Goðgá Helenar Thomas

Næstum níræð Helen Thomas hafði svo sem verið óvarkár í tali áður en hún sagði að Ísraelsmen ættu að drulla sér í burtu frá Palestínu. Hvernig hún orðaði spurningar sínar til forseta Bandaríkjanna þótti oft jaðra við ókurteisi, sérstaklega í seinni tíð. Vegna þeirrar virðingar sem hún naut í starfi sínu, var litið fram hjá óvarkárni hennar, enda alvitað að með árunum losnar um málhömlur fólks.

En hingað og ekki lengra. Í þetta sinn voru ummælin hranaleg umorðun á því að Ísraelsþjóð var mynduð úr innflytjendum m.a. frá Póllandi og Þýskalandi.

Í umræðunni um ástandið í Ísrael og Palestínu gilda ákveðnar reglur og ákveðin sjónarmið sem varða hana eru algjör goðgá.  

Þeir sem gagnrýna Ísrael mega t.d. aldrei ýja að því að Ísraelsmenn hafi ekki fullan rétt til að gera það sem þeim sýnist, hvar og hvenær sem er í heiminum, "til að verja sig."Alla gagnrýni á verk ríkisstjórnar Ísraels er litið á sem Gyðingahatur.

En alvarlegasta gagnrýnin er að draga í efa tilkall Ísraelsmanna til þess landsvæðis sem þeir búa á eða minna á að þeir hafi þegið það úr hendi alþjóðasamfélagsins á þeim tíma er þeir sem þjóð voru landlausir.

Helena gamla baðst afsökunar á heimasíðu sinni með þessum orðum.  

"I deeply regret my comments I made last week regarding the Israelis and the Palestinians. They do not reflect my heart-felt belief that peace will come to the Middle East only when all parties recognize the need for mutual respect and tolerance. May that day come soon.".

En orrahríðinni út af umælum hennar linnti samt ekki. Ræðum sem hún átti að flytja var aflýst og bókaforlög sögðust ekki lengur vinna með henni.

Afsögn hennar sem fréttaritari við Hvíta húsið fylgdi því í kjölfarið.


mbl.is 89 ára fréttaritari hættir vegna ummæla um Ísrael
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Innflytjendum? Jahá...Kallarðu það "innflytjendur" að vilja helst ekki búa lengur þar sem var verið að reyna að murka úr þér lífið, líða bara ekki vel þar og geta ekki treyst því börnin þín komist til manns þar. Ísraelsríki var lausn alþjóðasamfélagsins á vandamáli hvar ofsóttasta þjóð heimsins ætti að geta búið við öryggi. Jafnvel sígunar og kúrdar hafa ekki búið við nálægt sömu raunir og þessi þjóð, en tilraunir nazista voru ekki þær fyrstu í sögunni til að útrýma þeim alfarið. Ef þú skilur ekki hatrið í ummælum þessarar konu þjáistu annað hvort af því sjálfur, eða hefur bara ekki greindarvísitöluna til að geta lesið þessi ummæli í sögulegu samhengi. Hvor sem ástæðan er ættir þú einfaldlega að læra að halda kjafti í framtíðinni, frekar en verða þér til frekari minnkunnar og háðungar.

Gísli (IP-tala skráð) 8.6.2010 kl. 13:50

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Gísli.

Innflytjendur eru margir í Ísrael. Hvað mundir þú annars kalla þá sem flutt hafa til landsins, sumir vegna ofsókna, aðrir af öðrum ástæðum.

Nei, ég skil ekki hatrið í orðum Helenar og heldur ekki hatrið í þínum orðum. Helen baðst afsökunar á orðum sínum en hvað um þig?

Svanur Gísli Þorkelsson, 8.6.2010 kl. 14:04

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það er nú alveg punktur í þessu hjá þeirri gömlu.

En eftir stendur jú aðalpunkturinn og sá stóri, að hverskonar lausn var að  láta palestínumenn sitja uppi með gjörðir nasist eða þýskalands og sleiri landa?

Því það er það sem gerðist.  Afhverju eiga palestínumenn að borga brúsann.

Við því eru engin svör. (Og ekki koma með Bush-bullið þarna um að það sé sagt í Biblíunni)

Svarið við þessu er mjög einfalt í raun.  Það var einfaldlega ekkert hlustað á palestínumenn og/eða arabaþjóðir á þessum tíma þarna eftir stríð.  Það að það væri þarna fólk fyrir,,einhverjir arabar" það skipti einfaldlega ekki máli og var í huga margra núll og nix.  (Og er enn) 

Ótrúleg skamsýni og mjög reyndar innspírað af Biblíunni eins og sjá má td. í ummælum íslendinga sem höfu afskipti af dæminu á sínum tíma.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.6.2010 kl. 14:18

4 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Góður pistill þarna hjá þér Svanur. Styrkur orðanna kemur etv. best í gegn þegar maður les svona kjaftæði eins og vellur úr honum Gísla þarna í fyrsta kommentinu. Við þekkjum öll einhverja svona ofsatrúarmenn sem þrá útrýmingu Palestínuaraba til þess að framkalla endurfæðingu Krists og Armagedón. Svo eru líka kjánar sem skilja ekki hvatann sem liggur raunverulega að baki Ísraelsríki og verndarhendinni sem Bandaríkjamenn halda yfir því og falla í hjörðina fullir af hatri. Mig grunar að Gísli sé einmitt einn þeirra.

Rúnar Þór Þórarinsson, 8.6.2010 kl. 14:59

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Palestínsk þjóð var naumast til um aldamótin 1900. Allan tíma múslimskra yfirráða í Landinu helga (frá því um 634–642) var þar aldrei palestínskt ríki, heldur einungis hluti mun stærra landstjórnarsvæðis (einkum Stór-Sýrlands) undir khalífa- eða soldána-veldum, síðustu aldirnar yfirleitt hinu tyrkneska Ottómanveldi. Eftir því sem á leið drabbaðist niður landbúnaður í landinu, og fólkinu fækkaði. Til viðbótar við Gyðinga, sem fyrir voru, fluttust um 25–35.000 aðrir slíkir til landsin 1881–1904 og á tímabilinu 1904–1914 um 40.000 til viðbótar og enn fleiri á næstu áratugum, þegar landið var komið undir brezka stjórn. Eljusemi og dugnaður Gyðinganna bætti lífkjör og jók þar önnur umsvif, verzlun og viðskipti, og þá fjölgaði einnig fólki þar frá nærliggjandi þjóðum. 'Palestine identity' var þá í raun að verða til, áður voru múslimarnir á þessu svæði ekki ein þjóð og höfðu ekki talað fyrir stofnun palestínsks ríkis og þáðu það heldur ekki úr hendi Sameinuðu þjóðanna 1948, enda töluðu ýmsir leiðtogar þeirra um að landið ætti að vera hluti af Sýrlandi.

Við þetta mætti bæta, en ég bíð með það.

PS. Svanur þarf að laga þessa setningu sína málfræðilega séð: "Öll gagnrýni á verk ríkisstjórnar Ísraels er litið á sem Gyðingahatur."

Jón Valur Jensson, 8.6.2010 kl. 15:05

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ísland var hluti af Danmörku um 1900.

Ergo: Ísland existar eigi sem ríki!

Þreytandi svona einfeldni og smáskammtasagnfræði.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.6.2010 kl. 15:22

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei, Ómar Bjarki, illa ertu að þér í þjóðréttarfræði, en bætir þér það upp með belgingnum. Ísland var eitt af löndum Danakonungs um 1900, ekki partur af Danmörku sem slíkri. Ísland var skattland Noregskonungs 1262–1814 og síðan land (hjálenda, ekki nýlenda) Danakonunga. Friðrik VII konungur talaði um "begge Vore Riger" (bæði ríki vor, þ.e. hans sem konungs).

Ég var ekki að segja, að Palestínuríki geti ekki orðið til, þótt það hafi ekki verið það árið 1900 né nokkurn tímann í sögu islams á svæðinu.

Jón Valur Jensson, 8.6.2010 kl. 15:35

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Afsakið, þetta var Friðrik VIII (faðir Kristjáns X), sem talaði þannig í heimsókn sinni til þegnanna á Íslandi 1907.

Jón Valur Jensson, 8.6.2010 kl. 15:39

9 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já já, það er hægt að kalla þetta ýmislegt.  Fátt er svo í honum heimi að það sé nákvæmlega sambærilegt við annað o.s.frv.

Island var aldrei sjálfstætt ríki fyrir 1900 - og er því ekki til sem slíkt og svokallaðir ,,íslendingar" þeir exista ekki.  Eru ekki til.  Þetta eru bara gamlir norðmenn.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.6.2010 kl. 15:42

10 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Jón Valur, ísraelsk þjóð var heldur ekki til fyrir 1948 ... hafa það í huga takk!

Óskar Þorkelsson, 8.6.2010 kl. 15:46

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Jú, ísraelsk þjóð var í Landinu helga frá því nokkrum öldum fyrir árið 1047 f.Kr., þegar konungdæmi þeirra er stofnað þar (með Sál sem fyrsta konung, en Davíð annan) og síðan í margar aldir og fram til eyðingar Jerúsalem árið 70 e.Kr. og lengur. Gyðingar í dreifingunni voru líka þjóð, þótt þeir hafi ekki haft eigið ríki.

Ómar Bjarki opinberar enn meiri vanþekkingu sína, þegar hann skrifar: "Ísland var aldrei sjálfstætt ríki fyrir 1900" – Upphaf allsherjarríkis á Íslandi* var árið 930 með stofnun Alþingis á Þingvöllum. Það ríki, íslenzka þjóðveldið, leið undir lok sem slíkt árin 1262-1264, þó að lög þess héldu áfram að vera í gildi flest hver.

* Þetta er reyndar nafn á bók, þýzkri og íslenzkraðri, eftir réttarfræðinginn dr. Konrad Maurer, einn af mikilvægustu stuðningsmönnum Jóns Sigurðssonar.

Jón Valur Jensson, 8.6.2010 kl. 16:01

12 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ef gyðingar eru þjóð.. og kalla sig ísraela Jón Valur þá geta Bedúinar og þeir arabar sem búa á sama svæði gert tilkall til þess að vera kallaðir palestínumenn enda gera þeir það sjálfir.. eða ferðu í manngreinar álit ?

Óskar Þorkelsson, 8.6.2010 kl. 16:22

13 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Bedouins - já svona fara israelarnir með þá.  Það er ekki hægt að ljúga uppá israelana.  Yfirgangurinn og grimmdin svo óskapleg.  Eðlilega enda ríkið planað þannig að það átti að stela landinu af fyrri íbúum og stofna Zionistaríki.  Og þeir vðurkenna ekki einu sinni að palestínumenn séu til!  Halló.  Hvað þá að þeir eigi rétt á landi eða ríki. Skiljanlega enda hugmyndin að stela því öllu og útrýma fyrri íbúum eða loka þá inní fangahólfum/gettóum:

http://www.youtube.com/watch?v=Ol8VWdBOuJU

Og nei, island var aldregi sjálfstætt ríki.   Þó þeir mynduðu þing eins og gert var af nojurum almennt þá hefur að ekkert með sjálfstætt ríki að gera.

Þegar heimildir eru um að íbúar landsins hafi kallað sig ísendinga og ef aðrir gerðu það - þá var það í svipaðri eða sömu merkingu og þegar vestfirðingar kalla sig vestfirðinga.  Það hefur ekkert að gera með að Vestfirðir séu sér ríki eða innbyggjarar þess svæði.

Sem sagt, að ti forna var það hugsað og skilið sem Norðmenn/norræna menn búsetta á Íslandi.  Allt og sumt.

Íslendingar fóru ekki að líta á sig sem sérstaka þjóð sem ætti að vera sér ríki fyrr enn - bara í fyrradag nánast. Þá var það diktað uppúr tískustraumum í evrópu.

Svo er nú það.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.6.2010 kl. 16:53

14 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

 "Ég var ekki að segja, að Palestínuríki geti ekki orðið til, þótt það hafi ekki verið það árið 1900 né nokkurn tímann í sögu islams á svæðinu."

Hverjir bjuggu í landinu Jón Valur áður en Abraham ættfaðir gyðinga sem bjó í Írak nam land sem var þá kallað á hans máli Kanaanland,?  Gyðingar nefndu landsvæðið Ísrael en Egyptar kölluðu það þá Djahy. 

Voru frumbyggjarnir Kanaanlands þjóð og áttu þeir sér ekki ríki?

Er það ekki rétt Jón Valur að um sama leiti og Sál verður konungur yfir Gyðingum í Ísrael um þúsund árum f.k.  koma filistear frá suður Grikklandi og setjast að á Gaza strönd.

Voru filistear ekki þjóð og grundvölluðu þeir sér ekki ríki og er ekki nafnið Palestína af þeim dregið?

Og hverrar þjóðar var fólkið sem bjó í landinu eftir að Gyðingar voru hraktir þaðan og gerðir landlausir af Ítölum á fyrstu öld e.k. þegar svæðið var kallað Júdea og eftir það Syria Palaestina?

Var það þjóð eða eitthvað annað sem bjó í landinu á tímum Austrómverska keisaradæmisins þegar lönd Sýríu–Palestínu, Samaríu og Galíleu voru sameinuð og gefið nafnið Palestína?

Eða voru þetta eftir allt saman bara "einhverjir arabar" eins og Ómar Bjarki orðar það?

Svanur Gísli Þorkelsson, 8.6.2010 kl. 17:31

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, Óskar, bedúínarnir geta vel kallað sig Palestínumenn. En sem heildstæð, mótuð þjóðareining má heita, að sú Palestínuþjóð, sem nú á heima á Vesturbakkanum og Gaza, hafi í meginatriðum orðið til á 20. öld.

Ómar Bjarki talar um, að Gyðingar hafi ætlað að "stela landinu af fyrri íbúum og stofna Zionistaríki," en í 1. lagi var zíonismi í þeirra huga ekki öfgastefna (sem er merkingin í huga margra núna), heldur eingöngu sú stefna að stofna til byggðar í hinu forna ættarlandi Gyðinga, vissulega í þeirri von, að þeir gætur fengið heimastjórn. Í 2. lagi var ekkert land eða ríki í þjóðréttarlegum skilningi tekið af fullvalda þjóð á því svæði. Í 3. lagi var land í merkingunni jarðnæði og landspildur ekki tekið af fyrri íbúum, heldur keypt að hluta af tyrkneskum eigendum þeirra jarða (stór hluti þeirra átti heima í Istanbúl), en sumt (minna) tekið yfir frá Bretastjórn við stofnun lýðveldisins Ísraels og eitthvað minna keypt af öðrum. Palestínskir bændur voru yfirleitt ekki sjálfseignarbændur.

En sennilega er ég að reita Ómar Bjarka til reiði með því að segja satt!

Ekki tekur skárra við hjá honum, þegar hann fer að ræða um Ísland. Nánast einn manna hérlendis hyggur hann, að Ísland hafi aldrei verið sjálfstætt ríki fyrir 1918. Hvernig gat landið þá gert milliríkjasamning á 11. öld? Og ef landið var norskt land, hvernig víkur því þá við, að áður en Noregskonungur komst yfir landið, „kallaði [Vilhjálmur kardínáli af Sabína] það ósannlegt, að land það þjónaði eigi undir einhvern konung sem öll önnur í veröldinni," eins og frá segir í Hákonar sögu gamla?

Þykist Ómar þessi Bjarki allt vita betur en miðaldasagnfræðingar hérlendir og um allan hinn lærða heim?!

Jón Valur Jensson, 8.6.2010 kl. 17:36

16 Smámynd: Rebekka

"Öll gagnrýni á verk ríkisstjórnar Ísraels er litið á sem Gyðingahatur."

Þessi setning er reyndar röng, en ekki útgáfa Svans af henni .  Forsetningin "á" í "er litið á" stýrir hérna þolfallinu á "alla gagnrýni".  Orðaröðin er samt pínu klaufaleg, kannski hefði verið betra að segja "Litið er á alla gagnrýni á verk ríkisstjórnar Ísraels sem Gyðingahatur".

Gætum við ekki bara talað aðeins meira um málfræði frekar en Ísrael - Palestínu?  

Rebekka, 8.6.2010 kl. 18:13

17 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svanur Gísli, þessi vörn þín sýnist mér lítils nýt röklega séð. Kanaanítar voru vissulega í Kanaan fyrir tíma Móse og Arons, en þeir voru hraktir frá og sumir drepnir og týndust síðar í þjóðahafinu, og engin ástæða er til að telja þá fremur en t.d. Ammoníta einhvern uppistöðuþátt meðal forfeðra Palestínuþjóðar nú á dögum. Það sama á við um Filistea, og þeir voru reyndar af allt öðru þjóðerni.

Þú spyrð um það hvaða þjóð hafi byggt landið eftir eyðingu Jerúsalem árið 70 og hrakningu flestra Gyðinga úr landinu. Þar var mjög mikið af kristnum mönnum, að verulegum hluta til fólk sem fluttist þangað, frá Býzanz (Konstantínópel) og Róm meðal annars, en í landinu var þá mikil gróska og fjöldi kirkna byggður og klausturlíf í miklum blóma, áður en Arabar lögðu landið undir sig á 7. öld.

Þótt Arabar hafi borizt þangað á 7. öld, voru þeir ekki stórt hlutfall fólksins þar, er fram í sótti, og Palestínumenn eru í raun afar blandaðir, m.a. af sýrlenzkum og íröskum uppruna. Þótt þeir tali arabísku, gerir það þá ekki upprunalega séð að öllu eða mestu leyti arabíska. Samt hefðu þeir vel getað samlagazt einni eða fleiri þjóðum þar í kring eftir stofnun Ísraels, enda talandi á sömu tungu og trúandi á sama guð.

Jón Valur Jensson, 8.6.2010 kl. 18:21

18 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Og eru kristnir menn nú allt í einu orðnir sér- Þjóð Jón Valur?

Sannleikurinn í þessu er að það bjuggu sömu ættbálkar, sömu ættkvíslirnar, sömu þjóðir í Palestínu eftir árið 70 e.k. og búa þar nú, að viðbættum Gyðingum sem snúið hafa til baka.

Í gegnum tíðina hafa íbúar þessa lands dýrkað Baal, Jehóva, Krist og Múhameð og einhverja fleiri sem ég kann ekki að nefna.

Þetta er fólk af sama meiði og fólkið sem bjó þarna þegar Abraham kom og eins og þér er kunnugt um eru arabar af sama meiði og gyðingar,  semetískar systur ættkvíslar, báðar afkomendur Abrahams ef Kóran, Nýja og Gamla testamenti sal trúað.

Að ræða um rétt einnar þjóðar að byggja þetta land umfram aðra, er eins og að segja að einn kynþáttur eigi meiri rétt til að byggja jörðina umfram annan.

Svanur Gísli Þorkelsson, 8.6.2010 kl. 18:48

19 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei, þetta er ekki svona einfalt, Svanur Gísli, nema hvað rétt er, að þarna hafa verið semítískar þjóðir í meirihluta. Nóg pláss á að vera í þessum heimshluta fyrir allt það fólk, sem þarna er, og óþarfi að reyna að gera rétt Ísraelsmanna til viss lands, sem þeim var úthlutað, eitthvað afstæðan. Þjóðréttarlega séð er hann það ekki.

Jón Valur Jensson, 8.6.2010 kl. 20:30

20 identicon

GYÐINGAR ERU LÍKA PELSTÍNUMENN

Það eru til palestínskir gyðingar (m.a. við Nablus á Vesturbakkanum).
Hér erum við ekki að tala um aðflutta landræninga/landsetumenn.

Gyðingar eru á þingi Palestínumanan og hafa verið innan PLO.

Fyrir tíð Zíonismans (sem gekk út á að stofna sérríki gyðinga í einhverju landi, úr varð í Palestínu) bjuggu palestínskir gyðingar, kristnir og múslimar í sátt og samlindi.

Randver (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 10:57

21 identicon

Ætli sé til eitthvert fræðiheiti yfir þá tegund ruglunnar sem reynir að réttlæta þjóðernishreinsanir með þeim rökum að hinir undirokuðu hafi ekki verið nógu duglegir að sinna landbúnaði?

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 21:04

22 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Merkilegt að fólk beri við biblíulegum heimildum og ímyndun um að Palestínumenn hafi aldrei verið þjóð til að réttlæta landupptöku, eignaupptöku/þjófnað og fjöldamorð. Eins og maður þurfi endilega að teljast hluti einhverrar þjóðar til að eiga land eða hús á ákveðnu svæði. Hvað þá að þjóð sem aldrei hefur verið þjóð með land eins og gyðingar geti rekið fólk af svæði sem það á án þess að vera að brjóta lög.

Þú getur þvælt eins og þú vilt Jón Valur um biblíuskáldsögur, staðreyndin er að fólk átti þar og bjó á landi sem það var rænt - sem því var úthýst af - af kynþáttahatri og trúarofstæki. Hefurðu enn samvisku til að bera árþúsundgamlar sögusagnir fyrir þig um hver bjó hvar þegar erfitt er að átta sig á landamörkum og réttindum hér á landi fyrir aðeins 100 árum?

Þreytandi að lesa svona herferð til málsbóta þeim sem fremja morð og rán.

Eigum við kannski að fara að tala um Persaríki eða Egypta sem réð þarna lögum og lofum áður en gyðingar höfðu nokkra þjóðernisvitund og bjuggu bara í nokkrum borgarríkjum sem stríðsherrar/"strong men" undir vernd faraóanna. En nei, það eru bara þjóðsögur og sagnfræðiskáldskapur? Við ættum ekki að styðjast við slíkt í stefnumótun í nútímanum...

Rúnar Þór Þórarinsson, 10.6.2010 kl. 13:44

23 Smámynd: Jón Valur Jensson

Persar og Egyptar hafa aldrei búið sem þjóðir eða þjóðabrot í landinu helga. Margar þjóðir eða ríki hafa ráðið landinu, það gæti verið hátt í heilan tug, en það er engar "biblíuskáldsögur", að þar bjó vel á annað árþúsund þjóð Ísraelsmanna og síðar einungis eða fyrst og fremst Gyðingar, enda er Biblían ekki skáldskapur (þótt skáldskapur sé reyndar notaður í Ljóðaljóðunum), og fyrir utan að vera trúar- og kennslurit eru þar ýmis sagnfræðirit, t.d. Konungabækur, Kronikubækur, Makkabeabækur og Postulasagan, og þar fyrir utan er tilvist þjóðarinnar vitaskuld þekkt og staðfest í öðrum sögulegum heimildum, m.a. Grikkja og Rómverja, og í fornleifafundum.

Ég er ekki haldinn neinni "ímyndun um að Palestínumenn hafi aldrei verið þjóð," en heimild mín fyrir því, að Palestinian identity (sjálfsvitund Palesínumanna um sig sem einingu eða þjóð) sé ekki að verða til fyrr en á 19. og einkum 20. öld, er ekki fengin úr eigin kolli, heldur úr samnefndri bók eftir palestínskan fræðimann.

Fólkið palestínska, sem hraktist af jörðum sínum, var ekki rænt þeim, því að í 1. lagi var það yfirleitt ekki eigendur þeirra, og í 2. lagi var sumt af því svipt ábúðarrétti sínum, sem er vissulega réttarbrot, en annað af því fólki yfirgaf jarðir sínar án þess að vera beinlínis hrakið þaðan af Ísraelsmönnum. Um hlutföllin þar á milli skal ég ekki fullyrða (sbr. orðaskipti okkar Hjálmtýs V Heiðdal í lok fróðlegrar umræðu á eftir pistli mínum Óraunsær blaðamaður vill Ísraelsmenn burt úr Landinu helga.

Jón Valur Jensson, 10.6.2010 kl. 14:23

24 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svo hef ég alls ekki verið að réttlæta nein fjöldamorð, bara svo að það kmi sk´rt fram.

Jón Valur Jensson, 10.6.2010 kl. 14:24

25 Smámynd: Jón Valur Jensson

... komi skýrt fram!

Jón Valur Jensson, 10.6.2010 kl. 14:25

26 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Aha! Jón Valur!

Ég sá rétt í þessu að þú bannaðir mig frá síðunni þinni fyrir að reyna að vekja þig til umhugsunar um hvað það þýðir þegar þú réttlætir kúgun, rán og fjöldamorð með allskyns trúarskotnu mati á um löngu liðnum atburðum.

Þegar ég segi: "Sækjast að sér um líkir." Þá er tilgangurinn með því að vekja þig til umhugsunar hvað skrif þín til handa Ísraelsmönnum segja um sjálfan þig, einmitt VEGNA ÞESS að við vitum að sækjast að sér um líkir. Og ekki stóð á viðbrögðunum! 

Ekki kalla ég þig kúgara og morðingja enda þekki ég þig aðeins af skrifum þínum. En einmitt út skrifunum spyr maður sig - Mundi Jón Valur ekki bregðast við með sama ofbeldi og óréttlæti væri hann Ísraelsmaður? Mér sýnist það einmitt og eins og ævinlega þykir mér alveg einstaklega leitt að vita af svona ofstæki norður undir heimskautsbaug.

Aðra lesendur bið ég afsökunar á þessum útúrdúr hér, en herferð Jóns Vals gegn minnimáttar er svo sorgleg og þótt hann geri sér ekki grein fyrir því beinist hún fyrst og fremst gegn honum sjálfum. Því hvet ég hann til að líta í eigin barm.

Rúnar Þór Þórarinsson, 10.6.2010 kl. 14:37

27 Smámynd: Jón Valur Jensson

Með "mati" mínu á löngu liðnum sögulegum atburðum var ég að sjálfsögðu ekki að "réttlæt[a] kúgun, rán og fjöldamorð," heldur eingöngu að taka undir með traustri niðurstöðu sagnfræðinnar um tilvist hins forna Ísraels og Júda-lands. Ofurmæli Rúnars Þórs, skrifuð í hasti án mikillar umhugsunar, segja ýmislegt um hann sjálfan, en ekkert um mig, nema hvað rétt er, að ég varð að útiloka hann frá síðu minni.

Jón Valur Jensson, 10.6.2010 kl. 14:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband