Hér séu Drekar

Svartur DrekiFrá því að farið var að skrá verk og hugmyndir mannkynsins hafa drekar komið við sögu. Í elstu heimildum um menningu Assýríumanna, Babýloníu, í Gamla testamentinu og sögu Gyðinga, fornum ritum Kínverja og Japana, í arfsögnum Grikkja, Rómverja og helgisögnum norður Ameríkubúa, Afríku og Indlands, er að finna dreka.

Á Íslandi er drekagammurinn talinn ein af landvættunum og rataði þess vegna inn í skjaldarmerkið. Reyndar var trúin á landvættina slík að það var bannað með lögum að styggja þá t.d. með því að sigla með gínandi trónu fyrir landi. Það er í raun erfitt að finna þjóð sem ekki hefur í menningu sinni að geyma frásögn af eða tengingu við dreka.


Fyrsta spurningin sem kemur upp í hugann er hvort drekinn eigi sé einhverja stoð í raunveruleikanum. Flestar bækur svara því neitandi og benda á að veran komi ekki fyrir í list og ritverkum fyrr en menning mannsins var komin vel á veg.

Forsöguleg flugeðlaBent hefur verið á að drekinn sé samsettur úr árásargjörnum og hættulegum dýrum eins og slöngu, krókódíl,  ljóni og jafnvel forsögulegum kvikindum. Drekinn er sem sagt tákn dýrsins „par exellence“ og hann birtist okkur fyrst sem slíkur í súmerskum hugmyndum um dýrið sem „óvini“ mannsins sem seinna voru settar í bein tengsl við djöfulinn.


Þetta á samt ekki við um nærri alla dreka, sérstaklega ekki þá kínversku sem eru frægir fyrir góðverk sín. Þessi ímynd dreka sem hræðilegra villidýra er líka dálítið ósanngjörn. Ef við t.d. berum hann saman við aðra ímyndaða sambræðinga eins og Kentára eða Griffina, og tökum í burtu augljósar ýkjur eins og eldspúandi gin,  er drekinn tiltölulega líffræðilega sannfærandi skeppna.

Moloch HorridusÞeir eiga margt sameiginlegt með forsögulegum drekum og eðlum sem svifu á milli fjallstoppana í fyrndinni.  Aristóteles og Pliny ásamt öðrum fornaldarskrifurum héldu  því fram að drekar væru hluti af náttúrunni frekar en ímyndunaraflinu og ef það er rétt eru bestu kandídatarnir eðlur.


Talverður fjöldi smáeðla, sérstaklega í Indó-Malasíu, geta látið sig svífa á fitjuðum vængjum og eru svo svipaðar drekum að þeim hefur verið gefið tegundarsamheitið Draco.

Hin bryn-skeljaða Moloch Horridus eðla er afar svipuð í sjón að sjá og gaddaður dreki. Indónesíska eðlutegundin Varanus komodoensis, kölluð Komododreki af innfæddum, getur orðið allt að þrír metrar á lengd. Náskyldur útdauður ættingi hennar í Ástralíu varð allt að sex metrar á lengd.

Varanus komodoensisÞað er ólíklegt að ein tegund skriðdýra hafi getað orðið fyrirmynd að drekanum þótt eflaust hafi þau hjálpað til við mótun hugmyndanna vítt og breytt um heiminn.

Þá eru tengsl dreka við himinhvolfin vel kunn. Það er vart hægt fyrir nútíma manninn að ímynda sér hversu heillaðir frummennirnir forfeður okkar voru af himninum. Plánetur og stjörnur voru í þeirra augum guðir og þegar að eitthvað óvenjulegt gerðist, eins og sól eða tunglmyrkvi,  eða þá að halastjarna með glóandi hala geystist um sjónarsviðið, þóttu það merkisviðburðir. Það er ekki erfitt að sjá hvernig barátta guðanna við eldspúandi dreka urðu að goðsögnum sem enn lifa góðu lífi eins og meðal frumstæðra ættálka og bókstafstrúaðra Biblíuskýrenda.
DrekaeyðirÍ vestrænum samfélögum höfum við vanist því horfa á drekann sem tákn hins illa, liggjandi dauðan fyrir fótum eins af hinum heilögu drekadrápurum eins og Heilags Georgs frá Kappadokíu eða Margrétar af Antiokíu eða þá erkiengilsins Mikaels. En sú táknmynd er afar mikil einföldun á hlutverki drekans í öðrum hlutum heimsins og reyndar heiminum öllum, áður en kristindómurinn kom til sögunnar.

Þegar að miðaldamenn reyndu að setja niður legu landa og sæva á kort, tíku drekar við þar sem þekkiningin endaði, eins og sjá má á mörgum kortum frá þeim tíma.

Í grískum og rómverskum sögnum er drekanum falið það hlutverk að gæta hofa og heilagara staða. Vegna skarprar sjónar og styrkleika síns, visku og forspárkunnáttu er hann einkar vel til slíkra verka fallinn og gætti því visku og fjársjóða. Í germönskum söguljóðum heygja hetjurnar hildi við dreka, líkt og Sigurður við Fáfni og Bjólfur við drekann sem varð honum að bana. 

Rauður DrekiÍ austurlöndum er drekinn miklu flóknari vera. Í bókmenntum og list fyrri tíma sést vel að hann getur breytt um útlit og tekið á sig mynd hvaða veru sem er. Hann getur ráðið veðri og vindum og því ábyrgur fyrir uppskerunni eða bresti hennar. Hann er Yang/Yin veran sem Feng –Shui meistararnir reyndu að setja í jafnvægi. Drekinn var svo mikilvægur að hann varð að tákni Keisaraveldisins. Keisarinn sat í drekahásætinu, svaf í drekarúminu, klæddist drekafatnaði og enginn annar mátti eiga fimmklóa dreka eftirmyndir.

Samkvæmt kínverskri heimspeki er drekaormurinn mikilvægasta og altækasta táknið fyrir þau öfl sem ráða alheiminum. Ólíkt því sem gerist á vesturlöndum, er drekinn aldrei sigraður eða drepinn í Kína, vegna þess að þeir eru nauðsynlegir milligönguaðilar milli jarðar og himins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

gaman að þessu

Hólmdís Hjartardóttir, 25.2.2009 kl. 20:28

2 Smámynd: Hannes

Virkilega skemmtileg og áhugaverð grein.

Takk fyrir hana Svanur.

Hannes, 26.2.2009 kl. 00:09

3 identicon

Drekar hafa altaf heillað mig. Eitthvað ótrúlega tignarlegt og flott við þá. Þegar maður var að RPG sem mest þá voru þetta verur sem að maður vildi helst ekki rekast á.

En ég hef oft hugsað um þessar verur og hvernig þær komast inn í menningu mannsins. Voru þetta verur sem menninnir þekktu og sáu, einhvern tíman í fyrndinni. Voru þessar verur raunverulega til, eða voru þetta bara verur sem mannkynið bjó til út úr öðrum lífverum sem mannkynið rakst á í náttúrunni.

Ingo (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 10:10

4 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Fróðlegt. Svo eru líka til erin-drekar sbr. amma dreki í einni bók Guðrúnar Helgadóttur.

Rut Sumarliðadóttir, 26.2.2009 kl. 13:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband