Svo mikið 2007

Dramb er löstur sem öðrum fremur einkenndi fas og framkomu hinna svo kölluðu útrásarvíkinga. Ákveðið yfirlæti sem reyndar hefur lengi blundað með þjóðinni, magnaðist svo mög við tímabundið og hverfult efnahagslegt velgengi hennar á upphafsárum aldarinnar að það varð fljótt að þjóðarrembingi sem illa rímaði við raunveruleikann sem blasti við öllum árið 2008.

Þá þöktu fregnir af velgengi gírugra íslenskra kaupahéðna forsíður dagblaðanna á degi hverjum og myndir af þeim, vinum þeirra og vandamönnum í einkaþotum á leið í gullát út í heimi, prýddu slúðurdálkana. Þjóðin miklaðist yfir afrekum sona sinna og dætra og hætti að gera greinarmun á eðlilegri ættjarðarást og þjóðardrambi.

Ráðamenn landsins reyndu eftir megni að rýmka hið lagalega umhverfi athafnafólksins svo það gæti  sjálft og áhyggjulaust ákveðið fjölda núllanna í gróðatölunum. "Fé án hirðis" var allsstaðar að finna, ekki hvað síst í vösum breskra og hollenskra sparifjáreigenda. Þaðan var það numið, líkt og forfeður okkar víkingarnir gerðu forðum þegar þeir frelsuðu allan auðinn sem engum gerði gagn í djúpum kistum klaustra og kirkna við vesturstrendur Evrópu fyrir 1000 árum og komu með því aftur lífi í staðnaðan efnahag álfunnar.

Enginn hlustaði á þær fáu raddir sem hvöttu til hófsemi og yfirvegunar. Þjóðin öll virtist trúa því að gullöldin væri gengin í garð og Ísland væri raunverulega "stórasta land í heimi." Silfrið flóði inn og út..aðallega út, eins og seinna kom í ljós. 

Sá sem gegndi æðsta embætti landsins, forseti Íslands, lét sig hvergi vanta og gerðist öflugur talsmaður þessa vogaða darraðardans. - Við hvert tækifæri sem hann fékk mærði hann íslenska hugvitið og íslenska dugnaðinn við þá iðju og þær athafnir sem áttu áður en langt um leið eftir að koma íslensku þjóðinni á vonarvöl.

En þegar að afleiðingarnar urðu öllum ljósar og rostinn lækkaði um hríð í þeim sem hæst létu og voru nú komnir í felur, var sá hinn sami forseti fljótur að venda sínu kvæði í kross. Allt í einu var hann orðin að talsmanni hinnar hnípnu þjóðar sem umheimurinn talaði svo illa um og engin tók upp hanskann fyrir...nema hann.  Þjóðin, sagði hann,  tekur ekki í mál að greiða skuldir þessa óreiðumanna sem árinu áður höfðu verið gulldrengirnir hans, vormenn íslensku yfirburðaþjóðarinnar.

Sinnaskipti og um leið hlutverkaskipti forsetans voru afar sannfærandi. Svo sannfærandi að brátt var byrjað að tala um hann sem bjargvætt þjóðarinnar. Hann einn varði hana á örlagastundu. Hann einn stóð í vegi fyrir því að skuldir óreiðumannanna lentu á okkur, börnum okkar og barnabörnum.

Í fimmta sinn sækist hann eftir umboði okkar til að halda þessum e.t.v. ómeðvitaða blekkingarleik áfram.  Og það sem meira er, afar stór hluti þjóðarinnar segist ætla að veita honum það þrátt fyrir að flestir viti innst inni að maðurinn er eitthvað svo mikið 2007.

Í þetta sinn birtist hann okkur á auglýsingaspjöldunum sem tvíeggja sverð. Önnur eggin er bljúg og deig, klædd í íslenska lopapeysu. Hin er hörð og hvöss, klædd í svört jakkaföt, með hverri hann vegur á báða bóga þá sem hann segir eiga sök á því að ekki vilji hann allir fyrir forseta áfram.

Ef þú ert einn þeirra skaltu kynna þér áherslur og stefnumál Herdísar Þorgeirsdóttur forsetaframbjóðenda.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Bara svona að benda þér á það Svanur að það upphefur enginn sig eða sína með því að reyna að niðulægja aðra.  Ég held að þú sért ekki að gera Herdísi neinn greiða með þessum endalausu árásum á Ólaf Ragnar með fullri virðingu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.6.2012 kl. 09:56

2 identicon

Herdís var ágæt allt þar til hún sagði að það ætti að vera þjóðaratkvæði um þjóðkirkju... þá var henni allri lokið fyrir mér.

DoctorE (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 10:15

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Afar góður pistill.

En sko málið er, og já já eg veit alveg að það er ekkert vinsælt að segja svona, að hlýtur það sem lýst er í pistli, ekki ð segja eitthvað um þjóðina? Eða í það minsta talsverðan hluta hennar?

Jú, það er óhjákvæmilegt að það segi eitthvað um þjóðina.

Málið er nefnilega að umtalsverður hluti innbyggjara hérna er einmitt svona. Eða eiginleikarnir sem þeir telja eftirsóknarverða er einhvernveginn að plata sig í gegnum lífið. Án gríns. Sá nýtur virðingar sem platar sig sem mest í gegnum lífið. Í þessu ákveðna tilfelli, þá spilar samt inní annar faktor. Að plata útlendinga. það er ekki aðeins eftirsóknarvert - heldur skylda. það á alltaf að plata og svindla á útlendingum. Samhliða þessu er sú tru afar ríkjandi meðal innbyggjara að íslendingar séu, á einhvern dularfullan hátt, fremri útlendingum að öllu leiti. Nákvæmlega eins og ÓRG útlistaði í forsetaræðum sínum og varð landinu til stórskammar glóbalt. Ef tekst að svindla á útlendingum - þa er bara staðfestingá að íslendingar séu einmitt æðri. þeir eru bestir í svindli og prettum og plati allrahanda. Útlendingar? þetta eru bara vitleysingar sem ekkert kunna fyrir sér í plati.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 18.6.2012 kl. 16:58

4 identicon

Takk fyrir afar góðan pistil.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 19.6.2012 kl. 14:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband