Gremlins

Fremlin5Einhvern tíman seint á þriðja tug síðustu aldar sátu flugmenn konunglega (breska) flughersins (RAF) að sumbli á flugstöð einni á norðvestur Indlandi. Þeir ræddu hið ýmsa sem úr  lagi hafði gengið í flugferðum þeirra, einkum dularfullar bilanir í vélunum sem þeir fundu engar skýringar á. Meðal veiganna sem voru á boðstólum var enskur Fremlins bjór.

Meðal mismunandi starfstétta í Bretlandi var það lenska að kenna púkum um það sem úrskeiðis fór í starfinu. T.d. voru námumenn í Cornwall sannfærðir að í námunum byggju púkar eða hrekkjóttir búálfar sem  kölluðust knockers sem væru ábyrgir fyrir allskonar óhöppum í námunum. Í Skotlandi voru það brownies og um allt England voru það hop.

Gömul GremjaNiðurstaða RAF flugmannanna var að eina skýringin á óhöppum og bilunum væri að hrekkjóttir púkar væru þar að verki. Þei kölluðu þá Gremlins.

Nafnið varð til með að fella F framan af nafni bjórsins sem þeir voru að drekka og setja þar G í staðinn. Úr varð orð sem minnti þá á Grimmsbræður en var jafnframt ekki ólíkt forn-enska orðinu gremian sem á íslensku gæti útlagst gremja. Þannig urðu Gremjurnar til sem við þekkjum m.a. úr skáldsögunni The thin blue line eftir Charles Graves og síðar kvikmyndunum Gremlins 1 og 2.

Gremjunum var lýst sem tæplega 60 cm háum hyrndum og ófrýnilegum púkum sem bitu í sundur kapla, drukku eldsneyti og rifu í sig bolta og rær.

Þessi siður að yfirfæra sekt á yfirnáttúrulegar verur er ekki ókunnug okkur Íslendingum. Alkunna er hvernig álfar og huldufólk fengu oft að láni ýmsa gripi sem hurfu úr hirslum fólks sem lifði í þröngum húsakynnum torfbæjanna, þar sem mikilvægt var að halda friðinn á heimilinu.

Sú trúa er líklegast ennþá almennari en okkur grunar en eftirfarandi kemur fram á Vísindavef Háskólans:

Í júlí 1998 sló DV upp frétt á forsíðu sem kom mörgum í opna skjöldu. Þar kom fram að samkvæmt skoðanakönnun á vegum DV svaraði meirihluti slembiúrtaks af íslensku þjóðinni játandi, þegar spurt var um trú á álfa. Samkvæmt könnunni skiptust karlar nokkurn veginn jafnt í játendur og neitendur, en mun fleiri konur sögðust aftur á móti trúa á álfa en ekki, eða 6 af hverjum 10. Svörin voru líka borin saman við pólitískar skoðanir. Í ljós kom að stuðningsmenn flestra flokka skiptust nokkurn veginn til helminga í játendur og neitendur. Á þessu var þó ein áberandi undantekning því að mikill meirihluti Framsóknarmanna sagðist trúa á álfa, eða 64,2%.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fróðlegt þetta með Gremlinganna. Ætli þeir séu samt ekki ansi margir sem segjast í dag trúa á álfa og huldufólk, en eru í raun bara að grínast með það? Eru bara svona að halda í íslenka "hefð"? Hugsa það.

Annars var ég að lesa það um daginn að á sínum tíma hafi mjög margt fólk í Evrópu trúað í fúlustu alvöru að vampírur væru til og óttast þær mjög. Sjá t.d.: http://en.wikipedia.org/wiki/Vampire

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 8.11.2012 kl. 14:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband