100 forhúðir fyrir kóngsdótturina

Abraham1Sumir undra sig á því að kristið fólk umsker ekki sveinbörn sín þrátt fyrir að trúin sé sprottin úr gyðinglegum hefðum þar sem umskurður var stundaður í  þúsund ár fyrir burð Krists. Umskurður ungsveina á rót sína að rekja, samkvæmt Biblíunni, til fyrirskipunar Guðs til Abrahams í fyrstu Mósebók 17:9-15;

 9 Guð sagði við Abraham: "Þú skalt halda minn sáttmála, þú og niðjar þínir eftir þig, frá einum ættlið til annars. 10 Þetta er minn sáttmáli, sem þér skuluð halda, milli mín og yðar og niðja þinna eftir þig: Allt karlkyn meðal yðar skal umskera. 11 Yður skal umskera á holdi yfirhúðar yðar, og það sé merki sáttmálans milli mín og yðar. 12 Átta daga gömul skal öll sveinbörn umskera meðal yðar, ættlið eftir ættlið, bæði þau, er heima eru fædd, og eins hin, sem keypt eru verði af einhverjum útlendingi, er eigi er af þínum ættlegg. 13 Umskera skal bæði þann, sem fæddur er í húsi þínu, og eins þann, sem þú hefir verði keyptan, og þannig sé minn sáttmáli í yðar holdi sem ævinlegur sáttmáli. 14 En óumskorinn karlmaður, sá er ekki er umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni. Sáttmála minn hefir hann rofið."

Davíð með forhúðirnarUmskurðir tíðkuðust líka meðal forn-Egypta en siðurinn lagðist þar af og er hvergi trúarleg skylda nema meðal Gyðinga. Fræg af endemum er frásögnin í fyrstu Samúelsbók sem segir frá þegar Davíð reynir að ná sáttum við Sál konung um að gefa sér dóttur hans sem Davíð girntist;

24 Þjónar Sáls báru honum þetta og sögðu: "Slíkum orðum hefir Davíð mælt." 25 Þá sagði Sál: "Mælið svo við Davíð: ,Eigi girnist konungur annan mund en hundrað yfirhúðir Filista til þess að hefna sín á óvinum konungs.'" En Sál hugsaði sér að láta Davíð falla fyrir hendi Filista. 26 Og þjónar hans báru Davíð þessi orð, og Davíð líkaði það vel að eiga að mægjast við konung. En tíminn var enn ekki liðinn, 27 er Davíð tók sig upp og lagði af stað með menn sína og drap hundrað manns meðal Filista. Og Davíð fór með yfirhúðir þeirra og lagði þær allar með tölu fyrir konung, til þess að hann næði mægðum við konung. Þá gaf Sál honum Míkal dóttur sína fyrir konu.

Egyptar umskeraJesús var umskorinn í samræmi við þessi fyrirmæli Guðs til þjóðar sinnar (Lúkas 2.21.) og allir postularnir voru karlmenn af gyðinglegum ættum og hljóta því að hafa verið umskornir.

Í Postulasögunni má lesa hvernig Páll postuli byrjar að boða þjóðunum fyrir botni Miðjarðarhafs kristna trú. Það varð til þess að deilur spruttu upp á meðal kristinna hvort nauðsynlegt væri að umskera þá sem tóku hina nýju trú. Í Postulasögunni 15.1 segir svo;

1 Þá komu menn sunnan frá Júdeu og kenndu bræðrunum svo: "Eigi getið þér hólpnir orðið, nema þér látið umskerast að sið Móse." 2 Varð mikil misklíð og þræta milli þeirra og Páls og Barnabasar, og réðu menn af, að Páll og Barnabas og nokkrir þeirra aðrir færu á fund postulanna og öldunganna upp til Jerúsalem vegna þessa ágreinings.

Uumskurður meðal GyðingaÍ kjölfarið á þessum deilum hinna fyrstu kristnu manna voru þeir kallaðir saman til fundar í Jerúsalem til að ræða málið. En segir Postulasagan frá þeim fundi;

Þá risu upp nokkrir úr flokki farísea, er trú höfðu tekið, og sögðu: "Þá ber að umskera og bjóða þeim að halda lögmál Móse."

6 Postularnir og öldungarnir komu nú saman til að líta á þetta mál. 7 Eftir mikla umræðu reis Pétur upp og sagði við þá: "Bræður, þér vitið, að Guð kaus sér það fyrir löngu yðar á meðal, að heiðingjarnir skyldu fyrir munn minn heyra orð fagnaðarerindisins og taka trú. 8 Og Guð, sem hjörtun þekkir, bar þeim vitni, er hann gaf þeim heilagan anda eins og oss. 9 Engan mun gjörði hann á oss og þeim, er hann hreinsaði hjörtu þeirra með trúnni. 10 Hví freistið þér nú Guðs með því að leggja ok á háls lærisveinanna, er hvorki feður vorir né vér megnuðum að bera?

Umræðurnar héldu áfram um drykklanga stund og enduðu með því að Jakob bróðir Krists segir;

19 Ég lít því svo á, að eigi skuli íþyngja heiðingjum þeim, er snúa sér til Guðs, 20 heldur rita þeim, að þeir haldi sér frá öllu, sem flekkað er af skurðgoðum, frá saurlifnaði, frá kjöti af köfnuðum dýrum og frá blóði. 21 Frá fornu fari hafa menn prédikað Móse í öllum borgum. Hann er lesinn upp í samkundunum hvern hvíldardag."

Það er í sjálfu sér athyglisvert að Pétur lýsir umskurðinum sem oki sem hann og forfeður hans hafi þurft að bera, og gefur þannig í skyn að til hafi verið gyðingar sem voru umskurðinum fótfallnir. Hann gerir sér glögga grein fyrir að muni verða hindrun á vegi fkarlmanna við að móttaka kristna trú ef þeim yrði gert að undirgangast umskurð. Samt sem áður má lesa í næsta kafla hvernig Páll sjálfur tekst á hendur að umskera Tímóteus til að gera hann hæfari til að stunda trúboð meðal Gyðinga.

Í bréfum sínum leggur Páll sig fram um að  þróa hugmyndina um táknrænan og andlegan umskurð, frekar en bókstaflegan. Í framhaldi af því lögðust umskurðir af í kristinni trú sem trúarleg skylda þar til á síðustu öld.  Árið 1963 kom út bók eftir  SI McMillen, sem heitir "None of these Diseases" þar sem hann segir að Móselögin hafi komið til af heilsufarslegum ástæðum. Það er aftur á móti ekkert sem bendir til að umskurður hafi nokkuð með heilsu mana að gera, hvorki til hins verra eða betra. En bókin vakti athygli og rímaði vel við umskurðardelluna sem ríkti meðal lækna í Bandaríkjunum á seinni hluta síðustu aldar.

Umskurður kvenna

umskurður stúlkubarnsUm það sem stundum er kallaður umskurður kvenna, gegnir allt öðru máli. Um er að ræða afskræmingu á kynfærum kvenna sem hafa margar skaðlegar afleiðingar í för með sér og er víðast hvar fordæmdur sem villimannleg grimmd.  Talið er að siðurinn sé ævaforn og eigi rætur sínar að rekja til suðaustur Afríku. Þaðan barst hann til Arabíu og miðausturlanda. Siðurinn viðgengst enn hjá frumstæðum ættbálkum Afríku og Arabíuskagans, einkum þeirra sem játa íslamska trú og hefur því verið settur í samband við Íslam.

Ætlunin með "umskurði" kvenna er að reyna að  koma í veg fyrir að konan njóti kynlífs og verði þannig trygg eiginmanni sínum. Hún má samt ekki neita honum um hjúskaparrétt hans. Umskurðurinn er því gróf valdbeiting og kúgunaraðferð sem konurnar eru beittar og sem ekki eiga sér neina stoð í Íslam þó varla sé hægt að segja að þau trúarbrögð séu höll undir jafnrétti kynjanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hannes

Takk fyrir fróðlega grein eins og vejulega.

Kveðja Hannes.

Hannes, 16.3.2009 kl. 00:41

2 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Eftir að hafa skoðað hvað eina er lítur að jafnrétti karla og kvenna samkvæmt hinum ímsu trúarskoðunum og þeirra bókum er eftirfarandi minn dómur.

Það er ekki að sjá sem konur séu virtað að neinu marki hjá hinum ímsu trúarhópum hvorki í ræðu né riti.

Í kristinni trú tíðkaðist það t.d. lengi að konur ættu að halda sig til hlés og "halda kjafti" innan um allmenning og á trúarsamkomum.

Það að kona egi að halda sig fyrir aftan eginmanninn er ekki einskorðað við múslíma ( Múhameðstrúarmenn) heldur var það sett í kristna trú líka þó ekki sé um það mikið rætt í dag.

Af þessu að dæma þá er best að vera trúlaus og vera þar með frjáls til jafnréttisskoðana og annarra skoðanna.

Upplýsingarnar fékk ég hjá Norðmanni einum sem var að nema trúarbragðafræði.

Kveðja

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 16.3.2009 kl. 09:34

3 Smámynd: Sporðdrekinn

Ég hélt einmitt ad thad vœri út af hreinlœti sem ad umskurdir vor gerdir í birjun.

Sporðdrekinn, 16.3.2009 kl. 18:32

4 Smámynd: kiza

Umskurðir drengja og karla voru mjög líklega tengdir hreinlæti í byrjun, en síðan á bronsöld þá hefur okkur nú farið ágætlega fram í persónulegu hreinlæti, og því engin lógísk ástæða fyrir að framkvæma umskurði á drengjum í dag.

FGM (Female Genital Mutilation, ég NEITA að kalla þetta umskurð) er svo annað mál sem á sér enn dýpri 'menningarlegar' rætur, (lesist: kerfisbundin kúgun á grundvelli kyns), sem er einstaklega algengur og skelfilegur harmleikur sem framkvæmdur er á stúlkum gagngert til að bæla þær niður, bæði innan múslimskra samfélaga sem og þjóðflokka í t.d. Afríku og samfélögum í Asíu.  
Þetta er einn af þessum hlutum í heiminum sem fær mig alvarlega til að efast um að nokkuð gott fyrirfinnist í mannskepnunni yfirhöfuð, en ég þakka þér Svanur fyrir að vekja athygli á þessu, svona má ekki verða undir í umræðum um trúarbrögð og ýmsar afleiðingar þeirra.

-Jóna Svanlaug (nýtt icon).

p.s. vinsamlegast takið því ekki sem ég sé að mæla umskurði drengja bót, mér þykir það ritúal viðbjóðslegt líka, en þessir tveir gjörningar eru einfaldlega ekki sambærilegir í framkvæmd eða afleiðingum.  

kiza, 16.3.2009 kl. 22:05

5 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk fyrir innlitið Hannes.

Ólafur; Er það ekki þannig að það eru sterk tengsl á milli þróunar samfélagsins og trúarhugmynda þess um mannréttindi, þar á meðal auðvitað kvennaréttindi. 

Það hélt ég líka og því er haldið fram víða Sporðdreki. En ekki lengur allavega segja læknar.

Þakka þér sömuleiðis fyrir þessa áréttingu kiza.

Svanur Gísli Þorkelsson, 17.3.2009 kl. 00:15

6 identicon

fín grein :)

. (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 01:45

7 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þakka þér Jakob

Svanur Gísli Þorkelsson, 18.3.2009 kl. 02:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband