13.10.2009 | 03:43
Heimsfræga konan á Heiðarveginum
Fljótlega eftir að ég kom fyrst til Keflavíkur (1962) , byrjaði ég að bera út Moggann. Gísli Guðmundsson afi minn vann hjá Skafta í efnalauginni á Hafnargötunni og hann var einmitt umboðsmaður Morgunblaðsins. Þar með átti ég hauk í horni sem hjálpaði mér að fá starfið. Það fylgdi djobbinu að rukka fyrir áskriftina og þess vegna kynntist ég flestum "viðskiptavinum" mínum lauslega, þótt fæstir þeirra væru á ferli laust fyrir klukkan sjö á morgnanna þegar ég skaust upp að húsdyrunum til að troða blaðinu inn um bréfalúguna eða festa það milli stafs og hurðahúnsins.
Í litlu ljósgrænu húsi við Heiðarveginn sem tilheyrði því hverfi sem ég bar út í, bjó kona sem er mér afar minnisstæð. Hún kom mér fyrir sjónir sem glæsileg miðaldra kona, með rautt og mikið hár. Hún hafði þann sið að taka alltaf á móti mér við útdyrnar, gjarnan í skrautlegum náttkjól en ávalt með andlitsfarða og varalit. Oft bauð hún mér upp á mjólkurglas og kexköku sem ég sporðrenndi venjulega fyrir framan hana á dyrapallinum, áður en ég hljóp svo aftur af stað. Satt að segja vissi ég ekki hvað ég átti að halda um hana því lyktin heima hjá henni var líka miklu betri en ég átti að venjast í öðrum húsum.
Einhverju sinni var móðir mín að fara yfir rukkunarheftið og rak þá augun í nafn þessarar konu. Henni þótti greinilega talsvert til hennar koma því hún fræddi mig á því að hún væri "heimsfræg" fyrir söng sinn. Sérstaklega tíundaði hún að þessari konu hefði einni allra Íslendinga verið boðið að syngja við Metropolitanóperuna í New York. Ég man að mér þótti þetta nokkuð merkilegt og var talvert upp með mér um tíma fyrir að bera út moggann til frægustu söngkonu Íslands, frú Maríu Markan.
Eitt sinn þegar ég fór að rukka hana að kvöldlagi kom til dyranna stálpaður unglingur með rauðan lubba. Hann náði í mömmu sína og samskipti okkar urðu ekki meiri. Þarna mun hafa verið á ferð sonur Maríu, sá sem síðar varð einhver besti og þekktasti trymbill Íslendinga, Pétur Östlund.
Pétur segir einmitt þetta um dvöl sína í Keflavík;
Það var árið 1957. Ég var 14 ára, bjó í Keflavík og gekk í skóla uppá velli (innsk.: "völlurinn" er fyrrum herstöðin á Keflavíkurflugvelli). Ég hafði ekkert að gera og var að þvælast í svokölluðum "Service Club" og sá auglýsingu um ókeypis trommukennslu og skráði mig í það. Fyrsti kennarinn minn hét Gene Stone. Hjá honum fékk ég kjuðapar og æfingaplatta og þá var ekki aftur snúið. Atvinnumannaferill minn hófst um 16 ára aldur og ég hef starfað við trommuleik og trommukennslu allar götur síðan.
Mér er ekki kunnugt um hversu mikinn þátt María átti í mótun tónlistarlífsins í Keflavík á þessum árum, fyrir utan að vera móðir Péturs sem verður að teljast þó nokkuð. Pétur spilaði með keflvískum hljómsveitum eins og Hljómum og Óðmönnum við góðan orðstír. En eitthvað hefur hún lagt sig eftir að kenna og leiðbeina keflvískum ungmennum því á heimasíðu hins frábæra dægurlaga söngvara Einars Júlíussonar sem frægur varð fyrir söng sinn með hljómsveitinni Pónik, fann ég þessa frásögn;
Þegar rokkæðið skall á Íslandi var Einar Júlíusson þegar orðinn barnastjarna í Keflavík. Hann fæddist þar, yngstur systkina sinna, 24. ágúst 1944 og var farinn að syngja opinberlega áður en hann fór í barnaskóla. Svo skemmtilega vildi til að í sama bekk og hann var annar upprennandi tónlistarmaður; Þórir Baldursson.
Á unglingsárunum bauðst Einari óvænt söngnám hjá Maríu Markan sem á þessum árum bjó í Keflavík. Einar hafði það fyrir sið þegar illa lá á honum að setjast í róluna á róluvellinum, þar rólaði hann sér og söng hástöfum, nágrönnum leiksvæðisins til dægurstyttingar sem öllu jafna fannst gaman að heyra þessa björtu og hljómfögru söngrödd. María Markan átti einhverju sinni leið hjá og bauð hún Einari að koma til sín í tíma án endurgjalds. Einar var hins vegar of feiminn til að þiggja boðið og sagði síðar frá því að þar hefði hann farið illa að ráði sínu.
Um merkiskonuna Maríu er ekki margt að finna á netinu en endurminningar hennar voru gefnar út af Setberg árið 1965 og ritaðar af Sigríði Thorlacíus. Eftirfarandi æviágrip eru tekin úr Tónlistarsögu Reykjavíkur.
María Markan er fædd í Ólafsvík 25. júní 1905. Hún er systir Einars og Sigurðar Markan söngvara og Elísabetar, sem einnig er kunn söngkona. María Markan lærði að syngja hjá Ellen Schmücker í Berlín frá 1928 og nær óslitið til 1935. Hún hélt fyrstu sjálfstæðu tónleika sína í Berlín 16. febrúar 1935 með undirleik prófessors Michaels Raucheisen, sem er frægur píanóleikari og mjög eftirsóttur undirleikari. Hún vann þá mikinn sigur. Hún var ráðin að Schilleróperunni í Hamborg 1935, og söng þar frá því um haustið til næsta vors, en þá rann samningurinn út. Fór hún Þá aftur til Berlínar og hélt áfram í tímum hjá sínum gamla kennara, Madame Ellen Schmücker. Síðan var hún ráðin að óperunni í Zittau, skammt frá Dresden, og var það árssamningur. Forráðamenn óperunnar vildu endurnýja samningin annað ár til viðbótar, en því boði hafnaði María, og fór hún þá aftur til Berlínar vorið 1937. Valt nú á ýmsu hjá henni eins og gerist og gengur í lífi listamanna, sem ekki hafa unnið fullnaðarsigur, og varð henni ljóst, og reyndar sagt það af sjálfum forstjóra Berlínaróperunnar, að það eitt myndi hamla því, að hún kæmist í fremstu röð söngvara í þýskalandi, að hún væri útlendingur.
En brátt fór að vænkast hagurinn. Hún söng á norrænni viku í Kaupmannahöfn 1938 og ennfremur greifafrúna í Brúðkaupi Figarós eftir Mozart í konunglega leikhúsinu þar í borg. Fritz Busch, hljómsveitarstjórinn heimsfrægi, hafði fengið augastað á söngkonunni og réð hana til að syngja þetta hlutverk í Glyndbourne-óperunni í Englandi, en þessu óperuhúsi stjórnaði hann. Þetta var mestur heiður, sem Maríu Markan hafði hlotnast fram að þessu, því valið er úr beztu söngvurum álfunnar í hvert sinn til að syngja þar. María tók við þessu hlutverki af Aulikki Rautavara, beztu söngkonu Finnlands, sem minnst verður á hér á eftir. Glyndbourne-óperan starfar á sumrin, og til skams tíma voru þar eingöngu fluttar óperur eftir Mozart, en ekki eftir önnur tónskáld.
Er heimstyrjöldin var skollin á, breyttist viðhorfið, og fór María þá til Ástralíu, skv. samningi við Ástralíuútvarpið, og söng þar í útvarp og í konsertsölum í ýmsum borgum. Henni var hvarvetna mjög vel tekið og framlengdi útvarpið samninginn við hana. Dvaldi hún ár í landinu.
Síðan lagði hún leið sína til Kanada, hélt sjálfstæða tónleika í Winnipeg og víðar, og síðan til New York. Þar var hún ráðin við Metropolitanóperuna 1941-1942. Þangað eru sjaldan ráðnir aðrir listamenn en þeir, sem hlotið hafa heimsfrægð.
Í Reykjavík hefur María Markan margoft sungið, allt frá því að hún var enn við söngnám í Berlín - hún söng þá hér heima í sumarleyfum, t.d. árin 1930, 1933 og 1938. Ennfremur söng hún hér um haustið 1946 og sumarið 1949. Undirleikarinn er Fritz Weisshappel, sem var kvæntur systurdóttur hennar. Loks söng hún hér í Þjóðleikhúsinu um veturinn 1957 í óperunni Töfraflautunni eftir Mozart. Í óperunni koma fram þrjár þernur, sem syngja saman terzetta. María söng þá hlutverk fyrstu þernunnar.
María Markan hefur háa sópranrödd, sem er í senn mikil og glæsileg. Raddsviðið er sérstaklega mikið og dýpstu tónarnir svo fagrir, að mörg alt-söngkonan mætti öfunda hana af þeim. Hér á landi á hún vinsældir sínar mest að þakka söng sínum í ljóðrænum lögum, ekki sízt íslenzkum, sem hún syngur mjög fallega. En hún er meiri sem óperusöngkona. Hin mikla rödd hennar fær fyrst notið sín til fulls í óperuaríum. Dr. Páll Ísólfsson sagði í Morgunblaðinu eftir söng hennar sumarið 1949: Mesta söngkona Íslands fram að þessu.
María Markan var gift George Östlund og var búsett í Bandaríkjunum 1940-1955. Þau hjónin fluttust heim til Íslands vorið 1955. Hún missti mann sinn í árslok 1961.
Meginflokkur: Tónlist | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:35 | Facebook
Athugasemdir
Hin skelfilegu örlög Maríu Markan voru þau að lenda í rógsmaskínu gyðinga, sem sökuðu hana um samneyti við þýska nasista. Þær ásakanir höfðu vafalaust úrslitaáhrif um frama þessarar merku söngkonu í Bandaríkjunum. Um þetta má lesa í ágætri bók Þórs Whitehead, prófessors, Íslandsævintýri Himmlers 1935-1937 (Vaka-Helgafell hf. 1998)
Gústaf Níelsson, 13.10.2009 kl. 17:44
Takk fyrir þessa færslu Svanur, hún kom virkilega frá hjartanu.
Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir, 14.10.2009 kl. 00:18
Alltaf jafn fróðlegt að lesa pistlana þína.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.10.2009 kl. 00:47
Gústaf; Takk fyrir þessa viðbót.
Jóna og Snjólaug, Takk fyrir innlitið :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 14.10.2009 kl. 02:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.