4.6.2009 | 13:56
Friður - Næsta skrefið í framþróun mannlífs á plánetunni
Eftir að hafa bæði hlustað og lesið á einstaka ræðu Obama Bandaríkjaforseta sem hann fór með í morgunn í Kairo háskóla, er ekki úr vegi að að benda á eftirfarandi. Á friðarstundinni í Hallgrímskirkju með Dalai Lama fluttu fulltrúar flestra trúarbragða sem eiga fylgjendur á Íslandi stutt erindi. Meðal þeirra var Fríða Sigurðardóttir sem flutti eftirfarandi erindi fyrir hönd Bahai samfélagsins. Innihald erindis hennar er í miklu samræmi við ræðu Obama, þótt stutt sé. Textinn er að mestu leiti tekin beint úr Bahai ritningunum og fer hér á eftir.
Friðurinn mikli sem fólk góðvildar á öllum öldum hefur bundið við björtustu vonir sínar, sýnin sem skáld og sjáendur ótalinna kynslóða hafa lýst og helgirit mannkynsins gefið margítrekað fyrirheit um, er nú innan seilingar þjóðanna. Í fyrsta sinn í sögunni geta allir menn séð jarðkringluna, með sinn aragrúa af sundurleitum þjóðum og kynþáttum, frá einu og sama sjónarhorni. Heimsfriður er ekki aðeins mögulegur heldur óhjákvæmilegur. Hann er næsta skrefið í framþróun mannlífs á plánetunni með orðum mikils hugsuðar: hnattvæðing mannkynsins.
Að þessi friður verði fyrst að veruleika eftir óumræðilegar skelfingar, sem þrákelknisleg fastheldni mannkynsins við gamalt hegðunarmynstur hrindir af stað, eða honum verði komið á núna á grundvelli vilja til samráðs, eru þeir valkostir, sem blasa við öllum íbúum jarðarinnar. Á þessum háskalegu tímamótum, þegar illleysanlegir erfiðleikar, sem steðja að þjóðunum, hafa runnið saman í vandamál, sem allur heimurinn stendur sameiginlega andspænis, væri það óverjandi ábyrgðarleysi að láta sér mistakast að stemma stigu við átökum og öngþveiti.
Þetta er sá dagur, þegar ágætustu gjöfum Guðs hefur verið úthellt yfir mennina, dagurinn þegar hans almesta náð veitist öllu sem skapað er. Öllum þjóðum jarðar ber að jafna ágreining sinn og hvílast í fullkominni einingu og friði í skugganum af tré umhyggju hans og ástríkis. Það sæmir þeim að vera fastheldnir við allt sem á þessum degi getur aukið tign þeirra og kemur þeim að mestu gagni. Sælir eru þeir sem hinn aldýrlegi penni minnist og sælir þeir, sem vér í órannsakanlegri ráðsályktun vorri höfum kosið að nefna ekki með nafni.
Biðjið hinn eina sanna Guð að gefa, að öllum mönnum megi náðarsamlega verða hjálpað við að uppfylla það sem er þóknanlegt fyrir augliti voru. Brátt verður ríkjandi skipan undið saman og ný breidd út í hennar stað. Vissulega mælir Drottinn þinn sannleikann og þekkir hið óséða.
Áformið að baki opinberun sérhverrar himneskrar bókar, nei, sérhvers opinberaðs ritningarvers Guðs, er að gæða alla menn eigindum réttlætis og skilnings, svo að friður og rósemi megi fá tryggilega staðfestu á meðal þeirra.Allt sem fullvissar hjörtu mannanna, allt sem upphefur stöðu og stuðlar að farsæld þeirra, er þóknanlegt fyrir augliti Guðs. Hversu upphafin er staðan, sem maðurinn getur náð, ef hann aðeins kýs að uppfylla háleitt ætlunarverk sitt! I hvílík djúp niðurlægingar getur hann ekki sokkið, djúp sem hinar auvirðilegustu allra skepna hafa ekki kafað! Grípið tækifærið, ó vinir, sem þessi dagur færir yður, og sviptið eigi sjálfa yður örlátri úthellingu náðar hans. Ég bið Guð þess, að hann megi náðarsamlega gera hverjum og einum yðar kleift að prýðast djásnum hreinna og heilagra gerða á þessum degi.
Það sem Drottinn hefur ákvarðað sem æðsta læknisdóminn og máttugasta meðalið til græðingar alls heimsins er eining allra þjóða hans í einum allsherjar málstað, einni sameiginlegri trú. Þetta getur aldrei tekist nema fyrir vald hæfs, alvoldugs og innblásins læknis. Þetta er vissulega sannleikurinn og allt annað er einskær villa.
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkar: Mannréttindi, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Ég er alveg með á tæru að Obama er trúlaus, hann reynir að fara varlega í málin.. en bottom læn er að það verður aldrei friður á meðan trúarbrögð eru til, þetta er staðreynd sem menn geta ekki hafnað án þess að vera silly.
Þetta fáránlega interfaith dæmi er skellihlægilegt... ríkiskirkjan er með bók sem tekur vel fram að allt svona sé algert guðlast af versta tagi... þetta er verra en að gera grín að gudda...
Biblían tekur oft fram að þeir sem eru ekki trúaðir á gudda biblíu, að þá beri að myrða.. sem og að nauðga ungum stúlkum óvinarins sem eru hreinar meyjar.
Þetta var sem sagt púra hræsni og ekkert annað... Lami fer nú um allan heim og gefur skrilljónir í trúarstofnanir.. .hallelúja Lami.
Hræsni, hræsni og aftur hræsni
DoctorE (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 14:33
Mér finnst þú heldur svartsýnn Doctor. Kirkjan er í raun fólk og almennt túlkar fólk ekki Biblíuna eins og þú. Það eru miklu fleiri sem eru tilbúnir til að gefa þessar trúarkreddur sem þú ert mikið að vitna í, upp á bátinn í staðinn fyrir samúð og velvilja á milli manna, jafnvel þeirra sem ekki hafa alist upp við sömu trúarbrögð. Það er engin hræsni heldur skynsemi.
Svanur Gísli Þorkelsson, 4.6.2009 kl. 17:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.