Framboð og fyrirspurn til þín

Ný andlitÓðum tínist til mannafli í flokksframboðin. Hér gilda allt önnur lögmál en í venjulegum mannlegum samskiptum. Það virðist ekkert samhengi milli framboðs og eftirspurnar.

Það úir og grúir af "nýju" fólki með "nýjar" samviskur (oftast samt með gamalkunn andlit), sem sækist eftir að fá að taka virkan þátt í að byggja upp "nýja" Ísland. Í  baklöndunum góðu er þokunni óðum að létta og allir segjast glaðbeittir hafa kannað þau, hugrakkir og fífldjarfir eins og fyrstu pólfararnir forðum. 

Fólk er óðum að koma sér fyrir í gamalkunnum og vel skipulögðum skotgröfum þar sem því líður vel meðal já-vina sinna í flokknum. Klisjurnar fljúga manna á millum og allt er aftur eins og það var.  Ég dáist að hugrekki þessa  fólks sem þorir raunverulega að mæta sjálfu sér í  speglinum þegar það velur lit á bindi eða blússu sem hæfir dagverkinu, eftir allt sem á hefur gengið. Það þarf alvöru hugrekki til þess.

Nú morar allt í tilkynningum frá þessu fólki í fjölmiðlum og á blogginu. Framboðspistlarnir þar sem allir lofa ábúðarfullir að lofa engu sem þeir ætla ekki að efna og lofa því engu, eru þegar orðnir daglegt brauð, enda ekki ráð nema í tíma sé tekið, flokksþingin öll á næsta leiti og nýta þarf Gróu gömlu frá sama bæ til hins ýtrasta.

PólitíkinBrátt verður bloggið sprengfullt af mosagrænum og digrum en samt fúnum framboðsgreinum, flúruðum pólitísku hjali og skreyttum gljáandi vel lýstum myndum af framboðsfólkinu sem hrópa á þig; "horfðu á varir mínar".

Um leið heyrast einstaka stunur frá gömlum hrelldum sálum sem eru að draga sig í hlé, sármóðgaðar yfir öllum þessum hávaða frá fólki sem leyfir þeim ekki að verða sjálfdauðar í embættisstólunum. En þær vissu jú að póli-tíkin er ekki sú trygglyndasta í hverfinu.

Og fólk er sem sagt farið að kannast við sig í Kjósinni.

En hvað varð um þær fjölmörgu háværu raddir sem hrópuðu hátt og kröfðust þess að flokksræðið yrði lagt af með öllu? Hvar eiga þær heima á þessu "nýja" flotta flokkspólitíska Íslandi sem búsáhaldabyltingin virðist vera smátt og smátt að samþykkja eftir að "réttu" flokkarnir komust að í ríkisstjórn? 

Kannski finna þær heimili sitt á auðu seðlunum sem skilað verður í komandi kosningum. Og kannski finna þær aftur tóninn þegar í ljós kemur að ekkert hefur í rauninni breyst og að flokksræðið blívur...nú sem fyrr.

Ef að kosið verður til stjórnlagaþings á þann hátt sem nú liggur fyrir, hversvegna er ekki hægt að breyta stjórnarskrá svo það verði kosið til alþingis með sama hætti og svo kallaðir meiri og minnihlutar á alþingi verði lagðir niður áamt öllu flokkakerfinu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Mér finnst það hræðileg tilhugsun að ekkert muni breytast.

Sigrún Jónsdóttir, 8.2.2009 kl. 07:07

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Til hamingju með bloggafmælið Sigrún mín.

Vissulega hræðilegt sammála, en sú tilhugsun tilhugsun hjá fólki að fara í gegn um raunverulegar breytingar virðist vera enn hræðilegri og þess vegna verður afturhvarf til þess sem var þegar það sér fram á að breytingarnar eru of viðamiklar fyrir það. Ekki bara kerfið sem þarf að laga, heldur hugsunargangur okkar sjálfra. 

Svanur Gísli Þorkelsson, 8.2.2009 kl. 13:49

3 identicon

Eru háværu raddirnar ekki bara hávaði - og enginn á bak við þær sem er tilbúinn til þeirra verka sem tíkurnar "nenna" að sinna. Það er svo auðvelt að hafa hátt, en það þarf meira en hávaða til að fæða fram "nýtt land" og þá þurfa líka ansi margir að vera sammála um aðferðafræðina. Tíkurnar hafa "forskot" í reynslu og hugrekki, þrátt fyrir alla gagnrýni. Þínir flokksfélagar börðu pottlok og heimtuðu flokksræðið burt en eru saddir í bili með "nýja ríkisstjórn" og hættir að berja pottlokin. Þ.a. eitthvað hefur hávaðaflokkurinn minnkað. Maður veltir því fyrir sér hvort VG hafi ekki verið aðaldrifkrafturinn á bak við hávaðann og markmiðið að ýta undir óánægjuna til að komast í ríkisstjórn. Varðandi stjórnlagaþingið, þá liggur nú ekkert fyrir um kosningu til stjórnlagaþings. Það er ennþá á algjöru "undirbúningsstigi" hjá nýrri ríkisstjórn og forsprakki þess hóps segir slíkar kosningar verði í fyrsta lagi í haust sökum mikils undirbúnings. Það eru greinilega ekki fleiri klukkutímar í sólarhringnum hjá nýju stjórninni heldur en þeirri gömlu. Og allt tekur "tíma" líka hjá þínum félögum. Það er nú verið að ræða stjórnlagaþings til þess að breyta stjórnarskránni. Allar breytingar á stjórnarskrá eru torsóttar og ef ég man rétt þá þarf 2/3 hluta atkvæða á Alþingi til að breyta henni. Þess vegna er trúlega óhugsandi að búast við breytingum á stjórnarskrá fyrir næstu kosningar. Gamli sársaukinn er betri en að takast á við eitthvað nýtt og óþekkt. Stóru spurningarnar eru: Er vilji til þess að laga kerfið? Viljum við hugsa öðru vísi? Hverjir eru tilbúnir að leggja það á sig? Sammælast um lagfæringarnar á kerfinu, afla hugmyndunum brautargengi meðal meirihluta þjóðarinnar, byggja upp nýjan hugsunarhátt og tryggja það að allir taki upp þann "hugsunarhátt" (hvernig sem það má verða). Það er eitt að hrópa á götum úti og blaðra á blogginu og annað að vinna verkið. Þessir sem við höfum kosið til þess að sinna því - virðast vera þeir einu sem eru tilbúnir til þessara verka, hvort sem okkur líkar þau verk vel eða illa.

guggap (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband