"Hér skal borg mín standa"

2-1Strandlengjan við ósa árinnar Neva sem Pétur l keisari í Rússlandi, tók herskildi af óvinum sínum Svíum árið 1703, leit ekki út fyrir að vera mikilvægur landvinningur. Hún var í raun lítið annað en þokuklædd mýri, gaddfrosin hálft árið og samfeldur fenjapyttur hina sex mánuðina. Í augum Péturs hafði hún samt einstæðan og ómótstæðilegan eiginleika. Árósinn opnaðist út í Finnlandsflóa og bauð upp á þann aðgang að hafi til vesturs sem Rússland hafði lengi sóst eftir. Á eyju í árminninu ákvað keisarinn að byggja virki sem búið skyldi öllum helstu nýungum þeirra tíma, sinnt gæti viðskiptum við þróaðri lönd Evrópu og í tímanna rás mundi það einnig þjóna sem flotastöð fyrir rússneska flotann. Sagan hermir að Pétur hafi gripið byssusting af hermanni einum og strikað með honum ferhyrning í blauta mýrina og sagt "Hér skal borg mín standa."

peterJarðvinna við virkið hófst 16. maí sama ár. Það skyldi  heita í höfuðið á heilögum Pétri og heilögum Páli. Fyrsta stigið var að byggja upp eyjuna þannig að hún væri öll fyrir ofan sjólínu. Síðan þurfti að sökkva þúsundum staura í jarðveginn til að hann gæti borið byggingar. Þeir sem unnu við jarðvegsflutninganna höfðu sumir hverjir hvorki skóflur eða hjólbörur og urðu því að skrapa saman moldinni og bera hana í skyrtulafinu.

Hernaðarlega séð var bygging virkisins réttlætt skömmu seinna þegar að sænski herinn mætti á vettvang á norðurbakka árinnar í júlí mánuði 1703. Pétur réðist á þá og fór sjálfur fyrir sex herdeildum sem hröktu Svíana til baka. Næstu 18 árin gekk hvorki né rak í herbrölti þjóðanna gegn hvor annarri. En jafnvel þegar verst gekk gegn Svíum, féllst Pétur aldrei á að láta þeim eftir virkið sem átti eftir að verða að borginni Pétursborg.

Þá þegar, stóð hugur Péturs til meira en að byggja þarna virki. Staðurinn skyldi verða dvalarstaður hans og þar mundi rísa hin nýja höfuðborg hans, nálægt hafi og Evrópu en fjarri Mosku sem honum líkað aldrei við. Pétur hafði áður ferðast víða um Evrópu og þegar hann snéri aftur til Rússlands var hann uppfullur af hugmyndum um hvernig mætti fleyta Rússlandi í átt til iðnvæðingar og nútímalegri hátta.  

0-st-petersburg_masterAð breyta virkinu í borg tók mörg ár. Pétur reiddi sig mjög á ráðleggingar ítalska arkitektsins Domenico Trezzini sem hrifinn var af Barokk stílnum, og á feiknafjölda af leiguliðum og vinnuföngum. Um langan tíma var borgarsvæðið eitt risastórt byggingarsvæði. Múrsteina og steinlímsverksmiðjur voru settar upp, heilu skógarnir höggnir niður og sögunarmillur knúnar vatni og vindi voru fjölmargar. Grjót í byggingarnar var svo torfengið að Pétur setti það í lög að hvert skip sem lagði upp við höfnina yrði að koma með a.m.k. 30 steinblokkir og að hver hestvagn sem til borgarinnar kæmi skyldi flytja með sér a.m.k. þrjár steinhellur. En jafnvel þetta dugði ekki til. Um tíma gerði hann það ólöglegt að byggja hús úr steini annars staðar en í Pétursborg að viðlagðri eignaupptöku og útlegð.

Stöplar voru settir niður, skógar felldir, hæðir flattar út, skurðir og díki grafin af sveltum verkamönnum sem lifði við hræðilegar aðstæður, hrjáðir af malaríu og niðurgangi. Hnútasvipa með járnhöglum var óspart notuð við minnsta brot og þeir sem reyndu að flýja var hegnt með því að skera af þeim nefið við beinið. Að minnsta kosti 30.000 manns létu lífið við byggingu borgarinnar. Ef virki heilags Péturs og heilags Páls var byggt á mýri þá var Pétursborg byggð á mannabeinum.

Flestar evrópskar bogir hafa vaxið smá saman með auknum viðskiptum, iðnaði og fólki sem fluttist  til þeirra úr sveitunum. Vöxtur Pétursborgar var knúinn áfram af einum manni. Þeir sem tilheyrðu hirð hans og fjölskyldu voru þvingaðir til að byggja sér hús í Pétursborg. Byggingarlagið var ákvarðað í lögum og það varð að vera samkvæmt "enska stílnum". Seinna var hinum efnameiri gert að bæta við hæð á húsin sín og þeir fengu engu um það ráðið. Bæði aðallinn og búaliðið kveinaði undan járnvilja Péturs.

l_4b2892631697ea26160724f6f87a62f6Þótt Pétur gerðist stundum skáldlegur um borgina sína sem hann gerði að höfuðborg Rússlands árið 1712 var hún enn óhrjálegur staður. Kuldalega regluleg fraus hún á vetrum en varð að heitu pestarbæli á sumrum. Hún var girt skógum og fenjum á alla vegu og sem dæmi þá drukknuðu átta hestar franska ambassadorsins á leiðinni við að komast að borginni. Jafnvel árið 1714 þegar Tezzini hóf byggingu Péturs og Páls barrokk kirkjunnar, voru tveir hermenn drepnir af úlfum þar sem þeir gættu  byggingarstaðarins.  Á hverju hausti flóði Neva yfir bakka sína og hreyf með sér nokkur timburhús borgarinnar.

En ekkert fékk stöðvað Pétur. Árið 1709 sigraði hann Svíana endanlega í orrustunni við Poltava og eftir það var borgin hans og gáttin í vestur örugg. Árið 1710 lauk byggingu Alexander Nevsky kirkjunnar og vetur og sumarhallir fylgdu á eftir. Brátt voru byggð bókasöfn, listsýninga-salir, söfn, dýragarður og vísindaakademía.

Það var Menshikov, ráðherra Péturs, sem sagði réttilega fyrir um framtíð Pétursborgar, að hún mundu verða Feneyjar norðursins sem gestir mundu heimsækja til að dást að fegurð hennar. Eftir dauða Péturs árið 1725 kepptust keisarar og keisaraynjur Rússlands við að skreyta borgina með höllum og kirkjum, breiðstrætum, höfnum og opinberum byggingum. Borgin jafnast fyllilega á við Feneyjar og Versali hvað byggingarlist varðar og framlag sitt til menningar og lista. Hún er tákn fyrir einarðan ásetning Rússlands til að verða hluti af Evrópu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Takk fyrir skemmtilega færslu!

Villi Asgeirsson, 21.3.2009 kl. 16:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband