23.2.2009 | 00:37
Hey Rama
Einu sinni fyrir langa löngu, þegar að sögur voru ekki skráðar, heldur lifði í manna minnum, fæddist prins sem nefndur var Rama. Hann var frumburður Dasharatha konungs sem réði Kosala konungdæminu á norður Indlandi. Sem drengur réði Rama niðurlögum ógurlegrar andaveru sem lengi hafði hrellt þjóð hans. Þegar hann varð fullorðin vann hann hönd hinnar fögru Situ í keppni þar sem hann setti streng í boga og braut hann síðan sem aðrir gátu ekki einu sinni dregið.
Hann sameinaði þannig styrk, hugrekki og dyggðugt líferni. Vitaskuld vakti það öfund hirðarinnar. Konungurinn valdi hann sem arftaka sinn en varð síðan að breyta því vali til að heiðra gamalt loforð og útnefna Bharata sem arftaka sinn, son sem hann átti með annarri konu en móður Rama. Hann skipaði Rama að yfirgefa konungdæmið. Rama sá öng föður síns og gekk viljugur á vit örlaga sinna.
Hvort Rama var raunverulega söguleg persóna, er ekki hægt að vita fyrir víst. Söguljóðið mikla sem segir sögu hans heitir Ramayana var ekki skrifað niður fyrr en fyrir þrjú þúsund árum eða um sama leiti og stórir hópar af fólki sem var ljóst á húð og há streymdu inn í landið úr norðri, - Aríarnir.
Aríarnir eru m.a. ábyrgir fyrir því að kynna hið illræmda stéttakerfi inn í menningu Indlands.
Sagan af Rama kann vel að vera byggð á raunverulegum prinsi því hún er mikilvægt mótvægi fyrir Hindúisma sem trúarbrögð gegn áhrifum Aría-innrásinnar. Kristni, Búddatrú og Íslam eru trúarbrögð sem byggð eru á kenningum þriggja sögulegra persóna. Í Hindúatrú er enga slíka eina aðal-sögupersónu að finna. En ljómi Rama skín samt í gegnum arfleyfð Hindúa.
Eftir að Rama fór úr föðurgarði, reikaði hann ásamt konu sinni inn í álagaskóginn Dandaka. Þar bjargaði hann nokkrum heilögum mönnum úr klóm illrar andaveru. Sú afskiptasemi kallaði yfir Rama reiði andans sem gætti skógarins, Ravan, sem var tíuhöfða djöflakonungur og bjó á eyjunni Lanka. Ravan hefndi sín á Rama með því að stela frá honum Situ eiginkonu hans og halda henni í rammgerðu virki sínu.
Rama sem var einn á báti og átti enga að. En vegna dyggða hans gekk her bjarna og apa í lið með honum og byggðu brú yfir sundið til eyjarinnar Lanka og tóku síðan virki Ravan í áhlaupi.
Rama vann svo fullnaðarsigur með því að drepa Ravan í einvígi.
Rama var ekki alveg viss um að hann vildi konu sína aftur vegna þess að hann var hræddur um að Ravan hefði spjallað hana. Sita hljóp því á eldköst til að sanna sakleysi sitt og sté úr honum ósködduð.
Eftir þessi ævintýr snéru þau aftur til Ayodhya, höfuðborgar Kosala. Þar var Rama krýndur konungur með miklum fögnuði. En þrautir hans voru ekki á enda. Illar tungur efuðust um hreinlífi Situ. Rama sem var fangi eign hreinlífis brást við með því að gera Situ útlæga til skógar þar sem hún var sett undir vernd sagnaþularins Valmiki.
Í skóginum ól hún Rama tvo syni. Þegar að þeir urðu fullveðja sameinaðist fjölskyldan um stundarsakir. En Sita sem áfram héllt fram sakleysi sínu, bað jörðina að gleypa sig, sem hún og gerði. Rama sagði af sér og afhenti konungsríkið sonum sínum til stjórnar og sté síðan sjálfur upp til himna.
Hinar 24.000 rímuðu tvíhendur Ramayna söguljóðsins eru flestum Hindúum kunnar. Líklegt er að ljóðið hafi verið samið fyrst á sanskrít, hinu forn-klassíska máli Indlands og sagt er að það hafi gert sagnaþulurinn Valmiki. Þema ljóðsins er dyggðir og hugrekki sem reynt er á með sífeldum prófraunum.
Í Hindúatrú er Rama álitinn sjöunda holdtekja Vishnu æðsta Guðs Hindúasiðar. Rama er ímynd hetjunnar en hann er einnig vegurinn til Guðs og leið til persónulegrar frelsunar. Sita er ímynd kvenleika Hindúa, trú og auðmjúk. Lakshmana hálfbróðir Rama er líksamningur staðfestunnar og foringi apahersins, Hanuman, er álitin ímynd auðmýktar og hollustu við hinn andlega meistara.
Fyrir rúmum 1000 árum byrjuðu Hindúar að tilbiðja Rama sérstaklega og fyrir 500 árum var hann gerður að miðdepli átrúnaðar í söfnuði sem kallaður er Bhakti.
Á sextándu öld þegar að Mógúla-veldið þröngvaði almenningi til að taka Íslam voru viðbrögðin fyrst og fremst menningarleg frekar en pólitísk. Það leið ekki á löngu uns sigurvergarnir féllu kolflatir fyrir nýrri og frábæri túlkun á sögunni af Rama í orðum skáldsins Tulsi Das (1532-1623). Hann skrifaði á hindí, tungumáli nútíma og mið Indlands og aðrar þýðingar á öðrum tungumálum landsins fylgdu fljótt í kjölfarið.
Þegar að Hindúar deyja, ákalla þeir oftast Rama. Síustu orð Mahatma Gandhis þegar hann var skotinn voru Hey Rama.(ó Guð) Þegar að upplestri á Ramayana var útvarpað árið 1982 í Indlandi er talið að 700 milljónir manna hafi fylgst með á hverjum sunnudegi í meira enn ár.
Í Indónesíu þar sem meiri hluti íbúa eru múslímar á Ramayana marga aðdáendur. Allt frá því að konungur Thailands skipaði fyrir um þýðingu ljóðsins fyrir tveimur öldum, hefur nafnið Rama verið hluti af titli konunga þessa lands þar sem flestir íbúar aðhyllast Búddisma.
Athugasemdir
Falleg saga, fallegar myndir.
Góða nótt
Kveðja Ásgerður
egvania, 23.2.2009 kl. 03:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.