29.4.2009 | 16:14
Auðmýking Íslendinga
Engin þjóð í heiminum sem náð hefur þeim árangri að halda þjóðareinkennum sínum og menningu, hefur sloppið við auðmýkingu. Stór lönd sem smá hafa þurft að sætta sig við að fara halloka í stríðum og pólitískum átökum. Auðmýkingin hefur kennt þjóðunum að þeirra eigingjarni hugsunarháttur er ekki alltaf farsælastur og þeirra sértæku viðmið halda ekki alltaf vatni. Hún hefur neytt þjóðirnar til að taka mið af hugmyndum, straumum og stefnum hvor annarrar. Hún hefur þjappað saman þjóðunum í þjóðabandalög sem margir spá að sé aðeins millistig að alheimslegu samveldi.
Íslendingar eru illa í stak búnir til að takast á við slíka auðmýkingu.
Um stund héldu þeir jafnvel að þeir væru undanþegnir þeirri reglu að þurfa nokkru sinni að verða fyrir henni. Eftir að þjóðin varð sjálfstæð fylgdi hún þeim ásetningi í samskiptum sínum við önnur lönd að "eiga kökuna og borða hana líka." Kannski var það af minnimáttarkennd tilkomin vegna smæðar þjóðarinnar og að í mörg hundruð ár var hún fátækasta þjóð Evrópu. Kannski var það vegna þess að hún hélt að sinn tími væri loks kominn.
Í milliríkjadeilum, jafnvel við stórveldi, höfðu Íslendingar jafnan sigur. Þeir höguðu sér eins og þeir sem aldrei geta klikkað. Þeir voru fegurstir, sterkastir, gáfaðastir og alveg að verða ríkastir líka. Þeir fóru mikinn hvar sem þeir komu og keyptu sér fjölda rótgróinna erlendra verslana, fótboltafélög, fjarskiptasamsteypur og lyfjafyrirtæki. Sjálfsmynd þeirra einkenndist af stolti, nánast þjóðarrembingi.
Síðan þegar skellurinn kom, hitti hann þá fyrir þar sem þeir héldu að þeir væru hvað sterkastir. Auðmýkinguna sem einstaklingar, samfélög og þjóðir þurfa að fara í gegn um til að þroskast og læra að umgangast hvor aðra af háttvísi, upplifðu þeir fyrst sem höfnun. Næstu viðbrögð voru afneitun og síðan reiði. Þar eru þeir staddir í dag.
Ný afstaðnar kosningar munu ekki ná að sefa þessa reiði því þær eru hluti af afneitun þjóðarinnar. Margir íslendingar héldu að með það að kjósa nýja stjórn gætu þeir komist hjá að takast á af alvöru við afleiðingar auðmýkingarinnar og að við gætum haldið áfram á sömu braut og notið alls þess sem aðrar Evrópuþjóðir hafa að bjóða án þess að ganga í bandalag við þær og deila með þeim auðlindum okkar.
Íslendingar vita flestir innst inni að efnahagshrunið mun fyrr eða síðar knýja okkur til nýs hugsunarháttar og víðtækari ábyrgðar. Við munum hætta að hugsa eins og unglingur sem sér fátt mikilvægara en "sjálfstæði" sitt, þegar allir aðrir sem á horfa sjá, að allt það sem hann heldur að geri sig svo sérstakan, er það sem gerir hann mest líkan öðrum unglingum.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Menning og listir, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 17:03 | Facebook
Athugasemdir
Góður pistill og áhugaverð framsetning um að niðurlægingin sé nánast órjúfamlegur og jafnvel nauðsinlegur þáttur í þróun hverrar þjóðar.
Ég vill gjarnan bæta við eftirfarandi sem er skrifað af S. R. Covey. Þýtt, stytt, aðlagað og staðfært eftir bestu getu af undirrituðum.
Takmarkið fyrir hverja manneskju, og hvert samfélag er að ná fullþroska. Fullþroski er að flytja sig frá ósjálfstæði til sjálfstæðis og svo til gagnkvæmns skilnings og tillits. Með ósjálfstæði bregst maður við vegna aðgerða annara eða vegna áhrifa eigin tilfinninga. Með sjálfstæði framkvæmir maður eingöngu með eigin forsendur við stýrið. Með gagnkvæmum skilningi og tilliti sameinar maður eigin hæfileika með umhverfinu til að sköpunar. Margir komast aldrei frá fyrsta stiginu og ennþá fleirri ná aldrei að komast frá öðru til þriðja stigs. Þetta á við um einstaklinga, hópa, samfélög eða jafnvel þjóðir sem aldrei hafa komist upp úr fyrstu tveimur stigum oft vegna þess að takmarkið hefur aldrei verið sett hærra enn sjálfstæði.
Sjálfstæði frelsar okkur frá umhverfinu og hömlum annarra. Það er í sjálfu sér sæmandi markmið. En það er ekki takmarkið ef við óskum okkur góðs og virks lífs. Lífið er nefnilega náttúrulega gagnkvæmt. Að reyna að ná hámarksafköstum með sjálfstæði er sem að spila tennis með golfkylfu. Verkfærið svarar ekki til raunveruleikans. Gagnkvæmar manneskjur, hópar og samfélög eru aftur á móti í standi til að sameina í gagnkvæmri veröld, eigið framlag með öðrum manneskjum, hópum eða samfélögum til að öðlast bestu mögulegrar niðurstöðu. En eitt er þó víst, gagnkvæmni getur engin náð fyrr en hafa náð eigin sjálfstæði.
Spurningin er hvort við íslendingar höfum nokkurntíma náð að verða sjálfstæð?
Thor Svensson (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 16:42
Það má færa rök fyrir því að íslendingar hafi ekki staðið algjörlega á eigin fótum fyrr en Nató herinn fór - fyrir um það bil 5 árum eða svo. Þá yfirgáfu bandríkjamenn land og þjóð með stuttum fyrirvara en fram að því vorum við sífellt undir verndarvæng einhvers. Við erum sem sagt ansi ung til að halda að við munum bregðast við áföllum af þroska - fremur má segja að við séum í reiði "tantrum" - rétt eins og krakkar þegar þeir fá ekki sínu framgengt. Framganga útrásarinnar er líka með eindæmum barnaleg, fyrirhyggjulaus og roggin. Með þessum gleraugum eru þó nokkur ár þar til við getum staðið keik sem fullþroskuð þjóð. Erum soldið munaðarlaus og "home alone" eins og er.
Halldóra Halldórsdóttir, 29.4.2009 kl. 16:53
Það skrifar hér
"Ný afstaðnar kosningar munu ekki ná að sefa þessa reiði því þær eru hluti af afneitun þjóðarinnar. Margir íslendingar héldu að með það að kjósa nýja stjórn gætu þeir komist hjá að takast á af alvöru við afleiðingar auðmýkingarinnar og að við gætum haldið áfram á sömu braut og notið alls þess sem aðrar Evrópuþjóðir hafa að bjóða án þess að ganga í bandalag við þær og deila með þeim"
Hver er í afneitun hérna á klakanum .. nema mögulega einhver lína innan sjálfstæðisflokksins ?
Mér finnst þetta nú ekki alveg jarðtengt hjá þér og í raun afleiddur pistill ef ég má vera hreinskilin. Ég séð þig skrifa betri pælingar en þessi hljómaði eins og endurminningar kaupsýslumans sem er sestur í helgan stein og er að tala um þjóðmálin frá sínum helga steini.
Í mínum huga komu aðeins tveir valkostir til greina- VG eða Borgarahreifingin og varð síðari kosturinn fyrir valinu. Að það sé vegna þess að ég sé að reyna að komast í veg fyrir auðmýkingu íslensku þjóðarinar er hreint og klárt bull. Ég kaus Borgarahreifinguna því ég vil sjá breitingar og nýan anda inn á þing. Ég kaus fólk út frá þremur hlutum ..
1. heiðarleika.
2. Málstað sem höfðar til mín
3. Flokki sem væri vís til að gjörbreyta nú verandi stjórnarfyrirkomulagi.
Þar að leiðandi er þessar pælingar þínar mjög svo skýjum ofar og fjarri því að vera veruleikatengd. Ég er sannfærður að stærstur hluti fólks hafi kosið sinnn flokk út frá svipuðum forsendum eða réttara sagt flokk sem þjónar mínum hagsmunum sem best.
Brynjar Jóhannsson, 29.4.2009 kl. 18:30
Halldóra. Held þú hittir naglan á höfuðið hér. Ég er þeirrar skoðunar að efnahagsvandræði okkar séu minnsta vandmálið. Íslendingar eiga að mínu mati langt í land í að verða sjálfstætt og sjálfberandi samfélag. Til þess vantar okkur að gera upp við fortíðina og söguna. Og þá meina ég ekki bara síðustu 5 ár eða síðustu 20-30 ár, heldur bakgrunn þjóðarinnar sem nýlenduþjóð. Okkur vantar eðlilegt gildismat. Við þurfum að læra að bera virðingu fyrir okkur sjálfum, uppruna okkar, tilverugrundvelli, stöðu okkar sem smáþjóð í útkanti Evrópu og síðast en ekki síst að sætta okkur við það sem við erum. Fyrst þegar þetta er til staðar, höfum við möguleika á að standa fram sem heilstæð, sterk þjóð í sátt við sjálfa okkur.
Thor Svensson (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 19:35
Sæll Thor og þakka þér gott innlegg og viðbót við greinina. Þessar línur frá Covey smella við eins og flís við rass :)
Þakka einnig þér Halldóra fyrir góðar undirtektir.
Svanur Gísli Þorkelsson, 29.4.2009 kl. 19:40
Sæll Brynjar og takk fyrir athugasemdina.
Eins og flestum eru mér mislagðar hendur og það kann vel að vera að þessi pistill sé ekki verðugur viðfangsefninu, sem samt er tilraun til að nálgast stöðu okkar á annan hátt en gjarnt er hér um slóðir. Söguskoðun á borð við þessa tilraun eru síður en svo pælingar eða nöldur miðaldra karlmanna, heldur viðfangsefni sem menn eins og T.d Stephen R. Covey sem Thor vitnar til hér að ofan, hefur skrifað lærðar bækur um.
Mér fannst það ágætlega til fundið hjá þér að gera grein fyrir akvæði þínu og segja má að ástæður þínar rúmist vel innan þeirrar skilgreiningar á sálrænu ástandi þjóðarinnar sem ég reifa.
Svanur Gísli Þorkelsson, 29.4.2009 kl. 19:50
Svanur, í þessum pistli fetar þú inn á afar umdeild viðhorf innan íslensks samfélags. Minni bara á 30. mars 1949, en þann dag reyndi fyrst á samstöðu þegna hins nýja lýðveldis.
Hvorki þá né síðar hefur íslenskur almenningur nema stund og stund átt samleið með hinni kjörnu (eða sjálfkjörnu) elítu sem hefur lengst af staðið við stjórnvölinn og þá skiptir ekki nokkru máli hvort sú elíta hefur verið vinstri, miðju eða hægri sinnuð.
Fjöldinn allur, eða íslenskur almenningur, hefur aldrei krafist þess að "verða maður með mönnum" meðal þjóða. Meiri hluti þjóðarinnar hefur verið elsku sáttur með að byggja hér upp almennilegt þjóðfélag í friði við guð, menn og aðrar þjóðir. Ekki heldur feimnir við að sækja sama rétt og aðrar þjóðir, t.d. hvað varðaði landhelgina og fiskveiðiréttindin, enda búnir að horfa upp á erlenda sópa upp bjargræðinu upp að íslensku fjöruborði um aldir. Líklega má telja að sú barátta ein og sér hafi ekki síður verið í genunum en sjálfstæðisbaráttan sjálf.
Við höfum alltaf átt landa, bæði háa og lága, sem hafa haft hátt og ekki kunnað sig, hvorki í samskiptum við innlenda né erlenda, en horft framhjá þeim undantekingum; af háttvísi en ekki heimóttarskap. Þannig hafði skapast það munstur að þegar útrásarvíkingar fóru að gera sig breiða þá áttuðum við okkur ekki á þeim ólánsöflum sem voru hér á ferðinni.
Við vorum semsagt tekin í bólinu af útrásardólgum og okkur sárnar svo eigið andvaraleysi, að við berjum frá okkur í reiði alveg burtséð frá því á hverjum höggin dynja. Það á eftir að líða nokkur tími þar til um hægist - eðlilega - en ég vona innilega að við verðum svo gæfusöm að kasta ekki barninu út með baðvatninu!
Kolbrún Hilmars, 30.4.2009 kl. 20:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.