Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
26.3.2009 | 22:21
Kína ræður för
Ægivald Kína yfir þjóðum heimsins verður æ ljósara. Íslendingar fengu smjörþefinn af því þegar að Jiang Zemin kom til landsins 2002 og Falun Gong meðlimum var annað hvort bannað að koma til landsins til að mótmæla eða þeir settir í stofufangelsi.
Nú hafa Suður-Afrísk stjórnvöld neitað Dalai Lama um vegbréfsáritun svo hann kemst ekki á ráðstefnu sem halda á í vikunni í Jóhannesarborg. Ráðstefnan er tengslum við fyrirhugaða heimsmeistarakeppni í fótbolta sem haldin verður í landinu 2010 og þar mun verða rætt um hlutverk íþróttarinnar í barráttunni við kynþáttahyggju. Ástæðan er, er sögð af stjórnvöldum í Pretoríu " að koma Dalai Lama mundi ekki þjóna hagmunum Suður-Afríku sem stendur".
Nú skilst mér að það standi til að Dalai Lama muni heimsækja Ísland. Það verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum kínverskra yfirvalda þegar nær líður að þeirri heimsókn og enn merkilegra að fylgjast með viðbrögðum íslenskar stjórnvalda.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.3.2009 | 13:30
Bretar fá 10% til baka frá Icesave
Enn hrína Bretar yfir afleiðingum hruns íslensku bankanna, einkum þó yfir að hafa lagt mikið fé inn á Icesave reikninginn. Þeim þykir súrt að fá ekki til baka nema kannski 10% af innlánsfénu og það er skiljanlegt. (Sjá grein BBC)
Gremja þeirra hefur snúist upp í ásakanir á hendur hvor öðrum um hver hafi átt sökina á því að stór bæjarfélög í Bretlandi voru að leggja inn á Icesave reikninginn peninga allt fram að þeim degi er hrunið varð.
Þannig varð gjaldkerinn í Kent fyrir því óláni að opna ekki emailið sitt sem varaði hann við því að Isesave væri ekki lengur neitt "save" og hann lagði því þrjár milljónir punda inn á reikninginn 1. okt. síðast liðinn. Kentbúar eiga inni hjá Icesave 50 milljónir punda. Sjálf eftirlitsstofnunin sem á að líta eftir með fjárfestingum bæjarfélaganna í Bretlandi lagði 10 milljónir in á Icesave, svo erfitt er um vik fyrir menn að finna góðan blóraböggul.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2009 | 21:53
"Sá sem drap Osama Bin Laden"
Í nóvember 2007, skömmu eftir að Benazir Bhutto snéri aftur til heimalands síns Pakistan, tók hinn víðkunni sjónvarpsmaður David Frost við hana sjónvarpsviðtal. Nokkrum dögum áður hafði hún lifað af banatilræði sem varð yfir 100 manns að bana. Frost spurði hana hvort hún vissi hverjir hefðu staðið að baki tilræðisins. Hún svaraði og nefndi meðal annarra á nafn Omar Sheikh og bæti svo við "sá sem drap Osama Bin Laden".
Frost deplaði ekki auga og spurði Benazir ekkert frekar út í málið.
Mánuði áður þegar Benazir var enn í útlegð í Bretlandi hafði hún heitið því í öðru viðtali að "hjálpa bandarískum hervöldum í baráttunni gegn Osama Bin Laden ef hún kæmist til valda aftur."
Osama hefur lítið borið á góma upp á síðkastið. Reyndar fullyrti John McCain sá sem Obama sigraði í forsetkosningunum í Bandaríkjunum "að hann vissi hvernig mætti ná" honum, en að öðru leiti hafa fáir á hann minnst. CIA viðurkenndi t.d. fyrir löngu að "slóð hans væri köld" og að síðustu staðfestu fregnir af honum séu myndband sem gert var í október 2004. Það myndband var tekið í þorpi í Pakistan og sýnir máttfarinn og tekinn mann sem ekki getur hreyft á sér hægri handlegginn.
Þá fullyrða talibanar að þeir séu löngu hættir að taka við skipunum frá samtökum Osama; Al-Qaeda, og hegðun þeirra bendir til að það sé satt.
En hvers vegna er ekki leitað staðfestingar á þessari fullyrðingu Benazir Bhutto í sjónvarpsviðtalinu við Frost?
Hún nafngreinir manninn Ahmed Omar Saeed Sheikh og hann er ekki beint ókunnur leyniþjónustum Pakistan, Bandaríkjanna og Bretlands.
Hann er fæddur ( 23. des. 1973) Breti af pakkistanískum foreldrum og er þekktur fyrir að vera tengdur hinum ýmsu samtökum múslíma, þ.á.m. Jaish-e-Mohammed, Al-Qaeda, Harakat-ul-Mujahideen og Talibana.
Þann 6. oktober 2001 bar CNN fréttastofan ónefndan háttsettan bandarískan fulltrúa fyrir þeirri frétt að komið hefði í ljós að Ahmed Omar Saeed Sheikh (Sheik Syed), hefði undir nafninu "Mustafa Muhammad Ahmad" sent 100,000 dollara frá Sameinuðu Araba-furstdæmunum til Mohammed Atta. Atta þessi útdeildi síðan peningum meðal þeirra sem framkvæmdu árásirnar á Bandaríkin 11. sept. sem þá voru staddir í Florida. Atta átti einnig að hafa sent til baka til Furstadæmanna nokkur þúsund dollara sem gengu af greiðslunum til flugvélaræningjanna. Viðtakandi var Ahmed Omar Saeed Sheikh. CNN fékk þetta staðfest síðar.
Árið 1994 var Omar handtekinn og fangelsaður fyrir þátttöku í mannráni á Indlandi en látinn laus árið 1999 og fluttur til Pakistan þar sem hann var notaður í fangskiptum við Talibani sem héldu föngnum farþegum Indverska flugfélagsins (flug 814).
Omar er samt almenningi best kunnur fyrir þátttöku sína í ráninu og morðinu á Daniel Porter 2002, blaðamanni sem starfaði fyrir Wall Street Journal. Fyrir það var hann handtekinn af lögreglunni í Pakistan í febrúar 2002 og síðan dæmdur til dauða 15. júlí sama ár. Hann áfrýjaði máli sínu en það hefur enn ekki verið tekið fyrir af dómsvöldum þar í landi. Töfin á meðhöndlun málsins er rakin til afskipta Pakistannísku leyniþjónustunnar ISI.
Í bók sinni "í skotlínunni" staðhæfir Pervez Musharraf, fyrrum forseti Pakistans, að Omar hafi upphaflega verið í þjónustu bresku leyniþjónustunnar MI6 og hafi verið ráðinn af henni þegar hann stundaði nám í London School of Economics. Hann segir enn fremur að Sheikh Omar hafi verið sendur af MI6 til Balkanlandanna þar sem hann hafi starfað sem leyniþjónustumaður. Að lokum fullyrðir Pervez að Omar hafi skipt um lið og orðið gagnnjósnari eða hreinlega hollustulaus málaliði.
Í réttarhöldunum yfir honum þar sem deilt var um þátttöku hans í aftökunni á Daniel Porter var framburður hans svona; "Ég vil ekki verja þessar gjörðir. Ég gerði þetta....rétt eða rangt, ég hafði mínar ástæður. Mér finnst að land ykkar ætti ekki að sinna þörfum Ameríku".Omar hélt því líka fram við réttarhöldin að hann hefði gefið sig fram við leyniþjónustu landsins ISI, viku áður en hann var síðan handtekinn.
Omhar býður þess enn í fangelsi í Pakistan að áfrýjun hans verði tekin fyrir en lögfræðingar hans segjast munu byggja vörn sína á nýlegri játningu Khalid Sheikh Mohammed að hann hafi banað Daniel Pearl.
Fram að þessu hefur enginn orð á því við að bera undir Ahmed Omar Saeed Sheikh fullyrðingu Benazir Bhutto sem eins og allir vita lét lífið í sjálfsmorðárós sem á hana var gerð 27. des. 2007. Hverjir stóðu að þeirri árás hefur enn ekki verið upplýst.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.3.2009 | 13:26
Stríðið endalausa
Það eru sex ár frá því að Bandaríkin með aðstoð Breta og fulltingi nokkurra smáþjóða þ.á. m. Íslands réðust inn í Írak á vordögum 2003. Tilgangurinn var vitaskuld að finna og eyða gereyðingarvopnum Saddams, drepa hann og þá sem honum fylgdu að málum, viljugir eða óviljugir. Nokkrum mánuðum seina lýsti Georg Bush yfir fullnaðarsigri þar sem hann stóð á þilfari bandarísks flugmóðurskips í Persaflóa og heimsbyggðin fagnaði með áhöfninni.
Í dag, sex árum og 700.000 mannslífum síðar heldur stríðið áfram og enginn friður er í sjónmáli. Landflótta Írakar skipta milljónum og stöðugleiki landsins er enginn, ekki á nokkru sviði. Landið er enn vígvöllur.
Á sama tíma hafa bæði þeir sem hófu stríðið og studdu það, horfið af sjónarsviðinu á einn eða annan hátt. Saddam, erkióvinurinn hefur verið hengdur og flestum félaga hans og fjölskyldumeðlimum grandað. Tony Blair með sinn "the right thing to do" frasa farinn frá völdum og í gangslaust embætti. George Bush og hans slekti allt sem ekki var þegar búið að segja af sér, farið að semja bækur um óhugnaðinn og á Íslandi eru bæði Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddson, helstu stuðningsmenn innrásarinnar og stríðsins, báðir farnir frá við slæman orðstír.
Allir þeir sem komu að innrásinni í Írak gerðu sér vonir um að arfleyfð þeirra og orðstír yrði mikill. "Sagan mun réttlæta gjörðir mínar" endurtók Bush í sífellu á hundadögum valdaferils síns. "Ég gerði það sem ég taldi rétt að gera" er enn viðkvæði Tony Blair. Og allt fram á þennan dag hafa hvorki Davíð Oddson eða Halldór Ásgrímsson sýnt hina minnstu iðrun yfir því að hafa bendlað Ísland við þessar vanhugsuðu og afdrifaríku hernaðaraðgerðir.
Eftir situr heimsbyggðin og Íraska þjóðin með þennan voðagjörning sem þeim tekst ekki að finna leið út úr. Þrátt fyrir stjórnarskipti í Bandaríkjunum og fyrirheit um tímasetta áætlun um að draga herlið sitt úr landinu (Bandaríkjunum vantar fleiri hermenn til að berja á Afgönum) að mestu, heldur blóðbaðið í Írak áfram.
Eftirmálar þessa stríðs eiga eftir að elta mannkynið alla þessa öld. Olíusamningar Íraks við vesturveldin sem íraska þinginu var gert að samþykkja fyrir einu ári, munu sjá til þess. Algjör vanageta innrásaraðilanna og leppstjórnar þeirra til að taka á vandamálum trúar og þjóðarhópanna sem byggja Írak, mun einnig draga á eftir sér langan dilk.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.3.2009 | 12:11
Ég mun drepa Ali
Drengirnir komu gangandi í rikinu eftir moldartröðinni á milli tjaldanna. Þeir eru 12 ára og leiðast hönd í hönd eins og ungir drengir gera oft í austurlöndum enda bestu vinir. Báðir heita þeir hinu algenga nafni Ali. Þeir eru að fara í sjónvarpsviðtal þar sem þeir er spurðir út í líf sitt í Afganistan áður en fjölskyldur þeirra voru drepnar og líka út í það hvernig lífið í þessum stóru flóttamannbúðum fyrir Afgani í Pakistan gengi fyrir sig. Meira en ein milljón Afgana dveljast nú í slíkum búðum. Fjölskylda annars var drepin í loftárás bandamanna og fjölskylda hins lést í sprengjuárás frá Talibönum.
Annar er staðráðin í að ganga í lið með Talibönum þegar hann fær aldur til. Vinur hans er jafn staðráðin í að ganga í þjóðherinn í Kabúl.
Hvað ætlið þið að gera ef þið mætið hvor öðrum á vígvellinum, spyr sjónvarpskonan. Báðir svöruðu óhikað; "Ég mun drepa Ali."
Í Afganska þjóðhernum eru nú 180.000 manns. Af útlendum hermönnum í landinu eru um 100.000 manns, fyrir utan leiguliða og her-verktaka. Allir eru að eltast við Talibana sem enginn veit hvað eru margir. Engir sigrar hafa raunverulega unnist frá því að Talibanar voru hraktir frá völdum í Kabúl. Skærur og skotárásir eru daglegt brauð en jafnskjótt og eitt þorp hefur verið jafnað við jörðu flyst andstaðan við erlenda "setuliðið" yfir í næsta þorp.
Allir herforingjar sem starfað hafa á vegum NATO í Afganistan hafa annað hvort sagt það berum orðum eða gefið það í skin að þetta sé stríð sem ekki er hægt að vinna. Afganistan hefur aldrei verið sigrað af erlendum herjum þótt margir hafi reynt. Bretar hafa gert hvað þeir gátu til þess allt frá miðbiki 19. aldar, Persar, og Rússar hafa reynt það án árangurs.
Samt halda Bretar og Bandaríkjamenn áfram þessum kjánagangi og bera því við að þeir séu að leita að Al-Qaida mönnum og Osama Bin Laden og fá bændur til að rækta eitthvað annað en Valmúga. Talibanarnir segjast vera löngu hættir að taka við fyrirskipunum frá Al-Qaida. Að drepa erlenda hermenn er vinnan þeirra. Þeir fá borgað í dollurum sem koma víðsvegar að úr heiminum. Þeir vinna á daginn og slaka svo á á kvöldin, reykja og drekka.
En hvað eru Bandaríkin og Bretland með NATO regnhlífina á lofti að vilja í þessu landi. Það hefur margoft verið bent á ástæðuna en fjölmiðlar eru tregir til að taka upp málið. Sumir afgreiða það sem "samsæriskenningu". Auðvitað mundu Bandaríkin aldrei leggjast svo lágt að ráðast inn í land vegna olíu.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.3.2009 | 02:41
Eftirlegukindin Ísland
Hún er heit umræðan þessa dagana um hvort Íslandi sé betur sett innan eða utan Evrópubandalagsins. Ein er hlið á því máli sem sjaldan sést rædd, enda hagsmunapólitíkin í forsæti eins og vanalega. -
Þegar við lítum yfir farin veg mannkynsins síðast liðin 10 þúsund ár má greinilega sjá að menningarleg þróun okkar krefst stöðugt stærri samfélagsheilda. Ef stiklað er á stóru í þessari söguskoðun sjáum við að fjölskyldan óx af hirðingastiginu og varð að ættbálki sem gat með samvinnu ræktað landið. Ættbálkarnir mynduðu með sér borgríki þar sem iðnaður og verslun varð til. Borgríkin mynduðu með sér bandlög sem urðu að lokum að þjóðum. Nú streitast þjóðirnar til við að mynda með sér þjóðabandalög sem að lokum munu sameinast í einu alþjóðlegu ríkjasambandi. Hinar umfangsmiklu breytingar á högum og háttum manna þegar að þeir hættu að reiða sig á veiði og því sem þeir gátu safnað og fóru að rækta jörðina marka svo mikil tímamót að áhrifamestu rit heimsins eins og Biblían, hefjast á frásögninni af þeim.
Lífsafkoma fólks heimsins og lífsgæði þess á hverju stigi, valt og veltur ætíð á að hvaða marki það var tilbúið til að tileinka sér þau sjónarmið sem gerðu þeim kleift að taka þátt í þessari framvindu menningarlegrar og samfélagslegrar þróunar. Eftirlegukindurnar og þeir sem heltust úr lestinni, stöðnuðu og tíndust.
Það kann vel að vera að Ísland geti streist á móti þessari, að því er virðist, ómótstæðilegu tilhneigingu sögu-framvindunnar í einhver ár í viðbót, en þeir geta ekki vonast til að stöðva þróunina. Fyrr eða seinna verða þeir að semja sig inn í þjóðabandalagið eins og aðrar þjóðir eða gerast ein af eftirlegukindunum og lúta þá örlögum þeirra.
Sú heimskreppa sem læsir nú klónum um mannkynið á eftir að herða takið til muna enda er hún aðeins byrjunin á miklum samfélagslegum hamförum á borð við þær sem áttu sér stað þegar að mannkynið sagði skilið við hirðingjalífs-stíl sinn og tók upp fasta búsetu og jarðrækt. Að auki er hún uppgjör við helstefnu blindrar efnishyggju sem einhverjir gáfu réttnefnið "frjálshyggja" því undir henni er öllum allt leyfilegt. Hugmyndafræðilega er hún ímynd fjárhagslegs Darwinisma.
Næstu skref í samfélagsþróun mannkynsins verða tekin þrátt fyrir tregðu þess til að stíga þau. Í því sambandi er sannarlega um líf eða dauða að tefla. Það er t.d. fyrirsjáanlegt að á næstu áratugum verður tekin upp alheimsleg minnt og staðlað efnahagskerfi sem tryggir fólki sömu laun fyrir sömu vinni hvar sem það er í heiminum. Samtímis verða auðlindir heimsins álitnar tilheyra mannkyninu öllu frekar en einstaka þjóðum enda er vistkerfi hans svo samfléttuð að ómögulegt er þegar að réttlæta tilkall einnar þjóðar til nýtingu þeirra umfram aðrar.
Ísland sem er svo ríkt af varningi sem í framtíðinni munu skipta mesta máli fyrir afkomu mannkynsins, vatni og orku, ætti að vera í fararoddi þeirra þjóða sem vilja deila með heiminum auðlindum sínum, í stað þess að draga á eftir fæturna eins og staðan er í dag.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 02:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.2.2009 | 09:36
Bardaginn sem öllu breytti
Það var enginn smáræðis floti sem dró upp að ströndum Englands þann 28. september árið 1066. Mörg hundruð skip voru í flotanum og um borð voru ásamt átta þúsund hermönnum, sjómenn, eldabuskur og hestar og smiðir.
Fyrstur til að stökkva á land var Vilhjálmur hertogi af Normandí. Hann vildi sína mönnum sínum að hann væri maður sem hægt var að treysta. Um leið og hann kom upp í fjöruna datt hann kylliflatur í mölina. Það fór kurr um mannskapinn.
Þetta gat ekki boðað gott. Orðatiltækið "fall er fararheill" var eflaust í hugum þeirra eins og okkar, slöpp tilraun til að breiða yfir klaufaskap og oftast sagt til að segja bara eitthvað undir afar vandræðalegum kringumstæðum. -
Vilhjálmur spratt á fætur og snéri sér við og rétti báðar hendur í átt að mönnum sínum. "Við dýrð Guðs" hrópaði hann. "Ég hef enska jörð tveimur höndum tekið". Þetta nægði til þess að mennirnir róuðust og sumir fóru að brosa aftur í kampinn. Vilhjálmur var eins og aðrir snjallir lýðskrumarar snillingur í að snúa því sem miður fer, sér í vil.
Vilhjálmi tókst þennan dag, það sem engum hefur tekist síðan, að landa með glans innrásarher á enska grundu. Riddarar og bogaliðar þustu í land og á næstu dögum leiddi Vilhjálmur þá frá Pevensey flóa til Hastingshæða þar sem hann setti upp búðir.
Vilhjálmur var svo forsjáll að taka með sér forsmíðaðan trékastala sem hægt var að slá upp á nóinu. Grindurnar voru negldar saman með stautum sem pakkað hafði verið í tunnur og á skömmum tíma var Vilhjálmur búinn að koma sér fyrir í ágætis bækistöðvum.
Til að byrja með fóru Vilhjálmur og her hans sínu fram algjörlega óáreittir. Haraldur konungur Englands hafði öðrum hnöppum að hneppa við að hrekja nokkra Norðmenn aftur í sjóinn sem gert höfðu strandhögg norður í landi.
Þegar að Haraldur loks heyrði að Vilhjálmur væri mættur með lið sitt til að hertaka landið, dreif hann sig suður til að mæta honum og kom á Hastingsslóðir þann 13. október. Hermenn hans var þreyttur eftir langa göngu í einum spreng suður á bóginn, húskarlarnir moldugir og pirraðir og þungvopnaðir fótgönguliðarnir frekar fúlir líka. Haraldur skipaði þeim að taka sér stöðu á hæð einni réttum ellefu km. norðaustur af bækistöðvum Vilhjálms og verjast þaðan. Öllum varaliðum og heimavarnaliði skipaði hann að baki þeim.
Og þá var sviðið tilbúið fyrir frægustu orrustu sem háð hefur verið á Englandi, kennd við Hastings.
Normannar áttu erfðan dag fyrir höndum. Í morgunskímunni 14. október, stigu fylkingar þeirra út úr morgunlæðunni fyrir neðan hæðina og sáu fyrir ofan sig þéttan vegg húskarla Haraldar tvíhenda sínar bitru axir. Úff. Klukkan hálftíu dró loks til tíðinda. Lúðraþeytarar Vilhjálms blésu til orrustu og bogaskyttur hans stigu fram fyrir skjöldu. Um leið og örvadrífurnar skullu hver á eftir annarri á ensku fótgönguliðunum og húskörlunum efst á hæðinni gerðu riddaraliðar Vilhjálms árás og knúðu hesta sína upp hæðina.
Ensku húskarlarnir reiddu upp axir sínar og hjuggu niður bæði hesta og menn um leið og þeir skullu á skjöldum framliðanna.
Á vinstri væng hers Vilhjálms börðust riddarar frá Bretaníu. Árás þeirra var hrundið og þeir komu aftur veltandi niður brekkuna, hestar og menn í einni kös. Á eftir þeim fylgdu grenjandi Englendingar sem ólmir vildu reka flóttann. Þegar að Vilhjálmur sá í hvað stefndi, reif hann af sér hjálminn og öskaraði; "Horfið vel á mig. Hér er ég enn og ég mun enn með náð Guðs verða sigursæll".
Þetta virtist virka á strákana því þeir snéru við á flóttanum, náðu að skipuleggja sig og hófu að brytja niður Englendingana sem komið höfðu á eftir þeim.
Við þetta fékk Vilhjálmur hugmynd. Hann kom skilaboðum til sinna manna um að sviðsetja í skyndi nokkra slíka "flótta". Bragðið heppnaðist og Normönnum tókst að ginna talsverðan fjölda af mönnum Haraldar niður af hæðinni þar sem lífið var murkað úr þeim. En stærsti hluti hers Haraldar stóð samt stöðugur og húskarlar hans slógu skjaldborg um konung sinn sem riddarar Vilhjálms náðu ekki að brjóta á bak aftur.
Orrustan hélt áfram langt fram eftri degi og það var byrjað að skyggja þegar að einum bogamanna Vilhjálms tókst að skjóta ör í auga Haraldar.
Við að sjá konung sinn særast misstu Englendingar móðinn og hleyptu í gegnum raðir sínar hópi af riddurum Vilhjálms sem síðan náði fljótlega yfirráðum á hæðinni.
Þeir sóttu stíft að Haraldi sem var varinn hetjulega af húskörlum sínum og sagt er að hann hafi náð að draga örina úr hausnum á sér og berjast áfram. Loks náðu riddarar Vilhjálms að hakka sig í gegnum húskarlana, komast að konunginum og höggva hann niður. Megnið af enska hernum var þá flúinn.
Vilhjálmur fyrirskipaði seinna að klaustur skyldi byggt á hæðinni þar sem Haraldur féll og það helgað heilögum Martin og kallað Orrustu klaustur.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.2.2009 | 13:43
"Fall lítillar kjánaþjóðar"
Mikið er enn fjallað um Ísland á síðum dagblaðanna í Bretlandi. Í dag birtir The Daily Telegraph hálf-síðu grein þar sem m.a. er vitnað í Egil Helgason, Össur Skarphéðinsson og ónafngreindan leigubílstjóra úr Reykjanesbæ.
Fyrirsögn greinarinnar er "Fall lítillar kjánaþjóðar"(Downfall of a foolish little nation) og er hún einskonar upprifjun á því hvernig Ísland varð á örfáum árum að ramm-kapítalískri og nýfrjálshyggju verstöð í norðri og hvernig sú stefna kollsteypti á nokkrum árum íslensku efnahagslífi.
Greinin segir að allt hafi verið gert til að niðurstöður efnahagsyfirlita banka og peningastofnanna yrðu sem hagkvæmastar og sem dæmi er tekið að kílóið af þorski sem hægt var að kaupa út í búð fyrir 1200 krónur var reiknað á kr. 4000 og þá átti meira að segja eftir að veiða fiskinn.
Í loki greinarinnar er klykkt út með að vitna í orð Egils; "Á endanum vorum við lítil kjánaleg þjóð sem hélt að hún hefði fundið nýja leið til að afla peninga. En svo var ekki."
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2009 | 19:21
Jesrúsalem Post segir að íslenska forsetafrúin sé álitin af Íslendingum hluti af samsæri gyðinga
Jersúsalem Post birtir í dag á netsíðu sinni grein þar sem því er haldið fram að gyðingahatur fari vaxandi á Íslandi. Þá er sagt að gyðingahatur eigi sögulegar rætur á landinu og að það kunni að færast í vöxt í kjölfar kreppunnar og viðtöku vinstristjórnar. Vitnað er til ummæla Vilhjálms Vilhjálmssonar þar að lútandi og þá er einnig minnst á fréttina um reiðhjólasalann sem auglýsti að gyðingar væru ekki velkomnir í verslun sína.
Það sem ég hef ekki heyrt minnst á fyrr, en kemur fram í fréttinni, er að það hafi verið opinberlega fullyrt að forsetafrúin, Dorrit Mussaieff, sé talin af Íslendingum hluti af samsæri Gyðinga þrátt fyrir að vera eina Þjóðhöfðingjafrúin í heiminum sem er gyðingur, fyrir utan Ísrael. Orðrétt segir í greininni þar sem vitnað er í Vilhjálm.
"When the bankruptcy came, you could see people expressing a new view [about Mussaieff]," said Vilhjálmsson. "Even though she was very good for Iceland, people said that 'an Icelandic person should never have married a Jewish woman. She is part of a Jewish conspiracy.'"
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (64)
29.1.2009 | 22:09
Af hremmingum íslensks sendiherra
Eitt sinn var ungum manni boðin sendiherrastaða í Frakklandi. Hann þáði þá upphefð með þökkum og flutti með fjölskyldu sína til Parísar og tók upp aðsetur í stóru og flottu einbýlishúsi sem utanríkisráðuneytið átti.
Ungi maðurinn átti konu og tvær litlar stúlkur. Fljótlega eftir að hann tók við embættinu byrjuðu Íslendingar í allskonar "mikilvægum" erindagjörðum að heimsækja hann og oftar en ekki drógust þeir fundir á langinn og enduðu oftar en ekki með að dregin var fram einhver tegund af frönsku víni sem þarna voru svo ódýr og góð og skálað var fyrri landinu og þjóðinni sem kúrði heima á klakanum.
Eftir nokkra mánuði af stöðugum gestakomum og löngum kvöldum þar sem smakkað var á wiskey og líkjörum þegar að franska vínið þraut, var fjölskylda unga sendiherrans orðin dauðuppgefin á ástandinu.
Hann hafði lofað dætrum sínum að fljótlega eftir komuna til Frakklands mundi hann taka þær í ökuferð og fara með þær í stærsta og frægasta dýragarð í Evrópu, þar sem dýr víða úr heiminum gengu um frjáls á gríðarstóru afgirtu landsvæði sem hægt var að aka um og skoða dýrin.
Vegna veisluhaldanna hafði lítið orðið af efndum.
Snemma einn Laugardag komu dæturnar að máli við föður sinn og tóku af honum eindregið loforð um að morguninn eftir mundu þau stíga upp í flotta svarta sendiráðsbílinn sem reyndar enn hafði ekki gefist tími til að merkja sendiráðinu og aka út fyrir París og heimsækja dýragarðinn.
Það sama kvöld komu nokkrir digrir íslendingar í heimsókn og fyrr en varði var slegið upp veislu. Seint um nóttina gekk ungi sendiherrann til hvílu og fannst hann rétt hafa lagt höfuðið á koddann þegar tvær litlar dömur byrjuðu að toga hann út úr rúminu. Pabbi, pabbi, komdu, þú lofaðir manstu...
Hann vissi að honum var engrar undankomu auðið, dreif sig því í sturtu og innan klukkustundar voru þau öll lögð af stað, hann með frúnna í framsætinu og dæturnar tvær í aftursætinu. Af og til hnusaði eiginkonan út í loftið, opnaði gluggann og veiddi loks tyggigúmmí upp úr handtöskunni sem hún lét bónda sinn hafa.
Eftir einnar klukkustundar akstur komu þau að dýragarðinum. Þau óku inn í hann eftir að hafa greitt aðgangsgjaldið og lituðust um. Við veginn stóðu skilti sem lýstu þeim dýrum sem helst var að vænta að sjá á hverjum stað og á öllum þeirra stóðu varnaðarorð um að ekki mætti að stöðva bílinn nema í stuttan tíma í senn, ávalt bæri að vera með bílrúðurnar uppskrúfaðar og stranglega væri bannað að gefa dýrunum einhverja fæðu.
Fyrst sáu þau strút hlaupa með ofsahraða yfir veginn fyrir framan bílinn og það varð til þess að ákveðið var að aka löturhægt. Stúlkurnar komu þvínæst auga á hlébarða en hann var of langt í burtu til að hann sæist vel. Allt í einu óku þau fram á þrjá gíraffa sem stóðu þétt upp við veginn og hreyfðu sig ekki þótt bifreiðinni væri ekið alveg upp af þeim. Ungi sendiherrann stöðvaði bifreiðina og öll virtu þau fyrir sér tignarleg dýrin nokkra stund sem stundum teigðu hálsa sína í átt að rúðum bílsins eins og þeir byggjust við að fá eitthvað góðgæti úr þeirri átt. -
Rafmagnsvindur voru á bílrúðunum og áður en sendiherrahjónin fengu nokkuð við gert, hafði önnur stúlknanna rennt niður rúðunni á annarri afturhurðinni. Samstundis skaut einn gíraffinn höfðinu inn um gluggann. Litlu stúlkurnar æptu af hræðslu þegar að löng tunga Gíraffans leitaði fyrir sér að einhverju matarkyns inn í bílnum. Um leið og telpurnar æptu eins og himinn og jörð væru á enda komin, greip skelfing um sig í framsætunum líka.
Móðurinn fann takkann sem stýrði rúðunum fram í bílnum og ýtti á hann þannig að rúðan halaðist upp til hálfs og herti þannig að hálsi gíraffans. Um leið ók sendiherrann af stað og neyddi þannig gíraffagreyið til að hlaupa meðfram bílnum þar sem hann sat fastur í glugganum. Brátt tók grænt slý að renna frá vitum gíraffans sem lyktaði eins og blanda af súrheyi og hænsnaskít.
Ópunum í aftursætinu linnti síst þegar stór gusa af slýinu gekk upp úr gíraffanum og yfir telpurnar. Sendiherrann snarstansaði bílinn en aðeins þá gerði hann sér gein fyrir að gíraffinn var enn fastur við bifreiðina. Hann ýtti aftur á rúðuhnappinn og gíraffinn tók á stökk tafsandi og frísandi á braut.
Ástandið í bílnum var vægast sagt skelfilegt. Telpurnar voluðu í aftursætu útbíaðar í grænu slýi sem ferlegan fnyk lagði af. Frúin reyndi hvað hún gat til að þurrka framan úr þeim með klút sem hún hafði fundið í hanskahólfinu og nú heltist þynnkan af fullum krafti yfir sendiherrann.
Sendiherrann ákvað að það væri ekki stemming fyrir frekari dvöl í dýragarðinum og hraðaði sér út úr honum. Þegar út á hraðbrautina kom var ljóst að það þurfti að stoppa sem fyrst og reyna að hreinsa stúlkurnar betur og bílsætin því bíllinn lyktaði eins og flór. Brátt komu þau að bensínstöð þar sem þau stönsuðu og tóku til óspilltra málanna við að hreinsa það sem hreinsast gat. En lyktin var svo megn að á endanum ákváðu þau að fækka fötum og setja þau í ruslapoka sem síðan fór í skottið.
Þegar þau héldu af stað aftur, sátu telpurnar á gammósíunum og undirbolum, frúin á brjóstahaldinu einu að ofan og sendiherrann sjálfur á nærbuxunum.
Þau höfðu ekki ekið nema stuttan spöl þegar að sendiherrann sér í bakspeglinum hvar lögreglubíll með blikkandi ljósum er kominn upp að honum. Hann vék bílnum út í vegkantinn og beið rólegur eftir að lögregluþjónarnir stigu út. Annar þeirra gekk beint að bílnum og benti sendiherranum að stíga út úr sínum bíl. Sendiherrann talaði ágætlega frönsku og taldi víst að hann mundi getað spjarað sig gagnvart lögreglumönnunum. En hann hafði áhyggjur af því að hann kynni að vera undir áhrifum ennþá.
Hvað get ég gert fyrir ykkur, spurði hann hæverskur og sté út úr bílnum og reyndi að brosa.
Við sáum að þegar þér ókuð út frá Bensínstöðinni þá gáfuð þér ekki stefnuljós, svaraði sá sem nær var.
Það kann vel að vera, ég var eitthvað stressaður að komast heim, svaraði sendiherrann.
Lögreglumaðurinn fitjaði upp á nefið. Hm, það er mjög sterk lykt af yður. Hafið þér verið að drekka, spurði hann svo.
Ha, nei, ekki drekka, sko, nei, ekki síðan í gærkveldi.
Lögreglumennirnir litu hvor á annan. Já einmitt það, svaraði svo annar þeirra. Væri þér sama þótt þú kæmir með okkur snöggvast inn í lögreglubílinn.
Ja, ég er nú með fjölskylduna með mér og svo er ég sko sendiherra og nýt ákveðinnar friðhelgi sem slíkur,svaraði sendiherrann og lagði höndina á brjóst sér eins og hann væri að þreifa eftir veski sínu sem hann bar venjulega í jakkavasanaum. Æ, sagði hann svo, ég setti jakkann í skottið, sko í plastpokann skiljiði.
Lögreglumennirnir skimuðu inn í bílinn þar sem telpurnar sátu skjálfandi og sendiherrafrúin reyndi að halda veskinu fyrir brjóstum sér.
En það er alveg satt að ég er sendiherra frá Íslandi hélt sendiherrann áfram, og, og þetta með lyktina, ég get alveg skýrt hana. Það var sko þannig að við stoppuðum bílinn og þá rak Gíraffi inn hausinn og ældi yfir okkur öll, sko og þaðan er lyktin komin. Svo fórum við öll úr fötunum á bensínstöðinni.
Lögreglumennirnir litu aftur hvor á annan og virtust allt í einu taka ákvörðun. Gjörið svo vel að stíga frá bílnum sagði annar þeirra skipandi röddu og lagði um leið hönd á skammbyssuna sem hann bar við mitti sér. Leggist á hnén og setjið hendurnar fyrir aftan bak.
Sendiherrann rak upp hláturroku...sko, ég er að segja sannleikann, það var gíraffi sem ældi á okkur og þess vegna er passinn minn í skottinu..
Ekkert múður, niður á hnén.........Um leið og hann lagðist á hnén fann hann handjárnin smellast um úlnliði hans.
Viku síðar fékk ungi sendiherrann ákærubréf frá lögreglunni. Hann var sakaður um ölvun við akstur.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)