Færsluflokkur: Matur og drykkur

Selja bollakökur sem múffur

bandrariskar_muffur.jpg"Hver möffins er seld á 300 krónur" segir í þessari frétt um mæður á Akureyri sem tóku sig til og bökuðu 1500 múffur og gáfu ágóðan af sölu þeirra til góðgerðamála.

Yfirskrift framtaksins var "Mömmur og möffins"

Líklega hefur mömmunum fyrir norðan fundist hallærislegt að nota íslenska orðið "múffur" sem er ágætt heiti á  dísætu amerísku kökunum sem hafa notið fádæma vinsælda sem kaffibrauð upp á síðkastið beggja megin Atlantsála.

enskar_muffur.jpgTilraun norðlenskra mæðra til að íslenska orðið með því að stafa það með ö frekar en u, (muffins), eða eins og enska orðið er borið fram, virkar klaufaleg. Ritari fréttarinnar bætir svo gráu ofan á svart með því að halda að "muffins" sé í eintölu og talar um "Hver möffins".

Samkvæmt myndinni sem fylgir fréttinni voru mömmurnar samt ekki að bjóða upp á bandarískar múffur. Þær eru yfirleitt ekki skreyttar þótt sætar séu. Þær voru heldur ekki að bjóða upp á enskar múffur sem eru einskonar klattar.

Þess vegna passar hvorki fréttin né yfirskrift átaksins við það sem fram fór.

bollakokur.jpgÞað sem mömmurnar voru að selja svipar mest til bollakaka. Bollakökur (cup cakes) eru gerðar eftir annarri uppskrift en amerískar múffur og eru ekki eins sætar.


mbl.is Mömmur baka 1.500 möffins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin Jól

MistilteinnÉg veit satt að segja ekki hvort það verða haldin nokkur jól hér á bæ.

Loks þegar maður er búinn að komast aftur upp á lag með að hætta að versla þegar peningarnir eru búnir, kemur í ljós að maður hefur engin efni á að halda upp á fæðingarhátíð frelsarans með nokkurra daga átveislu eins og maður á að gera. -

Ég meina hvað gerir fólk þegar Hreindýrapatéið er komið á um 5000 kall og fylltu skeljarnar frá Nóa á 899 kr./st?

Og þegar maður fer að hugsa um það, er eitthvað bogið við þessa hátíð þar sem fólk situr í stofunni heima hjá sér fyrir, framan dautt tré og maular hnetur og sætindi úr sokk.

Og svo eru það gjafirnar allar. Mér var kennt að það sé ekkert eins grimmúðlegt og að gefa barni eitthvað nytsamlegt í jólagjöf. Spurningin er hvort það komist meira skran fyrir inni hjá stelpunni minni.

Naa, best að halda bara vel upp á nýárið og sleppa jólunum að þessu sinni.


mbl.is Mikill verðmunur á jólamatnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kalkúnn - Kalkúni

Viltur kalkúniÞegar að fyrstu Evrópubúarnir settust að í Norður Ameríku trúðu þeir almennt að landið væri hluti af Asíu.

Þessi trú birtist á margan hátt, m.a. í nafngift fuglsins sem á Íslandi er nefndur kalkúnn. Kalkúnn er uppruninn í Norður Ameríku og var snemma gerður að þjóðafugli Bandaríkjanna.

Fuglinn var afar algengur á austurströnd norður Ameríku og landnemarnir kölluðu fuglinn Turkey og héldu að þarna væri á ferðinni Gíneufugl (Numididae) sem einnig var kallaður Tyrkjafugl, Tyrkjahæna eða Tyrkjahani í mörgum Evrópulöndum.  Tegundin sem er annars útbreidd í Asíu var einmitt flutt til mið-Evrópu í gegnum Tyrkland.

Í Frakklandi er fuglinn samt nefndur poule d´Indes eða  Indlandshæna,  en Hollendingar öllu nákvæmari, kalla hann kalkoen eftir borginni Kalkútta á Indlandi og eftir þeim herma Íslendingar sína nafngift. Svo virðist sem tvær útgáfur af nafninu í nefnifalli og þolfalli séu notaðar jöfnum höndum á landinu, þ.e. Kalkúnn, kalkún og Kalkúni, kalkúna og kann ég ekkiskýringu á því.

Eins og margir eflaust vita  er kalkúninn vinsæll Þakkargjörðardags- og jólamatur hjá Bandaríkjamönnum og jólamatur hjá Bretum.

Einhver brögð munu vera að því í seinni tíð að Íslendingar borði kalkúna á jólum en í könnun sem MMR gerði í fyrra, kemur í ljós að landinn er ekki eins ginkeyptur fyrir kalkúna í jólamatinn og halda mætti. 

Steiktur Kalkúnn"Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 52,9% líklegast hafa hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld, 9,8% töldu líklegast að þeir myndu borða rjúpu og 8,3% ætluðu að borða kalkún á aðfangadag. Á jóladag sögðust 72,7% landsmanna líklegast myndu borða hangikjöt og 8% hamborgarhrygg. Svo virðist sem breytileiki í jólamatnum sé aðeins meiri hjá landanum á aðfangadagskvöld en hefðir og venjur ráði ríkjum á jóladag.

Áhugavert var að skoða niðurstöðurnar fyrir Ísland í samanburði við sambærilega könnun YouGov í Bretlandi dagana 2. – 3. desember 2010. Þar á bæ virðast breskar matarhefðir hafa vikið nær alfarið fyrir bandarískum áhrifum því 56% Breta segjast ætla að hafa kalkún í matinn á jóladag í ár. Kalkúnninn bandaríski kemur því í staðin fyrir hina hefðbundnu jólagæs sem Bretar neyttu áður fyrr á jólum en 2% bresku þjóðarinnar sögðust ætla að borða gæs á jóladag í ár."

Tuga uppskrifta af kalúna er að finna á netinu. Ég læt hér að lokum fylgja krækju á eina mjög hefðbundna.


Soðið og steikt kynlíf

Í eina tíð þótti það mikill leyndardómur, aðeins finnanlegur í gömlum og oftast forboðnum skræðum, hvaða eðalfæða og sjaldgæf efni, höfðu þá náttúru að geta bætt og kætt kynlíf fólks. Nú á tímum eru þær fáar vörutegundirnar sem ekki eru sagðar koma þar við sögu.

Á snöggri gandreið um netið getur þú fundið næringarfræðinga, kynfræðinga og auðvitað matvælafræðinga sem mæla með fjölda tegunda af matvöru sem eiga að örva og bæta kynlífið og flestar eru líklega til í eldhússkápnum þínum.  Hér er sýnishorn;

Lakkrís, hvítlaukur, tómatar (soðnir) , ostrur, Chili pipar, bananar, gulrætur, rækja, súkkulaði, engifer, ólífur, tómatar, epli, aspas, ostar, mjólk, rjómaís, hnetur (ristaðar), hvalkjöt, snákakjöt, avakadó, bláber, jarðarber, poppkorn og söl.

E.t.v. er auðveldara að telja upp þær tegundir fæðu sem vitað er að virka ekki við fyrrnefnda iðju.

 


mbl.is Þetta eru matvælin sem bæta kynlífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nár í karrí

Mannát er enn algengt víða um heim. Mest er það stundað í Afríku, einkum í Líberíu og Kongó þar sem seiðmenn sækjast eftir líkamshlutum af bækluðu fólki og albínóum til átu. Seiðmennirnir og þeir sem á þá trúa eru sannfærðir um að ákveðnir líkamshlutar vanskapaðs fólks og hvítingja hafi sérstakan lækningarmátt og gefi þeim sem af etur, yfirnáttúrulega krafta. -

Þá er mannát enn stundað  meðal sumra ættflokka í Malasíu við helgiathafnir. Yfirleitt er mannát tengt þeirri hjátrú að sá sem etur öðlist krafta þess sem etin er.

Í Pakistan eru flestir íbúar landsins múslímar. Mannát í Íslam er stranglega bannað. Þess vegna er athæfi þeirra bræðra Arif og Farman ekki hluti af menningu Pakistans. -

Nár í karríFram kemur í greininni að bræðurnir séu ekki aðeins mannætur, heldur náætur, þ.e. þeir leggja sér munns lík sem búið er að grafa. Einnig að unga konan sem þeir grófu upp og átu í karrí rétti, lést úr krabbameini. Vitað er að drengirnir þekktu konuna enda bjó hún í sama þorpi og þeir. Malik Abdul Rehman lögreglustjóri heldur því fram að bræðurnir hafi stundað náát um nokkurt skeið. Hann segir þá hafa grafið upp lík af fjögra ára stúlku á síðasta ári og etið hana.

Ekkert hefur komið fram sem skýrt getur hegðun þessara ungu manna sem ekki koma illa fyrir á myndum og myndböndum sem birst hafa af þeim. - Hinar hefðbundnu skýringar á mannáti eiga hér ekki við, hvað þá nááti sem er mjög hættulegt.

Auðvitað er líklegast að hér sé um alvarlega brenglun að ræða eða geðröskun. Einhvern veginn finnst mér skýringar lögreglunnar í Pakistan ekki sérlega sannfærandi þegar þeir segja að "drengirnir virtust vera eðlilegir".


mbl.is Bræður gripnir við mannát
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Make me one with everything

Íslenska pylsan er einn af fáum réttum sem getur gert tilkall til þess að kallast þjóðarréttur íslendinga. Það líður sjaldan langur tími frá því að ég stíg á íslenska grund og þangað til ég er kominn inn í einhverja sjoppuna til að fá, það sem fyrir mér er hinn eina sanna pylsa.

Hér áður fyrr, áður fyrr þegar Prins póló var og hét og bragðaðist eins og Prins á að bragðast, var það hluti af þjóðarréttinum, eins konar eftirréttur. En eftir Chernobyl slysið breyttist bragðið og síðan umbúðirnar og þá fór þjóðlegi svipurinn af því.

Eins og pylsa með öllu er nú góð og vinsæl á landinu er mesta furða að útlenskir  matargurúar hafi ekki fyrir löngu tekið hana upp á sína arma líkt og gert er í Huffington Post. En þá ber þess að gæta að smekkurinn fyrir réttinum er "áunninn" því margir af þeim útlendingum sem ég hef boðið upp á góðgætið, eru ekki eins hrifnir og ég, alla vega ekki í fyrsta sinn.

Besti pylsubrandarinn sem ég hef heyrt er svona; Búddisti gekk upp að pylsusalanum í New York og sagði; make me one with everything.


mbl.is Íslenska pylsan slær í gegn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannát og Cheddar ostur

 Skál og skalli  er komið af "skulle" þ.e. höfuðkúpa og því líklegt að forfeður okkar á norðurlöndum hafi gert líkt og Bretar og drukkið veigar úr höfuðkúpum.  Alla vega notum við enn orðið skál. Orðskrípið "klingjum" náði aldrei  fótfestu í málinu, sem er bara vel.

Cheddar Skarð er reyndar betur þekkt fyrir ostinn sem þaðan kemur og er kenndur við skarðið.  Ég bloggaði um ostinn og mannátið í Cheddar skarði fyrir nokkrum árum. Þá grein má finna hér.


mbl.is Bretar drukku vín úr hauskúpum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólahald fátækra

RjúpaFlestar af núveandi matarhefðum Íslendinga á jólum, hafa borist til landsins frá nágrannalöndunum. Nokkrar eru samt heimatilbúnar og eiga það að auki sameiginlegt að verða viðteknar vegna fátæktar og sparnaðar ólíkt því sem gengur og gerist meðal annarra þjóða þar sem jólamatar-hefðirnar hafa mótast af því besta og dýrasta sem völ er á.

til dæmis er Rjúpa hvergi etin sem Jólamatur, nema á Íslandi. Haft er fyrir satt að neysla hennar á jólum hafi eingöngu komið til vegna þess að fátæktin hafi verið svo mikil sumstaðar á norðurlandi  þaðan sem siðurinn ku ættaður, að ekkert annað kjötmeti hafi staðið þar til boða á Jólum. -

LaufabrauðÞá er það alkunna að laufabrauðið, sem einnig finnst hvergi nema á Íslandi, varð til vegna skorts á mjöli. Ekki þótti stætt á því að sleppa brauðmeti algjörlega um jól, þótt hráefnið væri bæði  illfáanlegt og dýrt.

Jafnvel á tuttugustu öld móta sparnaðaraðgerðir landans matar-neysluvenjur hans á jólum.

Appelsín og MaltUm 1940 kemur hið gómsæta Malt á markaðinn. Það varð þegar vinsæll drykkur en þótti tiltölulega dýr. Fljótlega fór fólk að drýgja maltið með  gosdrykkjum og þegar Egils appelsín kom á markaðinn 1955 þótti það fara betur saman en nokkuð annað með Maltinu. Fimm árum síðar var siðurinn orðin útbreiddur um allt land og hefur síðan verið óformlegur jóladrykkur íslenskra heimila.

Vafalaust eru dæmin fleiri þótt eg muni ekki eftir fleirum bráð. 


Slátrunarsiðir Islam og Íslands

Í fréttinni er minnst á Halal slátrun, en þá er átt við allt það sem rúmast innan og er leyfilegt miðað við lög Íslam.

Þegar kemur að slátrun er notað  lagahugtakið Dhabīḥah sem tilheyrir íslamskri lögfræði.

Þau lög ná yfir það sem múslímar mega ekki leggja sér til munns og hvernig ber að slátra þeim skepnum sem þeir eta.

Dhabīḥah kveður á um að ekki skuli eta; dýrahræ, blóð, svínakjöt og allt það kjöt af skepnum sem slátrað hefur verið án þess að minnast hins eina sanna Guðs, nema kameldýra, engisspretta, fiska og flestra sjávardýra. Þessi lög eru byggð á fyrirmælum Kóransins í súru Al-Maidah 5:3

Dhabīḥah kveður á um að öll dýr (einnig fiskar) skuli stinga á með einni stungu á slagæðina á hálsinum og tæma dýrið á öllu blóði, enda er blóð með öllu bannað til matar. Meðan dýrinu er að blæða út má ekki meðhöndla það á neinn hátt. Aðferð þessi er kölluð Thabiha. Slátrun er álitin trúarleg athöfn og áður en stungið er á slagæðinni er þessi setning höfð yfir: "Í nafni Guðs, hins náðuga, hins miskunnsama."

Halal matvæli þurfa að uppfylla lög Múslima og eru Dhabīḥah lög þeirra á margan hátt svipuð lögum Gyðinga að því leyti að aðeins ákveðnar dýrategundir eru leyfðar og að þeim verður að slátra með ákveðnum hætti. Þess vegna eru Kosher matvæli gyðinga Halal (leyfileg).

Landbúnaðarráðuneytið leyfir dhabihah slátrun á Íslandi, svo lengi sem að dýrið sem er verið að slátra hafi verið svipt meðvitund með raflosti svo það finni ekki sársauka. Á Íslandi hefur sauðfé verið slátrað í litlum mæli með þessari aðferð fram að þessu.

Sauðfé er deytt með pinnabyssu eða svipt meðvitund með raflosti áður en það er stungið til að láta því blæða út.

Nautgripir og hross eru deydd með pinnabyssu. Aflífun sláturdýra með kúlubyssum er orðin mjög sjaldgæf vegna þess að sú aðferð er talin hættuleg fyrir starfsfólk og ætti alls ekki að nota hana.


Svín eru almennt deyfð með raflosti hér á landi. Rannsóknir hafa sýnt að aflífunaraðferð hefur áhrif á gæði svínakjöts. Víða erlendis, í stærri sláturhúsum, eru grísir deyfðir með koldíoxíði.

Alifuglar eru deyfðir með raflosti og deyddir með því að láta þeim blæða út eftir hálsskurð.


Hér á landi er ekki heimilt að skera dýr á háls við slátrun nema þau hafi fyrst verið deyfð eða deydd. Samkvæmt trúarsiðum strangtrúaðra múslima (halal slátrun) og gyðinga (kosher slátrun) má ekki aflífa sláturdýr áður en þau eru skorin á háls eða stungin til að láta þeim blæða út. Þegar notuð er haus – haus aðferð við raflostdeyfingu sauðfjár ranka kindurnar við sér aftur, ef þeim er ekki látið blæða út. Þessi aðferð uppfyllir kröfur íslenskra stjórnvalda um að sláturdýr séu meðvitundarlaus og finni ekki sársauka þegar þau eru hálsskorin og kröfur múslíma.


mbl.is Fé slátrað að hætti múslima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhóf og græðgi

Mér hefur ætíð blöskrað óhófið og græðgin sem birtist í því þegar alsnægtasamfélögin efna til kappáts og / eða kappdrykkju. Kannski er um að kenna myndum af börnum með útþanda maga af sulti, sem teknar voru í hungursneyðinni í Bíafra, sem brenndu sig inn í meðvitund mína og annarra  ungra íslenskra skólabarna seint á sjöunda áratug síðustu aldar.

Öfgalandið Bandaríkin hefur jafnan verið framarlega þegar kemur að þessum ósiðum en líklega hafa flestar velmegunarþjóðir gert sig sekar um að hafa gortað sig af alsnægtum sínum á þennan hátt.

En þetta er fín auglýsing fyrir matvöruframleiðendur og fólk er alveg hætt að taka eitthvað nöldur um hvað sé siðuðu fólki sæmandi og hvað ekki, alvarlega.  - Það er jú "so gaman aðessu."

Ég óska Einari Haraldssyni ekki til hamingju með titilinn.


mbl.is Íslandsmeistari í pylsuáti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband