Að kyssa fætur

 Ég er sammála því að Difkat Khantimerov breytti níðingslega gagnvart skjólstæðingum sínum og átti skilið að vera rekinn úr starfi. En það er athyglisvert að á sumum stöðum þykja fótakossar enn sjálfsögð aðferð til að votta einhverjum virðingu sína.

Páfinn kissir fæturHerra Difkat Khantimerov er frá Bashkortostan héraði í Rússlandi. Héraðið hefur verið byggt múslímum að mestu frá 14 öld. Að kyssa fætur klerka og kennimanna í Íslam er viðtekinn siður, jafnvel þótt réttmæti hans sé umdeilt meðal íslamskra fræðimanna. Bent er á að í Kóraninum sé sagt frá því að fólk hafi kysst fætur spámannsins. - En flestir eru sammála um að slík undirgefni eigi aðeins að sýna spámanninum sjálfum, ekki venjulegum mönnum.

En hafi Arabar þegar tileinkað sér siðinn þegar að Múhameð kemur fram með sínar kenningar, er það ekki undarlegt. Hann var víðtekinn meðal kristinna klerka, og varð að viðteknum hirðsið meðal kristinna konunga fljótlega eftir að þeir komust til valda í Asíu og Evrópu, enda ríktu þeir í umboði Guðs.  Kristnir menn fundu þessum sið réttlætingu í heilagri ritningu þar sem segir;

Konungar skulu verða barnfóstrar þínir og drottningar þeirra barnfóstrur þínar. Þeir munu falla til jarðar fram á ásjónur sínar fyrir þér og sleikja duft fóta þinna. Þá munt þú komast að raun um, að ég er Drottinn og að þeir verða ekki til skammar, sem á mig vona. Jesaja 49:23

koss auðmýktarÞað ku það vera siður í Vatíkaninu að kyssa fætur páfans við ýmis tækifæri. Kardínálarnir gera það eftir að nýr páfi hefur verið valinn og í einkaviðtölum páfa, kyssa gestkomandi fætur hans. Ekki er langt síðan að Páfi sjálfur ákvað að "sleikja duft fóta" einhvers klerks, eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

 

 

 


mbl.is Rekinn fyrir að niðurlægja unglinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Svona virðing var mér vottuð á Indlandi eitt sinn er ég beið eftir grænu ljósi til að ganga yfir götu. Vissi þá ekki fyrr til en hvíthært gamalmenni lá á fjórum fótum frammi fyrir mér og kyssti á skóþveng sandalands sem lá yfir fót minn framarlega á ristinni. Ekki vissi ég hvernig þessu skyldi tekið en held ég hafi beðið manninn að láta af þessu enda væri nú komið grænt ljós. Skundaði svo yfir götuna og fáum skrefum síðan vék sér að mér prúðbúinn maður með mikil kurteisislæti og benti mér að þarna á skónum væri komin skítaklessa -- sem og var. En, sagði maðurinn, úr því væri hægt að bæta, því þarna bara rétt við hliðina væri skóburstari sem myndi losa mig við óhreinindin fljótt og vel. Sem ég ekki þáði. Setti á mig snúð og sagðist sjálfur eiga þennan skít og myndi meðhöndla hann svo sem mér þætti við hæfi þegar þar að kæmi.

En ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig hvíthærða gamalmennið fór að þessu. Þykist samt alveg viss um að skítinn hafi það ekki haft uppi í sér.

Sigurður Hreiðar, 11.9.2010 kl. 20:01

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk fyrir skemmtilega sögu Sigurður Heiðar.

Einhvern veginn sé ég heldur ekki fyrir mér skóburstara bera á og fægja sandala sem haldið er saman með þvengjum :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 12.9.2010 kl. 03:58

3 identicon

Hversu réttlætanlegt er að taka eitthvað úr biblíunni og yfirfæra á okkar tíma og samfélag. Ef þetta er í lagi hvað þá með Jesaja 49: 26

Ég mun láta þá sem kúga þig eta eigið hold
og þeir munu verða ölvaðir af eigin blóði eins og af víni.
Allt hold mun þá komast að raun um að ég er Drottinn, frelsari þinn,
og Hinn voldugi Jakobs er lausnari þinn.

Ég held að það sé mjög hættulegt þegar trúað fólk tekur eitthvað úr trúarritum sem var skrifað fyrir hundruðum árum síðan og við alt aðrar samfélagslegar aðstæður en eru í dag.

skækill (IP-tala skráð) 12.9.2010 kl. 11:25

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ég held að ég geti ekki verið meira sammála skækill :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 12.9.2010 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband