Trúarrit á sama stall og klám

Afkristnun þjóðfélagsins heldur áfram og gengur bærilega. Trúleysingjar fagna því. Þeim finnast tillögur mannréttindaráðs Reykjavíkur vera til mikilla bóta ef eftir þeim verður þá farið. En tillögurnar vekja upp margar spurningar. Trúarrit eru t.d. þarna sett á sama stall og klám, sem eru einu ritin sem fram að þessu hafa verið bönnuð í skólum landsins.

Krossar og helgimyndir verða að hverfa af veggjum skólanna og þá er ekki langt í að börnum verði bannað að bera á sér trúartákn, eins og krossa um hálsinn, til að það mengi ekki huga annarra barna.  

Ekki má lengur gefa skólabörnum nein trúarrit að lesa í skólum landsins, né mega lífsskoðunar félög boða þar skoðanir sínar. Hvað er lífsskoðunarfélag? Er stjórnmálaflokkur lífsskoðunarfélag, samtök áhugafólks um mismunandi kynlífsaðferðir, skátarnir?

Vonandi fylgir þessum tillögum listi yfir hverjir mega koma í skólana og hverjir ekki.  

Og hvernig verður tekið á helgidagahaldi? Verður áfram aðeins gefið  gefið frí á kristnum helgidögum? Munu litlu jólinhverfa að fullu? Og hvað með tímatalið? Hvernig stendur á að skólar miða enn tímatalið við fæðingu Krists? Og væri ekki hægt að breyta nafninu á föstudegi? -


mbl.is Trúin í skammarkrókinn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

90% þjóðarinnar er kristin og enn einu sinni fær hávær minnihlutahópur að þröngva sínum sjónarmiðum fram.

Þeir kalla þetta "jöfnuð og réttlæti".

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.10.2011 kl. 12:12

2 Smámynd: Óli Jón

Gunnar: Þú átt við að góður meirihluti þjóðarinnar sé Hagstofutrúaður, þ.e. skráður í trúfélag án þess að hafa nokkra afgerandi skoðun á trú! Er það ekki þannig?

Í raun er það þannig að rétt um helmingur þjóðarinnar telur sig kristinn og ég fullyrði hér að mikill meirihluti þess hóps er undir áhrifum innlagnar á trú í barnæsku sem leiddi af sér 'barnatrúarvírusinn' sem margir eiga erfitt með að hrista af sér, enda er erfitt að venja sig af því sem maður temur sér í bernsku.

En rökstyddu endilega hvers vegna skólarnir eigi að vera undirlagðir af trú og hvernig það brýtur ekki á réttindum þeirra sem vilja ekkert með trú hafa. Hafðu það endilega í huga, þótt erfitt kunni að reynast, að leik- og grunnskólabörn geta ekki, þroskastigs síns vegna, tekið sjálfstæða afstöðu til trúar og því eru þau berskjölduð gegn lævísum áróðri og trúboði fullorðna fólksins sem einmitt er kveikjan að 'barnatrúarvírusnum'.

Óli Jón, 6.10.2011 kl. 14:37

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Óli: Ég veit ekki í hverju þú hefur lent í æsku. Ég hef aldrei orðið vitni að  "lævísum áróðri og trúboði fullorðna fólksins".

Ég er heldur ekki að reyna að "skólarnir eigi að vera undirlagðir af trú". Hvers vegna ertu svona öfgafullur og heiftugur?

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.10.2011 kl. 16:08

4 identicon

Fréttin ætti vitanlega að vera "Trúboðar í skammarkrókinn?".

Sem er sjálfsagt og eðlilegt, enda eiga þeir annað hvort allir að komast að leik- og grunnskólum, eða engir.

Foreldrar geta sjálfir beint börnum sínum að trúboðum, kjósi þeir það.

Þetta er augljóst framfaraskref!

Jóhann (IP-tala skráð) 6.10.2011 kl. 16:14

5 Smámynd: Bergþór Heimir Þórðarson

Gunnar: Hafir þú ekki orðið vitni að áróðri né trúboði fullorðna fólksins þá hefur þú annað hvort ekki verið að fylgjast með eða verið orðinn svo innrættur af fyrrnefndu trúboði að þú hefur verið ófær um að taka eftir því.  Það eitt að dreifa trúarriti, eins og t.d. nýja testamentinu, til allra skólabarna er trúboð hvort sem þér líkar það betur eða verr.

Værirðu t.d. sáttur ef að Kóraninum væri dreift til allra skólabarna á Íslandi?  

Þetta er ekki spurning um að útiloka kristna trú heldur eingöngu að öllum trúarbrögðum sé gert jafnt undir höfði.  Það er ekki hægt að leyfa öllum að koma með sinn trúarboðskap inn í skólanna og því er einfaldara að banna þá alla.

Svanur: Það verður ennþá leyfilegt að halda hefðbundin litlu jól og aðra slíka viðburði.  Það er heldur ekki verið að banna hefðbundið jólaföndur og annað slíkt.

Bergþór Heimir Þórðarson, 6.10.2011 kl. 16:35

6 Smámynd: Óli Jón

Gunnar: Finnst þér eðlilegt að fullyrða við leikskólabarn að Jesús sé besti vinur barnanna? Ertu að segja að þér finnist það ekki lævísi að innprenta börnum þessa skoðun?

Þú getur kallað vissulega kallað málflutning minn öfgafullan og heiftugan, það er þitt val. Hins vegar áttu ekki, með góðri samvisku, að geta sagt að það sé eðlilegt og sjálfsagt mál að leggja inn kristna trú hjá smábörnum. Ekki nema að þú skrifir þá upp á þá fullyrðingu að kristin trú sé ekki persónuleg trú heldur ríkisvædd trú sem innprentuð er í smábörn fyrir tilstuðlan ríkisvaldsins. Ef þú ætlar að vera heiðarlegur í þessari umræðu, þá verðurðu að velja annað sjónarmiðið.

Að lokum er vert að velta því fyrir sér hvort þinn málflutningur einkennist af hræðslu. Hræðslu við þá nöpru vissu að kristin trú muni hálfpartinn daga uppi hérlendis ef hún getur ekki sjanghæjað smábörn í raðir sínar? Mér sýnist það altént skína berlega í gegn hjá þeim sem standa þín megin markalínunnar. Ekki virðist þið altént hafa trú á því að foreldrar muni sjálfir innræta börnum sínum trú ... og hafið líklega mikið rétt fyrir ykkur í þeim efnum. Hingað til hefur kristin trú reitt sig á yfirburðastöðu, en nú virðist sem þær fjaðrir verða reittar af henni og hvað stendur þá eftir?

Þú talaðir um 90% í fyrra innleggi þínu. Fyrir það fyrsta er sú tala kolröng, eins og þú veist afar vel, en áhugavert verður að sjá hversu fljótt hún muni skreppa saman þegar hætt verður að skrá ungabörn í trúfélög. Þá missirðu einu skrautfjöðrina, því ekkert annað tiltókstu í innlegginu, og hvað hefurðu þá þegar þessi tala verður búin að lækka hressilega því þetta virðist vera það eina haldbæra sem þú getur tiltekið?

Ekki mikið, sýnist mér :) og er það ekki pínulítið sorglegt fyrir Guðs sauð?

Óli Jón, 6.10.2011 kl. 16:41

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

  "Það eitt að dreifa trúarriti, eins og t.d. nýja testamentinu" , hvaða lævísi er á bak við Það?

"Finnst þér eðlilegt að fullyrða við leikskólabarn að Jesús sé besti vinur barnanna?" Já, mér finnst það eðlilegt. Hvað er rangt við þetta? Skilurðu ekki innihald kristinnar trúar?

Ég er ekki hræddur við neitt, eins og þú gefur í skyn, en af innleggi þínu að dæma, ert það þú sem ert skelfingu lostin.

Rúmlega 80% þjóðarinnar er í þjóðkirkjunni af fúsum og frjálsum vilja. Öllum er heimilt að segja sig úr henni, enginn er nauðbeygður til þess að vera í henni. Auk þess er Fríkirkjan og fleiri söfnuðir sem einnig eru Kristnir.

Margir af þeim sem sagt hafa sig úr Þjóðkirkjunni á undanförnum árum, eru enn Kristnir. Úrsögnin hefur oftast byggst á því að fólk er að mótmæla kirkjunni en ekki trúnni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.10.2011 kl. 18:21

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Hagstofutrúaður, þ.e. skráður í trúfélag án þess að hafa nokkra afgerandi skoðun á trú!" Hvaða þvæla er þetta? Hver er að mæla trúarhitan?

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.10.2011 kl. 18:27

9 identicon

Trúarhitann, Gunnar?

Viltu hleypa trúheitum trúboðum í leik- og grunnskóla?  T.d. frá einhverjum þessara trúfélaga:

1. +100 kristnar deildir.

2. Tvær deildir múslíma.

3. Baháíar

4. Ásatrúarmenn

5. Hindúar, margar deildir

6. Búddistar, margar deildir

Svo ég nefni aðeins fáein trúarbrögð

...eða viltu bara suma?

Jóhann (IP-tala skráð) 6.10.2011 kl. 18:43

10 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

"Finnst þér eðlilegt að fullyrða við leikskólabarn að Jesús sé besti vinur barnanna?" Já, mér finnst það eðlilegt. Hvað er rangt við þetta? Skilurðu ekki innihald kristinnar trúar?

Gunnar, þú styður þá trúboð í skólum. Finnst þér það ekki vera grundvallaratriði að foreldrar sem eru ekki kristnir geti sent börnin sín í skóla án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að þar lendi börnin í trúboðum?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 6.10.2011 kl. 19:22

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég styð ekki trúboð sérstaklega. En ég er á móti því að mikill minnihluti þjóðarinnar, banni hitt eða þetta.

Hvað með sjálfsákvörðunarrétt skólanna?

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.10.2011 kl. 19:28

12 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Gunnar er ekki miklu eðlilegra að foreldrar sjái sjálfir um trúfræðslu barna sinna en að ætla skólanum að gera það?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 6.10.2011 kl. 19:55

13 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Gunnar, hvernig er það ekki trúboð ef leikskólabörnum er kennt að "Jesús sé besti vinur barnanna"?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 6.10.2011 kl. 20:15

14 identicon

Æi, Hjalti, reyndu ekki að færa þessa umræðu inní biflíuversablæti þitt.

Þú ert bókstafstrúarmaður, með öfugum formerkjum.

Jóhann (IP-tala skráð) 6.10.2011 kl. 20:31

15 Smámynd: Bergþór Heimir Þórðarson

Það sem stendur upp úr, fyrir mér, í mótmælum flestra við þessum nýjum reglum er að nánast enginn er einu sinni tilbúinn að svara því hvort þeim fyndist í lagi að múslimar, búddar o.s.frv. færu að dreifa sínum boðskap í skóla landsins til jafns á við hina kristnu þjóðkirkju.  Og þeir örfáu sem eru tilbúnir til að svara þessari spurningu segja yfirleitt nei án þess að rökstyðja það neitt nánar.

Gunnar getur þú svarað þessari spurningu og með einhverjum rökum öðrum en að önnur trúfélög séu ekki kristin eða þau séu ekki þjóðkirkjan?

Bergþór Heimir Þórðarson, 6.10.2011 kl. 22:44

16 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Jóhann, ég hef ekkert verið að minnast á biblíuvers hérna.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 6.10.2011 kl. 23:03

17 Smámynd: Rebekka

Svanur, einhverra hluta vegna bjóst ég við því að þú værir rökfastari en þetta...

Fyrst byrjarðu á að fullyrða að trúarrit séu núna bönnuð í skólum og þar með sett á sama stall á klám.  Þetta er ósatt, ég er þess fullviss um að börnum er enn heimilt að t.d. koma með sín trúarrit og lesa í frímínútunum (eins og svo mörg þeirra hafa gert hingað til... ), svo efast ég um að skólabókasöfn fari að henda Biblíunni í ruslið.

Næst kemur klassískt "slippery slope argument" þar sem þú fabúlerar um framtíðaráætlanir mannréttindaráðs.

 Næst heldur þú því fram að lífsskoðunarfélög megi ekki lengur boða skoðanir sínar í skólastofum.  Þetta er hárrétt, og ég skil ekki af hverju þér finnst þetta slæmt.  Skv. nýju reglunum frá mannréttindaráði mega lífsskoðunarfélög enn heimsækja skóla og fræða börn um starfsemi sína.  Ég vona að þú skiljir muninn á trúarboðun og trúarfræðslu. 

Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af helgidagahaldi og frídögum, enda er því gert skil í liði i) í reglunum: 

"Sígildir söngvar, dansar, leikir og handíðir sem teljast hluti af gamalgrónum hátíðum og frídögum þjóðarinnar halda sessi sínum í árstíðabundnum skemmtunum og starfi frístundaheimila, leik- og grunnskóla. Jólasálmar og helgileikir tengdir jólum falla hér undir."
 Ég býst við að tímatal okkar og nöfn vikudaganna sé einnig hægt að skilgreina sem "gamalgróið".

Hérna geturðu svo lesið reglurnar.  Ég hef það á tilfinningunni að þú hafir fallið í sömu gryfju og svo margir aðrir moggabloggarar sem hafa tjáð sig um þetta mál, og ekki haft fyrir því að lesa reglurnar áður en þú skrifaðir greinina.

Annars fannst mér áhugavert það sem þú sagðir um að breyta nafninu á föstudegi (líklegast vegna þess að nafnið á sér kristnar rætur).  Þriðjudagur, miðvikudagur og fimmtudagur eiga sér líka kristnar rætur, enda er íslenskan eina germanska tungumálið (held ég) þar sem vikudagarnir heita ekki eftir heiðnum guðum.  Það var einhver íslensk biskupsónefna sem tróð þessu í gegn í eldgamla daga, og hann stóð sig mun betur í þessu en kollegar hans í öðrum germönskum löndum sem reyndu þetta sama en mistókst.  Laugardagur, sunnudagur og mánudagur stóðust þó áhlaupið hér á landi.

Rebekka, 7.10.2011 kl. 06:25

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Bergþór, mér finnst eðlilegt að skólarnir ráði þessu sjálfir, t.d. með aðkomu foreldrafélganna.

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.10.2011 kl. 08:11

19 Smámynd: Einar Karl

Af hverju á meirihlutinn ekki að fá að ráða? (Krækja í dæmisögu um þetta.)

Einar Karl, 7.10.2011 kl. 10:07

20 identicon

Hver af ykkur vill horfa upp á það að börn séu aðskilin í skólanum vegna þess að kristnu börnin þurfa að fara og hitta prestinn.
Það eru til sögur, sannar sögur af ungum börnum einsömlum í skólastofum, verðandi fyrir aðkasti vegna þess að það er auglýst í skólanum að barnið séð af öðrum trúarættbálki.

Gunnar Th. sér ekkert að þessu, hann vill að meirihlutinn fái að ráða þessu; Að meirihlutinn geti ákveðið það að persónuleg trú þeirra verið sett inn í skóla... Gunnar Th vill sjálfsákvörðunarrétt meirihlutans, að ung börn lendi í einelti vegna persónulegrar trúar meints meirihluta.
Gunnar Th telur sig búa á Íslamdi í dag... er það ekki Gunnar.

DoctorE (IP-tala skráð) 7.10.2011 kl. 10:23

21 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Rebekka. Þessar reglur eru frekar illa hugsaðar finnst mér. Það er verið að banna dreifingu á trúarlegu efni meðal skólabarna til að gæta jafnréttis. Í stað þess að leifa öllum, er öllum bannað. Það er mjög gerræðislegt.

Ef það eru trúarbrögðin sem á að útríma úr skólastarfinu,  væri þá ekki rétt að banna alla helgileiki í skólanum. Börn læra mest af leikjum. -

Hvað jafnræði varðar eru önnur trú og lífskoðunarfélög enn meira út í kuldanum enn áður, því þeirra helgidagahald og siðir sem "ekki rótgrónir"  eiga enga möguleika í skólunum.

Einnig munu helgidagar annarra en kristna fara áfram forgörðum í skólahaldinu. 

Svanur Gísli Þorkelsson, 7.10.2011 kl. 11:25

22 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Rebekka. Ef nemendur mega áfram koma með trúarlegt efni til að lesa og sýna öðrum nemendum skólans, er ekkert sem stöðvar trúfélög í að láta börnin stunda dreifingarstarfsemina. -

Svanur Gísli Þorkelsson, 7.10.2011 kl. 11:29

23 identicon

Já Svanur, leyfum öllum; Rústum bara skólanum með áróðri af ýsmu tagi; Látum börnin taka trúarlegan, já og pólitískan áróður inn í skóla þessa lands.

Hey Lilli minn, hér taktu hér með þér plagg frá sjálfstæðisflokkunum og þjóðkirkjunni, sýndu bekkjarfélögunum þetta; Passaðu þig á að öskra yfir aðra bekkjarfélaga sem eru með plagg frá hinum 4flokknum, og krossinum; En öskraðu samt mest yfir alla þá sem vilja ekki hafa svona yfir börnum; Farðu að væla, segðust vera ofsóttur.. breyttu skólastarfinu í púra steypu

DoctorE (IP-tala skráð) 7.10.2011 kl. 12:03

24 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Nei DrE; Það eiga að vera reglur um þessa starfsemi sem stjórna henni en útiloka hana ekki.

Svanur Gísli Þorkelsson, 7.10.2011 kl. 12:41

25 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það er eitt sem eg skil ekki enn í þessu. Skildi það ekki þarna fyrir ári er kom til umræðu og skil ekki enn.

Að er það þannig í Höfuðborginni að mikil brögð séu að því að eitthvað ,,trúboð" sé stundað í skólum? Að þar gangi prestar og prlátar um sali haldandi messur uppá hvern dag og dreifi rúarritum hægri vinstri?

Ef svo er kemur mér það á óvart. Nú þekki ég svo sem ekki hvernig þetta er en þar sem eg hef heyrt af, þá eru þetta eitthvað 1-2 heimsóknir á önn, ef þeir koma þangað yfirhöfuð, ogþá er þetta bara eitthvað létt tjatt um daginn og veginn og jú, stundum er vettvangsferð í kirkjuna. Eg hef aldrei heyrt af neinu sem ég mundi kalla trúboð.

Að mínu mati hafa börnin bara gott af þessu. Gott að fá þennan vinkil á tilveruna. Eiginlega nauðsynlegt og þroskandi. Og varðandi önnur trúfélög að þá - já. Eg sé ekkert að því að þau kíki við í skólum. Bara sneddý.

Fólk er ekki nógu open minded.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 7.10.2011 kl. 18:37

26 Smámynd: Rebekka

Gídeon menn hafa t.d. stundað sitt trúboð óáreittir í skólum síðastliðna áratugi.  Ég fagna því mjög að búið sé að loka á þá vitleysu.  Trúaðir foreldrar hafa enn fullan aðgang að trúarlegu efni handa börnum sínum í kirkjum, sunnudagaskólum og söfnuðum.  Ég er viss um að Gídeonfélagar myndu glaðir gefa Nýja Testamentið til allra sem nálgast þá og biðja um það.

Mér er algerlega sama hvort fólki finnist börn hafa "gott af því" að heyra um að Jesú bjargi fólki frá helvítisvist, og að ekkert slæmt hafi fengist af því að láta börnin biðja bænir.  Þetta er móðgun við börn sem hafa verið innrætt af annarri trú en kristni, eða hafa enga trú.  Engin börn ættu að þurfa að sitja undir trúboði í skólanum.  Trúboð á heima í kirkjum eða í heimahúsum, skólakerfið á að sjá um fræðslu.

Trúarfélög eru enn sem áður velkomin í heimsókn til að fræða börn um starfsemi sína.  Reglur mannréttindaráðs banna þeim það ekki.

Rebekka, 7.10.2011 kl. 22:50

27 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Rebekka, er það ekki móðgun við börn múslíma að horfa upp á helgileiki þar sem ein af megin kenningum Íslam er þverbrotin? - Eða eiga þau bara að vera heima á litlu jólunum?

Og hvernig á að koma á móts við þau börn sem tilheyra trúarbrögðum sem gera ráð fyrir bænahaldi á sama tíma og kennsla fer fram?

Þessar reglur eru fyrst og fremst settar til höfuðs trúarbrögðum, með jafnræði að yfirvarpi og þess vegna gleðjast trúleysingjar svo mikið yfir þeim - Jafnræði getur aldrei orðið nema að öll menningarleg vegsummerki kristni séu afmáð úr skólastarfinu og það krefst miklu meiri breytinga en að banna komu Gideon manna og gjafir þeirra.

Svanur Gísli Þorkelsson, 8.10.2011 kl. 07:21

28 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Doctore: "Hver af ykkur vill horfa upp á það að börn séu aðskilin í skólanum vegna þess að kristnu börnin þurfa að fara og hitta prestinn"

Er lífið bara skólinn? Ganga ferminarbörn ekki til prests, burt séð frá skólanum? Viltu banna það?

Doctore: "Það eru til sögur, sannar sögur af ungum börnum einsömlum í skólastofum, verðandi fyrir aðkasti vegna þess að það er auglýst í skólanum að barnið séð af öðrum trúarættbálki"

Trúarættbálki?? Þú ert væntanlega að meina "annarar trúar? Ein í skólastofum??

 Það er sjálfsagt mál að fræða börnin fordómalaust um það ef samnemendur þeirra eru annarar trúar. Allir grunnskólar í dag vinna eftir einhverskonar eineltisáætlun.

 Ég held að þú hafir aldrei unnið í grunnskóla, það hef ég gert og mín reynsla stemmir ekki við þessar fullyrðingar hjá þér. En vissulega getur verið erfitt fyrir börn að vera "öðruvísi" en önnur börn, t.d. vegna andlegra eða líkamlegra sjúkdóma, útlits eða annars. Við útrýmum því ekki, en við getum gert ráðstafanir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.10.2011 kl. 10:20

29 identicon

Hér er ein saga úr grunnskóla handa þér Gunnar:

Ég á 10 ára dóttur í grunnskóla sem var í "trúarbragðafræðslu" síðasta vetur þar sem  verið var að tala um sköpun jarðar og sólarinnar.  Guð átti víst að hafa skapað þetta allt saman skv. kennaranum og rétti þá dóttir mín upp hönd og spurði "varð sólin ekki til þegar loftsteinar þjöppuðust saman?". Bekkurinn hló að henni!!!  Einn nemandi spurði kennarann hvort væri rétt og var þá sagt að guð hefði skapað sólina!!!

Þarna er verið að kenna kristinfræði sem staðreynd, gengur ekki upp.  Finnst reyndar að kennarar ættu að sitja námskeið þar sem þeim er kenndur munurinn á trúboði og trúarfræðslu, þeir virðast margir ekki skilja muninn.

Ég fagna tillögum mannréttindaráðs Reykjavíkur, vona bara að önnur sveitarfélög fylgi í kjölfarið.

Bragi (IP-tala skráð) 8.10.2011 kl. 12:49

30 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Kennarar eru misjafnir og þessi hefur eitthvað misskilið hlutverk sitt og markmið með "truarbragðafræðslu".

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.10.2011 kl. 13:14

31 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

þetta samt, að vísu, hljómar soldið eins og verið sé að banna eitthvað sem er ekki til. Eg hef hvergi heyrt um að prestar séu með trúboð í skólum. þó kunna að vera undantekningar. Samkv. þessu plaggi á þetta að vera þannig, svona almennt séð, að nemendur eigi og megi jú fræðast um trú en gæta skuli sérlega að því að nemendur fylgist með fræðslunni og missi sig ekki í tilbeiðslu.

Meina, halló.

þetta virðist þá falla inní það sko, að lög eða lagasetning í gegnum tíðina er oft staðfesting á ástandi sem þegar er til staðar.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.10.2011 kl. 16:24

32 identicon

Umræðan hér fyrir ofan er aðeins partial um trú eða trúleysi. Hún er pólitísk. Íhaldsmenn eins og t.d. Gunnar Th. líta á þjóðkirkjuna sem eitt af vígum hægri mann, og það vill hann verja. Eins og í US, eru "churchgoers" nær undantekningarlaust, íhaldsmenn. Léleg menntun, ekki síst í raungreinum, eigi sinn þátt í þessu.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.10.2011 kl. 22:05

33 identicon

Edit.    .....á sinn þátt í þessu

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.10.2011 kl. 22:15

34 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er ekkert pólitískt í mínum huga varðandi þjóðkirkjuna eða kristna trú á Íslandi. Hins vegar er það eins og að skvetta vígðu vatni á Kölska, að mæra kristna trú við suma vinstrimenn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.10.2011 kl. 02:15

35 identicon

Aðeins eitt innlegg sem gleymist oft í þessari umræðu.

Í dag eru lög og reglur orðin flókin en í upphafi voru þau sett með tilvísun í boðorðin þannig að grunnurinn að öllu okkar regluverki liggur þar. Eða á fólk að ágirnast eigur nágungans?

Grímur (IP-tala skráð) 9.10.2011 kl. 08:34

36 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Grímur: Nennirðu að finna fyrir mig íslensku lagaklausurnar (nýjar eða gamlar) sem;

a) Banna fólki að hafa aðra guði en Jehóva.

b) Banna fólki að gjöra eftirmyndir af nokkru í lofti, á láði eða í legi.

c) Banna fólki að leggja nafn Jehóva við hégóma.

d) Girnast eigur náungans. 

Þetta ætti ekki að taka þig nema örskotsstund. Í leiðinni geturðu dundað þér við að lesa um allar hinar siðferðisreglurnar, sumar num eldri en meintar Mósebækur, sem banna líka morð, þjófnað, framhjáhald (fer reyndar eftir skilgreiningu, oftast geta karlmenn hreinlega ekki haldið framhjá), lygar og fleira. Hér eru tvö dæmi:

http://en.wikipedia.org/wiki/Code_of_Hammurabi

http://en.wikipedia.org/wiki/Code_of_Ur-Nammu

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 9.10.2011 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband