu Sipri, sem er alþjóðleg rannsóknarstofnun sem hefur aðsetur í Stokkhólmi. (Stockholm International Peace Research Institute) Athugið að miðað er við breskar bn.
Heimskreppan hefur enn ekki haft nein áhrif á stærstu hergagnaframleiðendur heimsins, hvorki á tekjulindir þeirra, arð, eða pantanir" segir Sipri.
Þá jókst kosnaður við friðargæslu, sem einnig er tengd ófriði og vopnaframleiðslu, jókst um 11%.
Þar vegur þyngst ástandið í Darfur og Kongó.
Annað met sem slegið var á árinu 2008 en það var fjöldi alþjóðlegra friðargæsluliða sem náði 187,586
10 þeirra þjóða sem mestu eyða. USA $607bn Kína $84.9bn Frakkland $65.74bn Bretland $65.35bn Rússland $58.6bn Þýskaland $46.87bn Japan $46.38bn Italía $40.69bn Saudi Arabía $38.2bn Indland $30.0bn Skrá: Sipri. Allar tölur frá 2008. |
Samtals seldu 100 stærstu vopnasalarnir fyrir $347bn. árið 2007.
Langflest þeirra fyrirtækja eru annað hvort evrópsk eða bandarísk, 61% frá USA og 31% frá Evrópu.
Síðan 2002, hefur söluandvirði vopna í heiminum hækkað um 37%. Í Stjórnartíð George W Bush var stöðugur uppgangur sem fylgt var eftir af stöðugleika árin 1990- 2000.
Bandaríkin eyða allra þjóða mest í hergögn og styrjaldir eða 58% af heildareyðslunni.
Í Írak óx hergagnaeyðslan 133% á árinu 2008 miðað við 2007 en þeir kaupa vopn sín að mestu leiti frá Bandaríkjunum.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)