28.1.2009 | 02:17
Fyrirgefning í Úganda
Í suður Úganda er moldin rauð, vatnið er rautt og himininn er rauður. Um sólarlag birtast þeir í gulnuðum skógarjaðrinum og ganga rólega að kofaþyrpingunni. Kolesnikov rifflarnir hanga kæruleysislega um axlir þeirra og hlaupin nema við jörð hjá sumum. Þeir voru ekki hávaxnir, flestir varla orðnir 12 ára. Þeir hlægja og stjaka við hvor öðrum eins og drengja er háttur.
Konurnar rísa upp frá eldstæðunum þegar þær verða drengjanna varar, grípa ungabörnin og standa síðan þöglar í hóp. Á afar skömmum tíma er gömlum konum og lasburða mönnum er smalað út úr kofunum og þau slást í hóp mæðranna.
Allir fullburða karlmenn í þorpinu eru í burtu. Þeir berjast með stjórnarhernum. Skelfingin skín úr augum þorpsbúa, þeir vita við hverju er að búast.
Tveir drengjanna sem komu út úr skóginum eru frá þessu þorpi. En það skiptir engu máli núna. Þeim var rænt fyrir tveimur árum og þeir hegða sér eins og þeir hafi aldrei fyrr séð systur sínar og mæður sem standa í hópnum. Þeir bera meira að segja ekki sömu nöfn og þeir gerðu áður.
Eftir um tvo tíma, Þegar að drengjahermennirnir fara, klyfjaðir ránsfeng og þeim matvælum sem í þorpinu er að finna, liggja sjö ungabörn í rauðri moldinni lífvana og með brotin höfuð. Mæður þeirra húka við hlið þeirra, skjálfandi af hryllingnum sem þær höfðu verið neyddar til að taka þátt í. Ekkert barnanna dó beint fyrir hendi drengjanna. Aðrar ungar konur liggja í hnipri á jörðinni og reyna hvað þær geta til að stöðva blóðrásina úr líkama sínum.
Stríðinu er lokið. Það er verið að rétta yfir foringjum drengjahermannanna í fjarlægu landi. Meðlimir Alþjóða Stríðsglæpadómstólsins hlusta á vitnisburði sem eru svo skelfilegir að þeir verða að taka hlé með reglulegu millibili til að frásagnirnar beri þá ekki yfirliði.
í þorpinu fer líka fram uppgjör. Drengirnir tveir sem tekið höfðu þátt í árásinni hafa snúið til baka. Þeir eru nú fullorðnir menn. Eftirlifandi karlmenn þorpsins fara með þá út á sléttuna og láta þá draga á eftir sér eina af geitum þorpsins.
Úti á sléttunni eru þeir látnir standa naktir á meðan grasið er barið niður hringinn í kring um þá. Karlmennirnir er vopnaðir spjótum og Þeir taka að stíga dans í kringum ungu mennina tvo. Þeir leggja til þeirra spjótunum öðru hvoru en gæta þess að spjótsoddarnir snerti þá ekki.
Eftir nokkra stund sleppa þeir geitinni og hlaupa síðan á eftir henni. Geitin kemst ekki langt áður en hún verður fyrir spjótlagi. Þeir kveikja eld, gera að skeppnunni og setja hana yfir bálið. Ungu mennirnir tveir standa allan tíman hreyfingarlausir og horfa á.
Loks er geitin steikt og þeim er boðið að fá sér bita. Eftir að þeir hafa bragðað á kjötinu borða allir hinir. Þegar ekkert er eftir nema skin og bein, er athöfninni lokið Allir halda til baka til þorpsins.
Ungu mönnunum hefur verið fyrirgefið að fullu. Syndir þeirra hlupu í geitina og síðan var geitin drepin.
"Þetta er okkar aðferð til að losna við slæma fortíð fyrir fullt og allt" skýrir seiðmaður þorpsins.
Meginflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Aukaflokkar: Mannréttindi, Trúmál | Breytt s.d. kl. 10:55 | Facebook
Athugasemdir
Mögnuð lesning.
Heimir Tómasson, 28.1.2009 kl. 10:38
Las þessa frásögn með mikilli athygli.
Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 10:45
Úff. Get ekki meir.
Rut Sumarliðadóttir, 28.1.2009 kl. 11:58
Þú ert svo mikill fróðleiksbrunnur að unun er að lesa greinar þínar Svanur Gísli.
Þetta er væg refsing fyrir ljót brot drengjanna. Er okkar samfélag of refsigjarnt? Ég vona að ég þurfi aðdrei að upplifa slíkan ljótleika sem styrjöld er. Kveðjur og heilsanir
Rúna Guðfinnsdóttir, 28.1.2009 kl. 12:43
Þú ert frábær sögumaður takk fyrir alla fróðlegu pistlana frá þér
Kristberg Snjólfsson, 28.1.2009 kl. 14:35
Úff segi ég nú líka. Ég veit ekki hvernig mér líður eftir þennan lestur. Hann vekur mann til umhugsunar um eðli mannsins og ljótleika lífsins. Á maður alltaf að fyrirgefa? Á að fyrirgefa allt? Auðvitað er þarna um óharðnaða unglinga að ræða og siðferðisvitundin ekki full þroskuð en hvernig líður þeim sem fullorðnum mönnum. Þetta er allavega ástand sem ekki er hægt að sætta sig við. Þessi geitaleikur er samt nokkuð sniðug aðferð, svona eins og verkleg fyrirgefning. Takk samt Svanur, alltaf fróðlegt að lesa þig. kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 28.1.2009 kl. 20:45
Mig hryllir við og þó var ég í Afríku s.l. sumar og sá ýmislegt. Þ.á.m. flóttafólk frá Kongó sem var á flótta undan skálmöldinni þar. Ég spurði þarlendan ungling (ég var í Burundi sem var áður tilheyrandi Rúanda) hvernig þetta flóttafólk fengi nauðsynlegustu hjálp, t.d. mat og hvernig það kæmist til að gera nauðsynlegustu hluti sem tilheyrir mannfólkinu. Hann yppti bara öxlum og svaraði því til að það væru einhver hjálparsamtök niður í bæ sem aðstoðuðu þetta fólk. I raunninni var honum alveg sama og þannig er þetta það er öllum sama, 50% atvinnuleysi er í Burúndí. Fólk þakkar bara fyrir hvern dag. Ömurlegt líf.
Og svo eru allar hinar hörmungarnar.
Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 28.1.2009 kl. 20:47
Ég þakka öllum kærlega góðar undirtektir við þessa litlu en skelfilegu frásögn. Hún er sett hér fram í þeim anda sem ég sé að mörg ykkar hafa tekið henni og athugasemdir Kolbrúnu og Guðfinnu bera glöggt vitni um. Hún vekur útvírætt upp hugleiðingar um eðli fyrirgefningar og ábyrgðar.
Sóldís minnir okkur á að flestir Afríkubúar (og það er mjög sárt að það sé hægt að alhæfa svona) eru mjög ómenntaðir og ómeðvitaðir um hvað "eðlilegt" líf gæti haft upp á að bjóða. Það er stór hluti af vanda álfunnar. En sagan segir okkur líka að okkar viðmið um réttlæti og fyrirgefningu eru ekki endilega upphaf og endir alls eins og við stundum látum í veðri vaka :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 28.1.2009 kl. 21:29
Talandi um Uganda http://gayuganda.blogspot.com/2009/01/gay-prime-minister.html
Hjörtun slá líkt í Súdan og Grímsnesinu!
Róbert Björnsson, 30.1.2009 kl. 21:59
Einmitt Róbert. Takk fyrir þetta.
Svanur Gísli Þorkelsson, 30.1.2009 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.