Færsluflokkur: Spaugilegt

Pólitísk innræting og skandall í Bakarabrekkunni

180px-EngelsSumarið 1969 líður mér seint úr minni. Þetta var sumarið áður en ég fór að Núpi í Dýrafirði, þegar ég var enn fullur af hugmyndum (sumir mundu segja ranghugmyndum) um heiminn og hvernig hann ætti ekki að vera, enda bara 15 ára. Hugmyndirnar voru mest á vinstri vængnum viðurkenni ég, jafnvel svolítið til vinstri við hann, svona eftir á að líta.  Alla vega var ég fljótur að þefa uppi félagsskap þar sem slíkar hugmyndir voru taldar til fyrirmyndar.

Í félagi við Jóhann Geirdal, fór ég að taka rútuna frá Keflavík til Reykjavíkur, eins oft og ég gat til að fara á fundi í bakhúsi á Laugarveginum þar sem Æskulýðsfylkingin (Fylkingin) var til húsa. Þarna kynntist ég  fólki sem mér var sagt að væru helstu boðberar frelsis og réttlætis á Íslandi, Þ.á.m. Rósku, Ragnari (seinna skjálfta) og að sjálfsögðu Birnu Þórðar.

180px-Karl_MarxÞað fór vel á með okkur og ég var sendur heim með lesefni eftir hvern fund. Ég paufaðist í gegn um Hegel, Marx og Engels og las þess á milli Lilju sem allir vildu kveðið hafa.

Það voru miklar aðgerðir í vændum því stórmenni á vegum Bandaríkjastórnar var að koma til landsins í tengslum við varnarsamning þeirra og Íslendinga. Í Bakarabrekkunni átti að efna til mótmæla og æfingar á leikþáttum sem þar stóð til að sýna voru í fullum gangi.

Mér var falið mikilvægt hlutverk í þessum aðgerðum. Strax og ákveðnum leikþætti sem Birna lék í og leikstýrði, var lokið,  átti ég að setja plötuspilara í gang. Á spilaranum var plata þar sem kínverskur alþýðukór flutti Internationalinn að sjálfsögðu á kínversku.

roska6Allt gekk þetta snurðulaust fyrir sig, þar til komið var fram í mitt lag. Þá sé ég hvar bæði Róska og Birna koma hlaupandi í átt til mín þar sem ég stóð keikur yfir grammófóninum með allt í botni. Á svip þeirra og látbragði mátti ráða að eitthvað væri ekki í lagi.

Róska þreif í arminn á fóninum og hvessti á mig glyrnurnar. Helvítis fíflið þitt...gastu ekki sett hana á réttan hraða....Svo komu fleiri blótsyrði sem ég ætla ekki að hafa eftir hér. Mér varð nú ljóst hvar mér hafði orðið á.

Ég talaði vitaskuld ekki kínversku þá, frekar enn í dag og í eyrum mínum hljómaði lagið ósköp áþekkt eða jafnvel eins á 78 snúnings hraða og það gerði á 45 snúnings hraða. Platan var sem sagt gerð fyrir 45 en ég hafði fóninn stilltan á 78. record-player

Ég segi það enn, að Róska hefði bara átt að leyfa laginu að spila út. Það hefði enginn fattað mistökin ef hún hefði bara verið róleg. Kínverskur alþýðukór að syngja á kínversku internationalinn eða "Njallann" eins og við kölluðum hann, hljómar eiginlega bara betur á 78 snúningum en 45. Takturinn er hraðari og kínverskan hljómar bara kínverskari ef eitthvað er. roska3

Eftirmálar þessa atviks urðu þeir að ég var "rekinn" úr Æskulýðsfylkingu Alþýðubandalagsins næsta dag og hætti að taka rútuna frá Keflavík til Reykjavíkur í tíma og ótíma til að mæta á einhverja fundi.

Ég vona að ykkur lesendum góðum sé sama þótt ég laumi að, af og til, þessum smásögum úr eigin ranni. Þessi minningabrot koma svona eitt og eitt upp í hugann af og til við leitina að góðu bloggefni.


Ef veitingahús störfuðu eins og Microsoft:

Stuttu áður en allt fór í klessu hér á blogginu sendi góðkunningi minn Davíð Kristjánsson á Selfossi mér þennan texta. Kannski hefur hann sé fyrir þessar hremmingar með diskastæðuna hjá blog.is?

Kúnni: Þjónn!
Þjónn: Góðan daginn, ég heiti Jón og ég er hér til að aðstoða þig. Er eitthvað vandamál á ferðinni?
Kúnni: Já, það er fluga í súpunni!
Þjónn: Ó, reyndu aftur. Kannski verður flugan ekki þá.
Kúnni: Jú, flugan er enn þarna!
Þjónn: Kannski er það hvernig þú ert að nota súpuna; reyndu að borða hana með gaffli.
Kúnni: Flugan er þarna enn!
Þjónn: Kannski er súpan ósamhæf við skálina. Hvernig skál notarðu?
Kúnni: súpuskál!!!
Þjónn: Kannski er það uppsetningarvandamál. Hvernig var skálin sett upp?
Kúnni: Þú komst með hana á bakka! Hvað hefur það að gera með fluguna?
Þjónn: Manstu allt sem þú gerðir áður en þú varðst var við fluguna?
Kúnni: Já, ég gekk inn, settist við þetta borð og pantaði súpu dagsins!
Þjónn: Einmitt - hefurðu hugleitt að uppfæra yfir í nýjustu súpu dagsins?
Kúnni: Eruð þið með margar súpur dagsins?
Þjónn: Já, elskan mín góða… þær breytast á klukkutíma fresti.
Kúnni: Nú - og hvernig súpa er súpa dagsins núna?
Þjónn: Það er tómatsúpa.
Kúnni: Fínt! Láttu mig fá tómatsúpu þá og reikninginn… ég er að verða of seinn.
(Þjónninn fer og kemur aftur með súpuskál og reikning)
Þjónn: Gjörðu svo vel - hér er súpa dagsins og reikningurinn.
Kúnni: En… þetta er uxahalasúpa?
Þjónn: Já, tómatsúpan var ekki tilbúin.
Kúnni: Jæja þá… ég er orðinn glorsoltinn. Ég held að ég geti borðað hvað sem er núna.
Kúnni: Þjóóóónn!!! Það er mýfluga í súpunni minni!!!

Reikningurinn:
Súpa dagsins: 500,- kr.
Uppfærsla á súpu dagsins 250,- kr.
Aðgangur að þjónustu og aðstoð 10.000,- kr.
Ath. Fluga í súpu dagsins er innifalin án sérstakrar gjaldtöku, en verður lagfærð í súpu dagsins á morgun


Apakattarkónungurinn - Meiri monkey business

vampire-monkeyApakattarkóngurinn er saga kunn ungum sem öldnum Kínverjum undir nafninu Xi You Ji (Ferðin vestur). Hún er ein hinna sígildu skáldsagna sem skrifaðar voru fyrir meira en fjögur hundruð árum. Hinar þrjár eru Shui Hu (Vatnaskilin), Hong Lou Meng (Draumur rauðu villunnar), og San Guo (Ástarsaga þriggja konungsdæma).

 Apakattarkóngurinner byggð á sannri sögu um frægan munk sem hét Xuan Zang og var uppi á tímum kínverska Tang veldisins (602-664). Eftir áratuga prófraunir og erfiðleika, kemst hann fótgangandi til Indlands, þar sem Búddismi er uppruninn. Þar fær hann hinar þrjár heilögu bækur Búddismans. Hann snýr heim og þýðir sútrurnar á kínversku og brýtur þannig blað í sögu Búddismans  í Kína.

Apakattarkóngurinn er táknræn  ferðasaga sem er blönduð kínverskum ævintýrum, dæmisögum, goðsögum, hjátrú, flökkusögum, skrímslasögum og nánast hverju öðru sem höfundurinn fann í Taoisma, Búddisma og kínverskri alþýðutrú. Þótt margir af lesendunum verði fangaðir af lærdóminum og viskunni sem í sögunni er að finna, halda rýnendur því gjarnan fram að kjarna sögunnar sé að finna í einni söguhetjunni (Apakettinum) sem er uppreisnarseggur sem mótmælir harðlega ríkjandi lénsherraskipulagi þeirra tíma.

monkey_king_1Apakötturinn er sannarlega uppreisnargjarn. Samkvæmt sögunni er hann fæddur af steini sem var gerður frjór fyrir miskunn himins og jarðar. Hann er afar skynsamur og lærir fljótt öll brögð og galdra Gonfu listarinnar af ódauðlegum Tao meistara. Hann getur m.a. tekið á sig sjötíu og tvær mismunandi myndir, eins og trés, fugls, rándýrs eða skordýrs sem getur skriðið inn í líkama óvinar síns og barist við hann innan frá. Hann getur ferðast 108.000 mílur í einum kollhnís með því að nota skýin sem stiklusteina.

Hann gerir tilkall til að vera Konungur í blóra við hið eina sanna vald sem ræður himni, höfum, jörð og undirheimum, Yù Huáng Dà Dì, eða "Hins mikla keisara Jaðans". Þessi drottinssvik auk kvartanna meistara hinna fjögurra úthafa og Hels, kalla yfir Apaköttinn stöðugar erjur við útsendara frá hinum himneska her. Slagurinn berst um víðan völl og hrekur Apaköttinn út í haf eitt þar sem hann finnur fjársjóð drekakonungsins sem er langur gullofinn járnstafur sem notaður er sem kjölfesta vatnanna. Stafurinn hefur þá náttúru að geta minkað og stækkað eftir þörfum og verður að uppáhalds vopni Apakattarins. Fyrst reynir á krafta stafsins þegar Apakötturinn skellir sér til Hels (undirheimanna) og skorar á Hades konung á hólm til að hann þyrmi lífi sínu og félaga sinna og eignist eilíft líf.

IMG0016Eftir margar orrustur við hinn hugrakka Apakattarkonung og jafnmarga ósigra hins himneska hers, á hinn himneski einvaldur ekkert eftir nema dúfnaherinn sem enn hafði ekki fengið tækifæri til að semja um frið. Dúfurnar bjóða apakettinum formlegan titil á himnum en án teljanlegs valds. Þegar að Apakötturinn kemst að því að hann hefur verið plataður og að hann er orðinn miðdepill spotts og háðs á himninum, gerir hann uppreisn aftur og berst alla leið aftur til jarðar þar sem hann tekur upp fyrri stöðu sem "Konungur".  

Að lokum fer svo að hinn himneski her með aðstoð allra herguðanna tekst að handsama hinn nánast ósigrandi Apakött. Hann er dæmdur til dauða. En allar aftökuleiðir gagna ekki gegn honum. Höfuð hans er úr bronsi og axlir úr járni þannig að sverðin hrökkva af honum og verða deig. Að lokum skipar himnakeisarinn svo fyrir að hann verði lokaður inn í ofni þeim sem Tao meistarinn Tai Shang Lao Jun býr til töflur eilífs lífs. Í stað þessa að drepa Apaköttinn verður eldurinn og reykurinn til þess að skerpa svo sjón hans að nú getur hann séð í gegnum holt og hæðir. En og aftur nær hann að sleppa og finna sér leið til jarðarinnar.

Algerlega ráðlaus leitar hinn himneski Keisari til sjálfs Búdda og biður hann um aðstoð. Budda fangelsar Apaköttinn undir miklu fjalli, þekkt undir heitinu Wu Zhi Shan (Fimm fingra fjall). Apakötturinn lifir samt af þunga fjallsins og fimm hundruð árum seinna kemur honum til bjargar Tang munkurinn Xuan Zang sem getið er í upphafi sögunnar. 

IMG0018Til að tryggja að munkurinn komist heill á höldnu til vestursins og finni sútrurnar, hefur Búdda komið því svo fyrir að Apakattarkóngurinn verði leiðsöguamaður hans og lífvörður  í gerfi lærlings hans. Tveir lærlingar bætast fljótlega í hópinn og allt er með vilja og ráðum Budda gert. Einn þeirra er svín sem fyrrum hafði verið hershöfðingi í hinum himneska her en brotið af sér gegn himnakeisaranum. Hinn er sjávarskrímsli sem einnig hafði verið hershöfðingi en er nú í útlegð fyrir afbrot sem hann hafði framið þá hann var í þjónustu Himnakeisara.

Þessir ferðafélagar halda nú í vestur ásamt hesti einum sem sendur er þeim til aðstoðar og er endurfæddur drekasonur. Saman finna þeir umgetnar sútrur. Ferðasagan er full af undrum og ævintýrum eins og merkja má af þessu hraðsoðna yfirliti forsögunnar.

Myndskreytta söguna í heild sinni má lesa hér á ensku

Meiri monkey business:

Api (ekki apaköttur) sýnir hér mikla djörfung við að stríða tígrisdýrum. Þetta er kannski ekki fallega gert hjá honum en hann er bara svo fyndinn.


Draugapeningar ( Ekki Ísl. kr. )


Ghosts_of_China_paint_small

Í kínverskri alþýðutrú er heimurinn fullur af andaverum, bæði góðum og illum. Slíkar andaverur eru t.d. náttúruskrattar (kuei-shen), illir andar eða djöflar (oni) og vofur (kui).

Fólk trúir að illir andar forðist ljósið og því hafa þróast fjölmargir helgisiðir þar sem ljós og eldfæri koma við sögu, eins og varðeldar, flugeldar og kyndlar. Illir andar eru sagðir ferðast ætíð eftir beinum línum sem skýrir allar beygjurnar á kínverskum vegum :)

En ekki eru allir andar illir, - sumir eru aðeins óhamingjusamir. Eins og áadýrkun Kínverja bíður upp á, trúa þeir að sálir framliðna lifi líkamsdauðann og það verði að gera þær hamingjusamar og heiðra þær með fórnum.

Ef að andi er ekki hamingjusamur, til dæmis vegna þess að eitthvað var áfátt við dauðastund hans eða að graftrarathöfn var óvönduð, verður hann að vofu. (Stundum nefnd hungurvofa sem er hugtak sem kemur frá Búddisma) Vofur geta ráðist á menn og reynt að fá þá til að sinna þörfum sínum eða í það minnsta draga athygli að þjáningu sinni.

Vofur fá mesta athygli í svo kölluðum vofumánuði, sem er sá sjöundi í kínverska tunglárinu. Á fimmtánda degi þess mánaðar er haldin mikil vofuhátíð.HellMoney3

Á meginlandi Kína fer andatrúin dvínandi undir "trúlausri" stjórn kommúnismans. En í Taiwan sem klauf sig frá Kína árið 1949 trúir meiri hluti (allt að 90%) íbúa á vofur. Nætursjónvarpið er fullt af þáttum um draugahús og særingar og miðlum er greitt stórfé fyrir að gefa ráð til að friða óánægða framliðna ættingja.

HellMoney2Eitt af algengum vandamálum vofanna eru blankheit.  Til að ekki þurfi að brenna alvöru peningum (sem er leiðin til að leggja inn á þá) til að redda blönkum vofum, eru gerðir draugapeningar eða svo kallaður Joss pappír. Draugaseðlar eru venjulega búnir til úr bambus-pappír eða hrísgrjóna-pappír og hefðbundin seðill er réttur ferhyrningur.

Þegar forfeðurnir eru heiðraðir á sérstökum áahátíðum er ómældu magni af Joss brennt til að tryggja afkomu þeirra og hamingju í andaheiminum.


Ólafsvíkur-Kalli og ástin

image93Fyrir margt löngu dvaldist ég í  nokkra mánuði á Neskaupstað. Ég fékk vinnu í SÚN og var svo "heppinn" að fá pláss í aðgerðar-genginu eins og það var kallað. Aðgerðar-gengið var saman sett (fyrir utan mig) af almestu harðjöxlum sem ég hef nokkru sinni fyrir hitt á ævinni. Þeir gátu staðið við og slægt fisk í 12-16 tíma hvern dag og aðeins nærst þann tíma  á svörtu kaffi og matarkexi sem þeir skelltu í sig í reykpásunum.

Ég var á hrakólum með húsnæði og einn úr gengnu bauð mér að leigja með sér herbergi ekki langt frá  skemmunum þar sem gert var að. Ég þáði það og þannig atvikaðist að ég gerðist herbergisfélagi Karls Guðmundssonar eða Ólfasvíkur-Kalla eins og hann var oft kallaður. Karl var án efa einn þekktasti slarkari sem Ísland hefur af sér alið og um svaðilfarir hans er að nokkru fjallað í bók Jónasar Árnasonar um Kristófer kadet í hernum "Syndin er lævís og lipur".  

_856180_cod300 Nú vildi þannig til að ég hafði lesið bókina en samt kom ég Karli ekki fyrir mig til að byrja með og þekkti ekki manninn sem hafði blásið lífið í hálfdrukknaða völsku-rottu eftir að hafa bjargað henni úr ísilagðri höfninni í Helsingi í Finnlandi eða bjargað lífi arabísks auðkýfings og þegið að launum fulla höll af Gini. Okkur kom ágætlega saman mér og Kalla, ekki hvað síst eftir að hann frétti að að faðir minn væri líka Ólsari. Karl sem var að rembast við að vera edrú þótt hann væri afar illa haldinn af langvarandi Alkóhólisma, sá um matargerðina. en ég um þvotta og þrif.  Hann eldaði slatta af sveskjugraut og plokkfiski sem síðan var haft í alla mata á meðan entist.  Þegar þraut, eldaði Kalli nýjan skammt. Þetta gekk í nær þrjá mánuði, allt haustið 1971 og fram á aðventuna.

borovitsky_drunkardUm miðjan Desember kom ónefnd fleyta úr siglingu frá Bretlandi hlaðin varningi. Brátt flaut allt í víni og bjór og aðgerðargengið leystist upp. Kalli sem hafði þá verið þurr í fjóra mánuði kolféll og varð fljótt svo veikur að hann gat ekki staðið í fæturna. Hann lagðist því í fleti sitt og drakk þar. Ég hjálpaði honum af og til á salernið og bar honum mat en þess á milli var hann oftast í einskonar deleríum móki. Við hliðina á rúmi hans var kassi af Vodka sem hratt gekk á. Stundum um nætur vaknað Karl upp og vildi þá ræða trúmál og heimsspeki. Hann var ágætlega lesinn en hafði komið sér upp heimatilbúnum frösum um öll mál sem hann mælti fram og þá voru málin afgreidd að hann hálfu.

Eina nóttina lá ég í rúmi mínu og las. Allt í einu reis Karl upp við dogg og sagði fyrirvaralaust og ákveðið;" Ástin er skítalykt". Ég var aðeins sautján ára og ekki í stöðu til að andmæla þessari speki mikið. "heldurðu það" svaraði ég en hugsaði jafnframt með mér að líklega hefði Kalli farið illa út úr samskiptum sínum við konur um ævina. "Nei ég veit það," hélt Kalli áfram. "Það er ekki fyrr en þú þolir skítalyktina af konu að þú getur sagt að þú elskir hana." bætti hann svo við og teygði sig eftir flösku, tók af henni gúlsopa, lagðist svo niður aftur og var brátt farinn að hrjóta. Hann skildi mig eftir með þessa lífsspeki sem hefur verið að pirra mig síðan.


Saga af barnum

guinnes20pint20glass 

Tveir menn sátu hlið við hlið á O´Murphy’s pubbanum í London.

Eftir nokkurn tíma lítur annar þeirra á hinn og segir; Þegar ég heyri þig tala get ég ekki annað en ályktað að þú sért frá Írlandi.

Það er ég svo sannarlega, svaraði hinn hreykinn.

Ég líka, hrópar sá fyrri. Og hvaðan af Írlandi gætir þú verið, héllt hann áfram.

Ég er frá Dublin, svo sannarlega, svarar hinn.

Detti af mér allar dauðar lýs, ég er frá Dublín líka. Við hvaða götu bjóstu?

Hinn svarar; Í Yndislega friðsömu hverfi. Ég bjó skal ég segja þér við McCleary stræti, í gamla miðbænum.

Móðir María og allir hennar englar, svarar sá fyrri, Þetta er lítill heimur. Þarna bjó ég líka. Í hvaða skóla gekkstu?

Skóla, sjáum nú til, Heilagrar Maríu auðvitað, svarar hinn.

Sá fyrri verður nú verulega upprifinn og segir með ákafa; Og , og hvenær útskrifaðist þú?

Sá seinni svarar; Sjáum nú til, ég útskrifaðist.... árið 1964.

Sá fyrri hrópar nú yfir sig; Drottinn hlýtur að brosa við okkur núna, ég get varla trúað hversu heppnir við erum að enda uppi saman hér í kvöld. Ég útskrifaðist líka frá skóla Heilagrar Maríu árið 1964.

Inn gengur Vicky og fær sér sæti við barinn og pantar sér drykk.

Barþjóninn Brian, gengur yfir til hennar hristir höfðið og tuldrar; Þetta verður langt langt kvöld í kvöld. 

Afhverju segirðu það, Brian spyr Vicky 0502ananova

Murphy tvíburarnir eru aftur fullir.


Flökkusögur, kannt þú eina slíka eða fleiri?

strange_daysAllir kannast núorðið við flökkusögur sem er þýðing á orðunum "urban legends". Þær eru svo margar og mismunandi en hafa samt allar eitt sameiginlegt, þær eru tilbúningur.  Í grein sem ég rakst um flökkusögur á Múrnum er  þeim lýst svona;

"Líklega er það einmitt fjöldi þessara frásagna sem gerir það að verkum að þær rata svo sjaldan í fréttatíma. Jafnvel trúgjarnasti sumarstarfsmaður getur borið kennsl á þær sem flökkusögur – ýktar eða upplognar frásagnir sem skjóta aftur og aftur upp kollinum. Og þótt fréttamönnum finnist gaman að segja krassandi sögur þá vilja þeir fæstir fara með algjört fleipur, þrátt fyrir allt."

Allt frá unglingsárum safnaði ég slíkum sögum og hafði gaman af að bera mismunandi útgáfur af sömu sögunni saman. Þegar að Aðalstöðin sáluga var upp á sitt besta, bauð Helgi Pé Ríó maður mér eitt sinn að koma til sín í síðdegisþátt sinn til að spjalla um fyrirbærið og fá fólk til að hringja inn og segja flökkusögur, sér í lagi íslenskar.

Undirtektirnar voru slíkar að þessi eini þáttur varð að þremur. Nokkrum árum seinna var gefin út bók um flökkusögur sem byggði á rannsókn sem gerðar voru fyrir BA ritgerð og mig minnir að hafi heitið  Kötturinn í örbylgjuofninum. Þegar ég sá í bókinni saman komnar margar af þeim sögum sem ég átti í fórum mínum, dvínaði söfnunargleðin dálítið. Málið var afgreitt að mér fannst þá. En það er víst eðli flökkusagna að stöðugt verða nýjar til  og þær gömlu breytast í meðförum.

Ekki alls fyrir löngu heyrði ég nýja útgáfu af kattarsögunni og það vakti áhuga minn að nýju.  hef því ákveðið að sjá hvort ekki er að finna nýjar sögur manna á meðal og nota til þess þetta blogg. 

Mig langar til að skora á alla sem hafa heyrt nýlegar (eða gamlar í nýjum búningi) að deila þeim hér og nú með mér og þeim sem þetta blogg kunna að lesa.

Útgáfan af kattarsögunni sem ég heyrði síðast er eitthvað á þessa leið; Sagt er að gömul kona hafi vanið sig á að þurrka köttinn sinn í bakaraofninn sínum eftir að hún hafi baðað hann. Sonur hennar gaf henni örbylgjuofn á níunda áratugnum sem hún reyndi að nota til sama brúks og bakaraofninn. Hún á svo að hafa farið í mál við framleiðandann og unnið því að ekki stóð ,,setjið ekki kött í örbylgjuofninn” á umbúðunum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband