þúsundkallinn sem hvarf

Þrír sölumenn komu samtímis á Hótel Húsavík. Til að spara dagpeningana sína ákváðu þeir að deila saman einu herbergi. Herbergið kostaði 30.000 krónur sem þeir staðgreiddu. Rétt í þann mund sem sölumennirnir komu upp á herbergið, uppgötvaði stúlkan í afgreiðslunni að hún hafði gert mistök. Sumarverðin voru runnin úr gildi og vetrarverð tekin við.

Herbergið kostaði í raun 25.000 krónur en ekki 30.000.

Stúlkan kallaði þegar í stað á einn þjóninn úr matsalnum og bað hann að taka strax 5000 krónur upp á herbergi til sölumannanna. Þjónninn tók við fimm þúsund króna seðlum og hélt með þá upp á herbergið til sölumannanna.

ÞúsundkallÁ leiðinni varð honum hugsað til þess að það mundi verða erfitt fyrir hann að skipta 5000 krónunum jafnt á milli manna þriggja. Hann ákvað því að stinga tveimur þúsundum í vasann og láta sölumennina hafa aðeins 3000 krónur, eða 1000 krónur hvern.

Þetta gerði svo kauði. -

En við þetta kom upp óvænt staða. Það lítur út fyrir að 1000 krónur (þúsundkall) hafi einfaldlega horfið.

Förum aðeins yfir dæmið;

Sölumennirnir greiddu fyrir herbergið 30.000 krónur, 10.000 hver.

Stúlkan sendi þjóninn með 5000 krónur af þessum 30.000 sem sölumennirnir greiddu með, sem hann átti að færa þeim. Þjónninn stakk tveimur þúsundum í vasann og lét sölumennina aðeins hafa 3000 krónur, eða eitt þúsund hvern.

Hver sölumaður greiddi upphaflega 10.000 (3 X 10.000= 30.000), og hver fékk eitt þúsund til baka sem þýðir að hver sölumaður greiddi í raun 9.000 krónur fyrir herbergið.

3 X 9000 gera 27.000. Tvö þúsund enduðu uppi í vasa þjónsins, eins og áður segir. Það gera samtals 29.000 krónur.

Getur einhver sagt mér, hvar er þúsundkallinn sem upp á vantar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

Góður þessi! 

Þetta lítur út eins og smækkuð mynd af bókhaldi Landsbankan...hvar eru milljarðarnir?

Með því að reikna á þennan hátt er verið að herma t.d. klassískan "ConArtist" leik sem einmitt er notaður til að rugla kassadömur og fá vitlaust gefið til baka, og það er einmitt aðferðin við bankabókhaldið.

"Hej! áttu þúsundkall að lána?" ehh, nej, ég á bara 500..."gerir ekkert kallin, ég tek bara þessar 500 uppí þúsundkallin og þú borgar bara restina þegar vel stendur á!" ...hvað meinar þú, ég...?..."engar áhyggjur af þessu, lágir vextir af því að þú ert besti bankastjóri í heimi og þú færð bestu kjör sem til eru, skrifaðu bara hérna núna og staðfestu að þú sért samþykkur þessu!".... þú veist að fallega stelpan sem þér lýst svo vel á er að bjóða þér heim til sín í kvöld!...Ha, va...er það?....hvar skrifa ég annars sem samþykkur því að heimsækja hana í kvöld?....

Óskar Arnórsson, 23.11.2010 kl. 01:42

2 identicon

Að lokum borguðu þeir 25.000 fyrir herbergið + 3.000 afslátt + 2.000 þýfi þjónsins = 30.000. Villan felst í að sleppa þýfinu eins og svo oft áður.

Guðmundur Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 04:24

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Góður Óskar, já það er smá svindl í gangi.

Guðmundur Ingi hefur rétt fyrir sér, en setur ekki dæmið alveg rétt upp.

Gerir einhver betur?

Svanur Gísli Þorkelsson, 23.11.2010 kl. 20:44

4 Smámynd: Grefill

Ég er búinn að leggja þetta fyrir fjóra en enginn gat svarað almennilega. Bíð því enn og er í raun alveg hissa á því að einhver skuli ekki vera kominn með svarið kórrétt.

Grefill, 23.11.2010 kl. 22:34

5 Smámynd: Grefill

Ah .... ég var að fatta þetta. Á ég að segja það?

Grefill, 23.11.2010 kl. 22:44

6 Smámynd: Grefill

Eftir að í ljós kemur að mennirnir borguðu í raun 3 x 9 þúsund = 27 þúsund þá á ekki að leggja þýfið við heldur draga það frá því að það er ekki viðbót við það sem mennirnir borguðu heldur mismunurinn á milli 25 þúsundanna sem herbergið kostaði í raun og 27 þúsundanna sem mennirnir töldu sig hafa borgað.

Grefill, 23.11.2010 kl. 22:50

7 identicon

Þetta eru tvö dæmi:

1. Mennirnir borga 30.000. Þeir fá tilbaka 3.000. Þeir borguðu því 27.000 fyrir herbergið.

2. Stúlkan rukkaði 25.000. Þjónninn stakk á sig 2.000. Gaurarnir fengu rest.

Hafi þjónninn verið íslenskur, þá hefði hann flekað stúlkuna, stungið  á sig 30.000 krónum og sagt strákunum að  fara í mál við sig...

Jóhann (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 23:47

8 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Jamm drengir, þetta er eiginlega komið. Auðvitað hvarf enginn þúsundkall. Mennirnir greiddu samtals alls 27.000. Hótelið fékk 25.000 og þjóninn stakk undan 2000. 3000 krónurnar sem þjónninn lét mennina hafa dragast frá verðinu sem stúlkan lét þá borga.

(30.000 mínus 3000 gera 27.000.)

2000 krónurnar dragast líka frá upphaflega verðinu þ.e.  (30.000 mínus 3000, mínus 2000 sem gera 25.000)

Algengust mistökin eru sem sagt að bæta 2000 krónunum við 27.000 þegar þær eru þegar innifaldar í heildarkosnaðinum.

Svanur Gísli Þorkelsson, 24.11.2010 kl. 00:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband