26.4.2009 | 12:45
Business as usual
Kosningarnar afstaðnar og allir flokkar og listar greinilegar sigurvegarar, eins og venjulega, nema kannski XF flokkurinn sem varð fórnarlamb sinna eigin fordóma og jæja, kannski einhverra annarra líka sem hafa fordóma gegn fordómum.
Ástþór sigraði feitt, vegna þess að hann fékk að koma fram með hinum framagosunum og segja þeim til syndanna. Svo fékk hann líka tækifæri til að neita fréttamiðlinum sem hann hatast út í, um nærveru sína. Ég held að ég hafi aldrei séð eins glaðvært glott á vörum fréttaþular og þegar hann tilkynnti það.
Allt fór vel hjá Sjálfstæðisflokknum sem hvort eð er hafði ekki gert ráð fyrir að vera með í næstu stjórn landsins. Nú fá þeir kærkomið tækifæri til að endurskipuleggja sig og "vinna fylgið til baka" því þeir hafa "stefnuna og fólkið sem þjóðin þarf" til að velsæld ríki í landinu. Og allar gömlu konurnar klöppuðu hátt í Valhöll þegar að foringinn tilkynnti þetta.
Vinstri grænir voru hinir eiginlegu sigurvegarar því þeir hafa aldrei verið stærri en nú, nema í flestum skoðanakönnunum fyrir kosningar. En eins og allir vita er ekkert að marka skoðanakannanir. Þeir eru orðnir svo stórir að þeir eru orðnir svona "sjáum til" flokkur, eins og hinir flokkarnir hafa alltaf verið. Því miður fyrir vin minn Bjarna Harðar, sá hann það ekki fyrr en það var um seinan.
Stórsigur Samfylkingarinnar og Jóhönnu er eiginlega ekki fréttnæmur. Þegar loks er búið er að hræra saman og baka köku úr öllu sem til var; kvennaframboðinu, krötum, allaböllum og Ómari Ragnars, þá ber að gleðjast yfir því að kakan kom loks ófallin úr ofninum.
Stórkostleg framsókn framsóknarflokksins, sem aðeins einu sinni í sögu landsins hefur verið með jafn fáa þingmenn, er staðreynd. Flokkurinn stækkaði um 100% í þessum kosningum frá því sem slökustu skoðanakannanir sýndu. Mikið afrek fyrir annars aflóga stefnu og frekar ógeðgeldan strák sem tók við þessu hrafnaþingi fyrir nokkrum vikum.
Borgarhreyfingin sem eyddi bara einni og hálfri milljón og þremur vikum í að koma framboðinu saman fékk fjóra þingmenn og þar af einn flóttamann frá hrafnaþinginu, er hinn sanni sigurvegari þessarar kosninga, vegna þess að nú munu raddir fólksins í landinu loksins heyrast í þingsölum landsins. - Þeir ætla að halda uppi málþófi í öllum málum sem þingið tekur fyrir og þeir eru ekki sammála. Það er mikill sigur fyrir lýðræðið að fá þá málgarpa á þing.
Nú tekur við smá karp milli XS og XV um hvernig það verði hægt fyrir stjórnina að fara strax út í EB aðildarviðræður án þess að XV missi algjörlega andlitið. Og þegar því er lokið, verður þetta business as usual.
Heima sitja flokkseigendurnir ánægðir og núa sér um handabökin. Eftir allt þetta tilstand fór þetta bara dável allt saman. Enginn kærður fyrir stórþjófnaðina, engin ný stjórnarskrá til að endurskilgreina rétt þegna landsins, ekkert persónukjör og búið að stinga snuði upp í pottaglamursliðið. Business as usual.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Mannréttindi, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 13:14 | Facebook
Athugasemdir
Góð og nokkuð sönn samantekt!
Sigrún Jónsdóttir, 26.4.2009 kl. 14:11
Sjálfstæðisflokkurinn er hinn stóri sigurvegari kosninganna... hélt aldrei að 23,7 % þjóðarinnar myndu greiða þeim FLokki atkvæði... hann hefði átt að fá 5% miðað við frammistöðuna við stjórn landsins!
Brattur, 26.4.2009 kl. 15:07
Þú segir nokkuð...
Sammála Bratti eins og svo oft áður.
Lára Hanna Einarsdóttir, 26.4.2009 kl. 15:47
23.7 % þjóðarinnar er gerspillt, siðblind og siðlaus..
Óskar Þorkelsson, 26.4.2009 kl. 17:59
Jamm ekkert breyttist við þessar kosningar og ekkert mun breytast eftir þær. Hver er annars munurinn á kúk og skít?
Þór Ludwig Stiefel TORA, 26.4.2009 kl. 18:28
Hvað segir Dr. Phil um úrslitin?
gp (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 21:56
gp. Hvað áttu við? Hann setti fram spá um þau, búið mál, ekki satt. Hann sinnir ekkert stjórnmálfræði.
Svanur Gísli Þorkelsson, 27.4.2009 kl. 09:48
Fín samantekt.
Heimir Tómasson, 27.4.2009 kl. 16:16
He he.... smá karp. Ég er ekki alveg sammála því. Enda þarf að bera þetta undir flokksfélaga og einhvernveginn held ég að þetta verði fellt. Auðvitað áttu rétt á að vera á annari skoðun.
Fylgið verður ekki auðsótt til baka fyrir sjálfstæðismenn en þó langt í frá útilokað enda stjórnarseta núna mjög eldfim. Sú stjórn sem kemur til með að stýra gæti allt eins sprungið eins og vinstri stjórn er einni lagið.
Góður pistill hjá þér :).
Óðinn (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 16:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.