Færsluflokkur: Menning og listir
29.4.2009 | 16:14
Auðmýking Íslendinga
Engin þjóð í heiminum sem náð hefur þeim árangri að halda þjóðareinkennum sínum og menningu, hefur sloppið við auðmýkingu. Stór lönd sem smá hafa þurft að sætta sig við að fara halloka í stríðum og pólitískum átökum. Auðmýkingin hefur kennt þjóðunum að þeirra eigingjarni hugsunarháttur er ekki alltaf farsælastur og þeirra sértæku viðmið halda ekki alltaf vatni. Hún hefur neytt þjóðirnar til að taka mið af hugmyndum, straumum og stefnum hvor annarrar. Hún hefur þjappað saman þjóðunum í þjóðabandalög sem margir spá að sé aðeins millistig að alheimslegu samveldi.
Íslendingar eru illa í stak búnir til að takast á við slíka auðmýkingu.
Um stund héldu þeir jafnvel að þeir væru undanþegnir þeirri reglu að þurfa nokkru sinni að verða fyrir henni. Eftir að þjóðin varð sjálfstæð fylgdi hún þeim ásetningi í samskiptum sínum við önnur lönd að "eiga kökuna og borða hana líka." Kannski var það af minnimáttarkennd tilkomin vegna smæðar þjóðarinnar og að í mörg hundruð ár var hún fátækasta þjóð Evrópu. Kannski var það vegna þess að hún hélt að sinn tími væri loks kominn.
Í milliríkjadeilum, jafnvel við stórveldi, höfðu Íslendingar jafnan sigur. Þeir höguðu sér eins og þeir sem aldrei geta klikkað. Þeir voru fegurstir, sterkastir, gáfaðastir og alveg að verða ríkastir líka. Þeir fóru mikinn hvar sem þeir komu og keyptu sér fjölda rótgróinna erlendra verslana, fótboltafélög, fjarskiptasamsteypur og lyfjafyrirtæki. Sjálfsmynd þeirra einkenndist af stolti, nánast þjóðarrembingi.
Síðan þegar skellurinn kom, hitti hann þá fyrir þar sem þeir héldu að þeir væru hvað sterkastir. Auðmýkinguna sem einstaklingar, samfélög og þjóðir þurfa að fara í gegn um til að þroskast og læra að umgangast hvor aðra af háttvísi, upplifðu þeir fyrst sem höfnun. Næstu viðbrögð voru afneitun og síðan reiði. Þar eru þeir staddir í dag.
Ný afstaðnar kosningar munu ekki ná að sefa þessa reiði því þær eru hluti af afneitun þjóðarinnar. Margir íslendingar héldu að með það að kjósa nýja stjórn gætu þeir komist hjá að takast á af alvöru við afleiðingar auðmýkingarinnar og að við gætum haldið áfram á sömu braut og notið alls þess sem aðrar Evrópuþjóðir hafa að bjóða án þess að ganga í bandalag við þær og deila með þeim auðlindum okkar.
Íslendingar vita flestir innst inni að efnahagshrunið mun fyrr eða síðar knýja okkur til nýs hugsunarháttar og víðtækari ábyrgðar. Við munum hætta að hugsa eins og unglingur sem sér fátt mikilvægara en "sjálfstæði" sitt, þegar allir aðrir sem á horfa sjá, að allt það sem hann heldur að geri sig svo sérstakan, er það sem gerir hann mest líkan öðrum unglingum.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.4.2009 | 13:53
Hvar eru allir japönsku skóladrengirnir?
Sumardagurinn fyrsti heilsaði mér með sólskini og bros á vör. Ég kreisti fram hálfkarað glott til baka. Þegar ég rölti niður í miðbæ til að drekka morgunkaffið mitt voru rónarnir þegar vaknaðir og sötruðu morgunbjórinn sinn, reyktu og glugguðu í frýju dagblöðin. Sum höfðu greinilega verið ábreiður þeirra um nóttina.
Þegar sólin skín brosir fólk meira. Kaffið bragðast líka betur. Stúlkurnar eru léttstígari og strákarnir flexa vöðvunum meira í stuttermabolunum. Ég sé að blikið í augum götusalanna er skærara og einhvern veginn lítur vara þeirra betur út líka. Japönsku skólastelpurnar fara um bæinn tvær og tvær og rýna í kortin sín. Hversvegna sjást japanskir skóladrengir aldrei á ferð?
Fréttirnar í blöðunum eru samt jafn leiðinlegar og áður, kannski enn leiðinlegri. Söngleikur um Jade Goody í startholunum...vá eitthvað sem ég get ekki beðið eftir að sjá. Darling sjóðstjóri segir að best sé að bregðast við kreppunni með því að gera ekki neitt og láta sem allt sé eðlilegt...Condoleezza Rice með í ráðum þegar Zubaydah var pyntaður með "vatnsborðsaðferðinni" 83 sinnum Khalid Sheikh Mohammad 183 sinnum...og mér sem fannst hún alltaf svo brosmild og viðkunnanleg...Kannski var það bara af því hún var kona, svört kona. 28 manns dánir í enn einni sprengjunni í stríðinu sem er löngu lokið í Írak...Næstum því heimsendir 2012 þegar sólvindar slá út öllu rafmagni, eyðileggja gervihnettina og Internetið.....and so on and so on.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.4.2009 | 15:46
Endanleg kosningaspá Dr. Phil
Kosningaspá Dr. Phil fyrir alþingiskosningarnar á Íslandi 2009 hefur setið óþýdd í tölvupóstinum mínum í tvo daga. Ég hef verið að leiða það hjá mér að þýða og birta hana, en nú er mér ekki stætt á því lengur, því ítrekað hefur verið spurt hverju henni líði. Hér kemur því spáin.
Mjög hefur dregið úr þreki ránfuglsins og er hann nú orðin svo máttfarinn að honum mun aðeins auðnast að klekja út fimmtán eggjum.
Mikil verður vegur hins rauða röðuls en hans vagn munu draga um himinhvolfið, áður en yfir lýkur, ekki færri en tveir tugir geithafra.
Ljósbláa týran sem áður vakti athylgi líkt og hrævareldar á mastri þjóðarskútunnar, mun slokkna.
Örvhenta græna fylkingin mun breikka og tala skjaldbera hennar bera upp á tölu þjóðhátíðardagsins.
Þeir sem guðirnir elska deyja ungir og sumir ná því aldrei að fæðast og komast í tölu lifenda.
Græna frúin situr hokin í herðum og handfjatlar hattinn sinn. Úr honum hafa fokið allar skrautfjaðrirnar nema sex.
Hamar Þórs mun lenda á íslenska þjóðarsteðjanum með miklu meiri þunga en búist var við. Af höggi hans munu fimm appelsínugulir neistar spretta fram og kveikja í morgunhimninum.
15.4.2009 | 16:00
Ronnie Wood vinnur áfangasigur í Kazakhstan
Ég get ómögulega stillt mig um að koma hér á framfæri smá "update" á fyrsta og eina "skúbbinu" mínu, fram að þessu, þ.e. þegar ég hitti Ronnie Wood á förnum vegi í fyrra og átti við hann orðastað.
Það er ljóst að ævintýrið á Írlandi þar sem hann dvaldist með hinni rússnesku ástmey sinni Ekaterínu hefur dregið dilk á eftir sér. Um það sagði Ronnie á sínum tíma að hann hefði verið "bad boy". Ég taldi víst að hann meinti að þetta væru eins og hver önnur rokk-strákpör hjá honum. En nú er Ronnie skilinn og reynir hvað hann getur til að vingast við fjölskyldu kærustunnar og sérstaklega hina 75 ára gömlu Lyudmillu Ivanovu, sem er höfuð ættarinnar.
Hún býr í Kazakhstan og er enn ómyrk í máli þegar hún tjáir sig um Ronnie hinn 61. árs gamla gítarleikara sem hún kallar Ronik.
Hún sagði eitt sinn að Rollingarnir væru "bæði ljótir og ógeðslegir". Nýlega var hún spurð hvað henni fyndist um tilhugalíf þeirra Ronnie og Ekaterínu. "Ef hann vill giftast Ekaterínu, þá mun ég gleðjast fyrir þeirra hönd." svaraði sú gamla."Ef þetta er raunveruleg ást leyfum þeim þá að vera hamingjusöm."
Lyudmilla segist samt halda að " hjónbandið endist ekki lengi. "Hún er miklu yngri en hann þannig að hún mun fá tækifæri til að giftast aftur ef eitthvað kemur fyrir Ronik." "En svona er heimurinn í dag. Gamlir menn yfirgefa fjölskyldur sínar og finna sér ungar kærustur".
Ronnie yfirgaf Jo Wood eftir 23 ára hjónaband til að vera með Ekatreínu.
Gamla konan heldur því jafnframt fram að ástæðan fyrir því að enginn úr fjölskyldu Ronnie, ekki einu sinni börn hans, taka í mál að hitta Ekaterínu, sé að Jo hafi beðið þau um það. "Þetta ástand er ekki gott" bætir hún við.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.4.2009 | 13:24
Kristur heimsækir helvíti
Samkvæmt kristnum hefðum eyddi Kristur öllum þessum degi (laugardegi) í helvíti. Allir fermdir Íslendingar hafa játað því að trúa þessu, enda mjög mikilvægt atriði, svo mikilvægt að því er komið fyrir í sjálfri trúarjátningunni sem er eitt af því fáa sem flestir kristnir söfnuðir hafa látið vera í friði og haldið til haga í gegnum aldirnar. Það er í sjálfu sér merkilegt því ekki eina setningu í trúarjátningunni er að finna í sjálfri Biblíunni, heldur er hún umorðun á ákveðnum skilningi boðskapar hennar.
En í dag fyrir tveimur áraþúsundum eða þar um bil var mikill fögnuður í helvíti, því Kristur var kominn í heimsókn. Allt frá því Lúsífer hafði stofnað staðinn ásamt englunum sem fylgdu honum, stóð straumurinn af slæmu fólki til helvítis. Þar var fólkið pínt í eldinum og það skiljanlega glatt að sjá Krist loksins sem eyddi þessum laugardegi í að frelsa það úr klóm Lúsífers og koma því til himna. Sjálfsagt hefur Kristur frelsað englana líka, því Kristur kom jú til að "allir gætu öðlast eilíft líf".
Lúsífer var sem sagt frekar illa staddur þarna fyrir 2000 árum, einn og yfirgefinn eftir daginn. Samkvæmt sögunni átti Lúsífer að hafa verið klárasti engillinn á himni. Hann var svo klár að hann sá ekki hvað það var vonlaust að rísa upp gegn almættinu og byrjaði að slást. Ef að hann var sá klárasti, hljóta hinir englarnir að hafa verið hrikalega heimskir, enda fylgdu þeir Lúsífer út í vonlausa baráttuna.
En Kristur, sem sagt tæmdi helvíti fyrir 2000 árum en skildi lúserinn Lúsífer eftir einann. Síðan hefur hann reynt að vera duglegur að safna sér nýjum árum og púkum til að hrekkja menn og gabba þá til fylgis við sig. Og þeir sem láta ginnast eiga ekki von á neinni miskunn. Þeir munu kveljast í helvíti til eilífðarnóns.
10.4.2009 | 18:23
Augun í Írak
Öruggasti staðurinn í Bagdad hefur um langt skeið verið sá staður eða svæði þar sem sjálfsmorðssprengjufólk hefur látið til skarar skríða hverju sinni, næstu klukkustundirnar eftir að það hefur kippt í spottann eða ýtt á hnappinn. Það er ekkert óvenjulegt eða sjokkerandi lengur við tugi sundursprengdra líka eða blóðuga líkamsparta á víð á dreif. Og vegna þess að eftir að ósköpin hafa dunið yfir, hraða vitnis-samsærismennirnir sér af vettvangi til að segja frá "hetjudáðinni" á næsta sellufundi, sækjast bandarískir hermenn eftir að að sjá um öryggismálin á slíkum vettvangi. -
Fréttamenn sem venjulega þyrpast líka á staðinn til að taka myndir af ferskasta blóðbaðinu, hafa sagt frá því í einkaviðtölum að þegar að líkamsleyfum fólks er sópað saman, séu augun eini líkamshlutinn sem þeir beri kennsl á í fljótu bragði. Allt annað er eins og torkennilegir blóðkögglar. Það er einhver kaldhæðni í því að á meðan sum fórnarlömbin lifðu, sá almenningur aldrei meira af þeim en í augu þeirra. Gott að fréttamennirnir þekkja ekkert til Vatnsenda-Rósu og kveðskapar hennar.
Þegar að einhver sprengir sig í loft upp með sprengjubelti um mittið, verður oftast of lítið eftir af viðkomandi, til að hægt sé að bera á hann kennsl. Til þess eru því oftast notaðar upptökur úr myndavélum sem komið hefur verið fyrir af Bandamönnum víðs-vegar um borgina, einkum við opinberar byggingar, moskur og markaði. Að auki hafa Bandamen nokkur gervitungl sem stara sínum rafrænu augum niður á borgina með svo öflugum linsum að þær geta lesið á merki-flipanna í hálsmálununum á stuttermabolum drengjanna.
Í Írak hefur augað fleiri menningarlegar skírskotanir en í flestum öðrum samfélögum. Flest heimili eru skreytt með páfuglsfjöðrum enda fjaðrirnar taldar heillatákn. "Augu" fjaðranna minna fólk á allt-sjáandi auga Guðs. Skiljanlegt að í Evrópu eru páfuglsfjaðrir taldar óheillamerki á heimilum og augu þeirra sögð augu skrattans. Ekki síður í dag en á tímum Saddams Husayns eru augu stóra bróður allsstaðar í Bagdad.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.4.2009 | 09:32
Apaspjall
í stað þess að sveifla sér milli trjánna og taka þátt í ærslum hinna gibbon apanna sat Aude, ungur karlapi, þögull undir tré og virtist þungt hugsi. Ale, systir hans sá að það amaði eitthvað að og settist hjá honum. Hún sagði ekki neitt um stund en einbeitti sér við að naga hríslu eins og hún væri gómsætur sykurreyr. Loks stóðst Aude ekki mátið lengur og spurði:
Geturðu ekki nagað þessa hríslu einhversstaðar annarsstaðar?
Ale; Jú jú, en ég kom nú hérna af því að ég sá að þér líður eitthvað illa. Kannski borðaðir þú of mikið af mangó í gær.
Aude: Mangó, nei það er ekkert að mér í maganum.
Ale Hvað er það þá?
Aude; Ég varð bara svo dapur allt í einu. Ég var að hugsa um hvernig órangútunum fækkar dag frá degi þarna á suður frá.
Ale; Hvað kemur það þér við; því færri sem þeir eru, því meira er að hafa fyrir okkur.
Aude; Þetta er nú mjög eigingjarnt sjónarmið. þeir eru einu sinni apar eins og við.
Ale; Eigingirni, hún er ekki til. Þeir hafa ekki vit á að bjarga sér eins og við. Þetta er bara lögmál, þeir sem geta bjargað sér lifa, hinir.....deyja.
Aude; En það er ekkert réttlæti í þessu. Órangútarnar hafa lifað á þessu svæði síðan allt byrjaði. Svo kemur þessi mannapi sem allt virðist eiga og geta. Hann heggur niður skóginn bara til að rækta sykur handa sjálfum sér og allir aðrir verða að víkja. Hvað eiginlega gefur honum rétt til að haga sér svona.
Ale; Réttlæti, það er ekkert til sem heitir réttlæti. Náttúran er ekki réttlát. Mannapinn er einfaldlega klárasti apinn í skóginum og þess vegna hæfastur. Hann þarf greinilega á öllu þessu sem hann framleiðir að halda. Eins og ég var að segja, þeir sem geta bjargað sér, lifa.
Aude; Nú ef það er ekki til neitt réttlæti, þá gæti mannapinn í það minnsta sýnt smá miskunnsemi. Hann tekur ekkert tillit til neins, bara veður áfram og heggur allt í burtu sem hægt er að lifa af.
Ale; Hvað ertu nú að bulla. Það er heldur ekkert til sem heitir miskunnsemi. Það sem þú tekur fyrir miskunnsemi, er þegar stóru aparnir vægja litlu öpunum til þess að stofninn þurrkist ekki út. Mannapinn hefur engar slíkar kenndir til okkar eða annarra dýra.
Aude; En allt hjá mannapanum er bara svo yfirgengilegt. Til hvers þarf hann allan þennan skóg, allt þetta svæði sem hann leggur undir sig. Hvernig væri að hann sýndi smá hógværð.
Ale. Það er eins og þú skiljir ekki þetta grundvallaratriði að það er aðeins eitt lögmál sem gildir. Það er að sá hæfasti til að lifa lifir, hinir deyja. Kallaðu það bara lögmál frumskógarins. Allt þetta sem þú ert að tala um hefur enga merkingu sem nær út fyrir þetta lögmál. Hógværð er bara þegar þú borðar ekki allt sem þú getur borðað í dag vegna þess að þá mundir þú fá meltingartruflanir og veikjast.
Aude; Ég hef nú samt áhyggjur af þessu. Hvað gerum við þegar að mannapinn kemur hingað til þess að höggva skóginn.
Ale; Það sem skiptir máli er dagurinn í dag. Við getum ekkert vitað hvað gerist á morgunn. Hvers vegna að eyða tímanum í að hafa áhyggjur af því sem enginn ræður nokkru um. Komdu bara aftur upp í tré og sveiflaðu þér eins og við hin. Nóg til af mangó og allt í goodí.
Aude sá að það var tilgangslaust að ræða áhyggjur sínar frekar við systur sínar. Hann stóð á fætur og teygði sig í næstu grein og vó sig upp í tréð.
Um leið og Ale ætlaði að fylgja honum fann hún fyrir sársauka í brjóstinu. Hún leit niður og sá blóð sitt drjúpa úr stóru gati í miðjum brjóstkassanum. Henni sortnaði fyrir augum og féll síðan máttvana á jörðina.
Þessi stutta frásögn er tileinkuð spjallvinum mínum Kristni Theódórs og DoctorE.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.3.2009 | 01:16
"Eins og álfur út úr hól"
Íslendingar elska skáldin sín enda menning þeirra að stórum hluta byggð á skáldskap. Enn í dag, og ég hygg að það sé einsdæmi á meðal þjóða heimsins, koma Íslendingar saman í þeim einum tilgangi að yrkja og hlusta á aðra yrkja.
Að kasta fram stöku við öll möguleg tækifæri er jafnmikil andleg þjóðaríþrótt og glíman er líkamlega. Að geta komið áleiðis meiningu sinni í bundnu og hug-mynda skreyttu eða rímuðu máli, þykir næg ástæða til að hljóta æðstu hylli, bæði í lifandi lífi og að fólki gengnu.
Sem dæmi þá hvíla bein (mest af þeim alla vega) aðeins tveggja einstaklinga í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum. Báðir voru og eru elskuð og dáð skáld. Þá kemur íslenskur þingheimur saman einu sinni á ári þar sem andlega þjóðaríþróttin er í hávegum höfð og gráglettnar vísur, limrur og ferskeytlur fljúga um sali.
Í óbundnum skáldskap, sem er ekki síður mikilvægari grein íslenskrar menningar, þykja best þau skáld sem ekki þurfa að segja alla söguna beinum orðum heldur kunna að nota sér líkingamálið og skýrskotannir. Fólki er þá frjálst að lesa út úr frásögninni eins og því best lætur.
Í pólitík er þessi frásagnartækni oft notuð, sérstaklega þegar koma þarf höggi á andstæðinginn á þann hátt að hann geti ekki vel svarað fyrir sig. Sumir kalla það að senda eitraðar pillur, aðrir kalla það bakstungur.
Gott dæmi um þetta er að í gær sté í pontu á fjölmennum fundi eitt af hinum dáðu skáldum þjóðarinnar. Í þaulhugsaðri ræðu sinni talaði hann m.a. um núverandi forsætisráðsfrú. Þegar hann vildi lýsa viðbrögðum hennar greip hann til gamallar íslenskrar líkingar og sagði hana hafa verið eins og "álfur út úr hól", og bætti svo við til að leggja enn frekari áherslu á þetta atriði; "enda lítur hún út eins og álfur út úr hól."
Á fundinum var mikið hlegið að þessu "gríni" skáldsins. Máltilfinningin sagði flestum fundargestum það, að vera eins og "álfur út úr hól", merki að hún væri utangátta og að, hún liti út eins og álfur út úr hól, merki að hún líti skringilega út.
Aðrir vissu að ekkert í þessari ræðu var vanhugsað og skildu að öllu lymskulegra háð var á hér á ferðinni. Íslenska orðið álfur er bein þýðing á enska orðinu "fairy" sem jafnframt er slanguryrði um samkynhneigt fólk. Þar sem forsætisráðsfrúin er samkynhneigð, er háðið skírskotun til kynhneigðar hennar "undir rós".
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 01:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
27.3.2009 | 08:36
Sársauki fórnarlambs nauðgara í myndum
Í mörg ár þurfti Fatíma að þola nauðganir og aðra kynferðislega misnotkun þar sem hún ólst upp hjá strangtrúaðri fjölskyldu sinni í Abu Dhabi. Hún þoldi ofbeldið í mörg ár án þess að segja móður sinni frá því. Henni tókst að lokum að flýja land og dvelst núna í Bandaríkjunum. Í dag er hún 26 ára og hér segir hún sögu sína og hvernig ljósmyndun varð að leið fyrir hana til að tjá sársauka sinn.
Myndin er krækja á myndband frá BBC sem sýnir nokkarar af myndum Fatímu og undir þeim talar hún um líf sitt.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 08:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.3.2009 | 21:12
10 áhrifamestu persónur Íslandssögunnar
Margir sem velta fyrir sér hlutunum í sögulegu samhengi hljóta fyrr eða síðar að spyrja sig spurningarinnar; hver er áhrifamesta persóna allra tíma. Á netinu er að finna fjölmarga lista sem gerðir hafa yfir kandídata í þann hóp og margir þeirra eru sammála mati Michaels H. Hart sem skrifaði bókina The 100: A Ranking of the Most Influential Persons in History sem kom fyrst út árið 1978.
Ég ætla ekki að að tjá um þann lista að sinni en þess í stað að þrengja aðeins hringinn. Það væri verulega áhugavert að sjá hverjir íslendingar í dag telja 10 mikilvægustu og áhrifamestu Íslendinga sem hafa lifað hafa frá upphafi Íslandsbyggðar. Nú hvet ég ykkur, lesendur góðir til að leggja höfuðið aðeins í bleyti og láta síðan í ykkur heyra og skrifa niður í röð frá 1-10 nöfn þeirra tíu einstaklinga sem þið teljið að ættu að tilheyra þessum hópi. Það væri gaman ef eins og ein skýringarlína fylgdi hverri tilnefningu. Til að sýna gott fordæmi ríð ég á vaðið og birti minn lista hér að neðan.
(Þeir sem ekki nenna að telja upp tíu telja bara eins marga og þeir vilja)
1. Snorri Sturluson (Fyrir ritverk sín og að varðveita helstu stoðir íslenskrar menningar)
2. Jón Sigurðsson (Fyrir að berjast fyrir sjálfstæði þjóðarinnar)
3. Jónas Hallgrímsson (Fyrir að hafa meira að segja en flestir og segja það betur en allir)
4. Ari Fróði (Fyrir fræði sín og heimilda varðveislu)
5. Guðbrandur Þorláksson Biskup (Fyrir lærdóm sinn og þátt í útgáfu Biblíunnar á Íslandi)
6. Árni Magnússon (Fyrir að bjarga þjóðarverðmætum Íslands frá glötun)
7. Davíð Oddsson (Fyrir að móta mesta velferðartíma landsins fyrr og síðar)
8. Vigdís Finnbogadóttir (Fyrir framlag sitt til aljóðamála og kvenréttindamála)
9. Egget Ólafsson (Fyrir framlag sitt til upplýsingarinnar á Íslandi)
10. Björk Guðmundsdóttir (Fyrir að vera mesta og besta landkynning sem landið hefur átt.)
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)