30.3.2009 | 01:16
"Eins og álfur út úr hól"
Íslendingar elska skáldin sín enda menning þeirra að stórum hluta byggð á skáldskap. Enn í dag, og ég hygg að það sé einsdæmi á meðal þjóða heimsins, koma Íslendingar saman í þeim einum tilgangi að yrkja og hlusta á aðra yrkja.
Að kasta fram stöku við öll möguleg tækifæri er jafnmikil andleg þjóðaríþrótt og glíman er líkamlega. Að geta komið áleiðis meiningu sinni í bundnu og hug-mynda skreyttu eða rímuðu máli, þykir næg ástæða til að hljóta æðstu hylli, bæði í lifandi lífi og að fólki gengnu.
Sem dæmi þá hvíla bein (mest af þeim alla vega) aðeins tveggja einstaklinga í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum. Báðir voru og eru elskuð og dáð skáld. Þá kemur íslenskur þingheimur saman einu sinni á ári þar sem andlega þjóðaríþróttin er í hávegum höfð og gráglettnar vísur, limrur og ferskeytlur fljúga um sali.
Í óbundnum skáldskap, sem er ekki síður mikilvægari grein íslenskrar menningar, þykja best þau skáld sem ekki þurfa að segja alla söguna beinum orðum heldur kunna að nota sér líkingamálið og skýrskotannir. Fólki er þá frjálst að lesa út úr frásögninni eins og því best lætur.
Í pólitík er þessi frásagnartækni oft notuð, sérstaklega þegar koma þarf höggi á andstæðinginn á þann hátt að hann geti ekki vel svarað fyrir sig. Sumir kalla það að senda eitraðar pillur, aðrir kalla það bakstungur.
Gott dæmi um þetta er að í gær sté í pontu á fjölmennum fundi eitt af hinum dáðu skáldum þjóðarinnar. Í þaulhugsaðri ræðu sinni talaði hann m.a. um núverandi forsætisráðsfrú. Þegar hann vildi lýsa viðbrögðum hennar greip hann til gamallar íslenskrar líkingar og sagði hana hafa verið eins og "álfur út úr hól", og bætti svo við til að leggja enn frekari áherslu á þetta atriði; "enda lítur hún út eins og álfur út úr hól."
Á fundinum var mikið hlegið að þessu "gríni" skáldsins. Máltilfinningin sagði flestum fundargestum það, að vera eins og "álfur út úr hól", merki að hún væri utangátta og að, hún liti út eins og álfur út úr hól, merki að hún líti skringilega út.
Aðrir vissu að ekkert í þessari ræðu var vanhugsað og skildu að öllu lymskulegra háð var á hér á ferðinni. Íslenska orðið álfur er bein þýðing á enska orðinu "fairy" sem jafnframt er slanguryrði um samkynhneigt fólk. Þar sem forsætisráðsfrúin er samkynhneigð, er háðið skírskotun til kynhneigðar hennar "undir rós".
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:17 | Facebook
Athugasemdir
Ef svo er Svanur, sem ég dreg svo sem ekki í efa, því ekkert sem hann segir er án skírskotunar eða meiningar, ja .. þá finnst mér nú kappinn kasta úr ansi þunnu glerhúsi.
Álfkonur eru yfirleitt ímynd fallegra kvenna, þær launa ríkulega sé þeim veitt aðstoð en hefna líka grimmilega, sé þeim sýnd vanvirða eða tómlæti.
Vonandi gleymdi Davíð bara að taka (gleði)pilluna sína áður en hann reið til fundar við flokkinn sinn og hóf upp raust.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 30.3.2009 kl. 05:35
Davíð er meistari dylgjunnar. Ótrúlegt að hlusta á mann heilla heilan sal með dylgjum og rógi í bland við mislukkaða brandara og fúkyrði. Árásir á Jóhönnu eru vanmáttugar tilraunir manna sem fara halloka í hroka sínum - hafa engin málefni - bara uppnefni og skítkast.
Hjálmtýr V Heiðdal, 30.3.2009 kl. 11:39
já sælll það er ekkert annað ég fíla hnetusmjör og borða banana frá ástralíuOg ég get sko sagt ykkur að kaffið mitt var í brókinni minni þegar ég vaknaði í morgunn. einnig finnst mér þú með krúttlegan nebba ! vertu sæl gerimundur graði
guðmundur geirkall (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 12:20
Glöggur varstu Svanur að koma auga á þetta, ég gerði það ekki. Tek undir með Jennýju að þar var veriða að kasta úr gleshúsi. Hemmhemm. Álfkonur rúla og hafa gert í gegnum aldirnar á Íslandi. Hjálpað konum í neyð í fæðingum og töfran einn og einn pilt til hvílubragða, hva, annað eins hefur nú gerst.
Svona til að vera nastí þá kalla ég manninn alltaf Dodda og hef mínar hugmyndir um hver sé Eyrnastór en ég er klár á því að þeir búa í Leikfangalandi þar sem þeir eiga allt dótið og eru ekki til í að deila því.
Rut Sumarliðadóttir, 30.3.2009 kl. 13:59
Einmitt Guðmundurog gerast menn þá kryptískir mjög.
Hjálmtýr; Það virðist vera sem vonir manna hafi staðið til annars, miðað við öll þau orð sem um ræðukornið hafa fallið. Vonbrigði fólks leyna sér ekki.
Rut; Við erum svona þarna suður með sjó
Jenný; Já glerhúsin eru varasöm þegar spegilgler er notað í byggingu þeirra. Þeir sem búa í slíkum húsum sjá aðeins sjálfa sig.
Svanur Gísli Þorkelsson, 30.3.2009 kl. 15:03
Svanur, nú held ég að þú hafir farið frammúr Davíð. Held að þú sjáir/hafir séð meira/annað en hann meinti. Þú ert einfaldlega dýpri í hugsun (ég er ekki að stríða þér) Þetta er ekki bein oftúlkun hjá þér heldur djúptúlkun. Því miður held ég að hann hafi bara meint að hún viti ekkert í sinn haus og hvernig hún eigi að snúa sér í hinum og þessum málum.
En, aftur á móti, hvað vitum við svosem?
Eygló, 30.3.2009 kl. 21:57
Það kann að vera kæra Eygló að ég færist of mikið í fang að ætla mér þá dul að ráða í orð Davíðs :) Ég viðurkenni það og gerði mér þá hættu ljósa þá ég reit pistilinn. En ég komst samt að sömu niðurstöðu og þú, hvað vitum við svosem?
Svanur Gísli Þorkelsson, 30.3.2009 kl. 23:16
Glöggur ertu, það verður ekki af þér skafið. Og spurningunni þinni sem þú kastar fram í næsta bloggi get ég svarað hér: Hugmyndin er ágæt (fræðilega séð)en ég treysti ekki flokki sem stappar og klappar og hlær yfir svona ræðu. Kveðja. Baldur
Baldur Kristjánsson, 31.3.2009 kl. 01:37
Kannski hafa mýs verið undir borðum; fólk þurft að sparka þeim frá og stappa af hræðslu? Hvað veit ég svosem?
Eygló, 31.3.2009 kl. 14:59
Skemmtileg skýring - en ég held reyndar að Dabbi sé svo lélegur í ensku að hann skilji ekki sjálfur orðið fairy.
Hmmm. En kannski lærisveinn númer eitt - sem ungur nam í Oxford - hafi samið ræðuna fyrir Meistara sinn? Hann ætti að skilja þessa þýðingu ... en úps, hann fellur víst sjálfur undir þessa skilgreiningu á álfi...
I rest my case!
Malína (IP-tala skráð) 31.3.2009 kl. 19:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.