Kattahatur á Íslandi

Heilagir kettirEina húsdýrið sem hvergi er minnst á í Biblíunni er kötturinn. Talið er að kettir hafi fyrst orðið að húsdýrum á eyjunni Kýpur fyrir rúmlega 9000 árum, þannig að líklegt er að þeir hafi verið til staðar á sögusviði Biblíunnar, þótt ekkert sé á þá minnst í bókinni góðu. Reyndar er talið að Ísraelar hafi ekki haft mikið dálæti á köttum, þar sem mikil helgi var á þá lögð í Egyptalandi. Kannski er það ástæðan.

Í fornum keltneskum þjóðsögum, bæði írskum og skoskum er kötturinn jafnan sögð mikil voðavera. Langlífust þeirra sagna er sagan af Cat Sith, stórum svörtum ketti sem var dýrbítur mikill og lagðist jafnvel á fólk. Reyndar hefur því verið haldið fram að þær sögur eigi við staðreyndir að styðjast og hér hafi verið á ferð svo kallaður Kellas köttur sem nú er útdauður en var til í Skotlandi í margar aldir. Kellas kötturinn var blanda af evrópskum villiketti og heimilisketti og var því óvenju stór og kraftmikill.

SkrattakötturÁ miðöldum var sú trú útbreidd í norður Evrópu að nornir gætu breytt sér í ketti, einkum svarta með glóandi glyrnur.  Svartir kettir sjást illa í myrkri og geta því læðst með veggjum óséðir, eins og þeirra er háttur. Játuðu ófáar konur því að vera slíkir hamskiptingar, áður en þeim var kastað á bálköst og þær brenndar fyrir galdra. Þá innihéldu margar uppskriftir að nornaseyðum ketti eða einhvern hluta þeirra.

Svo stæk var þessi hjátrú að á páskum og hvítasunnu voru skipulagðar kattaveiðar í mörgum bæjum Þýskalands.  Almenningur trúði því að sjálfur Lúsífer hefði tekið sér ból í köttunum og voru þeir sem veiddust umsvifalaust brenndir á báli.

Miðað við hversu lítið er minnst á ketti í íslenskum heimildum og sögum og sé það gert, er ímynd þeirra frekar neikvæð, mætti halda að við Frónbúar hafi forðum lagt á þá fæð fremur en haft á þeim dálæti líkt og nú er algengast.

VíkingakötturElsta íslenska heimildin um ketti er úr Vatnsdælasögu og segir  "frá óspektarmanni og þjófi, Þórólfi sleggju, sem átti tuttugu ketti svarta, stóra og tryllta, og hafði þá til að verja híbýli sín. Hann var þó yfirunninn, en þar sem hann hafði búið „sást jafnan kettir, og illt þótti þar oftliga síðan.“ Þetta á að hafa gerst í heiðni og er auðvitað aðeins sögn." 1.

Þá er getið um verð á kattarbelgjum og kattarskinnum á miðöldum, líklega á 12. öld. Í öðru aðalhandriti lögbókarinnar Grágásar, Konungsbók er talið upp í verðskrá: „Kattbelgir af fressum gömlum tveir fyrir eyri. Af sumrungum þrír fyrir eyri.“ Í kristnum lögum Grágásar er einnig tekið fram að óheimilt sé að hafa ketti til matar, eins og önnur klódýr enda öll slík dýr forboðin samkvæmt lögum Mósebóka. 

SkoffínÍ þjóðsögunum er talað um kattarblendingana Skoffín og Skuggabaldur. Skoffín afkvæmi refs og kattar, þar sem kötturinn er móðirin. Skuggabaldur er afkvæmi sömu dýra en kemur úr móðurkviði refsins.

Jón Árnason 'segir að lítil hætta stafi af skoffínum þar sem þau séu ætíð drepin áður en þau komast upp, enda hægt um heimatök þar sem móðirin er heimilisköttur. Skuggabaldurinn er hins vegar öllu viðsjárverðara dýr og samkvæmt þjóðsögum gerast þeir dýrbítar og verða ekki skotnir með byssum.

Samkvæmt einni sögn náðu Húnvetningar að króa skuggabaldur af og drepa. Áður en hann var stunginn mælti hann áhrínisorð. Banamaðurinn hermdi orð skuggabaldurs í baðstofu um kvöld og stökk þá gamall fressköttur á manninn:

Hljóp kötturinn á hann og læsti hann í hálsinn með klóm og kjafti, og náðist kötturinn ekki fyrr en höfuðið var stýft af honum, en þá var maðurinn dauður." 2.

JólakötturEinhvern tíman á 19 öld verður til þjóðsagan um íslenska jólaköttinn, skelfilega ófreskju sem situr um ódæl börn og etur þau eftir að hafa gleypt í sig matinn þeirra, eins og Jóhannes úr Kötlum segir svo listilega frá í kvæði sínu um ófétið. 

Jólakötturinn slóst fljótlega í för með Grýlu, Leppalúða og jólasveinahyskinu öllu saman. Reyndar hlýtur  að vera mikil samkeppni milli hans og  Grýlu sem einnig hafur þann leiða sið að eta óþæg börn eins og Jóhannes gerði einnig góð skil í óð sínum til flagðsins.

Það er athyglisvert að einu húsdýrin sem djöfulinn hefur verið kenndur við og sagður taka sér bólfestu í, eru kötturinn og geithafurinn. Geithafurinn geldur þess að gríski skógar og frjósemisguðinn Pan, var hálfur hafur og kötturinn þess að vera eina húsdýrið sem ekki er nefnt í hinni helgu bók og einnig þess að vera meðal hinna óhreinu "klódýra".

Samt koma einmitt þessi dýr, geithafurinn á Norðurlöndum og kötturinn á Íslandi, við sögu á fæðingarhátíð Frelsarans og skýtur það dullítið skökku við að þegar helgin er sem mest, er börnum hættast við að verða óvættum að bráð. 

Þór og hafrarnirÞví hefur verið haldið fram að íslenski jólakötturinn sé eftirherma af jólahafrinum og þeim siðum sem honum tengjast á Norðurlöndunum. Þá hefur verið reynt að rekja Jólahafurinn til sögunnar af Þór og höfrunum hans tveimur Tanngrisnir og Tanngnjóstr sem guðinn gat óhræddur etið að kvöldi því þeir  höfðu endurnýjað sig að morgni. 

Í Noregi og Svíþjóð eru jólahafrarnir einskonar jólalöggur sem fylgjast með því hvernig undirbúningurinn gengur, en í Finnlandi var Joulupukki öllu skuggalegri karakter og líkari íslenska jólakettinum, þótt hann sé nú orðinn venjulegur jólasveinn.

Til gamans má geta þess að í sögunum af finnsku hetjunni Lemminkainen er ketti beitt fyrir sleða, sem hann dregur drekkhlaðinn af mönnum langt norður í Lappland og þýtur yfir snjóinn þar sem hvorki hestar eða hafrar geta farið.

Hvernig norræni jólahafurinn varð að ketti hér á landi er ekki alveg ljóst. Bæði var/er sagan af þrumuguðinum Þór jafn þekkt á Íslandi og á hinum norðurlöndunum og geitur hafa vissulega verið til á landinu síðan á landnámsöld.

Freyja og kettirnir hennar

 Var það hugsanlega vegna þess að þeir vildu gera frjósemisgyðjunni Freyju jafn hátt undir höfði og þór, en vagn hennar var einmitt dreginn af tveimur svörtum köttum.

Eða var það vegna þess að í landi "stóra og tryllta" katta, hvæsandi skoffína og skuggabaldra, var kattarkynið miklu ógnvænlegri en jarmandi geitargrey.

Heimildir;

1-2 Háskólavefurinn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

9000 ára köttur fannst í Jeríkó, en hann mjálmaði ekki.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 5.12.2010 kl. 15:34

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Felis silvestris lybica forfaðir Felis catus. Kemur eins og maðurinn upphaflega frá Afríku :)

kv,

Svanur Gísli Þorkelsson, 5.12.2010 kl. 17:11

4 Smámynd: Dingli

Kettir eru illa séðir af sálnahirðum þar sem þeir rekast illa, eins og allir vita. 

Dingli, 5.12.2010 kl. 17:39

5 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Kettir eru guðdómleg dýr, og má undra að DoktorE sé ekki búinn að blanda sér í þessa umræðu.

Reyndar voru kettir mjög vinsæl dýr meðal gyðinga á miðöldum og leituðu ásjár hjá þeim í bæjum, þegar vitlaus lýðurinn reyndi að útrýma þeim vegna þess að þeir höfðu fengið þá grillu í höfuðið að kötturinn væri djöfull (eins og gyðingurinn).

Nafnið Katz, gamalt nafn meðal gyðinga, og nöfn þeim tengd, eru ekki endilega tengd ást á köttum (Katze). http://www.katz.us/

Guðmundur Ólafsson starfsmaður á Þjóðminjasafni skrifaði einu sinni lærða grein í Árbók Fornleifafélagsins, þar sem hann reyndi að færa rök fyrir því að Jólakötturinn væri skyldur sænska Lussekettinum (og bollunum sem bera sama nafn). Ekki eru allir sem hafa keypt þá skýringu. 

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 6.12.2010 kl. 07:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband