17.2.2009 | 19:55
Andvarp yfir frumvarpi
Þótt að það sé broslegt að sjá þingmenn Framsóknarflokksins heykja sér yfir því eins og hanar á haug, að þeir skyldu verða fyrstir til að setja fram þinglagafrumvarp um stjórnlagaþing, hugmynd sem er í þessu sambandi (önnur frumvörp með sama heiti hafa tvisvar verið flutt áður) skilgetið afkvæmi búsáhaldabyltingarinnar, verður að viðurkenna að frumvarpið er skref í rétta átt.
Eftir að hafa lesið frumvarpið og fundið í því lítið til foráttu, nema e.t.v. að of skammur tími er fyrir stjórnlagaþingið (sex mánuðir) að vinna þetta mikilvæga mál að fullu, þá er ég bjartsýnn um, að verði það samþykkt, sé hægt að haka við alla vega eina kröfu þjóðarinnar sem ný ríkisstjórn hefur orðið við.
Til stjórnlagaþings á, samkvæmt frumvarpinu, að kjósa í beinni og óflokkspólitískum kosningum. Það væri mikil gæfa fyrir landið ef sá háttur yrði tekinn upp við allar kosningar og að í nýrri stjórnaskrá yrði ekki gert ráð fyrir framboðum flokka og þau bönnuð.
Þetta mundi leysa mörg vandmál þjóðarinnar á einu bretti. Komið væri í veg fyrir að fámennar valdaklíkur geti yfirtekið stjórn landsins í krafti stjórnmálflokka eins og raunin hefur verið nánast frá upphafi lýðveldisins,
þetta mundi útrýma svokölluðum meiri og minnihluta stjórnarháttum þar sem hluti þingheims (minnihluti) er útilokaður frá virkri þátttöku í stjórnarstarfinu,
og slíkt fyrirkomulag mundi að lokum tryggja að þeir sem á annað borð yrðu kosnir til alþingis, gætu kosið samkvæmt samvisku sinni, eins og reyndar gert er ráð fyrir í ríkjandi stjórnarskrá, þótt það ákvæði sé að engu haft í krafti núríkjandi flokkavalds.
Ef að stjórnlagþingið ákveður að banna flokkspólitísk framboð, munu stjórnmálaflokkarnir verða að áhugaklúbbum um stjórnmál sem geta sent frá sér tillögur til þingsins alls til að fjalla um þær eða að þeir munu leysast upp.
Þá yrði Þingið með tímanum að alvöru samráðsstofnun jafnframt því að vera löggjafarvald, þar sem hugmyndir yrðu ræddar óeigingjarnt á grundvelli manngilda og hagnýti, frekar en pólitískra hagsmuna og flokkadrátta.
Nýtt frumvarp forsætisráðherra um persónukjör sem rætt er nú í öllum þingflokkum gengur allt of skammt og er á engan hátt í samræmi við kröfurnar um útilokun flokkræðisins. Það er aðeins til þess fallið að slá ryki í augu fólks.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:11 | Facebook
Athugasemdir
þskj. 512 # frumskjal SF, 136. lþ. 286. mál: #A stjórnarskipunarlög # frv.
Tókstu eftir þessu í frumvarpinu um stjórnlagaþing... feitletrun mín:
Forsætisnefnd stjórnlagaþings skipar allt að 31 fulltrúa samkvæmt tilnefningum almannasamtaka, hagsmunasamtaka og stjórnmálasamtaka til setu í hlutaðeigandi starfsnefndum stjórnlagaþings með tillögurétti og málfrelsi eftir nánari reglum í fundarsköpum þingsins.
Lára Hanna Einarsdóttir, 18.2.2009 kl. 02:30
Ætlaði einmitt að skerpa á því sama og Lára Hanna gerir..Lestu ræðu Aðalheiðar Ámundadóttur sem hún flutti á Borgarafundi sl mánudag.
Ræðan hennar er líka á blogginu hennar Aðalheiðar.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 18.2.2009 kl. 12:16
Lít hér inn í algerum flýti, las ekki pistilinn nema þetta, sem ég tek 100% undir: "Nýtt frumvarp forsætisráðherra um persónukjör sem rætt er nú í öllum þingflokkum gengur allt of skammt og er á engan hátt í samræmi við kröfurnar um útilokun flokkræðisins. Það er aðeins til þess fallið að slá ryki í augu fólks."
Sbr. þennan annars staðar birta texta minn:
Frumatriði er að breyta kosningalögunum án tafar. Það á ekki að láta minnihlutastjórnina komast upp með að breyta því einu að taka upp persónukosningar samhliða hinu kerfinu. Það á að einbeita sér að örfáu í byrjun, það verður ekki miklu breytt á næstu tveimur mánuðum, það er bara ekki tími til þess né til að ná samstöðu á þingi um það með hægðinni, eins og mér sýnast sumir búast við. Gerið ráð fyrir bæði tregðu og tímatöfum og harðri andstöðu flokkseigendafélaganna við þær helztu breytingar sem þörf er á. En þær eru þessar:
Nýjar stjórnmálahreyfingar missa algerlega af lestinni, ef þær átta sig ekki á þessu og ef þær eru ekki með þeim mun geysilegra fjöldafylgi. En þær eru í raun margskiptar ... og koma naumast fram á skoðanakönnunum! Þær þurfa að átta sig á því, að það þarf meira til en það, sem þær eru að gera, til að velta því hlassi, sem þarna er við að eiga.
Fyrir utan þessi framtöldu meginatriði, sem baráttan þarf að standa um, er einnig um aðra erfiða tálma að ræða, sem ættu að sýna mönnum – ekki, að baráttan sé vonlaus, heldur að fleiri ástæður gera það knýjandi, að sú barátta fái að standa um aðalatriðin tvö (hér ofar), því að ella er mjög hætt við, að engin þessara nýju framboða nái inn þingmönnum (enda hefðu skoðanakannanir, sem sýna myndu, að naumast nokkur þeirra næði inn í tvískiptri Reykjavík, óhjákvæmilega þau áhrif, að menn þori ekki að kasta á þau atkvæðum sínum). En þessir aukatálmar eru:
Þess vegna þarf bæði snör viðbrögð og snjalla strategíu, ef takast á að brjóta þá vanabindandi flokksmúra og vígstöðu Fimmflokksins sem heldur nýrri lýðræðisvakningu í skefjum. ....
Það er algert frumskilyrði í allri þessari baráttu að gera Reykjavík aftur að einu kjördæmi. Menn verða að átta sig á algeru mikilvægi þess og beita sér í samræmi við það, ella getur allt ykkar erfiði orðið til einskis. Um þetta hef ég rætt í Útvarpi Sögu; sjá einnig um það atriði og fleiri ekki sízt þessa grein mína:
Misnotkun fjórflokksins á ríkisfé og kosningalögum til valdaeinokunar.
Jón Valur Jensson, 18.2.2009 kl. 12:18
Já Lára þetta atriði er reyndar dálítið loðið. Þingið sjálft getur ráðið aðkomu þessara aðila (feitletruðu) að miklu leiti, en þetta er örugglega gátt sem stjórnmálflokkar mundu geta notfært sér.
Svanur Gísli Þorkelsson, 18.2.2009 kl. 12:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.