28.1.2009 | 22:05
Trú Gandhi
Gandhi trúði því að til þess að öðlast umburðarlyndi þyrfti hinn venjulegi maður að öðlast persónulegan styrk og þar með óttaleysi. Sem drengur lifði hann í stöðugum ótta við myrkrið, þjófa, drauga og snáka. Sem unglingur heimsótti hann eitt sinn ásamt kunningja sínum hóruhús og varð orðlaus og lamaður af hræðslu. Allt hugrekki hans var afleiðing ásetnings hans að sigrast á þessum veikleikum sínum sem ollu honum stöðugum áhyggjum.
Friður hið innra var takmark hans; og hann var þeirrar skoðunar að með því að gera öðrum mögulegt að finna frið mundi hann sjálfur ná takmarki sínu. Að stuðla að einingu milli einstaklinga og samfélaga var honum lækning við eigin kvíða. Lausn hans fól í sér að umbreyta stjórnmálum í einskonar sálrænt ferðalag þar sem fólk reiddi sig ekki á sterka leiðtoga heldur á viðleitni hvers og eins; og að hver og einn breytti eigin hegðun í stað þess að kenna öðrum um aðstæður sínar; og að lokum; að gott fordæmi væri besta aðferðin til að hafa áhrif á samfélagið almennt.
Gandhi talaði opinskátt um sitt eigið líf og viðurkenndi að hann ætti sjálfur í erfiðleikum. Hann ræddi um óánægju konu sinnar yfir því að hann afneitaði venjulegum heimilis þægindum og yfir því að hann upp á stóð að allir peningar sem honum áskotnuðust og ekki fóru til beinna heimilisnota, væri sjóður sem nota ætti til almannaheilla. Synir hans sýndu honum vanþóknun sína vegna þess að hann sinnti þeim ekki og hann neitaði því ekki því hann var þeirrar skoðunar að maður ætti ekki takmarka ást sína við venslafólk sitt, heldur við alla sem yfirleitt er hægt að þróa samhygð með.
Persónulega taldi hann upp 150 einstaklinga sem féllu undir þá "ættmenna" skilgreiningu. Honum fannst að með því að breiða út "náungakærleik" og persónulega vináttu væri hægt að yfirstíga alla þröskuldi trúarbragða, þjóðernis og stéttaskiptingar. Kærleikinn ætti að tjá fyrst og fremst með sjálfs-lausri þjónustu í þágu annarra.
Hann stofnaði tilrauna-samfélag þar sem hann reyndi að hrinda þessum kenningum í framkvæmd. Margir af hindúunum sem með honum voru urðu skelfingu lostnir þegar þeir sáu að sumir þorpsbúanna tilheyrðu stétt "hinna óhreinu", þá sem allir forðuðust að eiga samskipti við. Sjálfur hafði Gandhi verið alinn upp við að halda þeim í ákveðinni fjarlægð og láta þeim eftir skítverkin. Nú tók hann tók sjálfur fullan þátt í þeim og hjálpaði t.d. til í eina klukkustund á dag við að halda sjúkrahúsi staðarins hreinu. Með þessu fordæmi trúði hann að gamlar kreddur mundu hverfa.
Gandhi var ekki mannblendinn persóna í hefðbundinni merkingu þess orðs. Þess vegna fannst honum erfitt að vingast við alla þá sem hann umgekkst. Hann átti ekki vini sem voru jafningjar hans. Nehru var eins og sonur hans og Gokhale eins og faðir. Það var miklu frekar á meðal þeirra fullorðinu kvenna sem hjálpuðu honum í starfi hans að hann fann þá tilfinningalegu næringu sem hann þarfnaðist.
Þrátt fyrir að afstaða hans til kvenna væri frekar gamaldags og honum fyndist hin fullkomna kona einfaldlega vera "trú eiginkona", uppgötvaði hann með vinskap sínum við samverkakonur sínar að þær bjuggu yfir miklu meiri getu en hann hafi áður eignað þeim. Samt gerði hann sér ekki grein fyrir því að slíkur vinskapur milli kynjanna bæti verið mikilvæg viðbót í hinu nýja samfélagi. Hann kallaði eina vinkinu sína "bjána" og húna kallaði hann "harðstjóra". Hann hlustaði en heyrði aðeins hluta af því sem sagt var.
Gandhi reyndi ekki að má út allar hefðbundnar sérgreiningar. Það var ekki ósk hans að bæði kristnir og múslímar mundu viðurkenna að lokum Hindúisma sem æðri trúarbrögð. Fyrir honum voru öll trúarbrögð dyggðug og líka gölluð. Að predika trúarbrögð dugði ekki vegna þess að flestir fóru hvort eð er ekki eftir þeim almennilega.
Í stað þess að hvetja alla til að skipta um trúarbrögð hvatti hann alla til að fara betur eftir þeirri trú sem þeir höfðu þegar. Sannleikurinn hafði margar hliðar og engin leið að einfalda hann í einni trú. En það hafði þau áhrif að hann gerði ekkert til að koma á móts við ofsatrúarmenn sem álitu sína eigin sannfæringu allan sannleikann.
Gandhi sýndi að einn einstaklingur gat breytt hegðun 600 milljón manns tímabundið, og að eitthvað sem nálgast það að vera kraftaverk getur gerst. þegar að múslímar sem voru að flýja til Pakistan árið 1947 voru brytjaðir niður af hindúum voru ummæli Gandhis "Við höfum nánast breyst í skepnur".
Þegar múslímar hefndu sín og Kalkútta logaði í óeirðum sem aftur kölluðu á hefndaraðgerðir hindúa, tók Gandhi sér bólstað í hverfi múslíma og í húsi múslíma, án lögregluverndar. Þetta var táknræn gjörð fyrir hugrekki og sáttavilja. Innan nokkurra klukkustunda voru múslímar og hindúar byrjaðir að faðma hvern annan og biðjast fyrir í bænahúsum og moskum hvers annars. Síðan héldu óeirðirnar áfram. Gandhi hóf föstu og sór þess að neyta ekki matar fyrr en brjálæðinu linnti. Aftur hættu átökin og menn lögðu niður vopn sín.
Mountbatten landsstjóri sagði um Gandhi við þetta tækifæri. "Hann hefur með siðferðilegri sannfæringu áunnið meira en fjórar herdeildir hefðu getað með því að beita valdi". En árangurinn var skammvinnur. Allir urðu fyrir djúpum áhrifum af vilja Gandhi til að fórna sjálfum sér fyrir friðinn. Samt sem áður leið ekki á löngu uns hatrið sauð upp úr aftur.
Þannig má segja að Gandhi hafi bæði tekist og mistekist ætlunarverk sitt í senn. Hann sýndi að hægt er að yfirstíga ósamlyndi og óeiningu. En honum mistókst að gera árangurinn varanlegan. Eitt sinn sagði Gandhi að "allir menn væru eins, hluti af sömu allsherjar sálinni". samt sýndi tilraun hans að "góðum vilja" gagnvart öllu mannkyni er hægt að drekkja á augnabliki í öldum andúðar.
Gandhi var að mörgu leiti líkamsgerfingur þess besta og mesta sem maðurinn einn getur áorkað. Hann var einlægur, staðfastur, sannleikselskandi og auðmjúkur þjónn. Honum hefur verið líkt við persónur eins og Krist og Múhameð, Krisnha og Buddha. Samt gerði hann engar kröfur um að tala fyrir munn Guðs eða einhverskonar almætti. Þrátt fyrir marga dygga fylgjendur og nokkuð vel skráðar heimildir um líf hans og starf, og þótt eftir hann liggi mikið af spakmælum og vísdómsorðum, sumum hverjum ég hef gert skil á þessari bloggsíðu, hafa allar tilraunir til að setja hann í sama sæti og opinberendur trúarbragðanna, mistekist. Það er hægt að eigna Gandhi umbætur, vísdóm, kærleika og áhrifamikið fordæmi. En hann náði ekki að koma á varanlegum breytingum eða stofna til sjálfstæðrar og framsækinnar siðmenningar líkt og guðsmennirnir sem honum er stundum líkt saman við gerðu.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 22:12 | Facebook
Athugasemdir
Þetta var mjög góð samantekt á Gandhi og hans innsýn í lífið. Gandhi var frábær að mínu mati en auðvitað líka barn síns tíma á margan hátt.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 28.1.2009 kl. 23:53
Hann var svo sannfærður, það er það stórkostlega við Gandhi. Takk fyrir þessa samantekt, gaman að lesa að vanda.
Rúna Guðfinnsdóttir, 29.1.2009 kl. 01:35
Ágætt hjá þér að benda á að Gandhi hætti ekkert að vera Indverji/barn síns tíma/mennskur þótt hann væri mikill friðarsinni. Samt fer þessi persónudýrkun í taugarnar á mér. Enginn einstaklingur einn og sér, breytir hegðun 600 milljóna.
Það er óþolandi hvernig einn maður er alltaf tekinn út og honum eignuð öll viðhorf og öll afrek fjölmennrar hreyfingar. Gandhi var ekkert einn og hreyfing hans var heldur ekkert ein. Það voru margar hreyfingar á Indlandi sem háðu þessa frelsisbaráttu og það skal enginn segja mér að meðal þeirra sem fylgdu Gandhi hafi ekki verið einhverjir sem köstuðu grjóti.
Skiljanlega vilja menn frekar halda passivismanum á lofti en þeim sem beittu harðari aðgerðum. Það þjónar bæði hagsmunum valdníðinga veraldarinnar að telja fólki trú um að það sé eitthvað göfugt við að láta lemja sig og svo höfðar það til píslarvættisdýrkunar smáborgarans. En sannleikurinn er nú sennilega flóknari en svo að einn sérvitur karl hafi með botnlausum kærleika frelsað stóra þjóð úr ánauð.
Hvað Gvuðsmennina varðar þá hef ég heldur enga trú á að þeir hafi einir og óstuddir haft þessi gríðarlegu áhrif á siðmenninguna. Sem má svosem líka deila um hvort er að öllu leyti svo rosalega siðleg og framsækin. Hvað er annars framsækin siðmenning? Sú sem framleiðir fullkomin vopn og síma sem hægt er að nota sem staðsetningartæki svo örugglega sé hægt að fylgjast með öllum, alltaf? Sú sem hafnar rétti manna til að verja sig ef á þá er ráðist? Sú sem kemur upp lánasjóði sem ljóst og leynt hefur það að markmiði að ræna þjóðir sem til hans leita sjálfstæði sínu? Ég sé ekki betur en að framsóknin snúist aðallega um að mylja undir fáa með því að halda flestum í fjötrum þrældóms og fátæktar og valdastrúktúrinn sem er undirrót slíkrar framsóknar er einmitt boðaður og staðfestur í trúarbrögðunum.
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 02:30
Ég þakka ykkur þessar góðu athugasemdir.
Það er hárrétt hjá þér Eva að Gandhi breytti ekki hegðun Indverja enda leit hann svo á að sér hefði mistekist. Þegar að Bretar loks fóru, en í þeirri sjálfstæðisbaráttu var Gandhi og boðskapur hans þjóðinni mikill innblásturs, höfnuðu bæði hindúar og múslímar því að búa í sama landi þar sem reyna mundi á umburðalyndi af þeim toga sem Gandhi boðaði.
Sáttaumleitanir Gandhis báru engan árangur, jafnvel þótt hann byði Jinnah að verða forsætisráðherra og því fór sem fór og landið klofnaði í þrjú lönd. Þar áttu einmitt stóran þátt "grjótkastarar" Indlands sem nokkru seinna létu drepa Gandhi fyrir það að vera múslímum of hliðhollur.
Þrátt fyrir að nafni Gandhis sé haldið á lofti í tengslum við frelsisbaráttu Indlands þar sem það sem Gandhi kallaði "virka ofbeldislausa andstöðu" varð að vendipunkti og hann var ótvírætt primus motor að, er ekki þar með sagt að sú aðferð hafi gagnast neinum í framhaldinu.
Umburðalyndi eins og Gandhi boðaði það er í besta falli þrep í ferli sem fyrir heiminum liggur. Handan þess þreps liggur sannur skilningur á milli manna sem er miklu metnaðarfyllri markmið en að sigra lönd.
Þú kýst að draga fram þá þætti siðmenningarinnar sem einmitt einkenna þau sjónarmið að landvinningar og völd séu æðsta löngun mannsins og í fljótu bragði, sérstaklega þegar ekki er til neinn meirihluti lengur því heimurinn er ekkert annað enn samansafn minnihlutahópa, má segja að siðmenningin sé allt annað en framsækin. En er það vegna þess að eðli okkar sem siðmenninguna búum til er svona bjagað eða hefur okkur bara mistekist að fara eftir því.
Áhrif þeirra impetusa á sögulega framvindu sem ég nefni, felst fyrst og fremst í að benda á möguleikann á betra samfélagi, tæknilega og félagslega. Valdastruktúr sá sem þú segir trúarbrögðin styðja er einmitt miklu frekar afleiðing þess hvernig mönnum hefur mistekist að nýta sér þá möguleika fremur en að vera "undirrót" þeirra.
Svanur Gísli Þorkelsson, 29.1.2009 kl. 12:40
Það sem er skelfilegast við trúarbrögðin er að þau boða undirgefni. Þ.e.a.s. þau boða mönnum að gangast undir vald án þess að gagnrýna það, jafnvel án þess að skilja.
Þetta er svo aftur undirrótin, en ekki afleiðingin, af því fyrirkomulagi sem víðast hvar tíðkast og sést t.d. vel í íslenskri pólitík, að fáir hafi mikil völd, hafi rétt til að leyna upplýsingum og þurfi ekki að svara fyrir gjörðir sínar og ákvarðanir. Sú fyrirmynd er sótt beint til Gvuðs, þessvegna er lýðræði, jöfnuður og réttlæti, óhugsandi í trúuðu samfélagi.
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 13:46
Það er líka hárrétt hjá þér Eva að hugmyndir manna um valdsumboð þróaðist frá því að; sá sterkasti réði, í vald óháð líkamlegum burðum, í gegnum trúarbrögð. En það er mikill munur á að horfa á fyrirmynd og telja sig raunverulega vera fyrirmyndina.
Þróun þeirra hugmynda og hvernig hinar gömlu "strong man" ímyndir blandast saman við "guðlegt valdsumboð" er í raun konungssaga heimsins. En án þeirrar hugmyndafræði að hægt sé að ríkja í krafti hugmynda frekar en líkamlegs afls, var öll viðleitni til jafnræðis dauðadæmd.
Dæmin um "hinn vitra einvald" sem leit á sig sem tákn fyrir jöfnuð og réttlæti, frekar en holdgerving guðlegs valds sem falið var að deila og drottna eftir eigin geðþótta, eru samt afar sjaldgæf í mannkynssögunni, því miður. En okkur miðaði samt áleiðis.
Lýðræðishreyfingar 18. og 19. aldar gengu einmitt út á að koma á samfélagslegu valdsumboði í krafti hugmynda frekar en líkamsstyrks og/eða stórlætislegu einræði konunga.
Samfélag okkar er , eins og þú bendir er enn litað af fortíðinni, en fyrr eða síðar munum við segja skilið við þær gömlu og úreltu hugmyndir og í því er m.a fólgin "leyndardómur" framsækinnar siðmenningar.
Svanur Gísli Þorkelsson, 29.1.2009 kl. 15:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.