Stjáni Blái

MarhnúturAð liggja á maganum á endanum á stóru-bryggju við að húkka smáufsa og beita fyrir kola sem stundum var svo bara marhnútur, var iðja sem mér og félögum mínum leiddist ekki, jafnvel þótt það færi stundum miklu meiri tími í að greiða út girninu og festa við það sökkur og öngla en í veiðiskapinn sjálfan. Helvítis Marhnúturinn var viðsjárverður og erfitt að losa hann af önglinum án þess að stinga sig og ef það gerðist var eina ráðiðað pissa á lúkuna á sér, eftir að maður hafði skyrpt upp í Marhnútinn og hent honum út í aftur.

Sjávarseltan í bland við hráolíu og tjöru, er svo samofin  minningunum um hampkaðla og grænar glernetakúlur, að þegar ég sé slíka hluti á söfnum í dag, finn ég jafnframt lyktina af gömlu Keflavík.   Að alast upp við sjávarsíðuna í  bæ sem hefur sitt viðurværi að mestu af sjónum, var hlutskipti mitt líkt og þúsunda íslenskra drengja og stúlkna á sjöunda áratugnum.  Eins og hafragrauturinn sem ég gleypti í mig á morgnanna rann greitt niðrí magann á mér áður en hlaupið var af stað, runnu sögurnar af sægörpum og fræknum sjómönnum inn í hausinn á mér. Í Keflavík  reis hæst yfir alla þá kappa með ægishjálm, Stjáni Blái og þeir voru ófáir strákarnir sem héldu því ótrauðir fram að þeir væru náskyldir honum. Stjáni Blái hét réttu nafni Kristján Sveinsson og var ættaður úr Keflavík en sótti mest sjóinn frá Vogum á Vatnsleysuströnd og úr Höfnum.

Úr KeflavíkurhöfnÞrátt fyrir að Stjáni Blái væri talin vera fremsta hetja hafsins stóð mér alltaf ógn af honum og kom þar Þrennt til. Það þótti tilhlýðilegt af stæltum sjómönnum sem vildu gantast við börn að gefa þeim selbita. Ég eins og aðrir var oft að hnoðast um borð í bátum öllum þar til óþurftar og fékk því oft að kenna á þessu græskulausa en oft ansi sársaukafulla gríni sjómannanna. Einhvern veginn setti ég  selbitana í samband við Stjána Bláa. Annað var að ef maður reyndi að slást við þessa kalla tóku þeir á manni tak sem kallað er steinbítstak. Þetta tak setti ég einnig í samband við Stjána.  Hið þriðja var að þegar ég heyrði fyrst ljóð Arnars Arnarssonar um Stjána Bláa, þótti mér skelfilegast þegar hann "strengir klóna". Þessi skelfilegi kraftur sem bjó í höndum og fingrum Stjána Bláa, var svo yfirþyrmandi að hann varð að einkennilegri blöndu af hetju og ótukt í huga mínum.  - Þegar svo að einhver skaut því að mér að líklega væri hinn frægi Stapadraugur, sjálfur Stjáni Blái afturgenginn, þótti mér það afar sennilegt. Ekkert gat verið eins hræðilegt og sjórekinn Stjáni Blái í aftursætinu á bílnum þínum í niðamyrkri þar sem hann strekkti klóna og undirbýr að gefa þér snarpann selbita eða taka þig aftanfrá blýföstu steinsbítstaki.

Þegar ég rakst á fyrir skömmu á vef Bókasafns Reykjanesbæjar, frásagnarbút af Stjána Bláa, sem ég hafði ekki lesið áður, sá ég að margt af því sem ég hafði einhvern veginn fengið á tilfinninguna um Stjána Bláa sem drengur, var í raun sannleikanum samkvæmt;

Kæmist Stjáni í krappan dans,
kostir birtust fullhugans,
betri þóttu handtök hans
heldur en nokkurs annars manns.

Mælti Örn Arnarson skáld í kvæði sínu um Stjána bláa.

Hann var frekar hár maður, grannur. Föt hans voru þröng og nærskorin, úr bláu vinnufataefni, en alltaf hrein og vel bætt.

Kirkjuvogskirkja HafnirÞegar maríumessur voru eða stórrumbudagar kom Stjáni oft að Kotvogi. Hann var dulur og fár við fullorðna en með afbrigðum orðheppinn maður. Hann hafði gaman af krökkum og byrjaði venjulega með því að gefa þeim selbita; hann sagðist gera það til þess að vita hvort heilsan væri góð hjá þeim og áður en varði var hann búinn að hleypa galsa í hópinn með sinni rólegu glettni. Ef strákar voru orðnir svo stálpaðir að þeir voru farnir að róa, gekk Stjáni oft að þeim, tók í handlegg þeirra með þumalfingri og vísifingri og kleip þá, svo að hann virtist ætla að læsa hold frá beini og þeir hljóðuðu. Þá mælti Stjáni: "Ég hélt að þú værir svo stæltur af árinni, lagsi, að puttarnir á mér hrykkju af vöðvunum á þér en það er spauglaust með meyjarholdin."


Öðru máli var að gegna, ef Stjáni var með víni. Þá talaði hann lítt við ungu kynslóðina, en sneri þá máli sínu aðallega að þeim karlmönnum sem voru gustmiklir og harðskeyttir og var þá ekki að sökum að spyrja. En þá var líka eins og sjómaðurinn kæmi upp í honum. Tök hans voru bæði frumleg og fantaleg, stundum líkust því sem hann væri að eiga við óþekka fiska við borðstokkinn. Steinbítstak var konunglegt að hans dómi.
Og Stjáni var tvennt í senn, hann var handfljótur, handviss og handsterkur. Var það hvort tveggja í senn grátt gaman og þó hálf broslegt að sjá aðfarir hans.

Dag einn, er frátök voru, kom Stjáni niður að Kotvogi, var það um nónbilið. Þann sama dag hafði einhver raki borizt suður í byggðina frá Keflavík og voru sumir sjómenn hreifir. Stjáni fór upp á baðstofuloft, dvaldi þar stutta stund hjá fólkinu, ósköp rólegur og gekk síðan niður og út. þegar Stjáni kom út á hlað voru þar nokkrir sjómenn fyrir, þar á meðal einn norðan úr Fljótum, stór maður og myndarlegur. Einhver lyfting mun hafa verið komin í hann því að hann fór óðara að særa Stjána og valdi honum ýmsan skáskeyting.


Stjáni sneri sér þá að honum og áður en auga yrði á fest hafði hann rennt vinstra þumalfingri inn um hægra munnvik mannsins, utan við tanngarðinn og gripið á móti með fingrunum aftan við kjálkabarðið, snúið manninn niður og ætlaði nú að ganga svo frá honum að hann yrði rólegur fyrst um sinn. Gengu þá sjómenn á milli og báðu Fljótamanninum griða; var það seinsótt, en tókst þó. Gárungarnir sögðu að sjómaðurinn hefði ekki samkjaftað til hægra munnviksins eftir þetta.

Þetta samspil Stjána og sjómannsins flaug um alla sveitina og því var það síðar á þessari vertíð að eftirfarandi atvik kom fyrir er nokkrum sjómönnum lenti saman á landlegudegi. Einn þeirra var hávaðamaður við vín og órór og vildi nú stæla meistarann og nota sama tak. En nú var það bara ekki höndin á Stjána sem var með í leiknum og því fór sem fór; maðurinn fór með þumalfingurinn inn á milli jaxlanna en mótstöðumaður hans lagði ómjúkt að og sleppti ekki takinu og kvaldi manninn bæði mikið og lengi svo að hann varð strax að fara til læknis eftir viðureignina. En eins og vandfarið var í föt Stjána, hvað allt tusk snerti, eins var það vonlítið að ætla sér að jafnast á við snilld hans og skilning á sjómennsku.

Svo bar til að liðið var það á vertíð að sílfiskur var farinn að ganga og menn byrjaðir með net. Allir formenn áttu þá net sín suður á Kalmanstjarnarvík, en þegar fiskigangan var sem mest og hrotan stóð sem hæst tók frá í tvo daga og allir sem til þekkja vita hve stórfiskur þolir illa að liggja í netjum án þess að skemmast.


ofeigurÁ þriðja degi var áttleysa, sjór nokkuð lagztur en þó rismikill og útsynntur og þannig að á hann mátti engin breyting koma nema til batnaðar. Allir formenn ýttu úr vör um morguninn og vitjuðu um netin. En þegar hallaði að hádegi tók sjór að aukast og hann jós í sig briminu sem kallað er. Allir formenn komu líka von bráðar og tóku sundið meðan það var sæmilegt, nema einn; hann kom ekki að sundinu fyrr en allir aðrir formenn voru lentir og höfðu sett skip sín. Kirkjuvogssund er gott sund og verður ekki hættulegt, fyrr en sjór er orðinn hroðalegur. Þegar þetta síðasta skip kom að sundinu, mátti heita, að komið væri stórveltubrim og sundið ófært, nema ef lög komu.


Formaðurinn, Magnús að nafni var góður stjórnandi, skapmikill og einbeittur. Skip hans var áttæringur, fremur lítið skip, en sjóskip ágætt; skipshöfnin var ellefu eða þrettán menn. Þegar hér var komið sögu, var allt fólkið, bæði ungt og gamalt úr þorpinu, komið niður í naustin. Á tímum neyðarinnar verður fólk í litlu sjávarþorpi að einni fjölskyldu. Allir eru sem ein hönd til hjálpar, allir þrá það sama. Og enginn, sem ekki hefir heyrt það og séð með eigin augum, getur skilið, hvílík angist og hryggð getur gripið heilt byggðarlag, þegar svona stendur á. Eins var það nú í Kirkjuvogsvörinni; grátstafir og þungur ekki heyrðist en karlmenn þeir sem stóðu uppi á Kotbogsbakkanum sáu að skipið hélt sig nokkuð utan við sundið. Var þá sjór orðinn svo mikill að skipið hvarf alveg og að því er manni fannst drukklanga stund í öldudalina, en snilldarlega var það þá varið fyrir kvikum og áföllum.


Sjómenn2Þá sáu menn líka að til formannsins var kominn Stjáni en hann reri hjá honum þessa vertíð. Og menn vissu hvílíkur snillingur hann var og hversu hann gat hafið sig yfir allan fjölda manna á svona augnablikum. Og það skal ekki orðlengt frekara að nokkuð löngu seinna kom lag á sundi sem þeir tóku og heppnaðist vel enda lögðu þarna tveir snillingar saman ráð sín. Stjáni og formaðurinn. En þegar skipið stóð á þurru, þá mælti Magnús formaður og var þá reiður til þess að bæla niðri í sér klökkvann:
"Hana, piltar, þakkið þið nú honum Kristjáni fyrir lífgjöfina í dag."

Magnús vissi hvað hann sagði. Menn sem voru með Stjána þennan dag á sjó sögðust aldrei hafa þekkt hann alúðlegri né skemmtilegri en þennan dag. Það var eins og hann yxi upp úr sjálfum sér, þegar hann horfðist í augu við háskann. Hann hefir verið einn af þeim mörgu, sem ekki lifa í sterku tjóðurbandi við þetta líf, og því ávallt búinn til að fara, en hann þurfti ekki fyrir það að verða sá listamaður, sem hann varð, á mælikvarða sjómennskunnar. Það hefir honum verið meðfætt.


Stjáni Blái eftir Erling JónssonStjáni var eins og hvert annað kuldastrá í landi, en í ríki sjómennskunnar var hann fæddur konungur, í ríkinu sem leggur svo mikið til í kjarnann í þjóðlífi okkar Íslendinga.

Erlingur Jónsson, gamli handavinnukennarinn minn gerði fagurt listaverk til minningar um Stjána Bláa og það stendur nú í Reykjanesbæ og er myndin hér til hliðar af því.

Þá að lokum læt ég hér ljóð Arnars Fylgja.

Stjáni Blái

Stjáni blái bjóst til ferðar.
Bundin skeið í lending flaut.
Sjómenn spáðu öllu illu.
Yzt á Valhúsgrunni braut.
Kólgubólginn klakabakki
kryppu upp við hafsbrún skaut.

Stjáni setti stút að vörum,
stundi létt og grönum brá,
stakk í vasann, strauk úr skeggi,
steig á skip og ýtti frá,
hjaraði stýri, strengdi klóna,
stefndi undir Skagatá.

Æsivindur lotulangur
löðri siglum hærra blés.
Söng í reipum. Sauð á keipum. Alda
Sá í grænan vegg til hlés.
Stjáni blái strengdi klóna,
stýrði fyrir Keilisnes.

Sáu þeir á Suðurnesjum
segli búinn, lítinn knörr
yfir bratta bylgjuhryggi
bruna hratt, sem flygi ör
– siglt var hratt, og siglt var mikinn –
sögðust kenna Stjána för.

Vindur hækkar. Hrönnin stækkar.
Hrímgrátt særok felur grund.
Brotsjór rís til beggja handa.
Brimi lokast vík og sund.
Stjáni blái strengdi klóna,
stýrði beint á drottins fund.

Drottinn sjálfur stóð á ströndu:
Stillist vindur! Lækki sær!
Hátt er siglt og stöðugt stjórnað.
Stýra kannt þú sonur kær.
Hörð er lundin, hraust er mundin,
hjartað gott, sem undir slær.

Heill til stranda, Stjáni blái,
stíg í land og kom til mín.
Hér er nóg að stríða og starfa.
Stundaðu sjó og drekktu vín,
kjós þér leiði, vel þér veiði.
Valin skeiðin bíður þín.

Horfi ég út á himinlána.
Hugur eygir glæsimynd:
Mér er sem ég sjái Stjána
sigla hvassan beitivind
austur af sól og suður af mána,
sýður á keipum himinlind.


(Örn Arnarson)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stórkostleg og skemmtileg  frásögn, takk fyrir Svanur.

Kv. Kristján.  

Kristján Helgason (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 00:34

2 identicon

Það er alltaf jafn fróðlegt að líta hér við.

 Til hamingju með daginn.

Árný Leifs (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 11:12

3 identicon

Sæll Svanur:

Gott hjá þér, stórskemmtileg lesning.

Karl Steinar afabarn Stjána bláa

Karl Steinar Guðnason (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband