27.3.2009 | 01:23
Hver þekkir hvern, hver elskar hvern
Ég veit alveg að þessi fyrirsögn er eins og titill á slúðursíðu og ég verð að viðurkenna það, að slúður hefur stundum slæðst inn í bloggin mín. Svo er þó ekki um þennan pistil og þeir sem eru í leit að góðri kjaftasögu þurfa því ekki að lesa lengra. Fyrirsögnin er þó alveg í samræmi við efni greinarinnar eins og þeir munu komast að sem hafa nennu til að stauta sig í gegnum eftirfarandi;
Ég hef stundum lagt mig eftir því að taka þátt í umræðu um trúmál hér á bloggslóðum. Auðvitað er fólk mismunandi statt í þeim efnum, sumir trúlausir, aðrir mjög trúaðir en flestir láta sér fátt um finnast, kannski vegna þess að þeir álíta trú sína vera einkamál. Aðrir vegna þess að þeir hafa yfirleitt lítinn áhuga á málefninu og því ekki gert sér far um að kynna sér það.
Ég hef samt tekið eftir því í þessum viðræðum að flestir tala út frá tiltölulega þröngri sýn á trúarbrögðin yfirleitt. Þeir sem eru trúlausir lýsa gjarnan yfir vanþóknun sinni á öllu sem trú viðkemur en þeir sem segjast trúaðir er vel kunnugt um boðskap sinnar eigin trúar en vita lítið um önnur trúarbrögð. Það bendir til að þeir hafi eins og reyndar er um okkur flest, látið fæðingarstað og menningu hans, ráða trú sinni. - Það þýðir að ef viðkomandi hefði t.d. verið fæddur og uppalinn í Burma, mundi hann eflaust vera dyggur Búddisti.
Ég nálgast trúmál öðruvísi. Vegna þess hafa margir átt erfitt með að skilja sjónarmið mín og hvað liggur þeim til grundvallar. Sem tilraun til að bæta úr því, langar mig að koma eftirfarandi á framfæri:
Frá alda öli hefur trú manna og trúarbrögð þeirra skipt mestu máli í lifi þeirra. Ég á ekki bara við þá sem sérstakan áhuga höfðu á trúmálum, heldur gjörvallt mannkynið. Allt frá æsku og fram á dauðadægur, gerðu menn og konur, um aldir og um allan heim, það sem þau gerðu, vegna þess að trúarbrögð þeirra kváðu á um að svona skyldi gert. Og ef þau gerðu eitthvað stórkostlegt eða sérstakt, var það helgað þeim guði sem þau trúðu á. Þannig gekk lífið fyrir sig í stórum dráttum í öllum heimsálfum jarðarinnar. Guðirnir voru nefndir mismunandi nöfnum, en þegar grannt er skoðað var afstaða fólks til þeirra og trú afar áþekk.
Spurningarnar sem vakna fljótlega eftir að fólk byrjar að kynna sér trúmál eru margar og meðal annarra þessar;
hvernig stendur á því að trúin var og er enn svona öflugur áhrifavaldur í lífi fólks?
Í öðru lagi, af hverju aðhyllist fólk kenningar einna trúarbragða en hafnar öðrum?
Og í þriðja lagi, hvers vegna hafa kenningar trúarbragðahöfundanna svona mikil áhrif á meðal fólks að það reynir að lifa eftir þeim, jafnvel í þúsundir ára, á meðan kenningar annarra kennimanna, jafnvel þótt þeir séu voldugir konungar eða þjóðarleiðtogar, falla fljótt í dá og gleymsku og lifa jafnvel ekki þá sjálfa?
Heimspekikenningar Sókratesar og Platós, Konfúsíusar og Lao-Tse, Aristótelesar og Kants, blönduðust inn í menningarheimana, en kenningar þeirra virkuðu eins og stuðningur við ríkjandi kenningar sem komu frá trúarbragðahöfundunum.
Hvers vegna túum við?
Svarið við fyrstu spurningunni má rekja til þarfa sem allir menn eiga sameiginlegar. Látum liggja á milli hluta hvernig þær þarfir eru tilkomnar. Þarfirnar eru tvær og sú fyrri lýsir sér best í þorsta mannskepnunnar eftir því sem við getum kallað samheitinu þekkingu. Strax eftir fæðingu byrjar þekkingaröflun okkar og hún helst út ævina eða svo lengi sem við höfum heilbrigði til.
Hinn þörfin kemur best fram í þrá okkar eftir að eiga samneyti við hvert annað í öryggi og elsku. Yfir þessa þrá eftir að elska og vera elskuð getum við notað samheitið ást eða kærleika. Þessi þörf blandast kynþörf okkar og tengist vissulega hvötum okkar til að vernda og viðhalda "tegundinni" en teygir sig líka að mörgu leyti langt út fyrir þann ramma.
Þessar tvær eðlislægu hvatir fléttast oft saman. Við elskum þekkinguna og við viljum þekkja það sem við elskum. Þeir vitsmunir sem mannskepnan ræður yfir greir henni kleift að skilja samhengi hluta. Sá skilningur krefst hugtaks sem við köllum "tilgang". Við skilgreinum tilgang allra hluta sem við þekkjum. Í ljósi tilgangs síns fær hluturinn merkingu.
Um leið og spurningin um "tilgang" okkar sjálfra er spurð veltur svarið á hvernig eðlislægu hvatirnar, að elska og þekkja, bregðast við hjá hverju og einu okkar. Hvenær það gerðist fyrst í þróun mannsins er ekki vitað, en það gerist enn hjá okkur öllum, einhvern tímann á lífsleiðinni. Það sem við í daglegu tali köllum trú, er þegar við yfirfærum þessar hvatir yfir á guðdóm. Guðstrú er með öðrum orðum þörfin til að þekkja og elska "Guð" í því tilfelli, með það fyrir augum að setja sjálfan sig í samhengi (finna tilgang) við alheiminn.
Hvers vegna bara "mín" trú?
Flest okkar hafa alist upp við ákveðna gerð trúarbragða. Í heiminum öllum eru fjöldi trúarbragða og óteljandi undirflokkar eða kvíslir út frá þeim sem stundum eru kallaðir sértrúarflokkar. Stærstu trúarbrögðin eru; Kristni, Íslam, Búddismi, Gyðingatrú og Hindúatrú. Að auki eru til aragrúi af ýmsum átrúnaði sem ekki tengjast þessum stóru trúarbrögðum á neinn augljósan hátt. Mörg trúarbrögð áttu áður stóra hópa fylgjenda en eru í dag aflögð með öllu.
Á Íslandi er það hin Kristna Evangelíska Lúterska Kirkja sem er ríkistrú. Frá blautu barnsbeini hefur okkur verið innrætt túlkun Marteins Lúters á Kristindóminum og að hún sé sú eina rétta. Jafnframt er okkur innrættur ákveðnir fordómar gagnvart öðrum trúarbrögðum, því túlkun Lúters var sú að Kristur væri sonur Guðs, upphaf og endir allra leiðbeininga frá Guði.
Það sama er upp á teningum hjá flestum fylgjendum annarra trúarbragða. Múslímum er kennt að Múhameð sé "innsigli spámannanna" og að hann sé sá síðasti í röð boðbera Guðs. Gyðingar trúa því að Móses einn hafi haft umboð til að setja lög fyrir Guðs hönd og Búddistar telja að engir fái uppljómun eða komist í Nirvana nema með því að fara eftir kenningum Búdda. Fáir skeyta um að boðskapur þessara trúarbragða er sem fyrr segir afar áþekkur á marga lund og það er miklu meira sem flytjendur þeirra eiga sameiginlegt en það sem á milli skilur. Fólk er yfirleitt miklu uppteknara af lömpunum sjálfum en ljósinu sem frá þeim skín.
Hvers vegna hafa kenningar trúarbragðahöfundanna svona mikil áhrif?
þrennt eiga allir þessir trúarbragðahöfundar óumdeilanlega sameiginlegt. Þeir segjast allir hafa umboð til þess að leggja öðrum mönnum lífsreglurnar og boða í því sambandi ákveðna siðfræði. Annað, að kenningar þeirra hafa náð að breiðast út, þrátt fyrir harða andstöðu ríkjandi stjórnvalda og trúarleiðtoga, og verða að lokum undirstaða menningar sem gjarnan er við þá kennd. Eftir mikla mótstöðu og nokkuð langan tíma voru það stundum konungar sem tóku trúna og gerðu hana að ríkistrú sem síðan varð til þess að hún breiddist út um álfur. Þannig var t.d. með Kristna trú og Búddisma. Íslam voru það kalífarnir sem lögðust í landvinninga og þeim fylgdi trú Múhameðs.
Að valdhafar gerðu einn eða annan átrúnað að ríkistrú var alls ekki svo óalgengt, en að átrúnaðurinn lifði þá, yrði áhrifaríkari og útbreiddari en ríki þeirra var nokkru sinni, gerðist ekki oft. En þannig er með stærstu trúarbrögð mannkynsins sem gjarnan eru því nefnd "heimstrúarbrögð". Í raun má segja að ein af bestu sönnunum fyrir því að stofnendur trúarbragðanna hafi raunverulega haft "guðlegt" umboð, sé hversu mikil og varanleg áhrif kenningar þeirra höfðu á mannkynið og sögu þess. Kenningum þeirra fylgdi kraftur sem ekki fylgdi kenningum venjulegra manna.
Þriðja atriðið sem sameiginlegt er með trúarbragðahöfundunum er að þeir segjast allir vera tengdir hver öðrum á andlegan hátt. Þeir viðurkenna umboð forvera síns, líkt og Kristur viðurkenndi Móses og Múhameð Krist, og þeir segjast allir munu snúa aftur "í fyllingu tímans." Í öllum trúarbrögðum er að finna fyrirheitið um "guðsríkið" á jörðu. Þetta er ástæðan fyrir því að margir gyðingar sá Messías í Kristi og margir hindúar sáu Budda sem endurkomu Krishna. Sjálfir halda trúarbragðahöfundarnir því fram að hlutverk kenninga þeirra sé að leysa af hólmi kenningar forvera þeirra sem hafi spillst í meðförum manna og því sé nauðsyn á endurnýjun.
Þennan skilning á trú og trúarbrögðum sæki ég til minnar eigin trúar sem hægt er fyrir áhugasama að fræðast um á krækjum (Bahai) hér til vinstri á bloggsíðunni.
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkar: Bloggar, Lífstíll, Trúmál | Facebook
Athugasemdir
Ég á eftir að kommenta á þennan pistil, sem ég tel vera tæra snilld. , seinna.
Davíð Kristjánsson (IP-tala skráð) 28.3.2009 kl. 00:26
Heyr heyr !
Sæll Svanur, það gerist ekki oft að ég er svona innilega sammála skilgreiningu einhvers annars.....en, "eins og talað út úr mínu hjarta" heitir það.
Megiru þakkir hafa fyrir, vona að sem flestir taki sér tíma til að lesa þetta og sjá hvað það í raun og veru þýðir fyrir alheimsmyndina að skilja það sem þarna stendur.
Kveðja,
Katala (IP-tala skráð) 28.3.2009 kl. 11:55
Hlakka til að heyra frá þér Davíð :)
Það var ánægjulegt að heyra Katala. Þakka þér :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 28.3.2009 kl. 13:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.