26.5.2009 | 21:28
Tjóðraðu kengúruna mína félagi
Upp úr 1960 fór að heyrast æ oftar í ríkisútvarpinu lag ástralska tónlistar og fjöllistamannsins Rolf Harris, Tie Me Kangaroo Down, Sport.
Ég man að ég átti það til að söngla lagið daginn út og inn án þess að geta nokkurn tíman farið með textann rétt hvað þá að ég skildi hann. En lagið var fjörugt og skemmtilegt og svo var ég nokkuð viss um að það fjallaði um einhvern sem væri að "taka dansspor við kengúru."
Lagið er samið og hljóðritað í Ástralíu árið 1957 og varð afar vinsælt um allan heim upp úr 1960. Harris bauð á sínum tíma söngvurunum fjórum sem syngja lagið með honum 10% af stefgjöldunum sem hann kæmi til með að fá fyrir lagið en þeir afþökkuðu og þáðu frekar að skipta þeim 28 pundum á milli sín sem Rolf bauð þeim í staðinn.
Árið 1963 komst lagið í þriðja sæti bandaríska Billboard hot 100 listans og hefur síðan öðlast sess sem lang-vinsælasta og þekktasta lag sem komið hefur frá Ástralíu.
Hljóðið sem gerir lagið svo sérstakt er framleitt af Rolf með því að sveigja fram og til baka meter langa masónít-plötu.
Texti lagsins segir frá smala eða vinnumanni sem er að ganga frá sínum málum við félaga sína áður en hann gefur upp öndina og við sögu koma ýmsar kunnar ástralskar dýrategundir. Þ.á.m. wallabie, (lítil kengúra) kengúra, kakadú-páfagaukur, kalabjörn og flatnefja. Auk þess er minnst á ástralska frumbyggjahljóðfærið didgeridú og sútað skinn. Í myndbandinu sem hér fer á eftir heyrum við Ralph syngja lagið og með fylgja myndir af því sem sungið er um.
Í upphafi voru vers textans fjögur en fjórða versið þótti, þegar fram liðu tímar, vera of í anda kynþáttafordóma og var því stíft aftan af laginu. Það fjallaði um Ástralíufrumbyggjana (Abos) og var svona;
Let me Abos go loose, Lou
Let me Abos go loose
They're of no further use, Lou
So let me Abos go loose.
Þarna er komið inn á þá staðreynd að frumbyggjar voru lengi vel eins og þrælar hvítu herraþjóðarinnar í Ástralíu. Í textanum segir smalinn að það megi því sleppa þeim eftir að hann er allur því þá hefði hann ekki lengur þörf fyrir þá. Þetta minnir dálítið á viðhorf George Washington sem lét í erfðaskrá sinni frelsa þræla sína eftir dauða sinn þótt hann fengist ekki til þess á meðan hann lifði.
Ralf Harris sem er ann að sem vinsæll skemmtikratur hefur margsinnis beðist afsökunar á að hafa sungið erindið í upphaflegri útgáfu lagsins og á heimasíðu hans er það hvergi að finna.
Meginflokkur: Tónlist | Aukaflokkar: Bloggar, Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Blessaður Svanur
Þegar við Eyjólfur vorum að troða upp hér á árum áður. Notuðum við þetta lag með íslenskum texta. Textinn var um það vandamál se gæti komið upp ef strútarækt yrði leyf á Íslandi og strútarnir slyppu út. Það yrði þá einfaldlega að flytja inn kengúrur til að smala þeim, því þær hefðu sennilega roð við strútunum í spretthlaupum. Jón Bjarnason gerði textann.
Þetta fór þannig fram að við fengum 2 úr hljómsveitinni sem átti að spila á skemmtuninni til að spila og syngja lagið. Lagið þekktu allir og það þurfti ekki annað en að telja í. Annar spilaði með skinnhönskum á sérvalda blikkplötu og hinn á gítar og söng.
Ég kom fram sem "sloppinn strútur" og Eyjólfur kom ríðandi inn á "smalakengúru" og smalaði mér aftur út af sviðinu.
Þannig var það nú bara.
Davíð Kristjánsson (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 23:23
Í tilefni af þessu bloggi er ég bara að velt fyrir mér að skella á bloggið hjá mér við tækifæri íslenskum texta sem ég hef sungið með fólki á skemmtunum af og til undanfarin 15 ár.
Ómar Ragnarsson, 27.5.2009 kl. 00:31
Frábær saga Davíð. Ég verða að segja það að ég man fátt fyndnara en þegar þú og Eyfi voruð saman á sviði. Ég sá reyndar aldrei þennan þátt sem þú lýsir en hann hljómar fyndinn.
Sæll Ómar. Ég hvet þig til að láta verða af því sem fyrst. Þú mættir gera miklu meira af því að deila með okkur sumu af því ógrynni af efni sem þú hlýtur að eiga í fórum þínum.
Svanur Gísli Þorkelsson, 27.5.2009 kl. 01:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.