1.2.2009 | 18:57
Ég og Mímí
Ég sat þögull og starði ofan í kaffibollan minn. Ekki af því mig langaði ekki að segja eitthvað, heldur af því að ég vissi ekki hvar ég átti að byrja. Konan hinum megin við borðið tók þögn mína greinilega á þann veg að ég hefði viljugur gerst "góður hlustandi" og héllt ótrauð áfram að láta dæluna ganga.
"Auðvitað hefur maður oft fengið að heyra það; - Mímí! Ha, það lýsir þér rétt. Eins eigingjörn og þú ert nú, ha. - Veistu, ég held að fólk sé nú bara að segja þetta. Nafnið býður bara upp á það. Reyndar heiti ég nú Margrét, en það kalla mig allir Mímí. Svo getur það líka verið bara öfundsýki. Sumum finnst örugglega að ég eigi ekki skilið að hafa það sem ég hef, þú veist, bara tuttugu og átta ára og flott...he he... að reka líka tvær flottar verslanir og allt það. En það hefur sko kostað sitt. Það eru heldur ekki margir karlmenn sem sætta sig við að vera tekjuminni en konan. Ég veit ekki hvað ég er búin að deita marga sem segjast hafa einhverjar rosa tekjur og svo kemur í ljós að þeir eiga ekki bót fyrir boruna á sér. Ég þoli ekki karla sem villa á sér heimildir. Þegar upp er staðið hafa þeir nákvæmlega ekkert að bjóða. Ég hitti til dæmis einn um daginn. Vá, þvílíkur looser. Ég var nýkomin úr fitusogi og var svolítið aum um mjaðmirnar. Það er alveg rosalegt hvernig hvað maður getur safnað á sig þótt maður borði eiginlega ekki neitt, eða þú veist....(Hún setti putta upp í kokið á sér)... Læknirinn sagði reyndar að þetta væri genatískt. Jæja, þessi vildi endilega bjóða mér út eitthvað, Grikkland eða eitthvað. Heyrðu, þegar hann heyrði að ég væri ekki alveg til í að sýna mig á g-strengnum enn varð hann bara fúll. Og þegar hann heyrði að ég ætti búðirnar þá spurði hann hvort ég væri ekki til í að borga í ferðinni. Ég sem hélt að hann væri að bjóða mér. Jæja, svo kom í ljós að hann var líka með einhverri annarri......Heyrðu, sérðu eitthvað hérna fyrir ofan efri vörina. Nei, kannski sést það ekki, ég reyndi nú að sminka yfir það. Gvuð, ég varð alveg brjáluð þegar ég sá þetta. Ég hef látið sprauta í varirnar áður, en núna kom bara stórt gat þar sem hann setti nálina. Sérðu eitthvað...En ef þú sérð ekkert er þetta örugglega í lagi.... Ég fór um daginn til spákonu. Ég er svo mikið fyrir svona allskonar andlega hluti. Og veistu, hún sagðist sjá að ég mundi eignast barn fljótlega. Hvernig gat hún vitað það að ég hef einmitt verið að pæla í að eignast barn? Maður verður ekkert yngri skilirðu ha ha. Málið er að maður vill ekkert vesen auðvitað, og þess vegna er ég að hugsa um að kaupa mér bara sæði úr einhverjum sæðisbankanum. Gallinn er að maður fær ekki að sjá sæðisgjafann skilurðu, þannig að maður veit aldrei hvernig hann leit út. Ég mundi sko ekki vilja einhvern ljótan. Eiginlega finnst mér að ljótir karlar ættu ekki að fá að gefa sæði. Ímyndaðu þér sjokkið maður, ef barnið væri bara eitthvað lukkutröll. En ég vil helst eignast tvö börn, því ef eitthvað kemur fyrir annað þá hefur maður alla vega hitt. Þú tryggir ekki eftir á he he he....."
Nú hringdi gemsinn minn og ég svaraði. Mímí þagnaði og leit í kringum sig. Um leið og ég lauk samtalinu sem var stutt, hélt hún áfram. Ég notaði tækifærið og smelti af henni mynd.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Hamingjan góða, óskaplega getur konan talað! Og þú hefur hlustað nógu vel til að geta endursagt þetta allt saman... ég kalla þig góðan!
Lára Hanna Einarsdóttir, 1.2.2009 kl. 20:02
Hahaha.
Jenný Anna Baldursdóttir, 1.2.2009 kl. 21:02
Frábær frásögn. Samt trúi ég ekki að konan geti talað svona mikið og um margt. Er þett ekki samantekt frá hinum og þessum kvenmanninum í gegnum tíðina? Mími, sem sí masar?
Hilmir Arnarson, 1.2.2009 kl. 21:06
Já Mímíar heimsins vita sko hvað málið snýst um :-) hlátur!
Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 07:58
Kannast við þetta. Hugsaðu þér hvað væri fljótlegt að ná sér í efni í heila bók, taka bara upp á band, eintal nokkurra kvenna og ALLT kemur fram, lífsýn, reynsla og framtíðaráætlanir. Eitthvað sem engum dytti í hug að skálda.
Marta Gunnarsdóttir, 2.2.2009 kl. 09:21
Mig vantaði einmitt smá efni fyrir verkefni um daginn..sat á kaffihúsi alveg tóm. Fór svo að skrifa samtal sem ungt fólk átti á næsta borði. Ekkert merkilegt samtal..bara svona ósköp venjulegt samtal um nám og pælingar um föt. Var ferlega flott þegar það var komið á blaðið..stundum er bara raunveruleikinn hrár og kaldur flottastur.
Mímí myndi vera svona ískaldur raunveruleiki..
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 2.2.2009 kl. 10:20
Ma,ma,ma,ma...haha
Sigrún Jónsdóttir, 2.2.2009 kl. 13:59
Marta; Hafa ekki einmitt margar bækir þegar verið þannig gerðar??
Katrín; Einmitt, merkilegt hvað skrifaðut texti getur breytt áferð efnissins :)
Hilmir; Reyndar er þetta ein persóna.
Guðlaug; Jamm, Mímí veit nákvæmlega hvað hún vill og hvernig hún ætlar að ná þeim markmiðum. Spurnngin er hvort Mímí sé frekar algeng?
Svanur Gísli Þorkelsson, 2.2.2009 kl. 15:07
Ég sagði þetta í smá glettni.
Hilmir Arnarson, 2.2.2009 kl. 22:49
þannig var því tekið...
Svanur Gísli Þorkelsson, 2.2.2009 kl. 22:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.