Nauðgunum beitt sem vopni

y196213869640110

"Árásin var gerð að nóttu til og við neyddumst til að flýja inn í skóginn" sagði hún og rödd hennar varð að hvísli. "Fjórir menn tóku mig. Þeir nauðguðu mér allir. Þegar þetta gerðist var ég komin níu mánuði á leið."  Hún heitir Vumi og hún er svo illa farin eftir þessa atburði að hún heldur hvorki saur né þvagi.

Ár eftir ár berast sömu hörmungarfréttirnar frá Kongó. Þar berst stjórnarherinn ásamt fjölþjóðlegu liði Sameinuðu Þjóðanna gegn "frelsisher Rúanda", sem samanstendur af Hútúa hermönnum sem flúðu yfir til Kongó þegar að Tútsi menn komust til valda í Rúanda eftir þjóðarmorðið sem í landinu var framið árið 1994.

Fjöldi ránshópa veður uppi í austurhluta landsins þar sem einnig má finna þorp kongóskra Tútsi manna. Þá eru enn á ferðinni leifar af kóngóskum vígasveitum frá því að borgarastyrjöldinni lauk í landinu árið 2003 og ekki hafa viljað ganga til liðs við ríkisherinn.

Eitt af vopnum hermannanna eru nauðganir og limlestingar kvenna. Skelfilegum nauðgunum og misþyrmingum er beitt til að vana konurnar og gera þær um leið að fórnarlömbum eigin ættmenna sem oft fyrirlíta þær eftir að þeim hefur verið nauðgað. Engu skiptir hvort um er að ræða stúlkur á barnsaldri eða gamalmenni. Jafnframt er eggvopnum og kylfum beitt á þann veg að bæði leg og meltingarkerfi kvennanna er eyðilagt.

201052671Oft eru konur neyddar til samræðis og eiginmönnum þeirra og fjölskyldu gert að horfa á aðfarirnar.

Það sem af er þessu ári hafa hátt á sex þúsund konur leitað sér aðstoðar í sjúkraskýlum og sjúkrahúsum landsins og gengið þar undir alvarlegar aðgerðir.

Læknar í Goma borg telja að 400 konum sé nauðgað og misþyrmt í Kongó á hverjum degi og aðeins komi hluti þeirra strax undir læknahendur. Margar sýkjast af HIV verunni sérstaklega þær sem hafa þurft að þola hópnauðgun.

Fjöldi kvenna sem þurfa að þola þessar pyntingar eykst með hverju ári án þess að nokkur fái að gert.

Kongó er á stærð við Vestur Evrópu og þar ganga ekki lestar né hafa vegir verið lagðir um stóra hluta landsins og aðstæður þar því afar erfiðar.

Hundruð þúsunda austur Kongóbúa eru á vergangi og á flótta frá átakasvæðunum en búðir þeirra eru algjörlega varnalausar gegn vel vopnuðum sveitum vígamanna.

 


mbl.is Gífurlegur fjöldi nauðgana í Kongó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eygló

Af hverju helgast þessar aðferðir í hernaði og stríði víðsvegar um heim?  Hver er "meiningin"?  Ekki getur þetta flokkast undir kynlíf?  Hvað rekur mann til að hafa samræði við stúlkur og konur á öllum aldri, og það úr hópi "óvinanna"?

Er þetta bara til að sýna hver hefur valdið? Og af hverju þá með nauðgun?

Ég geri svo sem varla ráð fyrir að fá svar, en kannski hefur einhver skárri skýringu en ég hef skilning.

Eygló, 23.10.2009 kl. 05:05

2 identicon

Mannskepnan er svo sorgleg.... stundum skammast maður sín :(

DoctorE (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 11:07

3 identicon

Sumum finnst að kvenréttindabaráttunni sé nú u.þ.b. lokið, konur geti gert það sem þær vilja og feministar séu bara ofdekraðar og ljótar vælukjóamussukjellingar.

Staðreyndin er hins vegar sú að sjaldan í sögunni hafa konur átt jafn erfitt uppdráttar. Nauðgunum á konum fyrst og fremst, og pyntingum því tengdu er miskunnarlaust beitt til að niðurlægja andstæðinga í stríðsrekstri og mansal/kynlífsþrælkun eins og nú hefur teygt anga sína til okkar jafnréttissinnaða lands er óhugnanlega stórt vandamál.

Mansal þrífst á því að það er nóg af kaupendum, í langflestum tilvikum karlar sem eru tilbúnir að niðurlægja konur.

Hulda (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 17:21

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Eygló. Varðandi spurningar þínar, er verið að niðurlægja þær, fjölskyldu þeirra og ættbálk og afmennska þær í leiðinni. Það er verið að tryggja að þær geti ekki eignast börn og eyðileggja þannig framtíð þeirra. Þessi aðferð (nauðgun og eyðilegging á legi og leggöngum) er bæði líkamlegt, sálrænt og félagslegt vopn.

Sammál þér DoctorE.

Það var einmitt tilgangur þessarar greinar, að benda óbeint á það sem þú segir Hulda. Takk fyrir það.

Svanur Gísli Þorkelsson, 23.10.2009 kl. 18:59

5 identicon

Takk fyrir að minna okkur á þessa sorglegu staðreynd. Maður veit þetta en ýtir þessu til hliðar. Man hvað ég var miður mín lengi eftir að hafa farið á Píkusögur sem að tóku á þessu málefni.

Heiða (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 00:19

6 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Grimmd mannsins er meiri en grimmustu rándýra merkurinnar.  Það er staðreynd. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.10.2009 kl. 00:24

7 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Þvílik grimmd.      

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 24.10.2009 kl. 10:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband