1.5.2010 | 01:18
Eyjamolar
Vestmannaeyjar og sér í lagi Heimaey, er að mínu áliti merkasti staðurinn á Íslandi. Bæði í jarðfræðilegu og sögulegu tilliti eiga Vestmannaeyjar ekki sinn líka á Íslandi og eru að margra mati einstæðar í heiminum. Fyrir þessu mati liggja margar orsakir sem allar leggjast á eitt. Ætlunin er að tilfæra hér nokkrar.
Til að byrja með er Heimaey afar ung og verður svo að segja til um það leiti sem fyrstu merki um siðmenningu mannsins koma fram.
Í lok síðustu ísaldar fyrir rúmum 11.000 árum, þegar að mennirnir voru rétt að byrja að stunda akuryrkju suður í Mesópótamíu og mynda með sér samfélög, urðu nokkur eldgos suður af Íslandi undir jöklinum sem enn lá yfir landinu. Í þessum gosum urðu til elstu hlutar Heimaeyjar; Dalfjallið, Klif, Háin, Heimaklettur, Miðklettur og Ystiklettur. 5000 árum síðar, þegar borgríki höfðu verið stofnuð víða um lönd og siðmenningin sitt hvoru megin við miðbaug var komin vel á veg, urðu aftur gos á svipuðum slóðum sem mynduðu Stórhöfða, Stakkabótina og nokkru síðar Helgafell. Hraun úr Helgafelli tengdi Stórhöfða og Sæfjall við Dalfjall og myndaði eyjuna eins og hún var fram til 1973. Þá bættist við Heimaey í gosinu sem hófst 23. janúar 1973 og þá stækkaði eyjan um 2,2km², en nýja hraunið þekur alls 3,3km².
Elstu hlutar Heimaeyjar eru að mestu gerðir úr Móbergi, enda bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu. Lengi var talið að það tæki Móberg langan tíma að harðna og verða til og þess vegna kom það nokkuð á óvart þegar í rannsóknum á Surtseyjargosinu 1963 kom í ljós að í 80-100 °C heitum borholum hafði gjóska ummyndast í hart móberg á aðeins einu til tveimur árum en jafnvel enn hraðar við hærri hita.
Fuglalíf við eyjar er afar fjölbreytt og þar m.a að finna stærstu lundabyggðir í veröldinni.
Telja má víst að Ísland hafi komist oftast í heimspressuna vegna atburða sem tengjast Vestmannaeyjum.
Fyrst var það árið 1963 þegar að Surtsey reis úr hafi ásamt nokkrum smáeyjum sem síðan sukku aftur.
Þá vakti gosið á Heimaey 1973 einnig heimsathygli. Í því gosi reyndu menn í fyrsta sinn í sögu heimsins að stöðva og breyta hraunrennsli frá virkum eldgígum með raunhæfum aðgerðum.
Síðast var það koma háhyrningsins Keikó til Heimaeyjar 1998 sem greip athygli umheimsins. Hvalnum var flogið til eyjarinnar með Hercules hergagna-flutningavél sem svo braut á sér annan hjóla-útbúnaðinn í lendingu og festist á miðjum flugvellinum í tvo daga
Lengi hefur skráð saga Vestmannaeyja verið tengd fyrstu landnámsmönnunum, þeim fóstbræðrum Ingólfi og Hjörleifi. Eyjarnar eru sagðar nefndar eftir írskum þrælum Hjörleifs sem Ingólfur drap alla á Þrælaeyði, nema foringja þeirra Dufþak. Hann er sagður hafa hlaupið á flótta undan Ingólfi fram af Heimakletti þar sem nú heitir Dufþekja.
Lítið hefur verið sett út á þessa sögu þótt bent hafi verið á að Írar hafi alls ekki verið kallaðir Vestmenn af Normönnum, heldur aðeins þeir norrænu menn sem sest höfðu að vestan Danmerkur, þ.e. í Setlandseyjum, Orkneyjum, á Mön eða á Írlandi. Ef að eyjarnar hefðu verið byggðar norrænum mönnum þegar Ingólfur nefndi þær, á nafnið alveg við. Reyndar bendir margt til að svo hafi verið.
Sumarið 1971 hóf Margrét Hermanns Auðardóttir, fornleifafræðingur, ásamt öðrum sérfræðingum, uppgröft í Herjólfsdal. Niðurstöður hennar og aldursgreiningar á fornleyfum af staðnum enda til þess að byggða hafi verið í Eyjum allt að 200 árum fyrr en haldið er fram í sögubókum.
Páll Theódórsson, eðlisfræðingur, hefur rýnt í þessa vinnu og fleiri aldursgreiningar og sagt niðurstöðu þeirra og nýrra aldursgreininga breskra og bandarískra vísindamanna, sýna nærri óvefengjanlega, að landnám hófst á Íslandi tveimur öldum fyrr en almennt er talið, eða um árið 670.
Vestmannaeyjum tengjast ýmsir atburðir í sögu landsins og jafnvel heimsins sem ekki er oft getið um. Verið getur að mörgum þyki heimildirnar eða ályktanir dregnar af þeim séu of veikar til að halda mikið á lofti.
Landnáma segir að Herjólfur Bárðarson hafi numið Vestmannaeyjar fyrstur manna. Í Grænlendingasögu segir frá alnafna hans sem bjó skammt frá Eyrarakka og sem sagður er hafa siglt með Eiríki Rauða til Grænlands. Bjarni Herjólfsson sonur hans hafði þá verið í siglingum og ætlaði á eftir föður sínum til Grænlands. Hann villtist af leið og fann land í vestri. Seinna segir hann Leifi syni Eiríks frá þessu en Leifur er sagður hafa fyrstur vestrænna manna tekið land í Norður Ameríku.
Í febrúarmánuði árið 1477, fimmtán árum fyrir sögufræga siglingu sína yfir Atlantsálaárið 1492, kom ítalskur sæfari að nafni Kristófer Kólumbus til Íslands. Frá þessu segir í ævisögu hans, sem á frummáli heitir Historia del Almirante Don Cristóbal Colón og var skrifuð af syni hans Ferdinand Kólumbus nokkru eftir dauða "Cristobals".
Ævisöguna skrifaði sonurinn m.a. sem andsvar við tilraunum spænsku krúnunnar til að gera lítið úr hlut Kólumbusar í landafundunum miklu. Sú rimma snerist, eins og svo margar aðrar, um tilkall til valda og auðæfa. Leiðangur Kólumbusar var farinn með fulltingi Ísabellu drottningar af Spáni með samkomulagi um verulega upphefð Kólumbusi til handa ef leiðangurinn bæri árangur.
Afkomendur hans höfðu hins vegar verið þvingaðir til að afsala sér þeim forréttindum að miklu leiti. Það er athyglisvert að ein af rökum spænsku krúnunnar í því máli voru að Kólumbus hefði fengið hugmyndina að leiðangri sínum hjá öðrum, sem vekur spurningar um hvort slíkur orðrómur hafi verið á kreiki á þeim tíma?
Í stuttri frásögninni lýsir Kólumbus Íslandi sem eyju jafn stórri og Englandi og gefur upp sínar mælingar á staðarhnitum. Hann segir að Englendingar sigli þangað með vörur sínar, einkum frá Bristól. Hann segir að sjórinn við landið hafi ekki verið frosinn þegar hann var þar en öldur hafi verið ógnarháar. Kólumbus skrifaði þennan stutta texta, ásamt fleiri svipuðum, til að sýna að hann hefði víða farið og hafi verið fullfær um að leiða leiðangurinn yfir Atlantshafið til að leita Indíum.
Eins og margt annað sem haft er eftir Kólumbusi er frásögn hans af heimsókn hans til Íslands frá Írlandi algjörlega út úr kú að mestu leyti. Staðsetning hans á landinu skeikar litlum 400 mílum og stærðin er stórlega ýkt. En að einu leiti hefur hann rétt fyrir sér, enskir kaupmenn frá Bristól sigldu til og frá landinu með varning. Ýmsir telja í dag að Kólumbus hafi komið að Rifi á Snæfellsnesi með Englendingum, en þeir sigldu gjarnan þangað, hæfilega langt frá dönsku valdi sem kærði sig lítið um að þeir væru að stunda hér verslun. Hinn möguleikinn er að hann hafi komið til Vestmannaeyja þar sem enskir kaupmenn versluðu með saltfisk, lýsi og vaðmál. Þaðan getur Kólumbus hafa siglt í kring um landið á minni fiskiát og síðan til baka með kaupfari til Írlands.
Víst er að landi hans John Cobott kom við í Vestmannaeyjum á ferðum sínum um norðurhöf áður en hann fékk leyfi Bretakonungs til að kanna ókunn fiskimið strendur Nýfundnaland 1495-6. John og Kólumbus áttu reyndar sameiginlegan vin í Englandi og til eru nokkur sendibréf frá honum stíluð á Kólumbus. Sumir segja að Kólumbus og Cabott hafi verið afar góðir vinir en að Cabott hafi afrekað það fram yfir Kólumbus að stíga fæti á Ameríska meginlandið.
Eins og allir vita gerði hollenski sjóræninginn Jan Janszoon, einnig þekktur sem Murat Reis, strandhögg í Vestmannaeyjum árið 1627. Strandhöggið er oftast nefnt Tyrkjaránið. Um ránið og afdrif sumra þeirra sem rænt var hafa varðveist nokkrar upplýsingar.
Minna fer fyrir upplýsingum um atburði sem áttu sér stað í Vestmannaeyjum 1614 þegar flokkur sjóræningja dvaldi á Heimaey í 20 daga samfleytt við rán og gripdeildir. Ef til vill vegna þess að þessir kumpánar drápu enga, þóttu ránin varla heyra til tíðinda, alla vega bliknuðu þau alveg fyrir Tyrkjaráninu 13 árum seinna.
Kláus lögréttumaður Eyjólfsson (1584-1674) skráði frásagnir af Tyrkjaráninu. Hann var um tíma sýslumaður í Vestmannaeyjum Þar segir nánar af ýmsum fyrirburðum á himni og á jörð. Þau teikn sem sáust áður en þessir morðlegu Tyrkir ræntu í Vestmannaeyjum og Austfjörðum voru:
Ein hræðileg ókind með síðum hornum, er gekk úr sjónum lifandi þar upp á eyjarnar, aktandi ei fallstykki, spjót og lensur. Hún sást þar og áður það fyrra Vestmannaeyjarán skeði af Jóhann Gentelmann, hver þar rænti, en enginn var þó drepinn, svo eg viti, en rændir voru þeir eignum sínum.
Á þessum tíma gengu sjóræningjar undir mörgum nöfnum. Eyjamenn muna þennan Jóhann undir nafninu John Gentelman eða Jón Herramann. Réttu nafni ku maðurinn hafa heitið James Gentleman og félagi hans, einnig kunnur stigamaður frá Englandi, Williams Clark.
Í júní 1614 komu þessir ensku sjóræningjar til Heimaeyjar. Áður höfðu þeir rænt tveimur dönskum skipum út fyrir eyjum. Þeir fóru síðan ránshendi um Vestmannaeyjar í tvær vikur . Seinna sama ár voru þessir ræningja-herramenn handsamaðir, dæmdir og hengdir í Englandi, m.a. fyrir rán sín í Vestmannaeyjum.
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkar: Bloggar, Ferðalög, Menning og listir | Breytt s.d. kl. 01:26 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir, alltaf jafn góður penni og fræðandi.
Björn Jónsson, 1.5.2010 kl. 02:19
Þakka innlitið Björn :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 1.5.2010 kl. 13:26
Takk fyrir skemmtilegan pistil
Gunnar Th. Gunnarsson, 1.5.2010 kl. 13:33
Takk fyrir mjög fróðlega grein Svanur.
Hannes, 1.5.2010 kl. 13:55
Þetta var ljúfur og skemmtilegur pistill Svanur.Takk fyrir hann.
Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 1.5.2010 kl. 14:48
Þakka móttökurnar Gunnar, Hannes og Ragna :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 1.5.2010 kl. 15:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.