16.8.2009 | 02:10
"altzheimer" Hvað finnst þér?
Ég hef verið að velta fyrir mér bréflegum samskiptum á milli þingfólks Borgarhreyfingarinnar síðustu daga. Það er deginum ljósara að það hentar ekki öllum að vera í pólitík. Það hentar til dæmis ekki fólki sem er í eðli sínu vammlaust og heiðarlegt. Um leið og heiðarlegt fólk fer að skipta sér að hefðbundinni pólitík fer allt handaskolum.
Það þarf að læra að tala illa um fólk og reyna að læra að fara með hálfkveðnar vísur, byrja að fela fyrir ákveðnu fólki ákveðna hluti og fullvissa sig um að aðrir heyri þá. Það þarf að læra að makka og snakka, rægja og sverta án þess að það sé hægt að rekja ósóman til þess og allt þetta tekur svo lítinn tíma að læra. Þess vegna gerir heiðarlega fólkið í vissan tíma þau mistök að halda sig að hálfu við heiðarleikann um leið og það tekur upp óheilindin.
Á þessu flaskaði góður kunningi minn ekki alls fyrir löngu. Hann ýtti á vitlausan takka og bréf með einhverju ómerkilegu blaðri fór út um allt. Hann sá þá strax að pólitíkin hentaði honum ekki og sagði af sér þingmennskustarfinu sem hann hafði álpast til að taka að sér.
Tilraun Borgarahreyfingarinnar til að fara aðrar og heiðarlegri leiðir í pólitík sýnir og sannar svo að ekki verður um villst, að pólitík er ofurseld slæmum eiginleikum. Hún er í eðli sínu afl sem sundrar í stað þess að sameina og innan hennar gildir grimm samkeppni í stað samhjálpar. Hún þrífst á lygum og rógi í stað sannleika og þeirrar nauðsynjar að horfa til góðra eiginleika í fólki.
( Ef einhver velkist í vafa um að þetta sé sannleikur, ætti sá hinn sami að eiga ýtarlegt samtal við Árna Johnsen um þetta :)
Það valdist gott fólk til að sitja í þessum fjórum sætum sem Borgarhreyfingin vann sér inn fyrir á þinginu í síðustu kosningum. Samt leið ekki á löngu þangað til að það gerði heiðarlega tilraun til að selja atkvæði sitt. Pólitísk hrossakaup ganga illa fyrir opnum tjöldum, enda misstu margir álit á þingfólkinu fyrir að reyna þetta.
Sumir misstu álit sitt á þeim fyrir það hvað þau voru vitlaus að reyna þetta yfir leitt, aðrir fyrir það að reyna þetta fyrir opnum tjöldum og hafa ekki vit á að fela þetta eins og aðrir flokkar gera þegar þeir díla um atkvæði sín. Þráinn einn þráaðist við og kallaði spaða spaða eins og þeir segja um sannleikselskendur í USA og eftir það urðu til einhverjir "þremenningar" og stefna þeirra var að koma þráa manninum einhvern veginn úr þingflokknum.
Næst kemur þetta ótrúlega bréf frá Margréti um að Þráinn væri hugsanlega með "altzheimer" á byrjunarstigi. Margrét heldur greinilega að Katrín sé læknir og spyr hana; Hvað finnst þér? Margréti finnst líka voða mikilvægt að sá sem stakk því að henni að Þráinn væri kannski með "altzheimer" væri vel inn í málum hreyfingarinnar, því hún tekur það sérstaklega fram í bréfinu. Þetta kann að hafa farið fram hjá mörgum sem lásu bréfið en hefur lykilþýðingu. Ef viðkomandi hefði ekki verið "inn í málum hreyfingarinnar" hefði hann ekki gert sér ljóst hversu viðbrögð Þráins og samskipti hans eftir hrossakaupstilraunina voru mikið svona "altzheimer" leg en ekki vegna þess að Þráinn vildi reyna að standa við orð sín og skoðannir.
Margrét gerir þarna sömu byrjandamistökin og allt heiðarlegt fólk sem vill verða pólitíkusar gerir. Hún ýtir á vitlausan takka á tölvunni sinni.
Þeir sem hafa áhuga á og nennu til að kynna sér ferlið í þessum bréfskriftum Þingfólks Borgarahreyfingarinnar geta lesið þau hér;
Takk Katrín fyrir að vera til. Eitt sem mig langar að ræða við þig. Ég hef miklar áhyggjur af Þráni og þar sem þú þekkir hann vel og þekkir e.t.v. betur inn á fjölskyldu hans eða forssögu en ég langar mig að bera þetta upp við þig. Kannski er það ímyndun að þú sért betur inn í hans málum en við en - það má alla vega reyna. Við höfðum áhyggjur af því snemma í sumar að hann væri að síga í eitthvert þunglyndi en svo virtist það brá af honum. Ég ræddi við sálfræðimenntaðan mann í dag sem er vel inni í málum hreyfingarinnar og hann grunar að Þráinn sé með altzheimer á byrjunarstigi. Hann tók það skýrt fram að þetta væri einungis kenning og auðvitað hefur hann ekki rannsakað Þráinn. Ég hafði ekki leitt hugann að slíku þótt mér fyndist þetta skýra margt. Hvað finnst þér? Kv., MT
Kæri Þráinn,
Þar sem ég fékk ekki tækifæri til að tala við þig í dag langar mig að skrifa þér nokkrar línur.
Ég veit ekki hvað þér barst til eyrna í dag en grunar að það sé ekki nákvæmlega það sem frá mér kom. Á föstudaginn skrifaði ég Katrínu tölvupóst. Þar trúði ég henni fyrir því að ég hefði áhyggjur af þér. Ástæða þess að ég sendi henni bréf er að ég hef oft, og ekki síst á síðustu vikum, skynjað mikla umhyggju hennar og væntumþykju í þinn garð og mér hefur fundist hún heil og heiðarleg manneskja. Þá hélt ég að hún þekkti þig ef til vill á annan hátt en við í þinghópnum og hefði til að mynda kynnst fjölskyldu þinni eða þekkt aðstæður þínar betur en ég. Af misgáningi fór bréfið víðar en ég hafði hugsað mér. Það skrifast á mig en ég bað viðkomandi aðila að leiða efni þess hjá sér enda greinilega aðeins ætlað Katrínu.
Ætlunin var alls ekki að væna þig um nokkurn skapaðan hlut en áhyggjur mínar voru raunverulegar. Ástæða þeirra er að ég hef illa getað áttað mig á ummælum þínum í garð okkar Þórs og Birgittu síðustu vikur. Ef til vill segir það meira um mig en þig. Ég er ekki vön að standa í deilum við nokkurn mann og hef aldrei fyrr upplifað það að einhver félagi minn eða vinur hafi ekki viljað ræða málin við mig. Í kringum mig og í fjölskyldunni minni er aðallega tvenns konar fólk, annars vegar fólk eins og ég sem skiptir skapi einu sinni á ári og hins vegar fólk sem er mjög örgeðja og sér rautt ef það reiðist en er svo runnin reiðin tuttugu mínútum síðar og skilur ekki hafaríið í kringum það. Slíkum samskiptum fylgir sá kostur að andrúmsloftið hreinsast mjög fljótt. Ég kann illa á langvarandi deilur og vona eiginlega að ég þurfi aldrei að læra á þær sem virðist þó ólíklegra með hverjum deginum sem líður er við höfum í huga það umhverfi sem við störfum nú í.
Mér þykir afskaplega vænt um þig Þráinn og met þig mikils. Það hefur verið mér dýrmætt að kynnast þér, mér finnst þú merkilegur maður og ég hef alltaf kunnað að meta verk þín. Mér finnst þú vera frumkvöðull á mörgum sviðum, ekki síst í hreinskiptinni umræðu og því að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Og svo ertu líka fyndinn.
Nú erum við öll að starfa í nýju og frekar andstyggilegu umhverfi og það er kannski ekkert skrítið að ýmislegt gangi á. Auk þess er Borgarahreyfingin að einhverju leyti hreyfing fólks sem ekki hefur fundið sig í öðrum hreyfingum. Við fordæmum hjarðeðli annarra hreyfinga en þyrftum kannski á örlitlu hjarðeðli að halda sjálf. Auk þess hriktir í öllum stoðum samfélagsins í þessu icesave máli og fólk í öllum flokkum að fara á límingunum.
Ég vona einlæglega að við getum unnið áfram saman, ekki bara við tvö heldur öll fjögur. Ég hef verið boðuð á sáttafund annað kvöld kl. 8 og mun mæta þar. Mér þykir ákaflega leitt ef ég hef sært þig og vil að þú vitir að það var ekki viljandi. Mér fannst gott að heyra í þér í dag þótt þú værir að skamma mig. Ég vona að þú komir á fundinn annað kvöld og að við getum komið samskiptum okkar í lag. Ef ekki þá vill ég alla vega að þú vitir að ég ber hag þinn fyrir brjósti og mér þætti betra að hafa þig í litla hópnum okkar en utan hans. Kjósir þú hins vegar að vinna ekki með okkur get ég alveg virt það við þig enda treysti ég þér til að vinna í anda hreyfingarinnar. Það mun ég líka reyna eftir fremsta megni.
Kveðja,
Margrét
Sæl Margrét.
Á sama hátt og tilraun Bjarna Harðarsonar til mannorðsmorðs á samflokksmanni sínum lenti fyrir klaufaskap í höndum annarra en atvinnurógurinn var ætlaður lenti þitt bréf víðar en hjá Katrínu.
Bjarni sá sóma sinn í að segja samstundis af sér þingmennsku þegar hann áttaði sig á því hvað hann hafði gert.
Hvort þú hefur einhverja sómatilfinningu veit ég ekki. Þetta bréf þitt vekur efasemdir um að þú þekkir greinarmun á réttu og röngu. Hitt veit ég að mér er annt um mannorð mitt og orðspor og hyggst ekki láta Gróu á Leiti koma á flot einhverjum grunsemdum um að ég sé ekki við góða heilsu andlega - eða líkamlega.
Ég hef gert stjórn Borgarahreyfingarinnar grein fyrir því að annaðhvort segi ég mig úr Borgarahreyfingunni eða stjórnin reki þig úr Borgarahreyfingunni og geri kröfu um að þú segir af þér þingmennsku. Ennfremur áskil ég mér allan rétt til að lögsækja þig fyrir róginn fyrir dómstólum ef mér og lögmönnum mínum þykir ástæða til þess, og grípa til allra aðgerða sem ég tel nauðsynlegar til að vernda orðspor mitt og mannorð fyrir hinum góðviljaða rógburði þínum.
Ég veit ekki hvort þú gerir þér grein fyrir því hversu alvarlegan hlut þú hefur gert þig seka um. Þó vona ég að þú áttir þig á því þótt þetta bréf þitt bendi ekki til þess.
Þráinn Bertelsson
Blessaður Herbert.
Eftirfarandi er sent þér (og, ef þér sýnist svo, stjórn Borgarahreyfingarinnar) til upplýsingar. Ég tek ekki þátt í þöggun, undirferli eða leynimakki, þótt stjórn Borgarahreyfingarinnar hafi ekki þótt taka því að senda mér rógsbréf Margrétar þannig að ég gæti borið hönd fyrir höfuð mér.Bestu kveðjur,Þráinn Bertelsson
Til stjórnar Borgarahreyfingarinnar.Það bréf sem hér fer á eftir barst ykkur fyrir nokkru síðan - eða hinn 7. ágúst. Ekkert ykkar hreyfði legg né lið til þess að láta mig vita af þessu fáheyrða rógsbréfi fyrr en varaformaður BH Lilja Skaftadóttir sagði mér af tilveru þess í símtali frá Frakklandi nú fyrir skemmstu. Fyrir þann heiðarleika hefur Lilja mátt sæta aðkasti og því ætla ég ekki að nefna nafn þess stjórnarmanns sem lét stjórnast af heiðarleikanum og sendi mér samrit af rógsbréfinu.Þessi þétta yfirhilming og tilraun til að þagga niður svívirðilegan verknað segir mér að þótt þið hin viljið skarta og skreyta ykkur með fjöðrum eins og sannleika og hreinskilni þá eru það orðin tóm - og þið eruð ekki þess verð einusinni að taka ykkur slík orð í munn.Með yfirhilmingu eruð þið samsek rógberanum, Margréti Tryggvadóttur sem hugðist senda róginn varaþingmanni mínum Katrínu Snæhólm Baldursdóttur en slysaðist a la Bjarni Harðarson til að senda einnig á alla stjórn Borgarahreyfingarinnar. Bjarni Harðarson bjargaði þó leifunum af mannorði sínu með því að segja af sér þingmennsku um leið og það rann upp fyrir honum að hann hafði afhjúpað sjálfan sig.Ég lít á þetta bréf sem tilraun til að draga úr trúverðugleika mínum sem opinber persóna, þingmaður og listamaður, með öðrum orðum sem tilraun til mannorðsmorðs - sem ég lít jafn alvarlegum augum og ef um væri að ræta tilræði gegn lífi og líkama. Að vísu er þessi tilraun ekki mjög sannfærandi, en það er ekki vegna þess að bréfritara hafi vantað illviljann heldur aðeins andlegt atgervi - til að mynda kann Margrét ekki einusinni að stafsetja rétt nafnið á þeim skelfilega sjúkdómi sem hún vill bera út að herji á mig.Það leikur enginn vafi á því að sögn lögmanna minna að innihald, samning og sending þessa bréfs varðar við hegningarlög og áskil mér að sjálfsögðu allan rétt í því sambandi.Ég mun eftir helgi segja mig úr þingflokki Borgarahreyfingarinnar með formlegri yfirlýsingu á Alþingi - þangað til og gagnvart ykkur verður þetta bréf að duga - því að eitt er að reyna að halda friðinn við venjulega lygara og svikara og hitt að reyna að sitja á sátts höfði við fólk sem svífst einskis til að reka rýting í bakið á mér - að ég tali nú ekki um það ómerkilega fólk sem kýs að hilma yfir tilræðismanninum í stað þess að standa með fórnarlambinu.Bestu kveðjur,Þráinn Bertelsson
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Heilbrigðismál, Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 03:02 | Facebook
Athugasemdir
Pólitík er mannskemmandi, ekki spurning. Ég komst að þessum mikla sannleika fyrir nærri 30 árum.
Lára Hanna Einarsdóttir, 16.8.2009 kl. 03:03
Sæll Svanur
:"...tilraun til mannorðsmorðs - sem ég lít jafn alvarlegum augum og ef um væri að ræta tilræði gegn lífi og líkama. Að vísu er þessi tilraun ekki mjög sannfærandi, en það er ekki vegna þess að bréfritara hafi vantað illviljann heldur aðeins andlegt atgervi - til að mynda kann Margrét ekki einusinni að stafsetja rétt nafnið á þeim skelfilega sjúkdómi sem hún vill bera út að herji á mig...
Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 16.8.2009 kl. 03:34
Sæl Lára Hanna.
Miðað við hvað margir segjast hafa komist að þessu sama, er mikil furða á hvað við látum samt glepjast af skruminu. Aftur og aftur treystir fólk stjórnmálasamtökum fyrir öllum mikilvægustu málum þjóðarinnar.
Svanur Gísli Þorkelsson, 16.8.2009 kl. 11:49
Blessaður Þorsteinn.
þú segir viðbrögð Þráins stiff thinking og narrow-minded, eða individual thinking . Þingfólk Borgarahreyfingarinnar lofaði því fyrir kosningar að vera stíft á meiningu sinni (stiff thinking) og láta samvisku sína aðeins ráða ( individual thinking ) og Þráin var að reyna að efna það, ekki satt. Nú er hann gagnrýndur fyrir að gera það sem hann var kosinn á þing til að gera.
Þráinn fær greinilega ekkert út úr þessu annað en það að hann þarf ekki lengur að kenna sig við Borgarahreyfinguna og þingflokk hennar. Hann er búinn að segja sig úr Borgarahreyfingunni og segir sig úr þingflokknum eftir helgi. Hann verður frjáls til að berja á dyrnar í hel enda frosið þar yfir, eins og þú hefur eflaust frétt.
Svanur Gísli Þorkelsson, 16.8.2009 kl. 12:03
Sæll Grétar Eir og þakka þér þetta innlegg.
Allir sem tóku þingsæti fyrir hönd Borgarahreyfingarinnar lögðust persónulega gegn flokksræði, gamaldags flokkapólitík og hrossakaupum. Í stað þess ætluðu þau að beita sér fyrir heiðarlegum og nýjum leiðum þar sem hvert mál væri metið á sínum eigin forsendum og ekki gert að skiptiminnt í öðrum. Þennan sáttmála rufu "þremenningarnir" þegar þeir reyndu að gera Icesave samningana að skiptiminnt fyrir ESB.
ÞAð hafði þær afleiðingar að farið var út í gagnslausa margra vikna sýndarhjal í þingi sem endaði á sama stað og það byrjaði. Samningarnir voru samþykktir án mikilvægra breytinga, af þeim þremur. Pólitíkin og óheiðarleikinn lekur af öllu þessu máli Grétar. Málamyndabreytingar gerðar á samningnum sem allir vissu að við þurftum að samþykkja og þessar málamyndabreytingar voru aðeins gerðar til að bjarga andlitinu á þessum skussum sem reyndu að gera ´ser pólitískan mat úr málinu.
Svanur Gísli Þorkelsson, 16.8.2009 kl. 12:13
Nagli á höfuð Svanur. Þakka þér fyrir stórgóðan pistil.
Jenný Anna Baldursdóttir, 16.8.2009 kl. 13:56
Ég heyrði í spákarli og talnaspekingi á útvarpi Sögu um daginn. Þar hélt hann því fram að þingmönnum væri mútað hreinlega og nefndi BH sem dæmi og svik þeirra í ESB kosningunni.
Ég hef sjaldan verið eins hissa og þegar þau ætluðu að nota "hrossakaup" í þessu ESB máli.Þetta var einmitt fólkið sem talaði um ömurleg vinnubrögð á alþingi og spillingu.
Missti allt álit á þeim þá. Yfirlýsingar þeirra og ömurlegur talsmáti er of grófur fyrir minn smekk. Held að þau séu búin að vera. Og þjóðin er búin að fá upp í kok af athyglissýki þeirra.
Muniði Þór Saarí með spýtuna? Ég fæ aulahroll.......
Ína (IP-tala skráð) 16.8.2009 kl. 14:31
Fínn pistill.
Hrossakaup á alþingi hafa aldrei verið merki um að fólk sé að fylgja samfæringu sinni.
Davíð Kristjánsson (IP-tala skráð) 16.8.2009 kl. 14:37
Það er athyglisvert hvernig menn opinbera innri líðan, með skilningi sínum á texta sem aðrir skrifa.
Guðbjörn Jónsson, 16.8.2009 kl. 15:27
Sæll Guðbjörn: Það er hárrétt hjá þér. En þú ert nú að benda á augljósa hluti :)
Til þess er t.d athugasemdakerfið hér á blogginu. Þar skrifar fólk og opinberar líðan sína með það sem aðrir skrifa rétt eins og þú gerðir.
Svanur Gísli Þorkelsson, 16.8.2009 kl. 16:01
Sæl Ína og þakka þér þetta.
Það eru greinilega margir í þínum sporum eins og athugasemd Davíðs K. staðfestir.
Svanur Gísli Þorkelsson, 16.8.2009 kl. 16:03
Ef til vill opnast nú augu manna fyrir því hversu erfitt það reynist fjórum þingmönnum , þó með heiðarlegan og réttlátan tilgang í veganesti séu, að eiga við fjórflokkaveldið og ofurefli þeirra á þingi. 59-4! Þau voru einfaldlega ekki nógu mörg - og vegna reynsluleysisins stóðu að lokum ekki nógu vel saman.
Kolbrún Hilmars, 16.8.2009 kl. 16:08
Fólk talar hér um hrossakaup hvað varðar ESB og Icesave.
Voru þessi svokölluðu hrossakaup í þeirra þágu? græddu þau eitthvað á þessu persónulega?
Eða voru þau að reyna að vinna í þágu þjóðarinnar vegna samningsviðbjóðarins IceSLAVE.
Þau eru allavega að reyna að vinna í þágu þjóðarinnar á meðan 25% af þinghópnum er í fýlu og talar ekki við neinn.
Nei alveg rétt, hann er hættur. Notaði fyrsta tækifæri sem hann sá til að hætta í hreyfingunni.
Sorglegt í alla staði.
Kjósandi Borgarahreyfingarinnar (IP-tala skráð) 16.8.2009 kl. 16:24
Sæll Kjósandi. Eina nestið sem fjórmenningarnir höfðu með sér inn á þig til að eiga við ofureflið sem Kolbrún minnist líka á, var einarður vilji til að taka ekki þátt í þeim aðferðum sem þau höfðu svo réttilega gagnrýnt alla kosningabaráttuna og jafnvel áður. Fólk treysti orðum þeirra, að sama hvað á mundi dynja, mundu þau aldrei selja samvisku sína og atkvæði á þann hátt sem gerir flakkspólitíska starfsemi svo spillta. Vegna þess að þremenningarnir gengu á bak orð sinna (og þau hafa viðurkennt að það voru mistök) misstu þau traust margra. Allt tal um að tilgangurinn helgi meðalið er í hrópandi ósamræmi við yfirlýsta afstöðu þeirra.
Svanur Gísli Þorkelsson, 16.8.2009 kl. 16:47
Sæll Svanur
"..og Þráin var að reyna að efna það, ekki satt. Nú er hann gagnrýndur fyrir að gera það sem hann var kosinn á þing til að gera..."?????
Það kann að vera að þér finnst sem hann Þráinn og Borgarahreyfingin hérna sé "stiff thinking og narrow-minded, eða individual thinking"???
En ekki eru allir í henni svona innilega "stiff thinking og narrow-minded, eða individual thinking" eins og hann Þráinn Bertelsson þingmaður í Borgarahreyfingarinnar er hafnaði reyndar breytingartillagunni um tvöfalda lýðræðislegra þjóðar-atkvæðagreiðslu um ESB, Halló?
En sjáðu nú til hérna Svanur það var þjóðin sem átti að fá að ráða því hvort sótt væri um aðild að ESB eða ekki hjá Borgarahreyfingunni, ekki gleyma því hérna. Þannig að verður ekki betur séð annað en Þráinn Bertelsson þingmaður hafi farið gegn þessu hjá Borgarahreyfingunni, eða því að þjóðin fengi að ráða.
En eitthvað liggur þarna á bakvið þetta allt saman hjá honum Þráinni, ekki satt? Nú Þessum manni hefur tekist vel til við að magna upp hatur og út af einhverjum getgátum, sem vart geta talist fullyrðingar um þeas. Þunglyndi og "altzheimer".
Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 16.8.2009 kl. 23:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.