29.1.2009 | 10:22
10 ára og skilin
Hún heitir Nujood Ali og hún er aðeins tíu ára. Faðir hennar er götusópari sem á tvær konur og 17 börn. Þau búa í Jemen þar sem lög landsins eru blanda af Sharia lögum Íslam og fornum ættbálkahefðum. Sjálf stjórnarskrá landsins er ein málamiðlun út í gegn til að friða afturhaldsama norðurlandsbúa og framfarasinnaða íbúa suður hlutans. Kveinréttindunum er eins og venjulega fórnað á altari þjóðareiningar.
Martröð hennar hófst morgun einn í febrúar á síðasta ári. Með tveggja daga fyrirvara tilkynnti faðir Nujood að hann hugðist gifta hana manni sem væri tuttugu árum eldri en hún. Hún hafði ekkert um málið að segja, hún var aðeins barn og að auki stúlkubarn.
Rödd hennar er mjúk og hrein en augu hennar ákveðin þegar hún talar; "Maðurinn minn sór í viðurvist föður míns að hann mundi ekki snerta mig í mörg ár. En það loforð gleymdist fyrstu nóttina eftir giftinguna. Þegar ég kom inn í svefnherbergið sá ég að það var bara eitt rúm. Ég reyndi að hlaupa í burtu. En hann náði mér, slökkti ljósin og klæddi mig úr öllum fötunum. Síðan sló hann mig og tók mig með valdi. Þetta gerðist á hverri nóttu í einn mánuð þangað til að frænka mín gaf mér smá peninga fyrir rútufari. Ég keypti miða og fór rakleiðis til dómshússins í næstu borg."
Nujood var heppin. Í dómshúsinu hitti hún Mohammed al-Qhadí, trúlega eina dómarann í landinu sem var tilbúin til að hlusta á hana án þess að kalla fyrst til eiginmann hennar og fjölskyldu.
Mohammed al-Qhadí var hneykslaður á meðferðinni á Nujood litlu og ákvað að skjóta yfir hana skjólshúsi á meðan að dómsmálið var tekið fyrir sem endaði með að hann veitti Nujood skilnað.
Eiginmaður hennar heimtaði sem nemur 30.000 krónum í skaðbætur, upphæð sem faðir Najood hafði ekki efni á að borga. Lögfræðingur Najood, Rashida al-Hamdani, eini kvenn-lögfræðingurinn í Jemen, greiddi sjálf skaðabæturnar.
Barnagiftingar eru algengar í Jemen. Fátækt í bland við forna siði og trúarkreddur eru helsta ástæðan. Samkvæmt skoðanakönnun er meira en tuttugu ára aldursmunur á hjónum í fjórða hverju hjónabandi í landinu.
Mál Najood vakti verðskuldaða athygli í landinu. Myndir birtust af henni í sjónvarpinu sem varð til þess að fleiri barnungar stúlkur sem gefnar hafa verið eldi karlmönnum hafa gefið sig fram við yfirvöld og óskað aðstoðar.
Eftir skilnaðinn fór Najood aftur til foreldra sinna og gengur nú í skóla. Hún segist aldrei ætla að gifta sig aftur og hún ætli sér að verða lögfræðingur eins og Rashida al-Hamdani.
Meginflokkur: Mannréttindi | Aukaflokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Múhammeð átti 11 konur og tók hann sér þá yngstu þeirra þegar hún var 6-7 ára. Þau ku hafa ,, fullkomnað " hjónabandið þegar hún var 9 ára.
Stefán (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 10:28
Ég á svo erfitt með að skilja (eða trúa) að kúltúr geri það að verkum að karlmanni þyki eðlilegt að girnast barn.
Ég sé staði eins og Jemen sem himnaríki fyrir barnaníðinga.
Hugrökk lítil stúlka. Hun á alveg örugglega eftir að láta að sér kveðja. Þ.e. ef hún verður ekki myrt til að þagga niður í henni.
Jóna Á. Gísladóttir, 29.1.2009 kl. 12:20
Þarna þykir þetta heimsins eðlilegasti hlutur meðan það er glæpur annars staðar í heiminum. Hvort er rétt?? Við erum gáttuð á þeirra þjóðfélagi og siðum og þeir á okkar.
Þetta er svívirða.....eins og Jóna segir...Paradís barnaníðinga
Rúna Guðfinnsdóttir, 29.1.2009 kl. 14:55
Mér finnst þetta hryllilegt. Blessaðar stúlkurnar svo ég segi nú ekki meira.
Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 29.1.2009 kl. 15:25
Mikið spunnið í þessa stúlku að hafa hugrekki til að leita sér hjálpar.
Sigrún Jónsdóttir, 29.1.2009 kl. 16:58
Oj, bara.. Viðurstyggð íslams ... ógeð!
Guðjón Atlason (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 09:24
Þakka öllum þessar athugasemdir.
Jóna, um þessar mundir eru Búlgaría og Rúmenía stærstu veiðilendur barnaníðinga og þeirra "himnaríki". Þess ber einnig að gæta að 36% af kynlífsseljendum í Evrópulöndum eru undir 18 ára aldri. Það er vitað að tala barna og unglinga sem seld hafa verið í kynlífsánauð í Evrópuríkjum er yfir 100.000 og í Asíu og suður Ameríku veit enginn hvað tölurnar eru háar en þær skipta milljónum.
Ég var að horfa á frekar dapurlegt myndband sem tekið var leynilega upp út undir kirkjugarðsvegg einhversstaðar í Búlgaríu þar sem barnaníðingur er að þrasa við föður 14 ára drengs um hvað hann þurfi að borga fyrir að fá að hafa mök við hann.
Sagan af Najood er svo merkileg af því hún er fyrsta stúlkan í Jemen sem rís upp gegn ríkjandi hefðum þar í landi á þennan hátt og verður til þess að margar fleiri stúlkur hafa gert hið sama. -
Svanur Gísli Þorkelsson, 30.1.2009 kl. 14:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.