27.5.2009 | 11:03
Mjög hættuleg hugmynd
Að geta ráðið því hvaða kyn barn þitt hefur. Að láta tölvur um að taka allar mikilvægar ákvarðanir fyrir mannkynið. Að það sé orðið of seint að gera eitthvað í loftslagsbreytingarmálum jarðarinnar og það þjóni hvort eð er ekki hagsmunum mannkynsins til lengri tíma að reyna það.
Spurningin er þessi; er til nokkur hugmynd sem talist getur hættuleg? Til er netsíða þar sem fólki er boðið að setja fram "hættulegar hugmyndir" og margir af fremstu hugsuðum heimsins hafa lagt þar orð í belg. Margt af því sem þar er reifað væri án vafa hættulegt ef því væri hrint í framkvæmt en að hugmynd ein og sér, eða að ræða hana, geti verið hættulegt, finnst mér vafasamur boðskapur. Síðan heitir The world Question center
Hvernig stendur annars á því að hinar svo kölluðu hættulegu hugmyndir fortíðarinnar eru í dag helstu viðmið okkar um það sem þykir réttlátt, satt og rétt. Að allir menn séu fæddir jafnir, jafnrétti eigi að ríkja milli kynja, þjóðir eigi að stjórna sér sjálfar og þegnarnir að taka þátt í ákvörðunum þeirra, að skoðana og málfrelsi eigi að ríkja, eru allt dæmi um slíkar hættulegar en góðar hugmyndir.
Og enn tíðkast það að hugmyndir séu taldar hættulegar á Íslandi.
Ein er hugmyndin um að athuga með inngöngu landsins í EB, sem í mörg ár var talin svo hættuleg að hún fékkst ekki rædd af stjórnvöldum. En nú þegar búið er að vinda að nokkru niður af þjóðarrembingnum sem heltók þjóðina á fyrstu árum hinnar nýju aldar, er hugmyndin ekki hættulegri en svo að nú ætla stjórnvöld að sækja um inngöngu án þess að gefa fólki kost á um að kjósa hvort það kæri sig yfirleitt um það.
Önnur er hugmyndin um að þjóðin sjálf fái að kjósa sér stjórnlagaþing til að endursemja stjórnarskrána. Hún er af mörgum talinn stór-hættuleg. Enda var hún blásin snyrtilega út af borðum ríkistjórnarinnar eftir að hún mætti málsþófi á alþingi, þrátt fyrir að báðir núverandi stjórnarflokkar hafi lofað því fyrir kosningar að beita sér fyrir slíku þingi. Kannski þegar að þessi stjórn er búin að fullvissa sig um að sama niðurstaða fæst alltaf ef þú gerir alltaf það sama og pottaáslátturinn fer að berast aftur frá Austurvelli, mun hugmyndin hætta að vera hættuleg.
Þriðja hættulega hugmyndin er um alvöru persónukjör til Alþingis þar sem frambjóðendur standa ekki á listum heldur bjóða sig fram sem einstaklingar, sem að sjálfsögðu mundi útrýma flokkapólitík með öllu. Afar hættuleg hugmynd ekki satt? Hún er svo hættuleg að hún fæst ekki rædd af neinum stjórnmálamanni og fáum leikmönnum vegna þess að þeir vita sem er að stjórnmálaflokkarnir eru helsta uppspretta óeiningar og sundrungar í samfélaginu og á henni þrífst hið ofur vinsæla en vanþróaða "með og á móti" stjórnskipulag sem í raun er fjandsamlegt sönnu lýðræði þar sem hver og einn á ætíð að geta kosið samkvæmt sinni sannfæringu.
Þessi dæmi sýna í raun að það er aðeins til ein hættuleg hugmynd. Hún er sú að hugmynd geti verið hættuleg.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Heimspeki | Breytt s.d. kl. 23:46 | Facebook
Athugasemdir
Hættulegasta hugmynd evar var þegar fyrsti svindlarinn hitti fyrsta fíflið, bjó til trúarbrögð á staðnum og seldi fíflinu.
Annars sé ég ekkert að því að getað valið strák/stelpu... svo lengi sem trúarnöttar stjórna því ekki... þá yrðu bara strákar
DoctorE (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 11:16
Sæll DoctorE.
Trúarbrögðin hafa verið fylgifiskur mannsins frá upphafi og eru það enn. Ef þau eru afleiðing að þínu mati heimskulegrar þróunar er ekki við neinn að sakast í þeim efnum. Þróunin ræðst ekki af hugmyndum manna er það?
Svanur Gísli Þorkelsson, 27.5.2009 kl. 14:22
"álvöru" persónukjör" er örugglega hættulegt :D
Jón Logi (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 18:20
Satt segirðu Jón.
Svanur Gísli Þorkelsson, 27.5.2009 kl. 23:47
Sé á þessum pistli að hugmyndin sem fyrst kom upp í huga mér þegar lestri mínum lauk, er of hættuleg til að vera sett á prent. Svo ég bíð eftir betra færi.
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 28.5.2009 kl. 00:35
Það er ekkert víst að það komi Lilja. Láttu bara vaða.
Svanur Gísli Þorkelsson, 28.5.2009 kl. 11:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.