Færsluflokkur: Dægurmál
27.5.2008 | 22:19
Ofsóknir halda áfram í Íran
Þessar ungu konur voru hengdar í Shiraz, Íran18. Júní 1983 fyrir það eitt að kenna börnum að lesa og fyrir að tilheyra trú sem múslímar viðurkenna ekki, Bahai trú. Hér má finna myndband sem gert var um stúlkuna sem fyrst er á myndunum Móna:
Nú hafa stjórnvöld handtekið þetta fólk (sjá mynd) sem starfaði sem óformlegur hópur sem sá um málefni stærsta minnihluta trúar-hóps í Íran; meðlimi Bahai trúarinnar. Ekkert hefur spurst frá þeim síðan fólkið var handtekið 15. maí. Frá upphafi hafa yfir 20.000 manns verið tekið af lífi og fjöldi pyntaður fyrir það eitt að tilheyra þessu trúfélagi.
Á myndinni má sjá þá handteknu: Sitjandi frá vinstri, Behrouz Tavakkoli og Saeid Rezaie. Standandi, Fariba Kamalabadi, Vahid Tizfahm, Jamaloddin Khanjani, Afif Naeimi og Mahvash Sabet.
Frá því íslamska lýðveldið Íran var stofnað hafa mörg hundruð bahá'íar verið líflátnir, fangelsaðir eða pyndaðir í því skyni að fá þá til að ganga af trúnni og játast íslam. Tugir þúsunda hafa misst atvinnu eða neyðst til að flýja heimalandið. Ungum bahá'íum hefur verið neitað um inngöngu í háskóla og framhaldsskóla og fólk sem komið var á eftirlaunaaldur hefur verið svipt eftirlaunum og ellilífeyri. Í skjali írönsku stjórnarinnar sem Mannréttindanefnd SÞ hefur birt er að finna áætlun um upprætingu bahá'í samfélagsins í Íran með langtímaaðgerðum sem miða að gera aðstæður þeirra og lífskjör óbærilegar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.5.2008 | 13:56
Erum við menn eða maurar?
Ég hef verið velta fyrir mér undanfarna daga, sjálfsagt af því að ég hef verið að horfa á sjónvarp og lesa fréttir á netinu meira en áður, hvernig öll umfjöllun, nánast sama um hvað hún fjallar, er gjörsamlega eimuð af öllum sjónarmiðum sem ekki taka fyrst og fremst tillit til efnahagslegra atriða. Auðhyggjan er orðin svo allsráðandi að enginn umræða getur talist marktæk, hvað þá áhugaverð, allavega ekki fyrir fjölmiðla, sem endurspegla sjálfsagt viðhorf þjóðarinnar, ef hún beinist ekki eingöngu að afmörkuðum þáttum efnishyggjunnar.
Hvort sem fjallað er um byggðamál, menntamál, náttúruvernd, heilsu og heilbrigðismál, menningu eða listir, eru sjónarmiðin og rökin fyrir því hvort eitthvað sé gott og viðeigandi, eða slæmt og óásættanlegt, ávallt fyrst og fremst efnahagsleg. Jafnvel hin svo kallaða manngildisstefna, sem sumum pólitíkusum þótti um tíma vænlegt að hampa með von um atkvæði þeirra sem undir hafa orðið í gæðakapphlaupinu, og sem fela átti í sér að tillit væri tekið til andlegra þátta eins og réttlætis og samúðar við stjórn mannlegra málefna, hefur dagað uppi sem óljós og óframkvæmanleg hugmyndafræði í hinu skæra ljósi materialismans.
Hið mannlega samfélag tekur á sig æ sterkari mynd maurabús, þar sem hlutverk hvers maurs er eingöngu að færa efnislega björg í bú. Maurabúin eru vissulega vel skipulögð, því þar fara allir eftir settum reglum sem njörvuð eru í genamengi tegundarinnar. Hegðunarmynstur mannsins ræðst af þeirri hugmyndafræði sem fólk aðhyllist og hún er á okkar tímum sú að efnið sé upphaf og endir alls. Það er því skiljanlega mikið kappsmál efnishyggjuprelátanna að kenna og stuðla að hugmyndafræði sem virkar sem líkast genamengi maursins.
Til að styrkja þá heimssýn leggja efnishyggjupredikararnir sig eftir því að reyna að sanna að maðurinn sé í raun einnig erfðafræðilega stór maur, þar sem gena-uppbygging ráði hæfni hvers einstaklings til að komast af í þessu samfélagi. Þeir sem trúa þessu gera sér vonir um að með tíð og tíma verði hægt að koma í veg fyrir það sem þeir kalla andfélagslega hegðun með því að krukka svolítið í genin. Andfélagsleg hegðun er svo samkvæmt kenningunni allt sem ekki er þjóðhagslega hagkvæmt.

Blygðunarlaust afneita efnishyggjumennirnir því að hugtök eins og réttlæti, miskunnsemi, og samhygð eigi þangað nokkuð erindi. Í þeirra augum er það réttlátt að sá sem mest má sín hafi ætíð betur, miskunnsemi er veikleiki og/eða heimska, og samhygð í andstöðu við eðlilega samkeppni þar sem allir hafa annað hvort stöðu vinar eða óvinar, eftir því hvort þú átt í fyrirtækinu eða ekki.
Neikvæðar afleiðingar alls þessa er öllum augljósar og taldar svo sjálfsagðar að ráð er fyrir þeim gert og reynt að gera þær sem efnahagslega jákvæðastar. Þegar að andi mannsins gerir uppreisn og kallar á lausn frá þessu efnislega oki sem hann er undir með því að kalla fram streitu og líkamlega vanlíðan, gefst öllum kostur á að deyfa sig um stundarsakir með einhverjum vímugjafa. Hann er vitaskuld seldur af ríkinu. Þeir sem ekki þola þetta viðvarandi ástand eru kallaðir sjúklingar, (alkohólistar eða fýklar) og búið er að finna genið sem ræður þessum sjúkleika og því stendur þetta ástand víst til bóta. Þegar að mannsandinn reynir að vekja athygli á þrúgun sinni, (viðkomandi verður þunglyndur) er honum boðið upp á Prósak eða önnur skyld lyf. Sjálfsmorð af völdum þunglyndis og óhamingju eru ásættanleg áhætta sem enginn skilur neitt í hvort sem er. Það þóttu einhvern tíma góð vísindi að byrja á því að spyrja spurninga eins og; hvers vegna, og til hvers. Þegar að svona er spurt um tilgang þessarar tilveru verður fátt um svör hjá efnishyggjuráðsmönnunum. Helst er á þeim að skilja að hver og einn finni sér tilgang sjálfur og þeim sem ekki tekst það geti allt eins lifað hamingjusömu lífi án hans. Tilgangsleysi má alltaf fylla með iðjusemi maurseðlisins og afþreyingu dofans.
Þegar að sál mannsins reynir að tjá sig í formi listar, verður úr afskræmi sem reynir að sætta sjónarmið kaupandans sem er að leita að afþreyingu eða deyfingu, og veraldlegra þarfa farvegarins, þ.e listamannsins. Innblásturinn sjálfur lendir ofan garðs og neðan s.b. innantómar og siðlausar leiksýningar og kvikmyndir sem nóg framboð er af.
Þegar að innra inntak kærleika er haft að vettugi á þeim vettvangi þar sem hann er hvað nauðsynlegastur, þ.e. í hjónabandinu, er best að skilja. Enn betra er, að ekki komi til hjónabands. Það stuðlar að efnahagslegum vexti að sem flest einkaheimili séu rekin í landinu. Hægt er að stuðla að þessu með því að gera ungu fólki sem efnahagslega örðugast að vera gift, saman ber fyrirkomulag niðurgreiðslna sveitarfélaga til þeirra sem ekki eiga sér húsnæði og þurfa að leigja. Svona mætti lengi telja.
Sú spurning sem við verðum á endanum að svara er hvort við erum menn eða maurar. Ef við erum eitthvað fremri maurum verðum við að sanna það með framferði okkar. Ef við erum það ekki er ekki annað að gera en að sætta sig við ástandið þar sem það er skilvirk afleiðing okkar sanna eðlis.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2008 | 10:01
Ættjarðarást og/eða þjóðernishyggja
Flestir mundu vera á því að ættjarðarást sé eðlileg. Hins vegar stendur mörgum stuggur af orðinu þjóðernissinni. Men hafa á því illan bifur eftir að það var "hertekið" af pólitískum öfgaflokkum á fyrrihluta síðustu aldar.
En orðin eru afar ólík hvort eð er og hafa mjög ólíka merkingu þrátt fyrir að vera stundum notuð jöfnum höndum.
Ættjarðarást felur í sér aðdáun á landi og menningu þess, umhyggju fyrir íbúum þess og vilja til að sjá hag þeirra sem mestan. Og það er hægt að finna til ættjarðarástar án þess að á bak við þær tilfinningar liggi nokkrar pólitískar meiningar.
Þjóðernishyggja felur hins vegar í sér að upphefja þjóð og land upp yfir aðra, fylgja ákveðinni einangrunarstefnu hvað íbúa varðar og gefa til kynna menningarlega yfirburði þjóðarinnar í stað þess að líta á sig sem framlag til fjölbreytileika. Slík stefna hefur nánast ætíð pólitískar meiningar sem sagan sýnir að hafa ætíð endað með skelfingu.
Þjóðernishyggju-sinnum er líka tamt að villa á sér heimildir og segja málsbúnað sinn og framsetningu sprottna af ættjarðarást, þegar um þjóðernishyggju er að ræða.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (43)
22.5.2008 | 01:34
Hvað er rasismi og hvernig má uppræta hann
Rasismi eða kynþáttahatur er viðvarandi vandamál í heiminum vegna þess að það hefur tekið sér bólfestu í hugum og meðvitund einstaklinga.
Kynþáttahatur er lærð hegðun eða atferli og tjáning þess er sprottin bæði úr hjarta og huga.
Þar af leiðandi þurfa allar aðgerðir sem miða að því að uppræta kynþáttahatur að stuðla að sinnaskiptum fólks og breytingu á viðmóti þess. Pólitískar aðgerðir nægja ekki. Ef að viðmót fólks breytist ekki og sú grundvallar lífsskoðun fólks að allir menn séu jafn réttháir, nær ekki fótfestu meðal almennings og stjórnmálamanna, geta risið upp til áhrifa menn og konur sem láta kynþáttahatur stýra ákvörðunum sínum.
Hvernig má uppræta kynþáttahatur. Margvísleg pressa nútíma samfélags kyndir undir kynþáttahatri. Kynþáttahatur er fyrst og fremst ávöxtur; vanþekkingar, klisjukennds misskilnings, þeirrar áráttu mannsins að hefja stöðugt einn hóp yfir annan og skorts á andlegum gildum.
Hinum augljóslega fölsku staðhæfingum sem kynþáttahatur byggir á verður að andmæla með sannleikanum. Hann er að allir menn tilheyra sömu fjölskyldu manna, fjölskyldu sem er sameinuð líffræðilega, samfélagslega og andlega. Samtímis auðgar hún jörðina með fjölbreytileika útlits síns.
Ef að hver og einn er samþykkur þessum sannleika og er tilbúinn að bjóða velkominn inn í sína nánustu fjölskyldu einstakling með annan hörundslit, mun kynþáttahatur hvergi finna sér heimili framar og hverfa að sjálfu sér.
Það er nauðsynlegt að fræða okkur öll, en ekki hvað síst börnin okkar, um einingu mankynsins, sannleika sem allar greinar vísinda staðfesta.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
20.5.2008 | 23:55
Hversu almenn er kynþátta-andúð á Íslandi?
Fyrir rúmlega 15 árum kom til landsins þekktur bandaríkur rithöfundur sem fjallað hefur mikið um fordóma og kynþáttahatur í bókum sínum. Hann hélt því fram að Ísland væri í faldi fordómaskeflu sem mundi steypa sér innan fárra ára. Ég man að mér fannst þessi ágæti maður gera helst til mikið úr hlutunum.
Eftir að hafa fylgst náið með umræðunni um útlendinga (Pólverja aðallega) á Íslandi og nú síðast umfjölluninni um flóttakonurnar frá Írak, verð ég að viðurkenna að rithöfundurinn kann að hafa haft rétt fyrir sér.
Sé bloggheimur þverskurður af Íslenskri alþýðu, er ekki annað að sjá en að kynþáttaandúð sé almenn og rótföst á Íslandi. Íslendingar hafa lengst af getað frýjað sig öllum ákúrum í þá átt að þeir séu þjóðernissinnar og kynþáttahatarar í skjóli þess að fáir aðrir en hvítir kristnir menn hafa byggt landið eða fengið hér inni. Þessi staðreynd villti um fyrir mér þegar ég stóð á því fastari fótunum að á Íslandi væri kynþáttaandúð lítil og risti grunnt þar sem hún fyndist. - Ég var líka viss um að Íslendingar mundu njóta fjarlægðarinnar frá meginlandinu á þann hátt að þeir mundu læra af mistökum annarra þjóða og getað þannig brugðist rétt við þegar hið óhjákvæmilega gerðist, að Ísland tæki sinn verðuga sess meðal þjóða sem ættu fjölmenningarlegt samfélag. En því miður, svo virðist ekki vera.
Þótt ég sé enn viss um að meiri hluti Íslendinga sé gott og grandvart fólk hefur vofa kynþáttaandúðar náð að glepja nógu marga til þess að rödd hennar heyrist nú oftar og hærra svo jafnvel íslenskar stjórnmálahreyfingar með kosna þingmenn í sínum röðum taka undir þessa rödd.
Ég held að það sé tími til kominn fyrir alla þá sem telja að kynþáttaandúð og fordómar séu ekki eitt af því sem við viljum að börn okkar þurfi að alast upp við að skora á yfirvöld að beita sér fyrir því að alvöru jafnréttisfræðsla fari fram í skólum landsins, þar sem eining mannkynsins er áréttuð og almenn mannréttindi allra manna verði innrætt börnunum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (53)
19.5.2008 | 17:41
Er meirihluti Íslendinga virkilega á móti að þessu fólki verði veitt landvistarleyfi?
Járnsmiður fór út til að snæða á nærliggjandi veitingastað. Hann snéri aldrei til baka. Tveimur dögum seinna voru kennsl borin á lík hans í einu líkhúsa borgarinnar. Það bar merki um pyntingar.
Verslunareigandi giftur og fimm barna faðir var hrifin frá tveimur börnum sínum úr fjölskyldubílnum af vopnuðum mönnum. Hann var seinna skotinn til bana og líki hans hent á götuna.
Leigubílsstjóri sem beið áfyllingar á bíl sinn var numinn á brott af vopnuðum mönnum. Tveimur dögum seinna notuðu mannræningjarnir farsímann hans til að tilkynna fjölskyldu hans um að lík hans væri að finna á líkhúsinu. Líkami hans bar merki pyntinga þ.á.m. djúp sár eftir vélbor.
Fjórir menn, þar á meðal, tveir bræður voru handteknir af írösku öryggislögreglunni. Nokkru seinna komu þeir fram í sjónvarpi þar sem þeir játúðu að hafa staðið að sprengingum í Bagdad. Það kom í ljós að þeir höfðu verið pyntaðir í 27 daga, - barðir með vírum, gefið raflost og brenndir með sígarettum.
Þeir játuðu að hafa staðið að sex sprengjutilræðum, þar á meðal fimm sem aldrei höfðu átt sér stað.
Fjölskyldur þessara manna dveljast m.a í Al-Waleed búðunum.
Góða greinargerð frá Amnesty International um ofsóknir á hendur Palestínumönnum í Írak er að finna hér.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
17.5.2008 | 14:06
Nýlegt myndband frá AL-WALEED flóttamannbúðunum, aðstæður, andlit og raddir flóttafólksins
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.5.2008 | 00:01
Lífið í Al-Waleed flóttamannabúðunum hjá verðandi Akurnesingum
Margt af flóttafólkinu reyndi að yfirgefa Írak til að flýja ofbeldið sem þar er orðið daglegt brauð. Miðstéttar Palestínumenn réðu ekki yfir vopnuðum herflokkum til að vernda sig og því hröktust þeir úr landi fljótlega eftir innrás Bandamanna í Írak. Þeir voru auðveld bráð fyrir mannræningja og fjárkúgara. Fjörutíu ára þriggja barna móðir móðir; Tisar Abdel Fadi fór frá Baghdad til Al-Tanf eftir að eiginmanni hennar var rænt af sjúkrahúsi. Hann var síðan pyntaður og myrtur.
Fyrir marga var flóttinn för úr öskunni í eldinn því við tóku Al-Waleeda búðirnar. Þær eru sérstakt bitbein hreppspólítíkur í hinu löglausa Anbar héraði. Allir sem eiga leið um héraðið verða að borga verndartolla eða láta eftir skerf af þeim gögnum sem þeir hafa undir höndum til Sheiksins sem svæðinu ræður. Þetta gerir starf hjálparstofnana nánast útilokað. Að auki bætast við afskipti banvænnar blöndu landamæravarða, staðarlögreglu og Íraska hersins.
Allir eru sammála að langvarandi dvöl í þessum búðum er ómöguleg. Ískaldir vetur, brennheit sumur,eldhætta, snákar, sporðdrekar, vatnsleysi, skortur á sjúkraaðstöðu, er meðal þess sem gera það ómögulegt.
Í Al-Waleed eru plastklósett í hverju tjaldi. Jörðin er samt svo hörð að hún drekkur ekki einu sinni í sig vatnið sem hellt er á hana. Skólpið rennur því opið um búðirnar. Fyrir utan auðsæja smithættu er íbúarnir afar illa á sig komnir líkamlega. Sérstök þörf er á sálfræðiaðstoð fyrir konur búðanna sem sumar eru á barmi örvæntingar. Læknar sem heimsótt hafa búðirnar hafa allir orð á slæmri andlegu heilsu íbúanna sem er bein orsök af vonleysinu og úrræðaleysinu sem heltekið hefur þá alla.
Eina uppbyggilega starfsemi búðanna er skólakennsla barna.
Engi von virðist vera um að þessu fólki verði hleypt inn í Sýrland. Sýrlendingar hýsa þegar á eigin kostnað meira en milljón flóttamanna.
Íslendingar eru fyrstir þjóða til að ljá því máls að hjálpa þessu ákveðna fólki með því að veita því landvistarleyfi á Íslandi. Málið hefur verið gagnrýnt af þröngum hópi sem telur að íslendingar eigi að hjálpa betur að eigin fólki áður en við aðstoðum aðra. Í orðum þeirra liggur að þrátt fyrir að Íslendingar séu ein af auðugustu þjóðum veraldar, hafa þeir ekki efni á að veita fólki í öng hjálp. Hverjir eru þá aflögu færir má þá spyrja?
Þá hefur einnig heyrst sú skoðun að hjálp við þetta fólk mundi betur gagnast því á svæðinu sem auðvitað er fásinna þar sem svæðið er óbyggilegt.
Það er því ekki að furða að það læðist að manni sá grunur að þeir sem eru á móti því að taka á móti þessu flóttafólki, tali gegn komu þess til landsins af enn annarlegri ástæðum en heimóttaskap, fáfræði eða óbilgirni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
15.5.2008 | 19:18
Saga úr stríðinu...af flóttakonu
Þar til að stríðið barst til heimabæjar hennar, lifði Móna Ghunnam hamingjuríku lífi. Hún átti ástríkan eiginmann og fjögra ára dóttur. Í nágrenni við hana bjuggu foreldrar hennar og fjórir bræður.
Árið 2003 varð sprengjuflaug móður hennar og föður að bana. Hún grandaði líka bræðrum hennar fjórum og lítilli dóttur hennar. Sjálf lamaðist hún að hluta.
Eiginmaður hennar, lögreglumaður, reyndi að fá aðhlynningu handa henni á vestrænu sjúkrahúsi en gat sjálfur ekki sætt sig við bæklun hennar. Hann kastaði henni á götuna og flutti inn til nýrrar eiginkonu.
Móna sem hafði verið kennari var ein þeirra 750.000 Íraka sem lentu í hrakningum og enduðu á götum Amman borgar í Jórdaníu. Hún býr í eins herbergis kjallaraholu án hita, vatns eða salernis.
Flestar stundir grúfir hún sig upp að vegg í herberginu og grætur. Hún er ekki lengur, móðir, eiginkona, dóttir eða systur.
Mónu hefur verið boðið að setjast að í landinu sem grandaði fjölskyldu hennar en hún er hikandi.
"Ég trúi ekki lengur að ég verði nokkru sinni hamingjusöm aftur" segir hún."Skömmin er yfirþyrmandi, ég var skólakennari nú er ég betlari. Síðasta minningin af dóttur minni er að hún var að leika sér á meðan aðrir í fjölskyldunni stigu út veröndina til bæna þann 31 mars. 2003. "
"Passaðu að detta ekki" sagði hún og brosti við dóttur sinni um leið og hún snéri sér í átt til Mekka. Það næsta sem hún vissi var hún stödd á sjúkrahúsi með þrjú sprengjubrot í höfðinu, heyrnarlaus á hægri eyra og lömuð vinstra megin líkamans.
Hún spurði eftir dóttur sinni og fjölskyldu en fékk engin svör. Eftir þrjár aðgerðir hélt hún heim. Eiginmaður hennar sagði henni að öll fjölskylda hennar væri látin. "Það var erfiðasti dagur lífs míns. Mér fannst eins og ekkert væri eftir" sagði Móna um þann dag.
Hann sagði að best væri að þau seldu hús sitt og flyttust frá þorpinu og settust að í Austurríki. Móna gaf eiginmanni sínum leyfi til sölunnar. Nokkru seinna sagðist hann ekki hafa neinn áhuga á að yfirgefa Írak og lýsti því yfir að hann vildi eignast aðra konu. "Hann fórnaði mér" sagði hún með tárin flóandi niður kinnarnar."Hann fékk húsið mitt og launin mín sem hann notaði til að kaupa nýjan bíl. En nú var ég þurfalingur, óvinnuhæf, byrði".
Móna gaf öll föt dóttur sinnar og leikföng. "Hárspennurnar, fyrsta afmæliskertið hennar, litina hennar, öll mjúku leikföngin sem sum hver hún hafði ekki einu inni leikið sér enn að".
"Ég pakkaði niður í ferðatösku og fór".
Móna dvaldi um hríð hjá aldraðri konu sem bjó í grenndinni, eða þar til maður hennar kom með prestinn til að skilja við hana. Hún tók hönd eiginmannsins og kyssi fingur hans og bað hann um að skilja ekki við sig. Hann kippti til sín hendinni og sagði að hún væri ekki lengur kona sín og hefði því ekki rétt til að kyssa hann framar.
Fjarlægir ættingjar hennar töldu sig ekki geta tekið á móti henni í því ástandi sem hún var´og það eina sem beið hennar var vergangur.
"Ég seldi það sem ég átti, jafnvel giftingarhring móður minnar og hélt af stað út í buskann."
"þegar ég kom til Jórdaníu dvaldist ég á gistihúsi þar til því var lokað. Nú bý ég í þessu herbergi og eigra þess á milli um göturnar hlægjandi. Ég veit ekki af hverju ég er hérna eða hvert ég er að fara".
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.5.2008 | 15:20
Spámaðurinn sofandi
Í dag eru til hundruð nýaldarlækna og bókstaflega þúsundir sjúklinga um allan heim sem nota lækningaaðferðir sem þróaðar voru af manni sem hafði enga læknisfræðimenntun og framkvæmdi árangursfyllsta starf sitt meðvitundarlaus. Þessi maður hét Edgar Cayce hinn sofandi spámaður Ameríku, einn af almerkilegustu sjáendum 20 aldarinnar.
Edgar Cayce var fæddur á bóndabæ nálægt Hopkinsville í Kentucky-fylki í Bandaríkjunum 18 mars 1877. Fyrstu teikn um skyggnigáfu hans komu snemma í ljós. 7 ára að aldri sagði hann foreldrum sínum af fundum sínum með látnum afa sínum. Og ýmislegt bendir til þess að hann hafi haft sýnir af engli. Cayce gekk ekki í skóla nema fram að áttunda bekk og 16 ára var hann farinn að vinna í bókabúð. Eins og margir ungir Ameríkanar lék hann hafnarbolta í frístundum. Eitt sinn við slíkan leik fékk hann mikið högg á bakið sem gerði hann órólfæran. Á meðan hann þjáðist í rúminu skipaði hann móður sinni skyndilega að útbúa og bera á eymslin frjókornaseiði sem hann tilgreindi, sem hún og gerði. Morguninn eftir reis Cayce á fætur og kenndi sér einskis meins. Hann mundi þó ekki eftir neinu af þessari reynslu sinni, sem seinna kom í ljós að átti eftir að verða einkennandi fyrir líf hans.
Árið 1898 þegar Edgar var 21 árs gerðist hann sölumaður fyrir bréfsefnisheildsala og með honum hafði vaknað áhugi á ljósmyndun, en jafnframt var hann á ystu nöf með að verða einn af fremstu læknamiðlum sem heimurinn hefur þekkt. Þá þróun má rekja til veikinda sem hann átti sjálfur við að stríða og honum flaug í hug að lækna mætti með aðstoð dávalds. Hann fór á fund eins slíks sem ekki tókst samt að lækna meinið. En í einum af dásvefninum, í djúpu dái, tók Cayce skyndilega að lýsa meðali sem lækna myndi mein hans. Læknislyfið hreyf og hann fór að velta því fyrir sér hvort hann gæti endurtekið leikinn og orðið öðrum til góðs.
Áður en leið á löngu varð honum mögulegt að losa sig við þjónustu dávaldsins því hann gat komist í dásvefn hjálparlaust og af eigin rammleik.
Lækningar Cayces eru allt of margar og vel sannaðar til að geta kallast umdeilanlegar í dag, en hann fékkst ekki við trúarlegar lækningar í þeim skilningi sem það orð er notað. Hann stundaði ekki handa-yfirlagningar eða tók fólk í meðferð. Hæfileikar hans fólust að miklu leiti í að sjúkdómsgreina, sem hann gat oft á tíðum gert án þess svo mikið sem berja sjúklinginn augum. Oft á tíðum stönguðust greiningar hans algjörlega á við hefðbundnar læknagreiningar. En aftur og aftur reyndist Cayce hafa rétt fyrir sér og læknarnir rangt. Meðhöndlunaraðferðir hans voru ýmiskonar, allt frá hefðbundnum laxerolíukúrum og smáskammta-læknisaðferðum, til frekar ótrúlegra læknisaðferða eins og inntöku á sængurmaurasafa.
En eitt höfðu aðferðirnar þó sameiginlegt, þær virkuðu. Þegar hann lést árið 1945 hafði hann meðhöndlað mörg þúsund sjúklinga með góðum árangri, sem oft hafði verið vísað til hans af þeim sem störfuðu í læknastétt. Skyggnin sem lá að baki lækningastarfsemi Cayces leiddi hann inn á undarlegar leiðir. Eitt sinn hafði hann t.d. upp á morðingja með hæfileikum sínum. Í því tilfelli féll á hann sjálfan grunur um að hafa framið morðið því einn af rannsóknarlögreglumönnunum sem málið rannsökuðu trúði ekki á skyggnigáfu og var þess fullviss að vitneskja Cayces gæti aðeins stafað af því að hann hefði sjálfur framið morðið.
Frá sjúkdómsgreiningum sínum fór Cayce að stunda lífgreiningu, það er, lagði mat á framtíð sjúklingana. Vegna þess að í vöku var Cayce ákaflega bókstafstrúaður kristinn maður olli það honum talsverðri truflun, þegar honum varð ljóst að í dái gat hann greint frá fyrri lífum einstaklinga og sett fram fyrnalanga sögu mannskynsins sem náði langt aftur til hins forna meginlands Atlantis.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)