Ég og ánamaðkurinn

MaðkurVið flatmöguðum þarna í grasinu og nutum sólarinnar. Áin rann lygn við fætur mínar og liðaðist áfram eftir landslaginu uns hún hvarf á bak við næstu hæð.

Við ræddum um heima og geima og hann var afar viðkunnanlegur, virtist kunna á ýmsu skil sem ég hafði ekki reiknað með að venjulegir ánamaðkar væru að ómaka sig út af.

Af og til skreið hann ofaní moldina til að halda sér rökum og ég bar á mig sólolíu. Þegar hann kom upp í eitt skiptið sagði hann;

Ég sé að það er nú ekki mikill munur á okkur.

Nú, hvað meinarðu, svaraði ég.

Þú mátt ekkert við því að þorna frekar en ég.Og ef eitthvað, þá ertu mun þurftafrekari á umhverfið en ég. Þú þarft eflaust að kreista safann úr ótöldum tegundum jurta og blanda hann einhverri dýrafitu, bara til að geta smurt þessu á þig.

Nú ja, já, en það er nú mikill munur á okkur samt.

Það finnst mér ekki. Í raun ertu ánamaðkur sem ert búinn að safna utan á þig allskyns aukalíffærum sem þú hafðir upphaflega enga þörf fyrir.

Hu, ormur, ég er ekki ormur, ég er maður.

Jú, mannormur og ég get sannað það. Nokkrum dögum eftir að þú varst getinn, hvað varstu þá? Ég skal segja þér það. Eins sentímetra löng túpa með gat í sitt hvorum enda. Annað varð að munninum á þér og hitt að rassgatinu. Hvað er það annað en ormur?

Ja, þú ert nú bara að lýsa upphafinu á níu mámuða þroskaferli.

Upphafinu já já ,en upphafinu á hverju. Það sem gerist næst á þessu níu mánuða þróunarferli er að  fyrirtaks hönnun sem hefur staðið af sér breytingar í milljónir ára, er eyðilögð. Þú ormurinn, byrjar að hlaða utan á þig vefjum og líffærum sem gera ekkert fyrir þig?

Ja, þau gera mig hæfari til að komast af í lífinu.

Það get ég ekki séð. Þú ert enn maðkur í mörgu tilliti. Eiginlega maðkur sem hefur hneppt sjálfan sig í ánauð. Þetta sem þú kallar að vera "maður" er bara millistig.  Þegar því líkur, eftir allt bramboltið, muntu nefnilega enda aftur eins og þú byrjaðir, þú verður sem sagt að ormafæðu og þar með aftur að ormi. Nokkuð löng leið, fyrir ekki neitt, finnst þér ekki?

Við bakkannÉg var búin að fá nóg af þessu snakki maðksins í bili. Ég stóð upp og teygði mig í veiðistöngina, tróð ánamaðkinum á öngulinn og hélt áfram að renna fyrir boltann sem ég vissi að lá í felum einhversstaðar undir bakkanaum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg saga.

Hversu lík er DNA keðja ánamaðks DNA keðja manns?

Ingo (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 16:48

2 Smámynd: Hannes

Áhugavert spjall. Ég er nokkuð viss um að ánamaðkar munu lifa þegar mannkynið verður búið að deyja út.

Hannes, 28.2.2009 kl. 19:59

3 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Ánamaðkur hefur aðeins eitt skynfæri, tilfinninguna. Það er þess vegna sem hann engist þegar hann er þræddur upp á öngul.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 28.2.2009 kl. 21:00

4 identicon

Er ekki rétt að hlusta soldið á ánamaðkinn í sjálfum sér?

Davíð Kristjánsson (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 19:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband